19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er nú kominn til okkar gamall kunningi hér, og er auðséð, að hann ætlar að gera allviðreist um deildir þingsins. Hann er búinn að vera við þrjár umræður í þessari deild og þrjár umræður í efri deild, er nú kominn til einnar umræðu aftur hér í neðri deild og á nú eftir að fara til einnar umræðu í efri deild. Greinilegt er, að ekki hefur verið vel hugsað og vel undirbúið, þegar þetta mál var búið undir að leggja það fyrir þingið, og auðséð er, að svo lengi sem þetta mál verður til umr. í þinginu, mun alltaf þurfa að breyta því að nýju, að vísu ekki mikið, vegna þess að það er svo lítið, sem hæstv. ríkisstj. sér í hvert sinn, og afleiðingarnar af hennar ráðslagi koma ekki svo fljótt fram, að hún með sinni döpru sjón fái séð nema svo lítið af þeim, að þetta litla, sem hún er að káka eða laga frv., kemur náttúrlega anzi seint. Það er svo komið hjá okkur nú í þessari hv. d., að öll þau þrjú mál þingsins, sem eru höfuðmálin í þessum efnum, efnahagsmálin, þau eru komin hér aftur og eiga nú aftur að fara í gegnum þrjár umræður hér. Frelsið er nú komið til okkar aftur úr Ed. og á að endursendast til Ed., og verðlagsmálin bíða ósköp róleg hér hjá okkur í n. Og þegar hæstv. ráðh. var að fara fram á, að þessu yrði hraðað ákaflega mikið, datt mér í hug, að hæstv. ríkisstj. hefði vitað það allan tímann, að það væri ekki hægt að samþykkja þetta mál og láta ganga frá því og láta forseta undirskrifa það fyrr en á sama tíma og verðlagsmálin. Og það er ekki langt síðan verðlagsmálin komu frá hæstv. ríkisstj., og þau eru enn þá í nefnd í fyrri deild, og þýðir ekkert að hraða þessu í gegnum þingið, fyrr en verðlagsmálin fara um leið, svo að það hefur sannarlega ekki staðið á þinginu með þetta. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki áttað sig á, hvernig hún ætti að hafa verðlagsmálin, og virtist það ekki sérstaklega erfitt mál fyrr en rétt núna nýlega, og vissi þó, að það átti að verða samferða frelsinu. Það er þess vegna til lítils að fara fram á við d., að hún flýti sér. Það er alveg sama, hvað mikið hún flýtir sér, þó að hún fari að hlaupa að því að afgreiða þetta. Verðlagið biður, og það er ekki hægt að undirskrifa lögin fyrr. Hins vegar er eitt gott við þetta, og það er, að hæstv. ríkisstj. er smátt og smátt að átta sig á, að það sé nokkuð margt að athuga við þessa leið, sem hún er nú að fara inn á.

Í Ed. hefur sú breyt. orðið á, að inn í lög um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála hefur verið bætt ákvæði til bráðabirgða viðvíkjandi tollskrá. M.ö.o.: hæstv. ríkisstj. hefur áttað sig á vissum afleiðingum viðvíkjandi efnivörum til skógerðar í sambandi við frelsið og bætt því aftan við á kvæðið til bráðabirgða. Svo þegar kemur hingað, uppgötvar hæstv. ríkisstj. í viðbót, að hún muni eitthvað þurfa að gera í bílamálum. Bílamál voru allmikið rædd, þegar þetta mál var til umr. hér í þessari hv. d., og þá var hæstv. ríkisstj. ekki búin að átta sig á, hvað hún ætti að gera í þeim málum. Nú hefur hún fundið þarna úrræði, sem út af fyrir sig er alls ekki svo slæmt, en ég gæti trúað, ef hæstv. ríkisstj. heldur svona áfram, þá mundi hún þurfa að gefa út brbl., eftir að þingið færi heim, að meðaltali ein í viku, til þess að bæta við þessi lög, til þess að allt reki ekki jafnóðum í strand hjá henni.

