23.05.1960
Neðri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2521 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

150. mál, Verslunarbanki Íslands h.f.

Frsm. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Fjhn. hv. deildar hefur haft frv. til laga um Verzlunarbanka Íslands h/f á þskj. 391 til meðferðar og rætt efni þess á þremur fundum.

Á einum fundanna mætti hæstv. viðskmrh. og gerði grein fyrir frv. og væntanlegri reglugerð, sem gert er ráð fyrir að út verði gefin samkvæmt 7. gr. frv. Þá ræddu einstakir nm. við forráðamenn Verzlunarsparisjóðsins, og sömuleiðis var leitað umsagnar stjórnar seðlabankans um málið.

Nefndin er á einu máli um að mæla með samþykkt frv., þar sem sparisjóðsformið er ekki lengur heppilegt fyrir þá tegund viðskipta, sem Verzlunarsparisjóðurinn rekur, enda bankarekstrarformið hið eðlilega fyrir svo umfangsmikil peningaviðskipti. Þá munu nm. og vera þeirrar skoðunar, að í íslenzkum þjóðarbúskap geti verið æskilegt, að bankar með mismunandi rekstrarfyrirkomulagi, ríkisbankar, einkabankar og samvinnubankar, starfi jöfnum höndum og hlið við hlið, þótt einstaka nefndarmenn greini vissulega á um, hvert þessara rekstrarforma sé hið æskilega í öllum almennum atvinnurekstri landsmanna.

Með stofnun Verzlunarbanka Íslands h/f væri stigið nýtt spor í þróunarsögu íslenzkra bankamála, því að hann er fyrirhugaður sem alger einkabanki, byggður upp einvörðungu af innlendu einkafjármagni, en mundi þó njóta sömu skattfríðinda og aðrir bankar landsmanna, sem ýmist hafa að öllu eða að hluta verið ríkiseign. Það sýnist því ekki óeðlilegt, að gerð sé örstutt grein fyrir hinum ýmsu rekstrarformum, sem íslenzkum bönkum hafa frá upphafi verið sniðin, og þá sér í lagi, með hvaða hætti eignarhaldi á þeim hefur verið háttað, hvert viðhorf hins opinbera hefur verið til ábyrgðar á rekstri þeirra og hvaða skyldur þeim hafi verið lagðar á herðar um greiðslu á opinberum gjöldum af hendi Alþingis fyrr og síðar.

Sökum þess, að nú er hér til umræðu frv. til laga um stofnun sérstaks verzlunarbanka, má til gamans geta þess, að saga bankamálanna á Alþingi hefst einmitt með því, að árið 1853 barst þinginu uppástunga frá kaupmanni einum í Reykjavík um stofnun veðbanka fyrir Ísland, og var henni vísað til nefndar, sem átti að gera tillögur til úrbóta á peningaskortinum í landinu almennt. Af frekari framkvæmdum varð þó ekki að sinni.

Fyrstu peningastofnunum landsmanna var, svo sem kunnugt er, hleypt af stokkunum töluvert síðar. Það var þá fyrst Sparisjóður Múlasýslu á Seyðisfirði, sem tók til starfa árið 1868, en hætti störfum tveimur árum síðar, og svo Sparisjóður Reykjavíkur, sem stofnað var til árið 1872, en sameinaðist síðar Landsbanka Íslands. Þá kom til sögunnar Sparisjóður Siglufjarðar, er stofnaður var 1873 og starfar enn í dag með fullum blóma og er þar af leiðandi elzta starfandi peningastofnun landsmanna. En eiginlegir bankar voru þetta samt ekki. Um slíka starfsemi er ekki að ræða hér á landi fyrr en lögin um Landsbanka Íslands voru sett árið 1885, og hérlendis hefst því almenn bankastarfsemi ekki fyrr en í júlímánuði árið 1886, en þá opnaði Landsbankinn afgreiðslu sína, og á komandi hausti eru þess vegna liðnir þrír aldarfjórðungar frá því að lögin um fyrsta íslenzka bankann voru sett hér á Alþingi.

