02.05.1960
Neðri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til umr. s.l. föstudag, komst hæstv. viðskmrh. að orði á þá leið, þar sem rætt var um viðskipti okkar við Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, að þegar við gerðumst aðilar að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu fyrir 12 árum, þá skuldbundum við okkur til þess að gefa verzlunina frjálsa við þau ríki önnur, sem eru aðilar að þessari stofnun, sem næmi 80–90%. Hann tók það enn fremur fram, að við hefðum aldrei staðið við þessa skuldbindingu hingað til, vegna þess að við hefðum ekki haft tök á að gera það. En hann tók enn fremur fram, að þessar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem hæstv. ríkisstj. gerir nú og byggir raunverulega stjórnarstefnu sína á, ættu að gera okkur fært fremur en nokkru sinni fyrr að efna þessa skuldbindingu.

Ég ætla nú, að þetta sýni dálítið inn í þann tilgang, sem er ásamt öðru með þessum ráðstöfunum öllum saman. Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum, gaf hún yfirlýsingu um það, að hún ætlaði að taka upp algerlega nýtt efnahagskerfi, og aðalefni þessa efnahagskerfis, sem hún ákvað að taka upp, var það, að tekin yrði upp ný gengisskráning og afnumdar þær útflutningsuppbætur allar, sem verið hafa í gildi um langan tíma, má segja mikið til síðan í stríðslok, skattakerfinu skyldi breytt og verzlunarhöftum skyldi afiétt, og að síðustu, að gjaldeyrisverzlunin skyldi gefin frjáls að verulegu leyti eða svo mikið sem unnt væri. Ég skal ekki ræða mikið um fyrri atriðin þrjú, sem orðin eru að lögum, en aðeins benda á, að það virðist þó svo sem verkanir þeirra ætli fljótlega að sýna sig að verða nokkuð aðrar en til var ætlazt eða látið var í veðri vaka að verða mundi. Það sýnir m.a. deila þeirra aðila, sem hafa með að gera framleiðslu útflutningsvaranna og aftur sölu þeirra, — ég á við hraðfrystihúsin og smáútgerðina, og sýnist, að þar muni ætla að koma nokkuð annað út en til átti að vera stofnað í fyrstunni, og lítil hrifning virðist vera hjá sumum þeim aðilum yfir þeim ráðstöfunum.

En það var ekki þetta, sem ég ætlaði að minnast á fyrst og fremst, heldur hitt, að manni þurfti kannske ekki að koma að öllu leyti á óvart, þó að þessi ríkisstj. gerði einhverjar ráðstafanir, sem hnigu í þessa átt. Og það er einmitt í sambandi við þessa margumtöluðu stofnun, Efnahagssamvinnustofnun Evrópu. Við vitum vel, að á vegum þeirrar stofnunar er búið að ræða mikið um skipulag viðskipta í Vestur-Evrópu, og íslenzkir hagfræðingar og þar með hæstv. viðskmrh. hafa sótt margar þessar ráðstefnur og gefið margar skýrslur um það, þegar heim kom. Samt hefur ekki, þrátt fyrir allar bollaleggingar um fríverzlunarsvæði Evrópu og tollabandalag og annað því um líkt, tekizt betur fyrir þessari stofnun en svo, að það er búið að mynda tvö fjandsamleg viðskiptabandalög í Vestur-Evrópu, sem virðast núna bókstaflega stefna út í viðskiptastrið hvort við annað, og fyrir utan þau tvö eru nokkur ríki og þ. á m. Ísland, sem hafa ekki treyst sér að ganga í þessi bandalög. Svona erfiðlega virðist nú ganga að samræma stefnu þessara ríkja allra í viðskiptamálum, og það er kannske ekki svo undarlegt, og þó er Ísland líklega það ríkið, sem allra erfiðast mun eiga með að samræma hagsmuni sína við hagsmuni þessara ríkja allra vegna þess, hversu aðstæður á Íslandi eru ólíkar því, sem þær eru í flestum eða öllum öðrum löndum Vestur-Evrópu.