Hæstv. viðskmrh. talaði um það í framsögu sinni fyrir brtt., sem gerð var í Ed., að það væri auðséð, að íslenzkur iðnaður yrði að fá ráðrúm til þess að búa sig undir samkeppni. Jú, það eru einmitt þessar hugmyndir, sem vaka fyrir hæstv. ríkisstj., að hún er að tala um, að íslenzkur iðnaður og ýmislegt hér á Íslandi þurfi að fá ráðrúm til þess að búa sig undir erlenda samkeppni. En það, sem hæstv. ríkisstj. þarf að athuga í þessu sambandi, er, hvort er rétt að leggja íslenzkan iðnað undir erlenda samkeppni eða hvort hæstv. ríkisstj. gerir sér það ljóst, að hún er að leggja svo og svo mikið af öllu íslenzku atvinnulífi á höggstokkinn með þessu. Hvaða lögmál er það í veröldinni, sem segir, að hjá einni þjóð, sem telur 170–180 þús. manns, skuli vera hægt að hafa iðju eða iðnað, sem getur staðizt samkeppni við hvaða erlendan iðnað sem vera skal? Það er þetta, sem þarf að athuga, áður en svona er rasað um ráð fram. Hæstv. ríkisstj. er að uppgötva þetta vegna þess, að einhver einn aðili kemur og segir: Það stendur svona voðalega á hjá mér. E.t.v. stendur svo á, að það er yfirvofandi atvinnuleysi í viðkomandi greinum og annað slíkt, og það þarf að fara að laga þetta, m.ö.o.: það þarf alltaf að vera að endurskoða þetta. En þetta er vegna þess, að prinsipið sjálft er rangt. Það er rangt að ganga út frá því sem prinsipi, að sá iðnaður, sem við rekum á Íslandi, þurfi endilega að vera samkeppnisfær við allan útlendan iðnað. Það er rangt prinsip, og ef það prinsip ætti að framkvæmast, þá mundi það þýða, að íslenzkur iðnaður væri nokkurn veginn lagður að velli. Út frá hverju höfum við myndað iðnað á Íslandi? Út frá hvaða sjónarmiði? Höfum við myndað hann út frá því sjónarmiði, að hann ætti að geta keppt við gamlan, rótgróinn, ríkan iðnað Englands, Þýzkalands, Frakklands, Ameríku eða slíkra? Nei. Út frá hverju höfum við myndað hann? Við höfum myndað hann út frá því sjónarmiði, að fólk þyrfti að lifa á Íslandi, að fólk þyrfti að hafa atvinnu á Íslandi. Við höfum myndað þennan iðnað sérstaklega eftir 1934, þegar stoðirnar brustu erlendis undan okkar saltfisksverzlun á heimsmarkaðnum og atvinnuleysið var það mikið, að sultur svarf að verkamönnum hér á Íslandi. Þá reyndum við að koma upp ákaflega ófullkomnum iðnaði, til þess að reyna að bjargast einhvern veginn, til þess að láta fólk ekki svelta. Og við sköpuðum þennan iðnað til þess að menn gætu lifað og menn gætu komizt af og menn gætu haft atvinnu. Það var tilgangurinn. Það var ekki tilgangurinn að skapa einhvern iðnað, sem ætti að vera samkeppnisfær við allan heiminn, við voldugustu auðhringa veraldarinnar. Við ætluðum ekki að gera líf íslenzkra manna að leiksoppi í baráttunni við slíka aðila. Þessu sjónarmiði verður Ísland að halda, ef íslenzk ríkisstj. ætlar að hugsa um farsæld þeirra manna, sem í landinu lifa. Og hugsi hún ekki um farsæld þeirra, verður hún ekki langlíf í landinu. Þess vegna er það prinsip, sem þarna er tekið upp, þessi frjálsa samkeppni, það er rangt, það er skaðlegt, það er fjandsamlegt Íslendingum. Það verk að leggja íslenzkan iðnað undir samkeppni erlendra auðhringa er sama sem að reyna að drepa niður atvinnulíf á Íslandi. Hitt er allt annað mál, að það má á ýmsan hátt skapa aðhald að iðnaðinum hérna. Ég vil vissulega ekki mæla með þeim iðnaði, sem þýðir kannske að flytja inn eitthvert fegrunarduft og hella því í poka hérna.

