02.12.1959
Neðri deild: 7. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og fjallar um heimild fyrir ríkisstj. til þess að mega annast bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á næsta ári út febrúarmánuð og miðað við núgildandi fjárlög, þó að fjárlög hafi ekki verið sett fyrir næsta ár, er að vísu svipað frv., sem hér hafa oft verið lögð fram fyrir Alþingi áður, þegar svo hefur til tekizt, að sýnt hefur þótt, að ekki væri hægt að afgreiða fjárlög fyrir komandi ár eða fyrir áramót. En þetta frv. ber hér að með nokkuð öðrum hætti en venjulega í slíkum tilfellum sem þessum. Hér er um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. vill knýja fram þingfrestun á þeim tíma, sem mikill hluti þingmanna vill ekki við una.

Það er alveg augljóst mál, að þetta frv. hefði fengið tiltölulega greiða afgreiðslu hér á hv. Alþingi, eins og hliðstæð frv. hafa fengið áður, ef samkomulag hefði getað verið um þingfrestunartímann, eins og jafnan hefur verið áður. En núv. hæstv. ríkisstj. virðist leggja á það höfuðáherzlu, að þing verði nú sent heim strax á fyrstu dögum þingsins og það þó að ekkert samkomulag hafi tekizt við minni hlutann á Alþingi í þessu efni. Af þessum ástæðum hljóta umræður um þetta frv. að verða með nokkuð öðrum hætti en ætla hefði mátt, vegna þess að hér er fyrst og fremst um það deiluefni að ræða, hvort ástæða sé raunverulega til þess að fresta þingi með þeim hætti, sem ríkisstj. leggur nú höfuðáherzlu á, og það á þessum tíma. Hvaða ástæður geta legið til þess, að hæstv. ríkisstj. leggur slíkt ofurkapp á það að senda þingið heim nú á þessum tíma? Því hefur m.a. verið borið við, að ríkisstj. vildi fá vinnufrið, til þess að hún gæti undirbúið betur till. sínar um lausn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er auðvitað alveg af og frá, að ríkisstj. skapi sér á nokkurn hátt betri vinnufrið með því að efna til ófriðar við stjórnarandstöðuna hér á Alþingi í deilu um það, hvort fresta eigi þingi vikunni fyrr eða síðar.

Hér hefur þegar verið efnt til þess, að nú þykir þurfa að halda fundi á óvenjulegum tíma hér á Alþingi, næturfundi, og jafnvei gengið svo langt, að hér eru haldnir fundir á Alþingi til þess að reyna að knýja fram þennan vilja ríkisstj. sjálfan 1. desember, en slíks munu engin dæmi í þingsögunni fyrr, að haldinn hafi verið fundur á Alþingi á þeim degi, síðan hann gerðist sá hátíðisdagur íslenzku þjóðarinnar, sem hann nú er orðinn. En þetta dæmi sýnir, hvílíkt ofurkapp það er hjá ríkisstj. að reyna að knýja í gegn, að þingið verði sent heim nú.

Það er alveg augljóst mál, að það er ekki það, sem er um að ræða raunverulega hjá hæstv. ríkisstjórn, að hún þurfi að skapa sér vinnufrið til þess að undirbúa sínar tillögur til lausnar á efnahagsmálunum og hún vilji ekki þess vegna ganga til samninga við stjórnarandstöðuna um að fresta þingi með eðlilegri hætti en hennar till. stefna að. Því hefur verið lýst hér yfir í deilum um þetta mál, að stjórnarandstöðunni þætti sjálfsagt, að ríkisstj. fengi þinghlé mestallan janúarmánuð, enda væri þá, áður en þingi væri frestað, búið að afgreiða með eðlilegum hætti þau mál hér á Alþingi, sem raunverulega er skylt að afgreiða, áður en þingi er frestað. Ég hygg því, að ríkisstj. fengi allt eins langan friðsamlegan tíma til þess að undirbúa sínar tillögur til lausnar á efnahagsmálunum, þó að hún hefði fallizt á að ganga að tillögum stjórnarandstæðinga um þingfrestunartímann. En hvað er það þá, sem getur rekið svona óskaplega mikið á eftir, að ríkisstj. viðhefur þessi óvenjulegu vinnubrögð, sem hér hafa verið viðhöfð á Alþingi, til þess að reyna að knýja fram þessa þingfrestun?

Ég tók eftir því í þeim umr., sem hér fóru fram um þetta mál nú fyrir nokkrum dögum, að hæstv. landbrh. komst þannig að orði, þegar inn í þessar umræður barst deilan um bráðabirgðalögin um verðlagningu landbúnaðarafurða, að þá sagði hæstv. ráðh., að hann teldi, að eðlilegast væri að ræða um deiluna viðvíkjandi verðlagningu landbúnaðarafurða og bráðabirgðalagasetninguna í sambandi við þá till. ríkisstj., sem hér hefði verið lögð fyrir Alþingi um þingfrestun, eða m.ö.o., hæstv. landbrh. vildi tengja þessi tvö mál beinlínis saman, brbl. um verðlagningu landbúnaðarafurða og till. ríkisstj. um að fresta fundum þingsins. Þetta voru skýr ummæli hans hér í þessum ræðustól.

Getur það þá verið svo, að ríkisstj. þurfi nauðsynlega að grípa til þessara óvenjulegu vinnubragða að knýja fram samþykktir hér á Alþingi um að senda þingið heim vegna þess, að tiltekin bráðabirgðalög, sem sett hafa verið og deilur miklar hafa staðið um, um verðlagningu landbúnaðarafurða, að þessi bráðabirgðalög ganga úr gildi 15. des.? Getur það verið, að ríkisstj. vilji hafa losað sig við þingið einmitt fyrir þennan dag, til þess að hún geti þá, án þess að vera bundin af þinginu, ráðslagað í þessu máli á nýjan leik með brbl.?

Ég vil segja það, að mér þykir þetta í rauninni mjög ótrúlegt, því að það hefur alltaf verið litið svo á, að ekki ætti að nota ákvæði stjórnarskrárinnar um setningu brbl., nema brýna nauðsyn bæri til að gripa til slíkrar lagasetningar, þ.e.a.s., að í rauninni væri ekki unnt að kalla Alþingi saman til þess að setja lögin með eðlilegum hætti. En er það þá ekki í mesta máta óeðlilegt að hugsa sér að knýja fram samþykkt á Alþingi, kannske með litlum atkvæðamun, um það að senda þingið heim með mjög óvenjulegum hætti, miðað við þingtímann, en ætla síðan, rétt eftir að þingmenn eru komnir heim, að nota stjórnarskrárákvæðin um setningu brbl. og setja ný brbl. til þess að leysa þennan vanda.

Ég tel, að slíkt athæfi væri alveg skýlaust brot á stjórnarskrárákvæðunum, misnotkun á þeim ákvæðum, sem í gildi eru um heimild ríkisstj. til þess að setja brbl. En mér sýndist á því, sem hæstv. landbrh. sagði um þessi mál, að orð hans bentu mjög til þess, að ástæðan til þess, að ríkisstj. vill senda þingið heim nú á þessum tíma, væri einmitt sú, að hún vildi vera laus við þingið fyrir 15. des. til þess þá að geta gert nýjar ráðstafanir með brbl. út af verðlagningu landbúnaðarafurða. En sem sagt: hæstv. ríkisst,j. hefur ekki fengizt til þess í þessum umræðum að gefa hér neinar skýrar yfirlýsingar um það, hvaða ástæður beinlínis liggja til þess, að hún leggur slíkt höfuðkapp á að senda þingið heim nú, en ekki nokkru siðar, sem hún raunverulega gerir.

Annar hæstv. ráðh. átti hér nokkurn þátt í umræðum um málið. Það var hæstv. dómsmrh. Hann lagði hér einkum áherzlu á það, að rétt væri að fresta fundum þingsins, eins og málin stæðu nú, og það nú þegar, vegna þess að hann teldi, að það væri vansæmandi fyrir Alþingi að sitja hér mjög aðgerðalítið eða jafnvel auðum höndum og bíða eftir því, a,ð ríkisstj. undirbyggi sínar till. til lausnar á efnahagsmálunum. Í þessu sambandi minntist þessi hæstv. ráðh. á það, að í tíð vinstri stjórnarinnar hefði þannig verið unnið að þessum stórmálum ýmsum, að mjög hefði verið vansæmandi fyrir Alþingi, það hefði oft verið látið bíða hér aðgerðalítið. — Skyldi þetta vera ástæðan til þess, að ríkisstj. leggur svo mikla áherzlu á að senda þingið einmitt heim núna þessa dagana, að það sé verið að forða þinginu frá einhverri vansæmd og að Alþingi það, sem nú situr að störfum, hafi raunverulega engin málefni að fjalla um? Ég vil fyrst fara örfáum orðum um það, hvernig þessum málum var raunverulega háttað í tíð vinstri stjórnarinnar.