Í fyrstu landsbankalögunum voru ákvæði um tilgang bankans, sem orðaður var svo, með leyfi hæstv. forseta: „að greiða fyrir peningaviðskiptum í landinu og að styðja að framförum atvinnuveganna almennt.“ Þessi hefur og verið raunverulegur tilgangur allra banka, sem síðan hafa tekið til starfa í landinu, hverju nafni sem þeir svo hafa nefnzt. Landsbankinn var frá upphafi vega eign landssjóðs, þ.e.a.s. ríkisbanki. Landssjóður lagði honum til stofnfé, landssjóðsseðlana, en bar þó ekki ábyrgð á rekstri bankans fram yfir þetta seðlalán. Ábyrgðin var sem sagt takmörkuð.

Með lögum um Landsbankann var bankanum frá því fyrsta veitt undanþága frá tekjuskatti og útsvari, og mun þangað að rekja þá reglu, sem síðar hefur haldizt næsta óslitin í íslenzkri bankalöggjöf frá upphafi og myndað nokkurs konar hefð í skattamálum okkar, þótt hún kunni að orka nokkurs tvímælis. Landsbankinn var því upphaflega ríkisbanki, með takmarkaðri ábyrgð landssjóðs og ótakmörkuðu skattfrelsi. Síðar varð svo sú breyting á, sem nú er í gildi, að ábyrgð ríkissjóðs var gerð ótakmörkuð.

Næsti áfangi í bankasögu landsins var stofnun Íslandsbanka. Var það gert með lögum nr. 11 frá 17. júní árið 1902. Gerðu lögin ráð fyrir myndun hlutafélagsbanka. Stofnunin gekk að vísu fremur treglega, og var stofnfundur haldinn í Kaupmannahöfn 25. sept. árið 1902, en til starfa tók bankinn ekki fyrr en 7. júní árið 1904.

Lítið fékkst af íslenzku fjármagni í hlutafjárframlögum. Meginið af hlutafénu kom frá danska Privatbanken og norska Centralbanken og dönsku einkafyrirtæki. Íslenzka ríkið hafði að vísu rétt til að kaupa ákveðið magn af hlutabréfum, en notfærði sér aldrei þann rétt. Bankinn var að mestu skattfrjáls, nema hvað hann átti sem endurgjald fyrir að hafa rétt til seðlaútgáfu að greiða landssjóði 10% af arði sínum, þegar 4% arður hafði áður verið greiddur til hluthafa. Íslandsbanki var því hlutafélag, einkabanki, þar sem meginið af stofnfénu var erlent fjármagn og naut takmarkaðra skattfríðinda. Stafaði takmörkunin á skattfríðindunum þó ekki af því, að erlent fjármagn væri í bankanum, heldur var hún afleiðing af seðlaútgáfusérréttindum þeim, er bankinn naut.

Þegar Íslandsbanki hætti störfum árið 1930 og Útvegsbanki Íslands h/f er stofnaður með lögum nr. 7 frá 11. marz 1930, kemur enn eitt rekstrarformið til sögunnar, því að Útvegsbanki Íslands h/f er að vísu hlutafélag, en af 7 millj, kr. stofnfé hans á ríkissjóður 4 millj. kr., eða meiri hluta fjármagnsins. Einnig Útvegsbankinn h/f naut algers skattfrelsis.

Síðan var svo sú breyting gerð á, sem mönnum mun í fersku minni, að með lögum nr. 34 frá 29. maí 1957 er Útvegsbankinn gerður að hreinum ríkisbanka, eða eins og það er orðað í 1. gr. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Útvegsbanki Íslands er sjálfstæð stofnun, sem er eign ríkisins.“

Og í 4. gr. segir: „Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Útvegsbanka Íslands.“ En eins og útvegurinn var talinn þurfa sinn eigin banka, þannig varð og orðið við óskum landbúnaðarins með lögum nr. 115 frá 7. nóv. 1941, er Búnaðarbanki Íslands var stofnaður, hreinn ríkisbanki, þar sem ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum, og nýtur bankinn algers skattfrelsis.