En hvernig hafa þær stóru þjóðir, sem hafa unnið sinn iðnað upp, farið að? England skapar sinn iðnað á grundvelli þess, að það er fyrst í veröldinni af öllum þjóðum til þess að ryðja iðnaði braut. Gufuvélin og annað slíkt er fundið upp í því landi. Kolin gefa því aðstöðu til þess að hagnýta það, og England situr inni með einokun vegna sinna auðæfa og vegna sinnar tækni á 19. öldinni. Hvernig byrja svo hinar stórþjóðirnar, eins og Þýzkaland? Þær byrja með tollverndun. Á hverju er Þýzkaland fyrst sameinað? Sem tollabandalag. Um hvað? Um að útiloka brezkar vörur. Um hvað standa Napoleons-styrjaldirnar? Um það, að franska borgarastéttin reynir að sameina meginland Evrópu á móti brezka iðnaðinum, skapa sér vernd, hervernd, tollvernd, einokun á móti brezka iðnaðinum. Þessar stórþjóðir, sem við ætlum að fara að leggja okkar iðnað á höggstokkinn hjá núna, hafa sjálfar skapað sér sinn iðnað með áratuga, með aldar vernd til þess að koma upp því, sem nú er orðið stóriðja, hvort sem það heitir Krupp eða annað. Svo eru blindingjar hér á Íslandi, sem halda, að við getum komið upp iðnaði og haldið uppi iðnaði í frjálsri samkeppni við þessa auðjöfra, sem fyrir löngu eru búnir að afskrifa allt þetta.

Ég vil, að þeir menn, sem berjast fyrir þeirri stefnu að opna Ísland svona, geri sér ljóst, að þeir eru erindrekar þessara útlendu auðhringa og eru að vinna á móti hagsmunum Íslands. Hvort sem þeim er það ljóst í dag eða ekki, gera þeir það óafvitandi eða vísvitandi eftir því, hve glöggir þeir eru á, hvað þeir eru að gera. Það, sem þarna er um að ræða, er að drepa íslenzkan iðnað smátt og smátt eða láta innlima hann í þá útlendu auðhringa. Það að ætla að gefa honum ráðrúm til þess að búa sig undir samkeppni við þá, það er sama sem að búa hann undir að falla. Þar með er ég ekki að segja, að við eigum endilega að halda uppi öllum iðnaðinum, sem nú er í landinu. Ég get fyllilega fallizt á, að sumt af þeim iðnaði mætti fara, um leið og við værum búnir að finna út annan iðnað, þar sem við erum sterkari, þar sem við erum raunverulega samkeppnisfærari. En við eigum að halda einu prinsipi, einni höfuðreglu í þessu sambandi, og það er, að hver einasti Íslendingur hafi atvinnu. En það á ekki langt í land með þeirri stefnu, sem nú er tekin upp, að hér verði atvinnuleysi. Þegar svona stefna er tekin upp viðvíkjandi iðnaðinum og það er sagt, að hann eigi að búa sig undir samkeppni, þá vil ég leyfa mér að koma með eina fsp. til hæstv. ríkisstj., svo að ég endurtaki ekki neitt af því, sem áður hefur verið rætt hér um og oft hefur verið reynt að benda henni á, til þess að koma vitinu fyrir hana. Ef ætlazt er til þess, að íslenzkur iðnaður standist samkeppni og hann eigi bara að fá kannske sex mánuði til þess að búa sig undir að fara á höggstokkinn, er þá ekki til einn atvinnuvegur í þessu landi, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur þó ástæðu til þess að ætla, að við stöndumst samkeppni? Ég held, að svo sé. Ég held, að það sé til einn atvinnuvegur í þessu landi, þar sem hægt sé að ganga út frá, að við höfum öll náttúrleg skilyrði til þess að standast samkeppni við hvaða land Evrópu sem er.