Vinstri stjórnin tók við völdum seinni hluta árs 1956. Það kom því í hennar hlut að afgreiða fjárlög um næstu áramót á eftir eða fyrir árið 1957, einnig að ráða fram úr efnahagsvandamálunum þá með samningum við forustumenn atvinnuveganna. Vinstri stjórnin hafði afgreitt fjárlög og samið við allar greinar framleiðslulífsins í landinu fyrir jól 1956. Þá tókst að afgreiða fjárlög á réttum tíma, og þá tókst einnig að semja við framleiðendur í tæka tíð. Það var því ekki undan neinu að kvarta í sambandi við afgreiðslu þessara stórmála, um neinn drátt hér á Alþingi eða aðgerðaleysi Alþ. í þessum efnum, og að þessu leyti til eru ummæli hæstv. dómsmrh. röng og ómakleg um störf Alþingis.

Við skulum þá líta á næsta ár á eftir. Vinstri stjórnin sat líka allt árið 1957, og það féll því í hennar hlut að afgreiða fjárlög og gera ráðstafanir í efnahagsmálunum fyrir árið 1958. Hún hafði einnig afgr. fjárlög fyrir jól 1957, fjárlög fyrir árið 1958, og hún hafði einnig fyrir áramót þá náð samningum við alla aðalviðsemjendur framleiðsluatvinnuveganna um rekstur þeirra á komandi ári. Hér var því ekki um neina vansæmd að ræða, hvorki frá hálfu ríkisstj: né í sambandi við störf Alþingis. Ummæli hæstv. dómsmrh. eru því í mesta máta ómakleg einnig í þessu tilfelli. Það er rétt, að á fyrri hluta árs 1958, á vetrarþinginu þá, urðu mjög skiptar skoðanir innan vinstri ríkisstj. um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálunum, eins og þau stóðu þá, og reipdráttur varð þá allmikill um það, hvers væri þörf í sambandi við lagasetningu. En þann tíma, sem Alþ. sat að störfum þann vetur, fjallaði það um mörg mál og stór og leysti mikil verkefni af höndum, og það er í rauninni ekkert undan störfum Alþingis á þeim tíma heldur að kvarta.

Það kom svo aftur á móti ekki í hlut vinstri stjórnarinnar að afgreiða næstu fjárlög eða gera efnahagsmálaráðstafanir fyrir næstu áramót, því að hún hafði sagt af sér 4. des. 1958, svo að þessi ummæli, sem hér féllu hjá hæstv. dómsmrh. um vansæmandi starfshætti Alþ. í tíð vinstri stjórnarinnar, eru ómakleg og óeðlileg, þau eru í öllum aðalatriðum röng.

En ég hygg, að hinu verði hins vegar ekki neitað, að það sé vansæmandi fyrir nýkjörið Alþ. að samþykkja það strax eftir viku störf, að þá skuli öll þingstörf lögð niður, þm. hverfa heim frá öllum skyldustörfum sínum óleystum. Það er vansæmandi fyrir Alþingi Íslendinga. Það er því ekki sómatilfinningin, sem fyrst og fremst ræður um það, eins og var helzt að skilja á hæstv. dómsmrh., að nú sé nauðsyn að taka upp þessi nýju vinnubrögð, sem hér er verið að taka upp, þegar því er neitað að leggja fyrir Alþ., eins og lög standa til, brbl., sem sett hafa verið, og þegar neitað er að hafa hér á Alþingi þá fjárlagaumræðu, sem lögum samkvæmt ber að hafa, og gefa Alþ. þá skýrslu um efnahagsmálin og fjárhagsafkomu ríkisins, sem ætlazt er til bæði í þingsköpum og lögum.

En er nokkur ástæða til þess að gera ráð fyrir því, þó að Alþingi sæti nú að störfum í 10–15 daga enn þá, þar til það tæki sér jólafrí, að það skorti verkefni? Það er alkunna, að afgreiðsla fjárlaga er tímafrek. Það hefur alltaf tekið Alþ. nokkra mánuði að afgreiða fjárlög. Verkefni fjvn. er á hverju ári mikið verkefni. Hún þarf að vinna þar mikið verk ag halda fjölmarga fundi. Það er því alveg augljóst mál, að hefði verið farið að venju í þessum efnum, fjárlögin nú tekin til 1. umr. og hæstv. fjmrh. gæfi hér þær skýrslur um afkomu ríkissjóðs og fjárhagsástandið í landinu almennt, sem honum ber að gera samkv. lögum, og frv. hefði síðan verið vísað til fjvn., þá hefði bæði Alþingi í sambandi við þær umr. og einnig fjvn. fengið að sýsla við þau verkefni, sem óhjákvæmilega hljóta að liggja fyrir þinginu fyrr eða síðar og fyrir fjvn., því að yfir þetta verður þó aldrei hlaupið. Fjárlagaræðan verður að haldast fyrr eða síðar, og fjvn. verður að fá fjárlagafrv. til þess að vinna að því fyrr eða síðar.

Hvaða ástæða getur þá legið til þess, að hæstv. fjmrh. fæst ekki til þess að fara að lögum og venjum og flytja sína fjárlagaræðu og gefa Alþingi skýrslu um afkomu ríkissjóðs? Hér hefur verið bent á það í þessum umræðum, að ráðh., sem komið hafa inn í ríkisstj. með svipuðum hætti og hann nú, hafa haft alla sömu aðstöðu og hann til þess að undirbúa fjárlagaræðu, — þeir hafa staðið við skyldur sínar í þessum efnum og flutt, eins og lög standa til, sína fjárlagaræðu, en hann skorast nú undan vandanum og þykist ekki vera tilbúinn. Nú er það alkunna, að mikill hluti af ræðu fjmrh. við 1. umr. fjárlaga, þegar gerð er grein fyrir fjárhagsafkomu ársins, — mikill hluti af þeirri ræðu er jafnan beinar upplýsingar úr fjmrn., samdar og upp teknar af ráðuneytisstjóranum þar, og það eru einmitt þessar upplýsingar, sem Alþingi bíður eftir, og það eru einmitt þessar upplýsingar, sem allir alþm. þurfa að fá, áður en þeir mynda sér skoðanir á því, hvers muni við þurfa í sambandi við lausn efnahagsmálanna. Ég sé því ekki, að það séu neinar frambærilegar ástæður hjá hæstv. fjmrh. nú til þess að víkjast undan þeirri skyldu að flytja Alþingi þá skýrslu, sem jafnan fylgir með 1. umr. fjárlaga. Og ég held, að þessi ákvörðun hæstv. fjmrh. geri síður en svo að flýta fyrir störfum þm. almennt og fjvn. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og efnahagsmálanna almennt.

Þá er einnig þess að gæta, að það er alveg útilokað, að t.d. Sjálfstfl., sem nú hefur fjmrh., geti látið sem svo, að hann komi hér algerlega ókunnugur að fjármálum ríkisins og þurfi langan tíma til þess að undirbúa sig, til þess að geta gefið Alþ. skýrslu um meginatriði þessara mála, vegna þess að Sjálfstfl. hefur haft allgóða aðstöðu til þess að fylgjast með gangi fjármálanna nú um eins árs skeið. Ég veit, að allir hv. alþm. minnast þess, að um þetta leyti í fyrra var tilkynnt opinberlega, að Sjálfstfl. hefði fengið aðgang að miklum plöggum viðvíkjandi fjárhagsástandinu í landinu, og það var tilkynnt í Morgunblaðinu, að flokkurinn hafi þá sett sína færustu sérfræðinga til þess að kynna sér öll þessi gögn um fjárhagsafkomuna í landinu. Það var í sambandi við stjórnarmyndunartilraunir formanns Sjálfstfl., Ólafs Thors, þá. Síðan þá hefur Sjálfstfl. því haft fyllsta aðgang að öllum skjölum og skilríkjum viðvíkjandi fjármálum þjóðarinnar og fjárhagsástandinu almennt. Þess er svo einnig að minnast, að Sjálfstfl. tók að sér forustu hér á Alþingi fyrir tæpu ári í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Sjálfstæðismenn ættu því að vita eins vel og menn úr öðrum flokkum, hvernig ástatt er um fjárhag ríkisins, þar sem þeir stóðu beinlínis að því að ákveða þá fjárlagaafgreiðslu, sem ákveðin var í sambandi við fjárlög yfirstandandi árs. Svo vita allir hitt, að Sjálfstfl. hefur veríð beinn stuðningsaðili þeirrar ríkisstj., sem farið hefur með völd í landinu núna um eins árs skeið, og hefur því haft alla aðstöðu til þess að fylgjast með öllum málum þeirrar ríkisstjórnar, einnig fjármálunum. — [ Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði í fyrri hluta minnar ræðu, sem ég flutti fyrr á þessum fundi, nokkuð vikið að því, hvaða ástæður kynnu að liggja til þess, að hæstv. ríkisstj. leggur slíkt ofurkapp sem raun er á á það, að þingi verði frestað einmitt nú, og hún fæst ekki til þess að gera samkomulag við stjórnarandstöðuna um þingfrestunartímann. Ég hafði m.a. bent á það, að hér höfðu komið fram í umr. frá hæstv. ráðh. nokkuð mismunandi skýringar á því, hvaða ástæður lægju til þessa þingfrestunaráhuga, bent á það, að hæstv. landbrh. viðurkenndi í sínum málflutningi á óbeinan hátt a.m.k., að ástæðurnar til þingfrestunarinnar væri að rekja til brbl., sem sett voru um verðlagningu á landbúnaðarafurðum. Ég hafði einnig bent á það, að hæstv. dómsmrh. hefði lagt á það aðaláherzlu, að fresta þyrfti störfum þingsins nú um skeið til þess að gæta sóma þingsins, til þess að firra Alþingi vansæmd af því að sitja hér aðgerðalaust.