Og þá var röðin komin að iðnaðinum, sem fékk sína úrlausn með lögum um stofnun og rekstur Iðnaðarbanka Íslands h/f, nr. 113 frá 29. des. 1951. Hér var enn á ný um nýtt rekstrarform að ræða, því að Iðnaðarbankinn var hlutafélag, þar sem meiri hluti fjármagns, eða 3.5 millj. af 6.5 millj. stofnfjár, var í einkaeign, en minni hlutinn, 3 millj. kr., eign ríkissjóðs. Bankinn naut, eins og hinir fyrri bankar, fullkomins skattfrelsis.

Ekki verður þessari upptalningu lokið, svo að tæmandi sé, nema geta Framkvæmdabankans, sem settur var á laggirnar með lögum um Framkvæmdabanka Íslands, nr. 17 frá 10. febr. 1953. Þar er um að ræða hreinan ríkisbanka, með stofnfé frá ríkissjóði, rekinn á ábyrgð ríkisins og njótandi fullkomins skattfrelsis.

Á þessum 75 árum, sem íslenzk bankasaga spannar senn yfir, höfum við sem sagt kynnzt þessum bankaformum: Ríkisbönkum með skattfrelsi; einkabönkum, sem að meiri hluta voru eign erlends fjármagns með takmörkuðu skattfrelsi; einkabanka, sem var hlutafélag, þar sem einkafjármagnið átti meiri hluta, en ríkið þó nokkurn hluta fjármagnsins, og naut hann fullkomins skattfrelsis, hlutafélagi, þar sem ríkið átti meiri hluta fjármagns, en einstaklingar þó nokkurn hluta, og gilti einnig um hann algert skattfrelsi.

Nú stöndum við frammi fyrir því, að enn ein atvinnustéttin óskar eftir að fá að stofna sinn banka og hyggst reka hann sem hlutafélag, einkabanka, algerlega í eign og á ábyrgð innlendra einstaklinga, og óskar eftir að fá að njóta til þess sömu fríðinda og önnur bankastarfsemi í landinu, sem rekin er með öðru rekstrarfyrirkomulagi, þ.e.a.s. skattfrelsis, og er það sameiginleg skoðun fjhn. hv. deildar, að slíkt sé eðlileg og sanngjörn krafa, sem Alþingi beri að verða við, svo fremi önnur bankastarfsemi njóti þessara hlunninda.

Þrír höfuðatvinnuvegirnir, sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, hafa eignazt sína banka. Það er því skiljanlegt, að sá fjórði, verzlunin, vilji einnig sigla í kjölfarið. Það hefur vissulega töluvert vatn runnið til sævar, frá því að fyrstu íslenzku kaupmennirnir, Bjarni Sívertsen, Gísli Símonarson og Guðmundur Scheving, hösluðu sér völl. Sá frumbýlisbúskapur á sviði verzlunar og viðskipta hefur orðið að sjálfstæðum atvinnuvegi, og að honum standa fjölmennar starfsstéttir.

Þróunin hefur hvað rekstrarform snertir að vísu að mestu runnið í tvo farvegi: Samvinnureksturinn, sem hefst með stofnun kaupfélags Suður-Þingeyinga á Húsavík árið 1882 og þróast áfram í formi heildarsamvinnusamtaka, sem mynduð eru árið 1902 og árið 1909 taka svo upp heitið Samband ísl. samvinnufélaga, — samtaka, sem árið 1917 setja á fót sinn eigin skóla, Samvinnuskólann, og árið 1954 opna sinn sparisjóð, Samvinnusparisjóðinn, sem sagt öflug verzlunarsamtök með fjölbreyttan rekstur, sem aðrir munu þó kunna betri skil á en ég. Meiri hluti viðskiptaelfunnar hefur þó fram til þessa runnið eftir farvegi einkaatvinnurekstrarins, þótt með mismunandi rekstrarformi hafi verið. Vörðurnar á þeim vegi eru vitaskuld mýmargar frá því árið 1905, að Verzlunarskóli Íslands var stofnaður og þeir Garðar Gíslason og Ólafur Johnson voru að koma fótum undir fyrstu íslenzku stórsölurnar.