Mér hefur virzt, að þær umr., sem farið hafa fram hér á Íslandi um þessi mál, af þeirra hálfu, sem telja okkur sérstaklega til þess fallna að vera með í þessum bandalögum, sýni fremur skilningsleysi á því, hversu Ísland er að mörgu leyti ólíkt og skilyrði hér að mörgu eða flestu leyti ólík því, sem er í þessum löndum. En í sambandi við það, sem líka hefur borið á góma í þessum umr. og hæstv. forsrh. ræddi einmitt um nú á undan mér, að algerlega væru úr lausu lofti gripnar þær bollaleggingar, sem koma fram um, að hér væri að einhverju leyti stefnt að því að minnka viðskiptin við vöruskiptalöndin í Austur-Evrópu, þá vildi ég minna á, að það er ekki lengra síðan en í nóv. s.l., árið 1959, að hér var staddur uppi á Íslandi sjálfur forstjóri Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, OEEC. Forstjóri þessarar stofnunar hélt hér fyrirlestur í hátíðasal háskólans, og það, sem hann ræddi um, voru viðskiptahorfur Íslendinga í VesturEvrópu, og þessi fyrirlestur var síðan birtur orðrétt í síðasta hefti Fjármálatíðinda árið 1959. Þegar lesið er efni þessa fyrirlestrar, þá er hann mikið um það, hvað Íslendingar þurfi að gera til þess að geta fært sín viðskipti einmitt til landanna í Vestur-Evrópu, og í sambandi við það vil ég minna á, að rétt í byrjun fyrirlestrarins kemst hann svo að orði sem ég skal lesa upp nú, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil fyrst af öllu taka það fram, að við hörmum það mjög,“ — þ.e.a.s. leiðtogar Efnahagssamvinnustofnunarinnar, — „hversu utanríkisviðskipti Íslands hafa í síauknum mæli beinzt frá löndum Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Fyrir stríðið fór um 80% af útflutningi Íslands til Vestur-Evrópulanda og greiðslusvæða, sem þeim voru tengd. Árið 1949 var ástandið mjög svipað. En síðan hefur utanríkisverzlun ykkar beinzt mjög ört að vöruskiptalöndum, svo að nú fara ekki nema 40% af útflutningi ykkar til Vestur-Evrópulanda eða bandalagslanda þeirra, og jafnframt því sem útflutningurinn hefur minnkað, hefur innflutningur ykkar frá Vestur-Evrópulöndum einnig minnkað. Þetta er auðvitað eðli vöruskiptaverzlunar.“

Svo mörg eru þau orð forstjóra Efnahagssamvinnustofnunarinnar, og hann fann ástæðu til þess að byrja erindi sitt með því að lýsa harmi þeirra herra í Efnahagssamvinnustofnuninni yfir því, að viðskipti okkar við lönd þeirra hefðu minnkað og færzt í aðra átt síðan 1949, þ.e. á síðastliðnum 10 árum. Ég vil nú raunar bæta því hér við, að þetta er ekki að öllu leyti rétt hjá honum, að viðskipti okkar við þess í lönd hafi svo mjög mikið minnkað eins og tölurnar benda til. Framleiðsla okkar hefur aukizt, og það er sú framleiðsluaukning, sem að verulegu leyti og kannske að öllu leyti eða rúmlega það hefur farið til vöruskiptalandanna í Suður- og Austur-Evrópu, og þess vegna verður hlutfallið þetta, þó að hin beinu viðskipti við Vestur-Evrópu hafi ekki minnkað eins mikið og tölurnar benda til. Það er ekki algerlega rétt með farið hjá forstjóranum þetta, en því fremur sýnir það, hvert stefnt er, að hann telur þetta mikið harmsefni, að svona skuli þróunin hafa verið hjá okkur. Og skyldi það harmsefni vera eingöngu okkar vegna? Nei, ég vildi ímynda mér, að það væri ekki síður vegna annarra landa, sem telja sig hafa að einhverju leyti misst spón úr aski við það að hafa ekki haldið viðskiptunum 80% við Ísland eins og áður var.