En einn annar hæstv. ráðh. hefur hér nokkuð rætt um þessi mál og gefið sinar skýringar. Það var hæstv. fjmrh. Hann lét hér orð falla um það, að þar sem núverandi ríkisstj. hugsaði sér að taka upp nýtt efnahagskerfi, eins og ég hygg, að hann hafi orðað það, til lausnar á efnahagsvandamálunum og hún hefði jafnvel hugsað sér að umsemja fjárlagafrv. það, sem hér hefur verið lagt fram, og leggja fram nýtt fjárlagafrv. að þingfrestunartíma loknum, þá teldi hún ekki ástæðu vera til þess að halda þessu þingi miklu lengur áfram eða til þess að farið yrði að settum lögum og reglum um það að hafa hér 1. umr. fjárlaga og gera hv. Alþ. grein fyrir fjárhagsafkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Þessi yfirlýsing hæstv. fjmrh, er út af fyrir sig mjög stór og athyglisverð. Ég býst við því, að það muni þykja nokkrum tíðindum sæta, að hæstv. fjmrh. skuli lýsa því yfir hér á Alþ. einmitt í sambandi við þingfrestunarmálið, að hæstv. ríkisstj. sé staðráðin í því að taka hér upp nýtt efnahagskerfi, gerbreyta hér í efnahagsmálunum öllu því, sem byggt hefur verið á að undanförnu. Ég býst við því, að enginn geti tekið þessa yfirlýsingu á aðra lund en þá, að ætlun hæstv. ríkisstj. sé að hverfa með öllu frá uppbótakerfi því, sem gilt hefur nú um langan tíma til stuðnings atvinnuvegunum, og þá væntanlega einnig niðurgreiðslukerfinu, en í staðinn eigi að taka upp hið nýja efnahagskerfi, sem leysa á þetta af hólmi, en það mundi að sjálfsögðu þýða stórkostlegustu gengislækkun, sem hér hefur verið sýnd nokkru sinni á Alþingi.

Ég býst við því, að allir muni viðurkenna það um slíkar yfirlýsingar sem þessa, að það sé eðlilegt, að slíkar yfirlýsingar frá fjmrh. hljóti að vekja almenna athygli og hafa sín áhrif í landinu. Við höfum heyrt frá því skýrt nú að undanförnu, að erfiðleikar miklir séu í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, og í þeim efnum hefur þurft að grípa til ráðstafana, sem hefur ekki verið gripið til áður, þegar gjaldeyrisbankarnir neita að standa við sínar beinu gjaldeyrisskuldbindingar, sem þeir hafa gefið viðskiptamönnum sínum, þegar þeir geta ekki lengur innleyst bein gjaldeyrisloforð. Það er alveg greinilegt, að meðal þeirra áhrifa, sem þegar er farið að gæta í landinu út frá þeim orðrómi, sem gengur frá hæstv. ríkisstj. og skýrast kemur nú fram í þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um stórbreytingar í þessum efnum, þá er farið að bera á því, að stefnt sé í algert öngþveiti með hið almenna viðskiptalif í landinu og þá alveg sérstaklega í sambandi við störf bankanna. Vitanlega er það algert öngþveiti, þegar svo er komið í desembermánuði, að bankarnir geta ekki látið nauðsynlegasta gjaldeyri af hendi, svo að hægt sé að kaupa inn þýðingarmestu veiðarfærin fyrir komandi vertíð eða svo að hægt sé að fá yfirfærslu vegna nýrra fiskibáta, sem liggja tilbúnir erlendis og fá ekki að sigla heim, vegna þess að gjaldeyri vantar til þess að borga samkvæmt gerðum samningum. Mér er kunnugt um það, að forustumenn banka hafa þegar bent á það, að slík ókyrrð hafi skapazt í þessum efnum, að mjög beri á því, að þeir, sem flytja út afurðir eða vald hafa yfir því, fást ekki til þess að láta fara fram formlega sölu á útflutningsvörunum, vegna þess að þeir eru þegar farnir að spekúlera í gjaldeyrisbreytingum. Enn aðrir, sem e.t.v. hafa selt á erlendum markaði útflutningsvörur, eru farnir að tregðast við að skila gjaldeyrinum til bankanna, og það er varla nema von, að á slíku sem þessu beri, þegar ríkisstjórnin með mjög óvenjulegum starfsháttum á Alþingi skapar slíkan ótta hjá mönnum, eins og hún hlýtur að gera með því að brjótast á þann hátt, sem hún nú er að gera, í því að reyna að senda þingið heim á óvenjulegum tíma og með óvenjulegum hætti. Ég held því, að þessi skýring, sem hér hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh., sé í mesta máta furðuleg, þegar litið er á það, hvaða afleiðingar þessi skýring hans hér á Alþ, getur haft. Ég hygg, að ef það væri meining hæstv. ríkisstj. að ráðast í þessar stórfelldu breytingar á fjármálakerfi þjóðarinnar, sem hér voru boðaðar, þá hefði veríð miklu eðlilegra fyrir hana að halda áfram þingstörfum með eðlilegum hætti og taka þinghlé, eins og venja var til áður, á eðlilegum tíma fyrir jól og fá nokkru lengra jólafrí í janúarmánuði, eins og mörg dæmi eru til um áður að veitt hafi verið, og undirbúa þá sínar stórfelldu tillögur án þess að skapa slíkan almennan ótta í þjóðfélaginu, eins og mér virðist vera stefnt að með þingfrestuninni og með þeim orðsendingum, sem ganga frá hæstv. ríkisstj. varðandi þessi mál.

Það er sem sé alveg ljóst á þessu, sem ég hef nú vikið að, að þeir þrír hæstv. ráðh., sem hér hafa nokkuð talað varðandi þingfrestunarmálið, hafa hver sína skýringu. Ríkisstj. á enga sameiginlega skýringu á því, hvernig stendur á því, að henni liggur svona mikið á að senda þingið heim.

Ég minntist á, að það væri farið að bera á því, að útgerðin í landinu ætti erfitt með að fá nauðsynlegan gjaldeyrí, til þess að hún gæti undirbúið sig undir næstu vetrarvertíð, vegna erfiðleika bankanna í sambandi við gjaldeyrísmálin. Það er ekkert skemmtilegt fyrir hæstv. Alþ. að hverfa nú heim frá fundum með ástandið þannig, að fullkomin óvissa er ríkjandi um það, hvort hægt verður að hefja útgerð upp úr næstu áramótum með venjulegum hætti og afla þjóðinni nauðsynlegs gjaldeyris, af þeim ástæðum, að þegar er að stöðvast gjaldeyrisafhending til undirbúnings á eðlilegri útgerð. Ég held, að hæstv. ríkisstj. hafi beinlínis í þessum efnum valið óheppilegustu leiðina og þá óhyggilegustu á allan hátt: að skapa hér eða stofna hér til deilna um þingfrestunina.

En það er alveg sama, hvernig á þetta þingfrestunarmál er litið. Ég vil víkja hér nokkrum orðum að þingfrestunarmálinu séð frá lagalegu sjónarmiði.

Hér í þessum umr. hefur verið á það minnzt nokkrum sinnum, að í stjórnarskrá landsins er það ákveðið, að heimilt sé fyrir ríkisstj. að setja brbl., ef brýna nauðsyn ber til, og á milli þinga, eins og segir í stjórnarskránni. En brbl. getur ríkisstj. ekki sett, ef Alþ. situr að störfum. Nú vitum við það, að þó að samþ. yrði hér á hv. Alþ, að fresta fundum þingsins um tveggja mánaða skeið, þá verður það þing, sem hér kemur saman aftur að þingfrestuninni lokinni eða í lok janúarmánaðar, það verður sama þingið, aðeins síðari hluti þessa þings, og í eðli sínu er því ekki hér um tímabil að ræða, sem gæti heitið á milli þinga. En það munu vera til dæmi um það og þau fleiri en eitt, að sú lagaskýring hafi verið gefin út í svona tilfellum, að þó að um sama þing sé að ræða, en hins vegar þingfrestun, þá skuli þó telja, að það tímabil, sem verður á milli þinghlutanna, skuli túlkast sem á milli þinga og ríkisstj. hafi þar með heimild til þess að gefa út brbl. á þessu tímabili. En þá verður sem sagt að koma til sú lagaskýring, að hér sé raunverulega í framkvæmd ekki um sama þing að ræða, hið fyrra þingið var fyrri hluta og hið síðara þing var svo aftur síðari hluta tímabilsins. Þessi lagaskýring hefur verið notuð, og við skulum segja, að eins yrði farið að í þetta skiptið, að ríkisstj. fengi að þessu sinni heimild til þess að gefa út brbl. á þingfrestunartímabilinu. En hvernig kemur svo þessi lagaskýring heim við vinnubrögð hæstv. ríkisstj. að öðru leyti nú í þessu máli? Jú, í stjórnarskránni segir einnig, að þegar brbl. eru gefin út, er skylt að leggja þau til staðfestingar á Alþ. fyrir næsta þing, sem haldið er, eftir að brbl. hafa verið gefin út. Samkv. þessari fyrri lagaskýringu, sem ég benti á og alveg er fullvíst að hæstv. ríkisstj. vill fara eftir í því tilfelli, þá ber henni líka lagaleg skylda til þess að leggja þau brbl., sem gefin voru út á s.l. hausti um verðlagningu landbúnaðarafurða, fyrir næsta þing, sem haldið er, en það er það þing, sem enn stendur. En nú ætlar hæstv. ríkisstjórn sýnilega ekki að leggja þessi brbl. samkv. skýlausri skyldu samkv. stjórnarskrá landsins fyrir þetta næsta þing. En þá á bara að velta lagaskýringunni við og segja: Ja, þetta er nú eitt og sama þingið, þetta þing, sem verið er að halda núna fram að þingfrestun, og sá hlutinn, sem tekur við aftur eftir 28. janúar. — Þá er það eitt og sama þing. En í hinu tilfellinu er það ekki eitt og sama þing, þá eru þetta tvö þing, og þannig fær allt smollið saman.