Eftir hverju mælum við í iðnaðinunm, þegar við erum að tala um, hvort maður standist samkeppni og hvort viðkomandi iðnaður þoli svo og svo mikið kaup? Við mælum eftir afköstum. Ef við höfum gífurleg afköst á mann, segjum við um leið: Við stöndumst samkeppni, okkur er óhætt í samkeppni. — Og ég skal nú nefna eina grein hér á Íslandi, sem mönnum er að vísu ekki ókunn, þar sem við stöndumst alla samkeppni í þessu sambandi. Hún heitir sjávarútvegur. Í fiskveiðum framleiðum við nú á hvern sjómann 100 tonn, 100 smálestir af fiski, framleiddum fyrir nokkrum árum 70 smál. af fiski á hvern sjómann, ekki á hvern landsbúa. Og þeir næstu, sem koma í heiminum á eftir okkur, eru Norðmenn, þar sem hver sjómaður framleiddi 10 tonn á mann. M.ö.o.: þarna er ein grein, sem hæstv. ríkisstj. hlýtur þó að viðurkenna að standi betur að vígi til samkeppni en nokkur önnur grein í heimi. Og nú vil ég spyrja, — það er verst, að sjútvmrh. skuli ekki vera hér við: Hvernig stendur nú Ísland að vígi í sambandi við samkeppni úti í heimi um fisk, með því að búa eins að sínum sjómönnum og fiskimönnum og aðrar þjóðir, t.d. Norðmenn? Hvernig stöndum við? Vill hæstv. viðskmrh. svara þeirri spurningu minni, hvernig á því stendur, að það verð, sem norsk hraðfrystihús og norskar fiskverkunarstöðvar borga, er í dag tvöfalt hærra en það verð, sem hraðfrystihúsin og aðrar verkunarstöðvar hér á Íslandi borga til sjómanna og fiskimanna? Ég býst við, að ríkisstj. geri sér það ljóst, að þegar frelsið, sem hún er að tala um, er komið á, þá geri íslenzk sjómanna- og fiskimannastétt kröfu til þess að fá þó a.m.k. eins gott verð og Norðmenn, ekki sízt þegar við höfum tíu sinnum meiri afköst á hvern mann. Og ég er hræddur um, að það sé ekki ósanngjörn krafa út frá því, sem hæstv. viðskmrh, og hagfræðingar ríkisstj. hafa sagt um, hverju afköstin eigi að ráða í þessum efnum. Hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar um leið lýst því yfir, að hún áliti, að sjómenn megi ekki hækka sitt kaup, og það hefur jafnvel verið lögbundið við þriðjung af því verði, sem sjómenn fá í Noregi. Dettur hæstv. ríkisstj. í hug, að þetta verði þolað? Dettur hæstv. ríkisstj. í hug, að íslenzkir sjómenn, sem afkasta tíu sinnum meira en norskir, muni sætta sig við að hafa helming eða þriðjung verðs fyrir afla sinn á móts við Norðmenn? Er þetta frelsið, sem ríkisstj. er að innleiða? Og ef þetta á að vera útkoman með þá íslenzku atvinnugrein, þar sem við stöndum bezt að vígi og okkar afköst eru mest, hvernig verður það þá með iðnaðinn, ef á að fara að leggja hann undir samkeppni, — eða er það meiningin bara að drepa hann, til þess að fá mátulegt atvinnuleysi og mátulegan markað, eftir því sem fátækt fólk getur keypt fyrir vörur okkar vestrænu vina, af því að þeir eru alltaf í vandræðum með að selja þær? Og ekki nóg með það, að verðið, sem sjómennirnir og fiskimennirnir fá, sé svona lágt. Hæstv. ríkisstj. er búin að breyta um stefnu, síðan við vorum seinast að ræða um þetta mál í þessari hv. d,, þetta mál um frelsið, þetta mál um, að atvinnurekendur ættu að standa á eigin fótum, þetta mál um, að ríkisstj. ætli ekki að skipta sér af atvinnulífinu. Hún er búin að taka upp uppbætur. Hún er búin að skipta sér af samningum þeirra, sem selja fiskinn, og þeirra, sem kaupa hann. Og það liggur hér fyrir hjá okkur í fjhn. þessarar d. frv. um breyt. á efnahagslögunum, sem fer fram á að staðfesta slíka breyt. M.ö.o.: ríkisstj., sem talar um að kasta Íslandi út í hringiðu vitlausrar samkeppni, er að leggja íslenzkan iðnað á höggstokkinn, ef hann fái ekki staðizt.