1917 mynda kaupsýslumenn með sér sín heildarsamtök, Verzlunarráð Íslands, og síðar

fjölda sérsamtaka. Eitt eftirminnilegasta dagsverk þessarar þróunarsögu verður þó væntanlega að dómi síðari tíma talin myndun Verzlunarsparisjóðsins, sem er fyrirrennari og sá grunnur, sem ætlað er að byggja Verzlunarbanka Íslands h/f á.

Aðdragandann að stofnun sparisjóðsins má rekja til ársins 1953, er nefnd var skipuð af Sambandi smásöluverzlana og af Verzlunarráði Íslands til þess að undirbúa stofnun sparisjóðs. N. boðaði til stofnfundar 4. febr. 1956, og voru stofnendurnir 310, einstaklingar og fyrirtæki. Sparisjóðurinn tók síðan til starfa hinn 28. sept. 1956, og þegar frá upphafi gætti allalmenns áhuga meðal verzlunar- og kaupsýslustéttarinnar fyrir viðgangi þessarar stofnunar, ekki eingöngu vegna vaxandi lánsfjárþarfar eða af því, að verzlunin fengi ekki allgóða fyrirgreiðslu í öðrum lánsstofnunum, sem báru nöfn annarra atvinnuvega, heldur vegna þess, að hjá verzlunarstéttinni virtist vaknaður einhver metnaður til að stuðla að uppbyggingu á peninga- og lánsstofnun í líkingu við það, sem aðrir höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar höfðu komið sér upp.

Verzlunarsparisjóðnum óx skjótlega fiskur um hrygg, þannig að heildarinnistæður í sparisjóðnum, sem í lok fyrsta starfsársins, ársins 1956, voru aðeins röskar 23 millj. kr., voru í árslok 1959 orðnar 1531/2 millj. og þar af sparifjárinnistæður 113.6 millj, og hlaupareikningsinnistæður 39.9 millj. Í lok síðasta starfsárs voru sparisjóðsreikningar sjóðsins orðnir 5400 að tölu og hlaupareikningar um 1100. Svo fjölmargir viðskiptamenn sjóðsins voru auðvitað hvergi nærri einskorðaðir við stétt verzlunar- og kaupsýslumanna, og gilti það raunar bæði um innlög sparisjóðsins og útlán úr honum samkvæmt upplýsingum stjórnar sjóðsins.

Á stofnfundi sjóðsins árið 1956 var því lýst yfir, að myndun þessa sparisjóðs væri hugsuð sem fyrsti vísir að verzlunarbanka, og hefur sú viljayfirlýsing þeirra manna, sem að stofnun hans stóðu, síðan verið áréttuð á hverjum aðalfundi frá stofnun sjóðsins. Hæstv. ríkisstj. hefur nú orðið við þessum tilmælum verzlunarstéttarinnar og borið fram frv. til laga um Verzlunarbanka Íslands h/f.