Það er alveg greinilegt, að með því, sem hæstv. ríkisstj. er að gera í þessum efnum, er hún tvímælalaust að brjóta stjórnarskrá landsins. Annaðhvort á hún að gefa út yfirlýsingu um það, að verði þingi frestað nú, þá muni hún ekki telja sig hafa heimild til þess að gefa út brbl. á þingfrestunartímanum, eða ef hún vill ekki gera það, þá er hún skyldug til þess samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar að leggja fyrir þetta þing brbl. um verðlagningu landbúnaðarafurða, því að í öðru hvoru tilfellinu, ef ríkisstj. ætlar að fara svona að, þá hlýtur hún að brjóta stjórnarskrána, það sér hver maður. En það getur verið þægilegt að nota þessa lagaskýringu á þessu augnabliki og svo gersamlega aðra lagaskýringu um sama atriðið á hinu augnablikinu. Ég tel því, að frá lagalegu sjónarmiði séð sé þingfrestunin, eins og til hennar er stofnað af hálfu hæstv. ríkisstj., alveg greinilegt stjórnarskrárbrot.

Og hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. hefur málatilbúnað sinn á þennan hátt? Jú, það er auðvitað alveg greinilegt, hver ástæðan er, og það er líka meginástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. er með allt þetta bardús um að reyna að knýja þingið til að fara heim nú á fyrstu dögum sínum. Stjórnarflokkarnir tveir hafa teflt sig inn í hina mestu klípu í sambandi við brbl. um verðlagningu landbúnaðarafurða. Annar stjórnarflokkurinn hefur lýst því yfir mjög hátíðlega, að hann mundi aldrei hafa sett þessi brbl., hann væri þeim algerlega andvígur og hann mundi, strax og þing kæmi saman, beita sér fyrir því að fá þau úr gildi. Þetta liggur allt saman fyrir. Hinn stjórnarflokkurinn hafði lýst yfir alveg hinu gagnstæða. Hann hefur hælt sér af því. Það var hann, sem setti brbl., það var hann, sem vildi koma þeim fram, og hann hefur lýst því yfir og stuðningsmenn þess flokks, að þeir muni aldrei falla fyrir sitt leyti frá ákvæðum brbl., og þeir neita því með öllu, að bændum verði greitt það, sem hinn stjórnarflokkurinn hafði lofað að greiða bændum. Svo standa þessir tveir stjórnarflokkar í algerum vandræðum og sjá enga leið út úr þessari klípu, sem þeir hafa teflt sig inn í, og þá dettur mönnum í hug sú leið að senda þingið heim í mesta asa og mesta fáti, rjúka jafnvel til og tilkynna í blöðum, að það sé ákveðið, að þingið fari heim strax í fyrstu starfsviku sinni. Þingmenn lesa það í stjórnarblöðunum, að þetta standi til og þingið eigi að fara heim 30. nóv. Engin till. hafði þá verið flutt um málið á Alþingi, þegar þetta var birt í blöðunum. Eitt af stjórnarblöðunum meira að segja var svo ákveðið og sannfært, dagblaðið Vísir, að það sagði, að það væri búið að samþykkja þetta, þó að málið hafi alls ekki verið lagt fyrir Alþingi. Svo sá stjórnin, að málið var ekki svona auðvelt, að hægt væri aðeins að tilkynna þetta í stjórnarblöðunum, að þingið skyldi fara heim. Það þurfti að samþykkjast á sjálfu Alþingi og fara þar a.m.k. í meginatriðum eftir því, sem þingsköp og lög mæla fyrir um. Nú er kominn 2. des., og hann er senn liðinn, og þrátt fyrir þessar yfirlýsingar í stjórnarblöðunum um það, að þingið ætti að fara heim 30. nóv., þá situr Alþingi hér enn að störfum og allar líkur til þess, að það verði að störfum hér næstu daga.

Þá var það, sem hæstv. forsrh. lét semja þáltill. og leggja fram á Alþingi um það, að Alþingi samþykkti að hætta störfum og fara heim, og var þessari till. útbýtt nokkru eftir að blöð stjórnarflokkanna höfðu lýst yfir því, að þingið væri að fara heim.

Það er ekki komið svo langt enn þá, að þessi till. sjálf sé komin til umræðna á Alþingi. En hvernig stendur á því, að hún skuli ekki enn þá vera komin til umræðna á Alþingi, þessi till., sem þó var flutt nú fyrir nokkru og átti að sjá um það, að Alþingi yrði farið heim 30. nóv.? Jú, það var ýmislegt fleira, sem þurfti að samþykkja á Alþingi, áður en þingið yrði sent heim. Það voru nokkur lög í gildi, sem gengu úr gildi um næstu áramót, og þar með ýmsir tekjustofnar ríkisins, og vegna þess var tekið upp það ráð, að strax í fyrstu viku þingsins er fleygt hér fram á Alþingi fimm frv., sem öll fjalla um það að framlengja eftir áramót þá tekjustofna ýmsa, sem þar eru tilgreindir og eiga þá að falla úr gildi. Fimm frv. voru þá flutt, og þá þurfti vitanlega að koma öllum þessum frv. í gegnum báðar deildir þingsins til þess þó að fara að lögum, og það tók vitanlega alltaf nokkurn tíma.

Auðvitað máttu allir þingvanir menn sjá það, að svona lágu þessi mál fyrir. Þingfrestunin sjálf varð að samþykkjast á Alþingi, þessi frv. öll þurftu einnig að samþykkjast á Alþingi, og það þurfti einnig að samþykkja frv., sem hér liggur nú fyrir, um heimild til bráðabirgðafjárgreiðslna, þar til fjárlög væru samþykkt.

Nú þekkja menn það af störfum Alþingis, að það er með öllu útilokað að fá öll þessi mál afgreidd á Alþingi eftir venjulegum vinnubrögðum í fullkominni andstöðu við stjórnarandstöðuna, nema það taki mjög langan tíma og mörg og mikil mál blandist inn í umræður um þessi mál. Auðvitað átti þetta að sýna stjórnarliðinu, að það átti aldrei að efna til deilna um þessi mál. Stjórnarliðið átti vitanlega að taka upp, eins og alltaf hefur verið gert hér á Alþingi áður samningatilraunir við stjórnarandstöðuna um það, hvenær samkomulag gæti orðið um að fresta þingi að þessu sinni og hve langt rétt væri að hafa jólafríið að þessu sinni. Og samningar við stjórnarandstöðuna voru líka auðfengnir um þessi mál. Því hefur verið lýst hér yfir af þeim fulltrúum, sem talað hafa f.h. stjórnarandstöðunnar, að það hefði verið auðvelt að semja um það, að þetta frv. t.d., sem hér liggur fyrir um bráðabirgðafjárgreiðslur í janúarmánuði og febrúarmánuði, fengi að ganga tiltölulega hratt í gegnum þingið og eins þau framlengingarfrv. önnur, sem flutt hafa verið, að þau hefðu verið hér afgreidd á tiltölulega stuttum tíma, ef aðeins ríkisstj. hefði getað fallizt á það, að þetta þing leysti þau verkefni, sem því ber beinlínis skylda til að leysa samkv. stjórnarskrá landsins og samkv. gamalli þingvenju. Þessi atriði voru að leggja fyrir brbl., sem gefin voru út á s.l. hausti um verðlagningu landbúnaðarafurða, eins og tvímælalaust er skylt að gera, og enn fremur það, að fjmrh. flytti sína fjárlagaræðu og henni yrði útvarpað, eins og þingsköp mæla fyrir um, og fjárlagafrv. yrði með venjulegum hætti vísað til fjvn., svo að hún gæti þá byrjað á sínum margþættu undirbúningsstörfum í þessum efnum.