Hæstv. ríkisstj. hefur, síðan við vorum seinast með þetta mál hér í d., tekið upp uppbætur. Hún hefur skipt sér af samningum fiskseljenda og fiskkaupenda. Og þetta hefur hún gert á sviði, þar sem Ísland stendur bezt að vígi í samkeppni að hugsanlegt er og þar sem samt sem áður þeim mönnum, sem fisksins afla, er skammtaður helmingur til þriðjungur á móts við það, sem Norðmenn skammta sínum sjómönnum, sem hafa tíu sinnum minni afköst en Íslendingar.

Finnst nú ekki hæstv, ríkisstj. vera tími til kominn fyrir hana að fara að endurskoða þetta mál? Eru þetta ekki dálítið harðar staðreyndir fyrir hana að reka sig á? Hún prédikar, að afköstin eigi öllu að ráða í þessum efnum, ef afköstin hjá sjómönnum vaxa, þá eigi líka kaupið að geta vaxið og annað slíkt. Við sýnum fram á, að norskir sjómenn og fiskimenn hafa tvöfalt verð fyrir fiskinn á móts við okkar sjómenn. Hæstv. ríkisstj. segir: Hér má ekki hækka, við verðum þvert á móti að lögbinda fiskverðið. — Hæstv. ríkisstj. neyðist til þess á sama tíma að viðurkenna, að við höfum tíföld afköst, hver okkar sjómaður, á við norska sjómenn. Með hverju ætlar hæstv. ríkisstj. að verja þessa efnahagsstefnu, sem hún er að fara inn á með þessu frelsi? Þetta stangast allt á við hörðustu staðreyndir í þessum efnum. Ég er hræddur um, að það sé óhjákvæmilegt að breyta þessu.

Og nú vil ég minna hæstv. viðskmrh. á, að í 8. gr. þessa frv. er við haldið einokun á útflutningi. Má ég spyrja hæstv. viðskmrh., þó að það sé ákaflega leiðinleg spurning: Ef norskir atvinnurekendur geta borgað norskum sjómönnum og fiskimönnum miklu hærra verð en við okkar fiskimönnum fyrir fiskinn, er þá ekki rétt, að þessir atvinnurekendur þarna í Noregi fái að keppa líka hérna á Íslandi? Er nokkur ástæða til þess að reka þá burt? Þeir gerðu það einu sinni. Er nokkur ástæða til þess að gefa þessum íslenzku atvinnurekendum sérréttindi, ef þeir standa sig ekki betur en þetta? Ég er með því, að við Íslendingar eigum að hafa okkar atvinnurekstur sjálfir. En í sjávarútvegi á hann sannarlega að geta staðizt. Og mér er spurn: Er nokkur þörf á að hrúga upp slíkum ofsagróða í sjávarútveginum, hjá hraðfrystihúsum eða slíku, að sjómenn og útvegsmenn séu féflettir hér á Íslandi meira en sjómenn í okkar nágrannalöndum? Eða ef okkar atvinnurekendur og okkar hraðfrystihús jafnvel berjast í bökkum og græða ekki, þá er það enn þá verra, ef þeir eru svo lélegir í sínum atvinnurekstri, að með tíföldum afköstum sjómannanna, sem hjá þeim eru, á móts við norska sjómenn, geta þeir ekki einu sinni gefið þeim það sama og norskir atvinnurekendur gefa sínum sjómönnum.