Ótal rök virðast hníga undir þetta lagafrv., svo sem og hæstv. viðskmrh, gerði grein fyrir í framsöguræðu við 1. umr. þessa frv. Meðal slíkra raka mætti t.d. telja í fyrsta lagi, hversu umfangsmikil viðskipti þessarar stofnunar eru orðin, eins og greint hefur verið frá. í öðru lagi: Verzlunarstéttin fengi með þessu frv., ef að lögum verður, aðeins svipaða fyrirgreiðslu og aðrar atvinnustéttir hafa hlotið með stofnun Útvegsbankans, Búnaðarbankans og Iðnaðarbankans. Í þriðja lagi: Í nágrannalöndunum eru alls staðar starfandi verzlunarbankar með svipuðu sniði og hér er gert ráð fyrir að ráðizt verði í. Í fjórða lagi: Hagur lánastofnunar, sem rekin er í hlutafélagsformi, er tryggilegri, þar sem auðveldara er að safna hlutafé til banka en ábyrgðarfé í sparisjóði. Í fimmta lagi: Verzlunarbanki mundi njóta nokkurra hlunninda fram yfir það, sem sparisjóður nýtur samkv. lögum. Og í sjötta og síðasta lagi: Það skiptir og nokkru fyrir lánsstofnun vegna viðskipta við útlönd að hafa rétt til að nefnast banki.

Margt fleira mætti vissulega færa fram máli þessu til brautargengis, en ástæðulaust er að lengja orðræður um það.

Við umr. um málið í fjhn. voru það hins vegar nokkur önnur atriði, sem að var vikið og til athugunar komu. Sú skoðun kom fram, að galli væri, að í hvert sinn, sem stofna þyrfti banka eða koma á fót peningastofnun hér á landi, yrði að setja um það sérstök lög, þar sem engin almenn bankalöggjöf væri til í landinu. Sérstaklega skorti á, að til væri almenn löggjöf um einkabanka. Svo sem kunnugt er, hefur Alþingi þráfaldlega haft þessar hugmyndir til meðferðar í einu eða öðru formi. Varðandi einkabankana hafa tvívegis verið samþ. lög frá Alþingi, sem áttu að greiða fyrir stofnun þeirra. Það voru lög nr. 47 frá 20. júlí 1923, um hlunnindi til myndunar einkabanka, og frá 1928, um hlunnindi fyrir lánafélag, sem átti að greiða fyrir því, að til landsins fengist erlent lánsfé með hagkvæmum kjörum. Hvorug þessara laga voru hins vegar almenn lög um einkabanka og höfðu raunar heldur enga praktíska þýðingu, þegar til kastanna kom.

Helztu meiri háttar tilraunirnar til allsherjar bankalöggjafar voru hins vegar þessar:

Í fyrsta lagi: 14. maí 1925 var samþ. þáltill. um að kjósa 5 manna mþn. til þess, eins og segir, með leyfi hæstv. forseta, „að íhuga og gera till. um, hvernig seðlaútgáfu ríkisins skuli fyrir komið, og einnig að öðru leyti að undirbúa endurskoðun á bankalöggjöf landsins.“ N. þessi klofnaði, aðallega vegna ágreinings um seðlaútgáfu og stöðu Landsbankans. Gáfu báðir hlutar út ýtarleg nál., sérprentuð, varðandi almenna bankalöggjöf, og kom þar helzt fram, a.m.k. hjá meiri hlutanum, að hann taldi æskilegt, að stofnað yrði til fleiri einkabanka í landinu.

Næsta stórátakið til athugunar á þessum málum var gert árið 1937. Þá komu bankamálin mjög til umr. á vetrarþinginu og lauk með samþykkt að kjósa 5 manna n. í Sþ. með hlutfallskosningu til þess að endurskoða alla löggjöf landsins um banka, sparisjóði og aðrar lánsstofnanir. Jafnframt er fjmrh. heimilt að fela n. sérstaklega athugun á því, hvernig verðskráningu íslenzku krónunnar verði bezt fyrir komið.

N. þessi lauk störfum í desembermánuði 1940 og samdi allmörg frv. og grg. til Alþingis, sem allt var gefið út sérprentað árið 1941 sem álit og till. mþn, í bankamálum, og meðal þessara frv. frá n. var einmitt frv. til laga um banka eða almenn bankalöggjöf, þar sem gert var ráð fyrir einkabönkum. Þetta frv. varð þó aldrei að lögum.