Síðan tekur forstjórinn að ræða nokkuð um þróunina og fer nokkuð mörgum orðum um ástandið í Vestur-Evrópu og kemst þó ekki hjá að viðurkenna beinum orðum, að málefnin þar hafi tekið mjög óæskilega stefnu með stofnun þessara bandalaga tveggja. Og þegar hann heldur áfram að ræða um þetta, kemur fram, að hann getur ekki sagt neitt ákveðið um, hvernig þróunin muni verða í framtíðinni. Mest voru það óákveðnar bollaleggingar, segir beinlínis, að það sé mjög erfitt að segja, hver hún verði, segir að vísu frá því, hver hún eigi að verða og heppilegast sé að verði hún frá sínu sjónarmiði, og kemur svo að endingu að því að ræða um, hvaða möguleikar séu fyrir Íslendinga að kippa þessum viðskiptaháttum í lag, færa þá aftur í það horf, sem var árið 1949, það æskilega horf, sem þá var, og þá er niðurstaðan þessi eina: „Fiskneyzla í Vestur-Evrópu“, segir hann, „er nú minni á íbúa heldur en var fyrir stríð.“ Ekki virðist það nú beinlínis vera neitt ákaflega glæsilegt fyrir okkur að reka viðskipti við þau lönd. En til þess að bæta úr því, fer hann að ræða um það, að efnahagur almennings muni batna á næstu árum í þessum löndum Efnahagssamvinnustofnunarinnar og þá muni fólk fara að neyta meiri fisks og það muni skapa Íslendingum möguleika á því að færa viðskiptin fremur í gamla horfið. Ég verð nú að segja, að mér finnst þarna vera um ákaflega lítilsvert atriði að ræða hvað okkur snertir. Og niðurstaðan er svo sú, tekin orðrétt úr fyrirlestrinum: „að það sé von um aukinn markað með betri afkomu í þessum löndum og nokkrir möguleikar á auknum útflutningi til Bretlands og vaxandi markaði í Vestur-Þýzkalandi.“

Þetta er það, sem hann hefur upp á að bjóða fyrir hönd Efnahagssamvinnustofnunarinnar til okkar, jafnframt því sem hann segist harma það mjög, að viðskipti okkar séu nú ekki nema 40% við lönd Efnahagssamvinnustofnunarinnar og bandalagsmenn þeirra, í staðinn fyrir 80% árið 1949. Mér finnst þetta sýna nokkuð, að hér sé um að ræða allmikla pressu frá þessari stofnun til þess að taka upp þessar efnahagsráðstafanir, sem hér á nú að taka upp samkvæmt þessu frv. og öðrum, sem sumpart eru orðin að lögum og sumpart eiga líklega eftir að verða að lögum á þessu þingi.

Þá ræðir forstjórinn nokkuð hinar íslenzku aðstæður sérstaklega, og verð ég að segja, að þar þykir mér kenna nokkuð mikillar vanþekkingar á því, hverjar þær séu. Það, sem hann tekur sérstaklega til athugunar, er, að við festum of mikið fé í landbúnaði og íbúðarhúsum, og telur hina mestu fjarstæðu, að við skulum festa meira fé í þessum hlutum en gert sé í löndum Vestur-Evrópu almennt. Hér er sýnilega um gersamlega vanþekkingu á því að ræða, hvernig aðstæður voru hér, við skulum segja í stríðslok, að skilja það ekki, að við þurfum að festa meira fé í þessum hlutum en gert er í háþróuðum löndum, þar sem búið er að vera í marga áratugi eða jafnvel aldir að vinna að uppbyggingarverkefni, sem við höfum unnið og erum að reyna að vinna á miklu styttri tíma. Þetta finnst mér benda skýrt til þess, að við megum vara okkur á því að taka allt of beint upp tillögur þessara erlendu hagfræðinga, þótt góðir kunni að vera á sínu sviði heima fyrir, þegar þeir ætla að fara að færa sína reynslu heiman að yfir á okkar aðstæður hér.