Ég verð að segja það, að frá hálfu stjórnarsinna hafa ekki komið fram enn þá neinar fullnægjandi skýringar á því, hvers vegna ekki var hægt að mæta þessum óskum. Hvers vegna gat hæstv. fjmrh. ekki flutt sína fjárlagaræðu, eins og þingsköp mæla fyrir um og venja hefur alltaf verið? Hvers vegna ekki? Hann hefur enga skýringu getað gefið hér á því. Og hvers vegna mátti ekki leggja þau brbl. fyrir þingið til staðfestingar, sem út hafa verið gefin og stjórnarskráin mælir svo fyrir um að skuli leggjast fyrir næsta þing? Hver var ástæðan? Er kannske meiningin að leggja þau aldrei fyrir?

Það er sama, hvernig á þetta þingfrestunarmál er lítið, hvort sem litið er á það frá almennu lagalegu sjónarmiði, gömlum þingvenjum eða í sambandi við það, sem hagkvæmast væri fyrir hæstv, ríkisstj., einnig til þess að tryggja sér vinnufrið, — það er nákvæmlega sama, hvernig á málið er litið. Hún hefur valið hina óeðlilegustu og óæskilegustu leið, sem hún gat valið. Stjórnarskrá landsins segir, að fjárlagafrv. skuli leggja fyrir í byrjun þings. Og hæstv. fjmrh. segir: Þessu ákvæði hefur verið fullnægt. Fjárlagafrv. hefur verið útbýtt á hv. Alþingi. — En jafnhliða því, sem frv. er útbýtt, þá segir hæstv. ráðherra: Í rauninni er þetta bara grínbrúða. Í rauninni er þetta bara grínfrv. Það er alls ekki meiningin, að það verði neitt til umræðu. Við erum að hugsa um að semja nýtt frv. og leggja það fram síðar. — Er þetta ekki að ganga hreinlega á snið við fyrirmæli þingskapa og laga um það að leggja fjárlagafrv. fyrir í byrjun þings? Vitaskuld er það.

Það var auðvelt að þessu sinni eins og áður að fylgja fjárlagafrv. eftir með fjárlagaræðu og vísa því til fjvn., og maður skal ekki trúa því, að það fjárlagafrv., sem hér hefur verið útbýtt og samið var af fyrrv. hæstv. fjmrh., hafi verið samið með þeim endemum, að það þurfi algerlega að kasta því í kassann. Og ég vil þá segja það, að Sjálfstfl., sem nú hefur tekið við embætti fjmrh., hlýtur að eiga sína sök hér á líka. Hann hefur engu síður en Alþfl. borið ábyrgð á stjórn fjármálanna á s.l. ári. Hann bar jafnvei meiri ábyrgð en Alþfl. á síðasta þingi á afgreiðslu fjárlaga og hafði hér alla forgöngu um afgreiðslu fjárlaga þá. Og hann hefur haft alla aðstöðu til þess að fylgjast sem samningu fjárlaga á þessu ári, og ég veit, að hann hefur fylgzt með þeim. Ég álít því, að Sjálfstfl. sé í þessum efnum einnig að skjóta sér óeðlilega undan sinni ábyrgð með því að ætla að ógilda það plagg, sem hér hefur verið lagt fram sem fjárlagafrumvarp.

Þá er nokkuð um vinnuaðstöðu hæstv. ríkisstj. í sambandi við tillögur í efnahagsmálunum.

Er það nú líklegt, að hæstv. ríkisstjórn geti unnið þannig að jafnstórkostlegum breytingum í sambandi við efnahagskerfi þjóðarinnar og hún segist nú hugsa sér að leggja til, án þess að hún hafi náið samstarf við stuðningsflokka sína, við þingmenn bæði úr Alþfl. og Sjálfstfl.? Ég hef enga trú á því, að aðeins ráðherrar þessara tveggja flokka, ásamt með nokkrum sérfræðingum utan þings, vinni algerlega einir að því að móta allar þær till., sem eiga að gerbreyta um efnahagskerfi, eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt hér í umræðunum. Ég hef enga trú á því, að ríkisstj. án samráðs við þingmenn Alþfl. og þingmenn Sjálfstfl. vinni að slíkri tillögusmíði til þess að kasta þeim tillögum siðar fram á Alþingi. Ég hygg, að þessi stjórn verði að fara að svipað og aðrar ríkisstj. hafa orðið að fara að, að hún hljóti, þegar hún undirbýr þessi vandasömu mál, að verða að hafa meira eða minna samráð og samstarf við stuðningsmenn sína á Alþingi og hún þurfi því verulega á því að halda, að þeir séu hér í höfuðstaðnum. Ég held því, að það greiði ekkert götu hæstv. ríkisstj. í þessum efnum að senda þingið frá sér, nema síður sé.

Annars er það greinilegt, að fram hefur komið í sambandi við þessar umræður, að svo hefur tekizt til hjá stjórnarflokkunum að þessu sinni, að þeir hafa hreinlega setzt í stjórnarstólana og myndað saman ríkisstj. án þess að semja nokkuð sín í milli um höfuðvandamálin, sem við var að glíma í þjóðfélaginu. Það er nú orðið ljóst, að það eru fyrst og fremst stólarnir, sem samið hefur verið um. Flokkarnir hafa enn ekki komið sér saman um leiðir í efnahagsmálunum og þurfa því að fá langan umhugsunarfrest.

Það virðist, að nú eigi eftir rúmlega vikustund að senda Alþingi heim. Til hvers? Til þess, eftir því sem hæstv. ráðherrar segja, að stjórnarflokkarnir geti farið að semja um þau málefni sín í milli, sem þeir áttu að semja um, áður en þeir mynduðu ríkisstj., að nú eigi að fara að taka tíma til þess að semja um þau málefni, sem stjórnarsamstarfið átti að byggjast á, en svikizt hefur verið um að semja um, áður en stjórnin var mynduð.

Það var fyrr í umr. hér á þingi í dag, í rauninni í Sþ., sem þær upplýsingar komu fram varðandi efnahagsmálin frá hæstv. fjmrh., að hann sagði, að ríkissjóð og útflutningssjóð mundi vanta um 200–300 millj. kr. í auknar tekjur, til þess að hægt væri að standa við útgjöld, miðað við þá samninga, sem gilda um útgjöld útflutningssjóðs og ríkissjóðs, eins og sakir standa nú. Og það er svo sem eðlilegt, að miðað sé við útgjöldin eins og þau standa nú, vegna þess að engir nýir samningar munu hafa verið gerðir við framleiðsluatvinnuvegina um nýjar bætur til viðbótar við þær bætur, sem í gildi eru samkv. lögum. Ég beindi þá þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvernig það mætti vera, að þessar upplýsingar fengju staðizt, að það skorti nú um 200–300 millj, kr. í nýjar tekjur handa ríkissjóði og útflutningssjóði, miðað við óbreytt útgjöld þessara aðila, þegar fyrir lægju upplýsingar aðeins nokkurra mánaða gamlar frá fyrrverandi ríkisstj. um það, að hagur útflutningssjóðs hefði aldrei verið betri en nú, og þegar fyrir lægi frv. til fjárlaga, útbýtt hér á borðin til hv. þm., en í grg. þess segir, að engin ástæða sé til að óttast, að greiðsluhalli verði hjá ríkissjóði á þessu ári, 1959. Það stendur í grg. þess frv. Hvernig getur það komið heim og saman, að nú eru gefnar upplýsingar um það, að það muni vanta 200–300 millj, kr. í útflutningssjóð og ríkissjóð á næsta ári, miðað við óbreytt útgjöld þessara sjóða?

Það var svo sem að vonum, að hæstv. fjmrh. víki sér með öllu undan því að svara þessu. Ég skil það mætavel, að hann muni hafa þar verið í nokkrum vanda. En hann hafði nefnt þessa tölu, 200–300 millj. kr., til staðfestingar á því, sem hæstv. forsrh., Ólafur Thors, hafði sagt hér fyrir nokkru á Varðarfundi í upplýsingum sínum um ástandið í fjárhagsmálunum.

Það er ofur eðlilegt, að við þm. viljum fá úr því skorið hér á Alþingi, hvort yfirlýsingar fyrrv. fjmrh. og fyrrv. forsrh., sem báðir eru ráðh. í núverandi ríkisstj., í þessum efnum eru algert fals og ranglega settar fram eða hvort það, sem núverandi hæstv. fjmrh. segir í þessum efnum, er aðeins fleipur, sem ekki fær staðizt.

Ég spurðist einnig fyrir í þessu sambandi um það, hvort kannske væri byrjað að semja við framleiðendur um nýjar bætur á næsta ári, hvort samningar væru hafnir við útgerðina, þessir venjulegu, árlegu samningar, og hvort viðræður þar bentu þá eitthvað til þess, að búast mætti við því, að hækka þyrfti bótagreiðslur til framleiðslunnar. Ég fékk ekkert svar við því. Mér er ekki kunnugt um það, að neinir slíkir samningar hafi opinberlega hafizt enn. Ég álít þó, að það væri full þörf á því nú í byrjun desembermánaðar að taka upp þessa samninga, og oftast nær áður voru samningar um þessi mál byrjaðir á þessum tíma og veitti ekki af.