Þriðja stórtilraunin til undirbúnings almennrar bankalöggjafar var gerð með stjórnskipaðri n., sem starfaði á árunum 1954-56 og átti að endurskoða bankalöggjöf landsmanna, m.a. að undirbúa almenna bankalöggjöf og þá einnig að semja frv. um seðlabanka. Við stjórnarskiptin 1956 mun n. þessi hafa verið leyst upp án þess að hafa átt kost á að ljúka störfum, en gögn hennar og mikil undirbúningsvinna munu liggja í stjórnarráðinu og geta verið gagnleg, þegar horfið verður að því að undirbúa almenna bankalöggjöf, sem er skoðun a.m.k. margra nm. í fjhn. að bráða nauðsyn beri til og hæstv. viðskmrh. hefur á fundi n. upplýst, að hann miðaði að að hrinda fljótlega í framkvæmd.

Þessu atriði um almenna bankalöggjöf er skotið hér inn sökum þess, að það kom töluvert til umr. á fundum fjhn, við afgreiðslu þessa frv., og einnig vegna þess, að ef slík löggjöf hefði nú verið til í landinu, væri þessa frv. í raun og veru ekki þörf, og er á þetta bent líka vegna þess, að telja má, að hér verði ekki látíð staðar numið með stofnun einkabanka. Var það og mál, sem n. ræddi sérstaklega á þeim fundi, er hæstv. viðskmrh, sat. Var það sameiginleg skoðun hæstv. viðskmrh. og nm., eftir að hafa borið það undir þingflokkana, að eðlilegt væri, að þau réttindi um skattfrelsi, sem frv. þetta gerir ráð fyrir til handa Verzlunarbankanum h/f, mundu einnig verða veitt öðrum aðilum, svo sem verkalýðssamtökum, samvinnufélögum og samtökum sveitarfélaga, sem til banka vildu stofna við svipuð skilyrði og hér um ræðir, og þá með samþykkt líkra laga og þetta frv. er.

Í sambandi við umr, í n. um skattfríðindi komu og nokkur önnur atriði fram, sem ástæða er til að geta, m.a. það, að forsenda skattfríðinda banka væri, að þau gildi aðeins fyrir íslenzkt fjármagn, eins og tilætlun mun vera við stofnun Verzlunarbankans. Yrði hins vegar síðar sú breyting á, að erlent fjármagn kæmi inn í Verzlunarbankann h/f sem hlutafé, væru þær forsendur, sem nú eru fyrir frv., brostnar og nýtt viðhorf skapað.

Þá gat og hæstv. viðskmrh. þess í sambandi við skattfrelsisákvæðið, að hann hygðist í fyrirhugaðri reglugerð kveða svo á um, að bankanum væri skylt að birta reikninga sína opinberlega, eins og Verzlunarsparisjóðurinn raunar mun jafnan hafa gert fram til þessa, og einnig að einn af endurskoðendum reikninga bankans verði tilnefndur af ríkissjóði.

Ég hef leyft mér að ræða grundvöll og forsögu þessa frv. nokkuð ýtarlega, þar sem, ef frv. þetta verður að lögum, er stigið að mínu viti talsvert þýðingarmikið spor í íslenzkum bankamálum, sem er stofnun algerlega innlends einkabanka án ríkisábyrgðar eða hlutdeildar. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, greinir okkur í fjhn. hv. d. í grundvallaratriðum á um ágæti hinna einstöku rekstrarforma í atvinnulífinu, en erum hins vegar sammála um, að bankastofnun á heilbrigðum fjárhagsgrundvelli, sem stuðlar að bættri þjónustu atvinnuveganna, hvers og eins og allra til samans, í hvaða rekstrarformi sem henni kann að vera sniðinn stakkur, geti verið æskileg, svo lengi sem hún lýtur almennum þjóðarhag, og erum þess vegna allir því meðmæltir, að frv. þetta verði samþykkt.