Hvað gerir hæstv. ríkisstj. viðvíkjandi þessum íslenzku atvinnurekendum, sem svona standa sig? Hún er að gefa þeim einkaréttindi með þessum lögum, einokun, viðhalda einokuninni. Þorir hún að innleiða frjálsa samkeppni þarna? Þorir hún það, þegar hún er að prédika, að íslenzkan iðnað eigi að leggja á höggstokkinn, eigi að leggja hann undir samkeppni, gefa honum ráðrúm til þess að búa sig undir samkeppni, — þorir hún að láta íslenzka atvinnurekendur verða að þola samkeppni hér á Íslandi? Vill hún gefa fiskverzlunina frjálsa, fiskkaupin? Vill hún leyfa íslenzkum sjómönnum, sem framleiða tífalt á við norska sjómenn, að reyna sjálfir að ráðstafa sínum fiski betur en einokunarhringur ríkisstj. gerir? Það er auðvelt að tala um frelsi og segja svo við íslenzku sjómennina: Þið skuluð vera svínbundnir. Ykkar fiskverð skal vera ákveðið með lögum. Það skal vera helmingur og niður í þriðjung af því, sem norskir sjómenn fá. Fiskhringarnir á Íslandi skulu hafa einokun. En auðhringar í Vestur-Evrópu skulu vera frjálsir að því að leggja íslenzkan iðnað í rústir.

Nú vil ég alvarlega vara hæstv. ríkisstj. við. Nú er hún tvisvar búin að breyta þessu frv., eftir að það er búið að vera í báðum deildum. Nú vil ég alvarlega vara hana við. Ég held, að hún ætti að láta þetta mál fara til fjhn. til athugunar. Málinu liggur hvort sem er ekkert á, fyrr en verðlagsmálin fara í gegn. Það er ekki hægt að staðfesta lögin fyrr. En ég er alveg víss í, að með hverjum deginum koma hinar hrapallegu afleiðingar af vitlausri pólitík ríkisstj. svo greinilega í ljós, að jafnvel sjálf hæstv. ríkisstj. kemst ekki hjá því að sjá þær, enda er hæstv. viðskmrh., sem er allur af vilja gerður til þess að laga þetta, jafnóðum og hann sér það, alltaf að breyta þessum lögum. Hann sér, að hans sérfræðingum hefur yfirsézt anzi margt, þeir hafa ekki bara reiknað allt vitlaust. Ég held þess vegna, að við eigum að láta þetta mál núna fara til fjhn. og okkur eigi að gefast í fjhn. aðstaða til þess að yfirheyra bæði hv. 3. þm. Austf. (EinS), sem er mjög kunnugur hraðfrystihúsamálum o.fl., um, hvernig standi á þessu með fiskverðið, því að ég vil benda hæstv. viðskmrh. á það, að ef hann ekki tekur tillit til þess, sem ég segi núna viðvíkjandi þessu fiskverði, og við síðan tökum þetta upp í sambandi við önnur mál hér, þá getur svo farið, að ríkisstj. neyðist til þess að breyta þessu máli, þegar það er komið til Ed. Og hæstv. ríkisstj. er ljóst, hvað þá tekur við. Þegar hæstv. ríkisstj. neyðist til þess að breyta þessu máli í Ed., fer málið í sameinað þing, og þar þarf það 2/3 atkv. til að samþykkjast, þannig að það er öruggt með að falla. Þetta mál er sem sé komið á heljarþröm hjá hæstv. ríkisstj., ekki bara hvað snertir þess efnislega innihald og alla þess stefnu, heldur líka hvað sjálft formið snertir. Öngþveitið í þessari stefnu ríkisstj. er að verða svo bert, að henni er bezt að hafa nú góðra manna ráð og gefa okkur nú tækifæri til þess að athuga um 8. gr., hvort ekki sé nú bezt, um leið og við erum með þetta í þessari d., ef ríkisstj. ætlar að halda áfram frelsinu sínu, að frelsa Íslendinga líka af einokun núverandi fiskhringa með tilliti til þeirra upplýsinga, sem nú eru komnar fram.