Mér sýnist nú, að það stefni í hreint öngþveiti í þessum málum, að svo skuli vera haldið á, að það á að rjúka til og senda Alþingi heim á fyrstu starfsdögum þess, án þess að nokkuð sé gert. Ríkisstj. veit sýnilega ekki sitt rjúkandi ráð í sambandi við, hvað hún hyggst raunverulega fyrir í efnahagsmálunum, en hún skapar hins vegar með aðgerðum sínum slíkan ótta og slíka tortryggni í viðskipta og athafnalífinu almennt, að allt er að komast í sjálfheldu í bönkum landsins í sambandi við gjaldeyrissölu, og af þeim ástæðum er hreinlega stofnað í stórhættu rekstri útgerðarinnar á komandi vertíð, því það sjá allir menn, að ef bankarnir ætla að halda sér við það áfram að neita mönnum um nauðsynlegan gjaldeyri til þess að kaupa veiðarfæri, þá verður ekkert gert út í næsta janúarmánuði. Og það sjá líka allir menn, að ef menn geta ekki fengið frá bönkunum nauðsynlegan gjaldeyri til þess að greiða fullsmíðaða báta, sem liggja tilbúnir í erlendum höfnum til þess að sigla heim, vegna gjaldeyrisskorts, þá verður ekki gert út á þeim bátum, að minnsta kosti ekki í næsta janúarmánuði.

En það á að fresta Alþingi nú. Það á að senda þm. heim. En mér er þá spurn: Á kannske líka að fresta allri útgerð í janúarmánuði n.k.? Á bara að fresta henni? Við höfum að vísu séð það áður, að útgerð í janúarmánuði hafi verið frestað, og sumir þeir, sem nú þykjast ráða hér mestu um í núverandi hæstv. ríkisstj., hafa einmitt staðið að slíkri frestun. Það hefur ekki orðið neinn búhnykkur að fresta allri útgerð landsmanna um heilan mánuð á vetrarvertíðinni. Mér sýnist óskemmtilega margt benda til þess, að það geti farið á svipaða lund enn. Síðasta árið, sem Sjálfstfl. bar ábyrgð á stjórn sjávarútvegsmála og hafði forsæti ríkisstj. á höndum, tókst svona til, að útgerð bátaflotans stöðvaðist með öllu allan janúarmánuð.

Ég held, að það hefði verið nær eðlilegum hætti, að hæstv. ríkisstj. hefði nú lýst því yfir hér á Alþingi, að hún væri byrjuð samninga við forsvarsmenn framleiðsluatvinnuveganna einmitt í þeim tilgangi að tryggja það, að útgerð geti hafizt á réttum tíma, og að hún lýsti því yfir hér á Alþingi, að hún mundi einmitt kippa því í lag nú næstu daga, að t.d. bankarnir létu af höndum nauðsynlegan gjaldeyri, til þess að hægt væri að undirbúa framleiðslustörf nú strax eftir áramót, fremur en að leggja alla orku sína í að ætla að knýja það í gegn hér á mjög sérkennilegan hátt að reka þingið heim á fyrstu starfsdögum þess. Og ég held líka, að það hefði tryggt miklu meira jafnvægi á allan hátt í atvinnu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar en það fum, sem er nú greinilega á öllum störfum hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessa þingfrestun.

Ég hafði nokkuð vikið að því fyrr í minni ræðu, að hæstv. ríkisstjórn sá, að það þurfti meira að gera til þess að losa sig við þingið heldur en að tilkynna það í stjórnarblöðunum, að þingið ætti að fara heim, og því rauk hún til að flytja bæði þingfrestunartill. og leggja hér fram 5 frv., sem voru um framlengingu nokkurra skatta, sem annars hefðu gengið úr gildi um næstu áramót. Síðan efndi ríkisstj. til heilmikilla kappræðna um þessi frv., sem vitaskuld mátti búast við, þar sem hún var að reyna að knýja fram samþykkt þeirra þvert ofan í vilja nærri helmings alþm. Hér í hv. Nd. var eitt af þessum tekjuöflunarfrv., um framlengingu á skemmtanaskatti, það var hér til umræðu. Það lá hér fyrir hv. d. og var rætt í marga klukkutíma. Í hv. Ed. lágu fyrir 4 af þessum framlengingarfrv., og þau voru líka rædd í marga klukkutíma og um nætur jafnvel, en þá allt í elnu uppgötva ráðh. það, að þetta fær ekki gengið. Þá lyppast þeir niður, falla frá öllum þessum frv., skjóta á klíkufundi hér í bakherbergjum og reyna nú að finna upp á einhverjum nýjum uppátækjum til þess að koma þingfrestun sinni í gegn. Og þá finnur einhver upp á því snjallræði að taka frv., sem var hálfútrætt í Nd., um skemmtanaskatt, og önnur frv., sem voru hálfútrædd í Ed., steypa þessu öllu saman í einn bunka, mynda eitt frv. úr 5, sem nefnt hefur verið hér á Alþingi bandormur, sem eðlilegt er, því að hér er hver liðurinn við annan. Og á þann hátt dettur hæstv. ríkisstj. í hug, að nú geti hún á þennan sérstaka hátt stytt umr. þm. allverulega með því að gera þetta allt að einu máli, og miðaði auðvitað ræðutíma manna við þetta eina mál, þó að hún væri áður búin að leggja þessi mál fyrir sem 5 mál í tveimur d. og eyða í þau alllöngum tíma. Nú er þetta lagt fram á þennan hátt. Svona er fumið í þessu í einu og öllu. Ætli væri ekki rétt fyrir hæstv. ríkisstj. að reyna að hugsa svolítið betur um það, hvernig hún ætlar að koma fram sínum málum, heldur en þessi vinnubrögð bera vott um?

Auðvitað er svo þessi aðferð líka móðgun við hv. alþm., hrein móðgun við þá. Og segja má, að minnsta kosti á óbeinan hátt, að hér er um brot að ræða á eðlilegu málfrelsi alþm., því að ef hengja má saman öll þessi 5 frv. í eitt, hvers vegna má þá yfirleitt ekki hengja svo að segja öll frv., sem menn ætla að flytja eða ríkisstj. ætlar að flytja, saman í eitt, nógu langan bandorm og segja svo: Hér er bara eitt mál fyrir þinginu. Þetta verður rætt allt saman í einu. — Og þar með hlýtur að vera hægt að stytta umr. Hér eru auðvitað gersamlega óskyld mál á ferðinni og hafa verið sérskilin hér á Alþingi um margra ára skeið. En það reynist vera nauðsynlegt að taka upp þessi sérstöku vinnubrögð til þess að reyna að knýja fram þingfrestun á óeðlilegum tíma í fullkominni andstöðu við nærri helming þm.

Ég veit ekki upp á hverju hæstv. ríkisstj. kann að finna, ef henni sýnist, að það taki nokkuð langan tíma að koma þessum bandormi öllum í gegn. Ef til vill finnur hún eitthvert ráð enn til þess að stytta eðlilegan afgreiðslutíma þessara mála. En ég held, að slík vinnubrögð verði ekki heilladrjúg fyrir störf Alþingis í framtíðinni og það sé veruleg hætta á því, að fordæmi eins og þetta verði notað einhvern tíma siðar og að þá kannske kvarti þeir einna sárast undan, sem nú stofna til vinnubragða af þessu tagi.

Um það frv., sem hér liggur fyrir og er um heimild handa ríkisstj. til þess að annast bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði í janúar og febrúarmánuði á næsta ári, þó að fjárlög hafi ekki verið samþ. hér á Alþingi fyrir þá mánuði og fyrir næsta ár, er auðvitað augljóst mál, að þetta frv. er allsendis ófullnægjandi fyrir hæstv. ríkisstj, og verður vitanlega að takast hér upp á nýjan leik í nýjum búningi eða endurnýja það síðar, þegar hún stendur eins að afgreiðslu mála og rakið hefur verið nokkuð í þessum umræðum. Hún gerir sem sagt ráð fyrir því, að Alþingi komi saman aftur 28. jan., en heimildin til bráðabirgðafjárgreiðslna er aðeins miðuð við það að ná út febrúarmánuð. Eru nokkrar líkur til þess, að búið verði þá að afgreiða fjárlög fyrir árið 1960, þegar þingið kemur ekki saman fyrr en 28. jan. 1960? Ég ætla, að það sé ekkert dæmi til um það í þingsögunni, að svo skammur tími hafi verið notaður, eins og frá 28. jan. og til febrúarloka, til þess að afgr. fjárlög í gegnum allar umr., eins og lög standa til á Alþingi. Það sjá allir hv, alþm., að tíminn er of skammur, þegar þing kemur ekki saman fyrr en 28. jan., og þá á að sjálfsögðu fyrst að fara að útbýta fjárlagafrv. Ekki getur fjárlagaræða strax hafizt 28. jan., það er með öllu útilokað. Það þykir venjulega lágmarkstími, áður en efnt er til útvarpsumr., að þá fái þingflokkarnir 5, 6 eða 7 daga eða svo, svo að það er ótrúlegt, að fjárlagafrv., þó að því verði útbýtt 28. jan., þegar þing kemur saman, verði tekið til 1. umr. og haft um það útvarpsumr., eins og lög standa til, fyrr en 5.– 6. febr., aldrei fyrr. Þá er eftir að halda fund um það að vísa málinu til fjvn., þá fyrst fær fjvn. frv. til athugunar. Mér þykir það mjög ótrúlegt, að fjvn. þurfi ekki a.m.k. einn og hálfan mánuð til þess að vinna svipaða vinnu og hún hefur unnið hingað til öll þau 17 ár, sem ég hef verið á Alþingi. Ef hún ætlar að leggja í þetta svipaða vinnu og hún hefur gert á þessum árum, þá þykir mér það sérstaklega ótrúlegt, að hún þurfi ekki a.m.k. einn og hálfan mánuð til þess að ljúka sínum störfum.