Þegar forstjórinn var búinn að ræða um þessi mál, kom hann með tillögur um, hvað við þyrftum að gera til þess að koma okkar efnahagskerfi á þann grundvöll, að við gætum verið færir um að taka upp þessa gömlu viðskiptahætti í Vestur-Evrópu, þ.e. að færa viðskiptin þangað, eins og greinilega kom fram hjá honum í erindinu öllu saman. Og það er alveg furðulega mikil líking með þessum till. hans þar og þeim ráðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp í sambandi við sitt nýja efnahagskerfi hér. Hann segir t.d. að útgjöld til neyzlu verði að aukast hægar en verið hefur. Það er sýnilega verið að reyna að gera með þeim ráðstöfunum, sem hér hafa verið gerðar. Hann segir, að það þurfi að lagfæra fjárhagskerfið þannig, að þeir, sem framleiði til útflutnings, beri ekki skarðan hlut og þarfnist ekki aðstoðar ríkisins, m.ö.o.: þessi till. er beinlínis tekin upp í sambandi við það að afnema útflutningsuppbæturnar. Og svo segir hann: „Gera verður innflutninginn frjálsan, að svo miklu leyti sem frekast er unnt. Ég endurtek, að þetta skilyrði er bráðnauðsynlegt og við höfum reynsluna.“ Það er þetta frv., sem hér er um að ræða, sem beinlínis á að verða til þess að fullnægja þessu skilyrði frá Efnahagssamvinnustofnuninni. En því gerði ég þennan fyrirlestur forstjórans einmitt svo mjög að umtalsefni, að ég vildi sýna fram á, hversu mikil líking er með ráðstöfunum ríkisstj. og þessu nýja efnahagskerfi. Það, sem hann var að sýna okkur fram á, var það, hvað við þyrftum að gera til þess að geta komizt á það sama viðskiptastig og við vorum á 1949, þegar við höfðum 80% af viðskiptum við Vestur-Evrópu og þau lönd, í staðinn fyrir 40% núna. Það er þess vegna ekki tóm fjarstæða eða a.m.k. ekki undarlegt, þó að menn spyrji, hvort hér sé ekki verið að stefna að því að breyta viðskiptunum í þetta horf.

En hvernig er svo reynsla okkar af því, sem forstjórinn var að harma? Hann var að harma það, að við skyldum ekki vera enn á því stigi, sem við vorum á 1949. En hvernig var ástandið hér þá? Það á nú auðvitað ekki að þurfa að rifja það mikið upp, því að ég ætla, að öllum hv. þm. sé það í nokkuð fersku minni, að fyrst eftir stríðið hófust veruleg viðskipti við Sovétríkin og stóðu aðeins í 2 ár, árin 1946 og 1947. Síðan, þegar við gengum í Marshall.-kerfið, féllu þessi viðskipti niður, og þau urðu engin 1949. Upp úr því skapaðist líka markaðskreppa, sem gekk svo langt, að þegar rétt eftir að gengislækkunin var gerð 1950, þrátt fyrir hana, varð þáverandi ríkisstj. að gefa út fyrirskipun um að veiða ekki nema visst magn af okkar helztu útflutningsvöru, þorski og ýsu, til þess að offylla ekki markaðinn, en svo var markaðskreppan orðin mikil. Ef leitað er í Morgunblaðinu frá þessum árum, má finna þar stórar fyrirsagnir yfir þverar síður, þar sem þetta boð ríkisstj. er tilkynnt. Þetta var ástandið, sem við bjuggum þá við, þegar við höfðum um það bil 80% af viðskiptum okkar við lönd Efnahagssamvinnustofnunarinnar og þau lönd, sem þeim voru tengd.