Ég skal láta útrætt um þennan hluta málsins, en geri það að till. minni, að málinu sé vísað til fjhn. til athugunar, og er það af einskærri umhyggju fyrir hæstv. ríkisstjórn, svo að hún glopri nú ekki þessu máli út úr höndunum á sér, svo að það falli nú í þinginu, því að það er alltaf óviðkunnanlegt, að svona mál falli af hreinum klaufaskap. Það er viðkunnanlegra, að það falli þannig, að Alþingi sé orðið ljóst, meiri hluta þess, að þetta sé tóm vitleysa.

En ég vil að síðustu koma hér inn á eitt mál, sem ég ræddi nokkuð við hæstv. ráðh., þegar málið var til umr. hér, og það er í sambandi við viðskiptin austur á bóginn og í sambandi við eitt atriði í þeim, og það er um þá verksmiðju, sem framleiðir hér sjólax í Reykjavík, og þá verksmiðju, sem nú er verið að reisa á Akureyri og ég sé einmitt að fréttir eru nú í blöðunum að sé þar í byggingu til þess að framleiða þar líka sjólax og sardínur. Eins og hæstv. viðskmrh. og hv. þd. man eftir, upplýsti ég, að það lágu hér fyrir vörur fyrir um 2 millj. kr. óseldar, þegar þetta mál var til umr. hér síðast. Síðan hefur verið gerð athugun á því að undirlagi þeirra manna, sem þessa verksmiðju eiga og reka, hvort hægt sé að tryggja markað fyrir þessa vöru. Og það er komið í ljós og liggur fyrir samningsuppkast um, að Tékkar eru reiðubúnir til kaupa á síðari hluta þessa árs fyrir 10 millj. ísl. kr. sjólax og sardínur frá þessari verksmiðju og þeirri verksmiðju, sem verið er að undirbúa á Akureyri. Og það er hægt að auka þetta, samningurinn um það liggur fyrir. Ég hef uppkast að þeim samningi. Og það liggur enn fremur fyrir munnlegt, að það mundi vera hægt að auka þetta um 5 millj. líka á síðari hluta þessa árs. Nú er það eitt, sem hefur verið helzta áhugamál okkar Íslendinga í sambandi við sjávarútveg, það er að reyna að tryggja okkur markaði fyrir niðursuðuvörur, og við höfum átt í miklum erfiðleikum með það. Það hefur hvað eftir annað verið farið af stað með niðursuðuvörur. Okkur hefur misheppnazt ýmislegt af því. Það þarf, eins og menn vita, mjög mikla sérþekkingu í sambandi við það, mjög mikla vöruvöndun, og við vitum, hve því er oft ábótavant hjá okkur. Nú virðist þetta hafa tekizt vel hvað vöruvöndun snertir, bæði hér í Reykjavík með þetta fyrirtæki og með þetta fyrirtæki á Akureyri, þannig að þarna höfum við tvær verksmiðjur, sem virðast hafa yfirunnið þann þröskuld, sem hefur verið okkur erfiðastur í niðursuðumálunum, og eru búnar að vinna sér álit og viðurkenningu og geta nú fengið á síðari hluta þessa árs, bara í Tékkóslóvakíu einni, — ég efast ekki um, að það er líka hægt í Austur-Þýzkalandi, — markaði upp á 15 millj. kr. En það þýðir, að það þarf að kaupa vörur í staðinn. Það þýðir, að það þarf að kaupa skófatnað og vefnaðarvörur í staðinn. Það þýðir m.ö.o., að það verður að endurskoða þessa frílistapólitík, sem hæstv. ríkisstj. er með.