Það er því alveg sýnilegt mál, að þessar bráðabirgðafjárgreiðslur, sem hæstv. ríkisstj. er að óska eftir heimild til að fá samkv. þessu frv., duga henni aldrei. Hún þarf að flytja hér annað frv. og fá framlengda þessa heimild eflaust allan marzmánuð líka. En hefði ríkisstj. viljað fara hér að samkv. venjulegum hætti, hefði hún viljað hafa 1. umr. um fjárlögin nú, eins og henni ber raunverulega skylda til samkvæmt lögum, hefði hún vísað frv. nú til fjvn. og fjvn. hefði getað byrjað þar á sinni athugun á frv., þá hefði heimildin eflaust dugað, eins og hún er formuð hér í þessu frv.

Mér sýnist því, að þetta frv. út af fyrir sig sé illa úr garði gert og alls ekki reiknað með því, hvernig fara muni um störf Alþingis, eftir að ríkisstj. hefur komið þeim vilja sínum fram að reka þingið af höndum sér nú í byrjun starfstímans.

Mér þykir því mestar líkur benda til þess, að raunverulega fari svo, fyrst svona er að unnið, að landið verði fjárlagalaust fyrstu 3 —4 mánuðina á næsta ári, — það verði stjórnað að mestu eftir gamla fjárlagafrv. og eftir bráðabirgðaheimildum, en raunverulega verði landið fjárlagalaust fyrstu 3–4 mánuðina. Þetta kalla ég ekkert efnilega af stað farið.

Og ég verð að segja það, að mér finnst hæstv. núverandi fjmrh. hefja sína göngu harla einkennilega í þessum efnum. Ég held, að það hefði verið nær fyrir hann að endurskoða þessar ákvarðanir sínar, taka þær til nýrrar athugunar, og ég hygg, að ef hann gerði það, þá kæmist hann að annarri niðurstöðu en hann hefur komizt og mundi þá breyta öllum vinnubrögðum.

Ég sagði fyrr í minni ræðu, að mér sýndist alveg augljóst, að ein aðalástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. vill nú knýja fram þessa þingfrestun, sé sú, að stjórnarflokkarnir séu komnir í pólitíska klipu í sambandi við bráðabirgðalögin, sem fyrrv. ríkisstj. gaf út um verðlagningu landbúnaðarafurða, þar sem vitað er, að stjórnarflokkarnir hafa gefið út gagnstæðar yfirlýsingar um það mál. Ég held, að ein meginástæðan til þess, að stjórninni sýnist nú alveg nauðsynlegt að reka þingið af höndum sér, sé þessi pólitíska klípa. En ég vil nú spyrja: Finnst hæstv. ríkisstj., að hún sleppi eitthvað út úr þessari pólitísku klípu með því að reka þingið af höndum sér nú?

Ég á von á því, að þó að þingið verði sent heim, þá komi þó alltaf 15. des. eigi að síður, nema hér verði flutt sérstök till. um að fresta honum einnig. En 15. des. hlýtur að koma eftir mínum útreikningi, og þá ganga þau bráðabirgðalög úr gildi, sem sett hafa verið um verðlagningu landbúnaðarafurða. Og þó að þingið sé farið heim, hvað gerist þá 15. des.? Hvað gerist þá? Sumum hefur komið til hugar, að þá ætli ríkisstj. að segja: Ja, nú verðum við að grípa til nýrra bráðabirgðalaga. Við verðum að leysa vandann með nýjum bráðabirgðalögum. — Mér er þá fyrst spurn: Hvernig ættu þau bráðabirgðalög að vera? Annar stjórnarflokkurinn segist standa og falla með þessum bráðabirgðalögum um að banna hækkun á landbúnaðarafurðum, en hinn hefur sagt um allt þvert og endilangt landið í gegnum frambjóðendur sina í síðustu kosningum, að hann sé algerlega á móti þessum bráðabirgðalögum og hefði aldrei sett þau, ef hann hefði verið í ríkisstj. Er þá hugsanlegt, að sá stjórnarflokkurinn fari nú að setja svona bráðabirgðalög aftur eða endurnýja þau gömlu? Er það hugsanlegt?

Ég held, að hæstv. ríkisstj. sleppi ekki út úr þessari klípu, sem hún er búin að koma sér í, með því bara að grafa hausinn í sandinn; það sé með öllu þýðingarlaust. Ég held því, að hún ætti að koma með hausinn upp úr sandinum aftur og taka á verkefninu, eins og það liggur fyrir. Fyrr eða síðar verða stjórnarflokkarnir að standa frammi fyrir þessum vanda: annar hefur lofað þessu og hinn hefur lofað hinu. Annar hvor verður að svíkja, nema þeir vilji svíkja báðir, það er líka leið. En ég sé ekki, að hæstv. ríkisstj. sé nokkru bættari í sjálfu sér í sambandi við þessa pólitísku klípu, sem hún er búin að tefla sig í, þó að hún reki þingið af höndum sér. Að vísu má segja, að hún hafi þá losnað við að hafa bæði mig og aðra hér til þess að stríða sér svolítið á því, sem hún hefur verið að gera klaufalega í þessum efnum. Hún þarf auðvitað ekki að vera hér á Alþingi og hlusta á það, að hún sé brýnd á því, hvernig hún hefur staðið að afgreiðslu þessara mála. En þingið kemur saman aftur, þm. koma saman aftur, og það verður aftur til möguleiki á því að rifja upp þessi mál.

Svo er hitt atriðið: Er það í rauninni hugsanlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að baksa í því með þessum vinnubrögðum, sem hér hefur verið lýst, að reyna að reka þingið af höndum sér, og standa í slíku baksi í 10–12 daga, eins og allar líkur eru til, geta síðan sent þingið heim 7., 8. eða 10. des. með því að neyta aflsmunar með atkv. hér á þingi og ætla sér svo, rétt eftir að þingið er farið heim, 4–5 dögum eftir, að setja ný bráðabirgðalög? Hvar er þingræðinu komið í höndum þeirra manna, sem þannig vilja á málum halda? Þeir treysta sér ekki til þess að setja lög á Alþingi með venjulegum hætti, með því að láta alþm. samþ. lög á Alþingi, vilja drífa þingið heim til þess að hlaupa upp rétt á eftir og setja bráðabirgðalög. Það er alveg ótrúlegt, að hæstv. ríkisstjórn hafi raunverulega komið til hugar, að þessi leið sé fær.

Ég held meira að segja, að það sé með öllu þýðingarlaust fyrir hæstv. ríkisstj., jafnvel þó að hún fari nú út í það kviksyndi að gefa út bráðabirgðalög 4–5 dögum eftir að Alþingi hefur verið rekið heim á þennan hátt. Jafnvel þótt hún gerði það, þá held ég, að það sé með öllu útilokað fyrir hana að geta gefið út bráðabirgðalög, sem yrðu slíkt reykský, að það gæti dulið fyrir hugsandi fólki í landinu, hvað raunverulega hefur verið að þvælast fyrir ríkisstj. og hvað hún raunverulega er að gera í þessum efnum. Ég held, að hún dylji sig ekki neitt.

Það er því mín skoðun, að það hefði verið langsamlega bezt fyrir hæstv. ríkisstjórn og flokka hennar að takast á við þennan vanda nú strax, renna sér í það af fullum krafti, og það hefði hæstv. landbrh. átt að gera: að leysa þennan landbúnaðarhnút, sem þarna hefur verið hnýttur. Auðvitað verður hann leystur einhvern veginn. Ein leiðin er sú, sem Sjálfstfl. lofaði, að samþ. hér á Alþingi að greiða bændum 3.18% verðhækkunina. Hann hefur lofað þessu. Hann hefur áreiðanlega þingfylgi fyrir því hér á Alþingi. Ein leiðin er sú að renna fram þessari till. og láta hana fara í gegn, — sjá, hvað hinn stjórnarflokkurinn gerir. Ég held, að Sjálfstfl. væri þetta óhætt. Ég held, að hinn stjórnarflokkurinn, þó að hann hafi líka svarið í málinu, mundi bara kýtast niður og sitja sem fastast í stólunum, þó að þetta væri samþykkt.

En það er áreiðanlegt, að þó að þessi klípa, sem hæstv. ráðh. stjórnarflokkanna eru nú komnir í í sambandi við bráðabirgðalögin um verðlagningu landbúnaðarafurða, sé kannske ein meginástæðan til þess, að það er reynt með þessum einkennilegu vinnubrögðum að reka þingið af höndum sér, þá sýnist mér margt benda til þess, að það séu einnig fleiri ástæður til þess, að stjórnin reyni þessa þingfrestun með þessum hætti.

