05.05.1960
Efri deild: 70. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

89. mál, umferðarlög

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til 2. umr., felur í sér breyt. á 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga, nr. 26 frá 1958. Í því ákvæði er svo fyrir mælt:

„Á vegum skulu ríðandi menn halda sig á hægri hluta vegarins. Þeim ber að víkja greiðlega til hægri fyrir þeim, sem á móti koma, en hleypa fram fyrir sig á vinstri hönd þeim, sem fram fyrir vilja fara.“

Þarna í þessari 1. mgr. 63. gr., eins og hún er nú í umferðarlögunum, er því sett sama regla um ríðandi menn í umferðinni sem um gangandi menn, þegar ekki er gangstétt eða gangstígur meðfram vegi. Í frv. þessu er lagt til, að 1. mgr. 63. gr. umferðarlaganna orðist svo:

„Á vegum skulu ríðandi menn halda sig á vinstri hluta vegarins. Þeim ber að víkja greiðlega til vinstri fyrir þeim, sem á móti koma, en hleypa fram fyrir sig á hægri hönd þeim, sem fram fyrir vilja fara.“

Í frv. felst því alveg gagnstæð regla þeirri, sem nú gildir samkv. umferðarl. um umferð riðandi manna. Með frv, eru ríðandi menn í umferðinni að því leyti til settir á bekk með bifreiðum og öðrum ökutækjum, þ.e.a.s. eftir frv. skal sama regla gilda um þá og ökutæki, sbr. 1. mgr. 45. gr. umferðarlaganna.

Nefnd sú, sem umferðarlögin samdi á sínum tíma, lagði til, að um umferð riðandi manna gilti sú regla, sem í frv. þessu felst og þá hafði áður gilt samkv. umferðarlögum frá 1941. En þessu ákvæði var breytt í núgildandi horf í meðferð Alþ., reyndar samkv. till. allshn. Ed., en það er tekið fram í nál. allshn. þá, að þarna sé um algert nýmæli að ræða, sem skoðanir muni geta verið skiptar um. En það fór nú samt sem áður svo, að þetta nýmæli var þarna samþykkt, og mun einkum hafa verið rökstutt með því, að hestamenn ættu erfitt með að fylgjast með ökutækjum, sem á eftir þeim kæmu á sama vegarhelmingi. Reynslan hefur nú hins vegar sýnt það, að því er talið er, að þetta nýmæli var ekki heppilegt. Það er talið, að gildandi regla hafi valdið aukinni hættu á slysum frá því, sem áður var, og eins og greint er frá í grg. frv. og ég þarf ekki að endurtaka hér, er það svo, sem nokkuð liggi í augum uppi, að bæði ökumenn og hestamenn þurfa á mun meiri viðbragðsflýti að halda, ef hestur og ökutæki koma úr gagnstæðum áttum á sama vegarhelmingi, heldur en þyrfti, ef aðilar væru sitt hvorum megin á veginum. Þetta einmitt getur valdið aukinni slysahættu, sérstaklega ef útsýni er eitthvað slæmt á milli vegfarenda, hvort sem það er nú vegna staðháttanna eða veðurs. Og enn fremur er nú talið, að það geti frekar leitt til þess, að hestar ókyrrist og jafnvel fælist, ef ökutæki kemur beint á móti, og það getur leitt til þess, að reiðmenn og hestar blindist frekar af ljósum ökutækja og geti þannig sem sagt, eins og ég sagði, valdið aukinni slysahættu. Niðurstaðan hefur því orðið sú, að Landssamband hestamanna hefur farið fram á það, að gildandi umferðarlögum verði breytt, svo sem í frv. segir. Og það hefur verið leitað umsagnar Búnaðarfélags Íslands um þá till. Landssambands hestamanna, og stjórn Búnaðarfélagsins hefur lagt það fyrir búnaðarþing, og þessir aðilar hafa eindregið mælt með því, að tekin væri upp sú regla, sem í frv. felst. Lögreglustjóri mun og hafa látið í ljós það álit, að rétt væri að breyta svo sem ráð er gert fyrir í frv.

Ég hef átt tal við suma af þeim mönnum, sem á sínum tíma voru í þeirri n., sem samdi umferðarlögin og þá öfluðu sér sérstakrar þekkingar í sambandi við þessi mál öll, og þeir telja að sjálfsögðu heppilegt, að það sé tekin upp sú regla, sem þeir í öndverðu lögðu til að í lög væri tekin.

Allshn. hefur, eins og greinir í nál., tekið þetta mál til meðferðar, rætt það á fundum sínum og er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þarf ég svo ekki að hafa fleiri orð um þetta.