Það er ekki hægt að ætla að kippa grundvellinum undan efnilegum íslenzkum iðnaði, iðnaði á því sviði, þar sem við eigum að vera samkeppnisfærastir allra í veröldinni, sjávarútveginum, iðnaði, þar sem fullkomin úrvinnsla úr sjávarafurðunum, einmitt með niðursuðu, er framkvæmd. Það er ekki hægt fyrir okkur að kippa grundvellinum undan þessu. Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur, hvað það þýðir, ef þetta er gert núna, ef það er hægt að semja þarna um 15 millj. kr., bara á síðari hluta þessa árs. Það þýðir, að næsta ár getum við selt til Tékkóslóvakíu einnar frá þessum verksmiðjum fyrir 30 millj. ísl. króna niðursuðuvörur og fengið skófatnað og vefnaðarvörur í staðinn. En þetta þýðir, að það verður að vera einhver ábyrgðartilfinning, einhver yfirstjórn, afskipti ríkisstj. af þessum málum. Það þýðir, að skófatnaður og vefnaðarvara má ekki vera frjáls, algerlega frjáls. Það þýðir, að við Íslendingar verðum að stjórna þessu, hvar við kaupum inn og hvað mikið við kaupum inn.

Ég vil aðeins benda á þetta, af því að við vorum að tala um þetta hér við 2. eða 3. umr. þessa máls í deildinni, og hæstv. viðskmrh. var mjög áhyggjufullur út af því, að það liti þunglega út með þessa verksmiðju hér, sem lægi þarna með 2 millj. kr. í birgðum, og framtíðarhorfur verksmiðjunnar á Akureyri væru ekki heldur góðar, ef þessi markaður nú dytti niður.

Nú, hálfum mánuði síðar, stöndum við frammi fyrir því, að þessi markaður er til, það er hægt að stórauka hann. Það er hægt að koma upp í 15 millj. ísl. króna bara á síðari hluta þessa árs niðursuðuvörum, sem við seljum til Tékkóslóvakíu einnar, eða 30 millj. kr. á næsta ári, og ég efast ekki um, að það er hægt að selja meira en þetta í Austur-Þýzkalandi. Eina spursmálið er, að við verðum að geta keypt inn í staðinn. Við verðum að geta haft stjórn á því. Ég vildi aðeins spyrja hæstv. viðskmrh., hvort hann að sínu leyti, eins og hann líka lofaði í sambandi við þetta mál, þegar ég spurði hann að því, meðan það var hér til reglulegrar umræðu í deildinni, vil] vinna að þessu. Ég efast ekki um hans góða vilja, en ég veit, að hann rekur sig alltaf á galla þessa kerfis, sem verið er að taka upp.

Þetta kerfi verzlunarfrelsisins svokallaða, svo fagurlega sem það hljómar, það þjónar ekki hagsmunum Íslendinga, það þjónar ekki hagsmunum okkar frekar en það hefur þjónað hagsmunum Þjóðverja 1870 að ætla að sleppa allri tollvernd síns iðnaðar gagnvart Englandi. Við verðum að vinna þennan iðnað okkar upp. Við verðum að verða stórir og voldugir á vissum sviðum, og við verðum að vernda þetta á meðan, vernda það með því að vernda markaði þess, vernda markaði þess með því að stjórna innkaupunum til Íslands.

Það er mín till., að þessu máli sé vísað til fjhn., við erum þar með þessi mál öll hin, og það hefur aldrei staðið á okkur að afgreiða þessi mál. En ég held það væri mjög heillavænlegt, m.a. til þess að tefja ekki umræðurnar um þessi mál hér, að fjhn. fengi að athuga þetta, ekki sízt í sambandi við þær nýju upplýsingar, sem komið hafa fram viðvíkjandi fiskverðinu síðan, og þá fyrirspurn, sem ég nú hef gert viðvíkjandi niðursuðuiðnaðinum.