Mér sýnist alveg greinilegt, að ríkisstj. sé í fullkomnu ráðleysi með það, hvernig hún á að taka á fjárhagsvandamálum. Ég held, að tregða hæstv. fjmrh. að flytja hér fjárlagaræðu, eins og honum ber skylda til, og gera hv. Alþingi grein fyrir ástandi fjárhagsmálanna, byggist á því, að hann treystir sér ekki til þess að láta neitt koma fram um það, hver stefna hans flokks er og hver stefna ríkisstj. er í sambandi við fjárhagsmálefni þjóðarinnar, og hann óttist það, þegar hann kæmi í útvarpsumr. um fjárlagafrv., að þá yrði það bert fyrir öllum landslýð, að stjórnarflokkarnir hafa gengið saman í ríkisstj. nú án þess að semja nokkurn skapaðan hlut um það, hvað gera skal í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég skil það mætavel, að það fari hrollur um hæstv. fjmrh. að þurfa að standa frammi fyrir alþjóð og láta það beinlínis uppi, að svona skuli hafa verið að málunum staðið, því að það er æði mikið ábyrgðarleysi að mynda stjórn um þetta leyti árs og hafa ekki komið sér á neinn hátt saman um það, ekki einu sinni í meginatriðum, hvað gera skuli, en tala hins vegar um það í breiðu og stóru formi, að það eigi að umsteypa öllu fjárhagskerfi landsins. Auðvitað stendur þessi óvissa hjá hæstv. ríkisstj. um það, hvað gera skuli í efnahagsmálunum, eins og ógn yfir mönnum, ógnandi því, að það verði hér framleiðslustöðvun um næstu áramót, vegna þess að ekkert samkomulag hafi tekizt um þáð, hvernig skuli bregðast við vandanum. Það er heldur þunnt, að það skuli koma á daginn, að hæstv. ríkisstj. skuli raunverulega hafa að þessu sinni verið mynduð aðeins um stjórnarstólana eina.

Hæstv. fjmrh. sagði, að í ráði væri hjá ríkisstj. að koma hér á nýju fjárhagskerfl. Ég sagði fyrr í ræðunni, að ég gæti ekki skilið þessi orð á annan veg en þann, að þetta benti til þess, áð ríkisstj. ætlaði í mjög stórkostlega gengislækkun. Og ég held, að flestir hljóti að skilja þetta svo. En stjórnin hefur þó ekki komið sér saman um það að stefna í þessa átt. Hún hefur aðeins bollalagt um þetta, og það má glögglega heyra á ræðum ýmissa hv. stuðningsmanna stjórnarinnar, að þeir eru nú ekki við því búnir að samþ. svona stórkostlega gengislækkun án þess að athuga það nokkru nánar, því áð það er auðvitað alveg gefið mál, að ef á að taka upp hér nýja skráningu á íslenzkri krónu, sem ætti að geta komið í staðinn fyrir það margþætta kerfi, sem nú er í gildi bæði í sambandi við útflutningsuppbætur og eins í sambandi við niðurgreiðslur, þá er það engin smáræðislækkun á verðgildi krónunnar, sem þar mundi koma.

Ég held, að yfirlýsingar eins og þessi, sem hæstv. fjmrh. lét sér hér um munn fara, hljóti óhjákvæmilega að auka enn á þann óróa, sem hefur skapazt, og þann ótta, sem hefur skapazt í atvinnu- og fjárhagslífinu og ég hef nokkuð vikið hér að áður. En það gefur alveg auga leið, að þeir, sem ætla sér t.d. að gerbreyta gildi krónunnar með samþykkt á Alþingi, hljóta að hafa gert sér grein fyrir því, hvað slík ráðstöfun getur haft víðtæk áhrif í öllu efnahagskerfinu, ef það á að standa lengi yfir og margir að fá að búa sig undir að taka við slíkum ráðstöfunum. Slíkt getur vitanlega haft hin alvarlegustu áhrif í sambandi við allan atvinnurekstur. Ég held, að það sé síður en svo bætandi á þann ótta, sem er hjá mönnum í sambandi við fyrirhugaðar efnahagsráðstafanir, og því mundi bæði yfirlýsing eins og þessi, sem hæstv. fjmrh. hér gaf, og þá ekki síður tveggja mánaða þingfrestun einmitt um þetta leyti skapa svo að segja upplausnarástand í fjármálum landsins. Er nema von, að þeir, sem sparifé eiga inni í bönkum landsins og sparisjóðum, rífi út innistæður sínar, þegar svona yfirlýsingar eru gefnar og þegar langur aðdragandi er veittur? Og hvernig mun fara fyrir bönkum landsins, ef menn framkvæma það almennt að taka út innistæður sínar og reyna að breyta þeim í fasteignir og kaupa ýmist eitt eða annað, eins og þeir mögulega geta yfir komizt, og langur aðdragandi er veittur fyrir menn til þess að geta aðhafzt í þessum efnum? Hefur nokkur maður heyrt það, að þeir, sem standa að breytingu á gjaldmiðlinum, fari þannig að?

Nei, ég held, að það sé sama, hvaða þáttur þessa máls sé athugaður, það komi alltaf út hið sama, að sú leið, sem hæstv. ríkisstj. hefur valið sér í sambandi við það að ætla að knýja hér fram þingfrestun, sé óheppilegasta leiðin.

Ég sé, að við það frv., sem hér hefur verið lagt fyrir og hér er nú til umræðu, um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði, hefur verið lögð fram brtt., þar sem gert er ráð fyrir að veita ríkisstj. viðbótarheimild til þess að mega greiða bændum landsins 3.18% aukaverðuppbætur á landbúnaðarafurðir þessa framleiðsluárs. Ég hygg, að ríkisstj. hafi í raun og veru heimild til þess að inna af hendi þessa greiðslu og það sé ekki beinlínis nauðsynlegt að veita henni aðra heimild í sömu átt. En hitt er annað mál, að ef ríkisstj. telur, að það sé ástæðan til þess, að hún hefur ekki enn þá framkvæmt það loforð Sjálfstfl. til bænda að borga þeim þessa fjárhæð, þessi 3.18%, í verðuppbótum, að það skorti sérstaka þingheimild í þeim efnum, þá ætti hæstv. ríkisstj. að skýra Alþingi frá því, að hún þurfi gjarnan að fá slíka heimild, og þá væri kannske hægt að leysa þennan hnút og ná síðan samkomulagi um þingfrestunina á eftir.

Ég hef nú gerzt nokkuð fjölorður vítt og dreift um orsakir þær, sem til þess liggja, að þetta frv. er flutt. Ég er ekki andvígur því út af fyrir sig, að hæstv. ríkisstj. fái heimild Alþingis til þess að mega annast greiðslur úr ríkissjóði í janúarmánuði og febrúarmánuði n.k. í samræmi við gildandi fjárlög, eða þangað til ný fjárlög hafa verið sett. Ég er ekki á móti því út af fyrir sig. Ég get vel skilið, að það hafi verið örðugt fyrir þessa ríkisstj. að afgreiða fjárlög á þessu ári fyrir n.k. ár. Ég deili ekki á hana fyrir það, að hún sækir um slíka heimild sem þessa, og ekki fyrir það, að hún telur sér ekki fært að afgr. fjárlög. En ég deili á hana í sambandi við þetta frv. fyrir það, að hún skuli sækja það af slíku ofurkappi sem raun er á að vilja reka þingið heim, áður en stjórnin hefur gert það hér á Alþingi, sem þingsköp og lög raunverulega fyrirskipa henni og þinginu að gera.

Mér þykir rétt að undirstrika það, að ég er ekki á neinn hátt heldur á móti því, að ríkisstjórnin fái hér samþ. lög á þinginu, sem tryggi það, að þeir tekjustofnar, sem hafa verið í gildi um alllangan tíma, en áttu að renna út nú um næstu áramót, haldi áfram og hér verði samþ. lög, sem tryggi það. Ég er ekki út af fyrir sig á móti því. En ég mótmæli í sambandi við flutning þessara mála, jafnt bráðabirgðagreiðslnanna sem framlengingar þessara tekjustofna, að það skuli knúið hér í gegn að samþ. þessi mál svo snemma sem raun er á, vegna þess að það er greinilegt, að tilgangurinn með því að ætla að knýja þetta í gegn á þessum tíma er einvörðungu sá, að ríkisstj. vill reka Alþingi heim. En það er það, sem ég tel óeðlilegt, og það er það, sem ég vil mótmæla.

Ég skal svo að þessu sinni ekki lengja mál mitt mikið úr þessu. Það gefst að sjálfsögðu tími til þess síðar að víkja hér að hverjum einstökum lið bandormsins, þegar hann verður hér til umræðu. Þar er, eins og ég hef sagt áður, steypt saman í eitt frv. mörgum óskyldum málum, og þau verða vitanlega að ræðast eins og mörg mál, þó að þau séu öll komin saman í eitt frv., og ég áskil mér rétt til þess, jafnvel þó að það kunni að verða til þess, að það dragist nokkuð hjá hæstv. ríkisstj. að koma þinginu af höndum sér, og jafnvel þó að þingfrestunin kunni að dragast allt fram undir þennan óskaplega hættulega dag, 15. des., sem allur ótti ríkisstj. virðist nú vera bundinn við.