Þegar svo var komið, að sýnilegt var, að stefndi til beint hruns hér á Íslandi, var það fyrst, sem farið var að leita eftir viðskiptum austur á bóginn aftur, og þau tókust. Ég ætla, að það hafi verið fyrst árið 1953, og þá er það fyrst, sem fer að rakna úr með markaðsmöguleikana hjá okkur. Þegar vinstri stjórnin siðan tók við völdum árið 1956, var tekin upp þessi stefna í enn aukinni mynd með því að fara að gera viðskiptasamninga til margra ára í einu, — viðskiptasamninga, sem tryggðu framleiðsluna þannig, að það var alveg öruggt um það að mega framleiða, það var samið um það fyrir fram.

Það er þetta, sem við höfum grætt á því að færa og auka viðskiptin til vöruskiptalandanna, og það er þetta, sem forstjóri Efnahagssamvinnustofnunarinnar var að harma við okkur í hátíðasal háskólans 26. nóv. 1959.

Þegar litið er á þetta allt saman, höfum við reynslu fyrir því, að það er ekki heppilegt allt, sem okkur er boðað úr þessari átt, og það verður að taka það með mjög mikilli varasemi.

Ég ætla líka að benda á eitt enn þá, sem sýnir, að það er ekki af tilviljun hreinni eða neinum vilja til þess að vera með illar getsakir, að hér kemur fram í þessum umr. sá ótti, að þessar ráðstafanir, sem nú á að gera í viðskiptamálum okkar, kunni að leiða til þess, að við töpum þessari mikilvægu aðstöðu, sem við höfum verið að vinna allt síðan 1953 í vöruskiptalöndunum í Austur- og Suðaustur-Evrópu, og ég skal bara vitna í sjálft stjórnarblaðið, Alþýðublaðið, nú fyrir örfáum vikum. Ég hef ekki dagsetninguna að vísu, en það skiptir ekki máli, en þar stendur með stórri fyrirsögn: „20 þús. tunnur af síld í gúanó.“ Þetta er viðtal við helzta útgerðarmann við Faxaflóa, Sturlaug Böðvarsson á Akranesi, þar sem hann segir m.a.:

„Hætta er á því, að 15–20 þús. tunnur af freðsíld fari í gúanó, ef ekki tekst að selja það mjög fljótlega. Hefur skyndilega tekið fyrir sölu síldar til Austur-Evrópu, og blasir nú við vandræðaástand, ef ekki rætist úr fljótlega.“

Síðan segir blaðið:

„Eitthvað á þessa leið fórust Sturlaugi Böðvarssyni útgerðarmanni á Akranesi orð í viðtali við blaðið í gær. Sturlaugur sagði, að síld þessi hefði einkum veiðzt í desember og væri hún feit, þyldi hún því ekki mikla geymslu…. Sturlaugur sagði, að freðsíldin hefði alltaf undanfarin ár selzt jafnóðum og hefði hann búizt við, að eins yrði þetta nú. En nú væri skyndilega ókleift með öllu að selja þessa síld austur á bóginn og mundi ástæðan vera sú, að dregið hefði verið úr innflutningi frá vöruskiptalöndum í Austur-Evrópu. Munu innflytjendur vera að bíða eftir væntanlegum frílista og halda að sér hendinni um innflutning að austan á meðan, en afleiðing þess er svo sú, að ekki er unnt að selja vörurnar austur. Mun þar einnig tregara um sölu freðfisks og fiskimjöls af sömu ástæðum.“

