22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

60. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil á engan hátt mæla gegn því, að þetta mál nái hér fram að ganga, en vildi biðja þá hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, að athuga nokkrar ábendingar, sem ég vildi bera fram við þessa 1. umr.

Það er alveg rétt hjá hæstv. dómsmrh., að kirkjan á fullkomna heimtingu á því, að ríkissjóður kosti slíkan mann sem hér um ræðir, þegar tekið er tillit til þess, að Reykjavík hefur ekki fengið þá prestatölu, sem lögin ákveða. Og það er fullkomlega rétt hjá hæstv. ráðh., að þetta mundi spara ríkissjóði nokkurt fé, miðað við það að auka prestatölu hér í Reykjavík, svo sem lögin mæla fyrir um, og byggja yfir þá prestabústaði og annað, sem heyrir til embættunum.

En hvað hitt atriðið snertir, að hér sé verið að spara fé, vegna þess að miklu færri prestar eru almennt í landinu, þ.e.a.s. að ýmis prestaköll eru óveitt í landinu, þá get ég ekki verið sammála um það atriði, því að lögin um læknishéraða- og prestakallasjóði mæla svo fyrir alveg ákveðið, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar prestakall er prestslaust, svo að eigi kemur til greiðslu embættislauna eða hluta þeirra, skal fjárhæð sú, sem sparast, miðað við byrjunarlaun presta, renna í sérstakan sjóð, sem kirkjuráð varðveitir. Sjóðurinn heitir prestakallasjóður og skal hann geymdur í Landsbanka Íslands. Kirkjuráð ráðstafar sjóði þessum til verkefna þeirra, sem því er ætlað samkvæmt l. nr. 21 6. júlí 1931.“ Ég hygg því, að það sparist ekkert fé við það, að ýmis prestaköll úti á landi eru ekki setin, því að helmingur launanna, eftir því sem venjulegt er, mun i;anga til þess að greiða þeim prestum, sem þjóna, og hinn helmingurinn ganga í þann sjóð, sem ég hef hér minnzt á. En það verkefni, sem þessum sjóði er ætlað skv. l. um kirkjuráð, er ákaflega líkt því verkefni, sem þessum sama manni er ætlað að gera skv. þessu frv., og þess vegna vildi ég mega vænta þess, að menntmn., sem fær þetta mál til meðferðar, taki það a.m.k. til athugunar, hvort ekki væri rétt að breyta þessu ákvæði um, að það, sem sparast við, að ekki eru prestssetur setin úti á landinu, að það fé fari einmitt til þeirrar starfsemi, sem hér er rætt um. Mér fyndist, að það væri ákaflega eðlilegt, á meðan ekki er tekin upp sú regla, sem væri kannske enn eðlilegri, að það fé, sem þannig sparast, fari til þess að byggja upp á þeim prestsjörðum, sem eru húsalausar og enginn prestur vill sækja um, á meðan ekki er byggt upp á jörðunum, eins og er þó nokkuð víða í landinu. Meðal annars liggur nú fyrir erindi frá einu ákveðnu prestakalli um að leggja fram allt að 800–900 þús. kr., svo að hægt sé að byggja yfir þann prest, sem hugsar sér að setjast þar að.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umr.

Að öðru leyti vildi ég einnig mega benda á, hvort ekki væri rétt að setja inn í l. málsgr., að slíkur leiðbeinandi við æskulýðsstarfsemi í söfnuðum landsins ætti að leggja sérstaka áherzlu á að leiðbeina í sambandi við áfengisneyzlu í landinu. Ég held, að hver maður, sem kynnir sér þau mál hér í Reykjavík og gengur hér um göturnar, eftir að myrkva tekur, hljóti að sjá, hversu það ástand er óviðunandi hér í okkar ágætu borg. Og ég hygg, að það væru kannske fáir menn, sem væru færari um eða hæfari til þess að reyna að gera þar eitthvað gott starf heldur en einmitt maður, sem á að vera kristilegur leiðbeinandi unglinganna í landinu.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram og vænti þess, að hv. menntmn. taki þetta til athugunar, þegar hún ákveður málið, að sjálfsögðu í sambandi við hæstv. kirkjumrh.