Þetta sýnir, að það eru ekki, eins og ég sagði, tómar illar getsakir, þó að nokkuð beri á þeim ugg, að hér sé ekki stefnt í heppilega og rétta átt í viðskiptamálum Íslands með þessu frv.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég líka minnast örfáum orðum á það atriði, sem gert er ráð fyrir að eigi sérstaklega að hjálpa okkur til þess að taka upp þessa nýju viðskiptahætti, og það eru þau 800 millj. kr. lán, sem er gert ráð fyrir að taka hjá lánastofnunum erlendum, til þess að við getum byrjað meiri innflutning frá þessum löndum Vestur-Evrópu og annars staðar og aukið síðan möguleikana á því að halda þeim áfram. Og ég man það, að hæstv. viðskmrh, sagði í ræðu um þetta mál fyrir fáum dögum, að það, sem hefði verið aðalástæðan til þess, að áhrif gengislækkunarinnar 1950 tókust ekki eins og til var stofnað, hefði verið sú, að þá vantaði okkur að taka svipað lán til þess að geta byrjað að fitja upp á þessum nýju efnahagsráðstöfunum.

Hvað liggur nú fólgið í því að taka þetta lán, sem yfirlýst er að ekki megi nota til fjárfestingar að neinu leyti, heldur aðeins til neyzlu, ekki til þess að byggja upp atvinnuvegi fyrir framtíðina og auka framleiðsluna í framtíðinni, heldur til þess að kaupa með neyzluvörur? Það liggur í því nánast það, að við megum vera búnir fyrir fram að eyða því fé, sem við ætlum að kaupa fyrir neyzluvörur, áður en útflutningsvörurnar móti því eru framleiddar. Og hver getur afleiðingin svo orðið önnur en sú, að þegar við erum búnir að binda okkur með því að eyða þessu fyrir fram, þá erum við jafnframt bundnir á þann klafa að verða að selja framleiðsluvörurnar upp í þetta lán, einkum þar sem það á ekki að vera nema til örstutts tíma.

Nei, ég ætla, að það hefði skeð annað, ef við hefðum farið þessa leið 1950. Þá hefði líklega skeð annað. Við hefðum líklega bundið okkur svo fast á þann vestræna viðskiptaklafa, að við hefðum aldrei komizt úr þeim kút. Árin 1954–58 óx verðmæti útflutnings okkar um 200 millj. kr., og það varð enn aukning 1959. Ég hef ekki tölurnar hjá mér núna, en ég ætla, að það sé ekki of mikið sagt, að á þessum árum, 1954–59, hafi verðmæti útflutningsins vaxið um 30%. En skyldi það hafa gerzt, ef við hefðum verið fyrir fram bundnir af álíka skuldaklafa og þetta lán virðist munu binda okkur nú? Ég efast um það. Og ég held, að það megi færa dæmið dálítið lengra út. Hefðum við verið þrælbundnir á þennan viðskiptaklafa öll þessi ár og aldrei getað komizt verulega að þeim mörkuðum, sem hafa skapað okkur möguleika til þessarar miklu útflutningsframleiðsluaukningar, þá hefðum við líklega ekki getað staðið okkur eins vel í landhelgismálinu og við höfum gert. Það hefði líklega getað farið svo, að við hefðum ekki treyst okkur til þess að halda út beinlínis hernað við Breta jafnlangan tíma og okkur tókst að gera, þangað til við fengum þá tiltölulega heppilegu lausn á nýafstaðinni landhelgisráðstefnu eins og við fengum. Ég held, að þetta sýni, að þegar þessi saga er rakin öll og skoðuð í samhengi og þegar virkilega er borið saman, hvað það er, sem háttv. leiðtogar Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu eru að leggja að okkur að gera og hæstv. ríkisstj. er að gera, að það sé óhætt að slá því nokkurn veginn föstu, að hér sé verið að leggja inn á verulega hættulega braut, verulega hættulega fyrir okkur, ekki sízt þegar hún er skoðuð í því ljósi, að einmitt aðalleiðtogi Efnahagssamvinnustofnunarinnar hér harmaði það, að við skyldum komast úr þeim efnahagslega kút, sem við komumst úr við það, að við tókum upp viðskiptin austur á bóginn og höfðum ekki haldið nema 40% af viðskiptum okkar við lönd Efnahagssamvinnustofnunarinnar nú allra síðustu árin.