23.05.1960
Neðri deild: 86. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

150. mál, Verslunarbanki Íslands h.f.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Nú síðustu mánuðina hafa orðið mikil tíðindi í peningamálum landsmanna. Af hálfu stjórnarvalda hefur verið lýst yfir almennri takmörkun útlána, a.m.k. miðað við hið nýja verðgildi krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri. Það hefur verið dregið úr endurkaupum Seðlabankans á framleiðsluvíxlum. Almennir útlánsvextir hafa hækkað upp í 11–12%, og eru þessar vaxtatölur eitt af undrum þessa lands. Vextir af föstum framkvæmdalánum til langs tíma hafa verið hækkaðir í sumum tilfellum um meira en þriðjung, yfirleitt um 2% eða meira af lánsupphæðinni og lánstími sums staðar styttur. Þessi vaxtahækkun kemur ofan á nokkuð almenna verðhækkun vegna gengisbreytingar og skatta. Óhætt er að segja, að þessi tíðindi hafi komið nokkuð illa við marga menn í landinu: fjölskyldur, sem ætla að koma upp þaki yfir höfuð sér, bændur, sem þurfa að rækta jarðir sínar og koma þar upp mannvirkjum, útvegsmenn og sveitarfélög, sem áttu og eiga fiskiskip í smíðum, fyrirtæki og einstaklinga, sem árlega þurfa að fá rekstrarfé að láni vegna atvinnu sinnar, þ. á m. þá, sem hafa verzlun með höndum.

Nú munu sumir telja, að hér í þessari hv. d. hafi birzt eitt lítið ljós á hinum þungbúna himni peningamálanna. Það er frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr. Hæstv. ríkisstj. vor leggur til, að íslenzk verzlun fái að stofna banka, og hv. fjhn. þessarar d. er aldrei þessu vant sammála um að ljá nýju máli lið, eins og fram kemur í áliti hennar á þskj. 492, sem hv. frsm. gerði grein fyrir áðan af hálfu n. allrar. Samkv. þessu skal stofna Verzlunarbanka Íslands í Reykjavík. Raunar er þetta tæplega réttnefni, eins og líka kom fram hjá hv. frsm. Bankinn virðist ekki eiga að vera almennur verzlunarbanki. Kaupfélögin eða landssambönd þeirra eiga þar ekki hlut að máli. Þetta er, eins og til málsins er stofnað, eiginlega kaupmannabanki. Verzlunarráðið og Félag stórkaupmanna og Kaupmannasamtökin hafa forgangsrétt til þess að eiga hlutaféð eða safna því, að því leyti sem ábyrgðarmönnum Verzlunarsparisjóðsins er ekki áskilinn réttur í því sambandi. Þessi stofnun ætti því að heita Kaupmannabanki að réttu lagi, og bankar með því nafni eru líka til í öðrum löndum. Þetta eina litla ljós á hinum myrkvaða himni er því þeirra ljós, og ekki er útlit fyrir, að öðrum skini þar gott af, nema síður sé, og ekki er það heldur víst, að mikið birti yfir þeirra hag að sinni í sambandi við þetta mál. Og ég vil segja það hreint eins og það er, að mér sýnist, að hér sé að nýju stefnt út í efnahagslega villu í þjóðmálum, og þess vegna mun ég ekki sjá mér fært að greiða atkv. með þessu frv. Það má vel vera, að mér missýnist, og mætti það þykja trúlegt, þar sem svo mörgum sýnist annað, að því er virðist, en ég mun þó leitast við að færa fram mínar ástæður í stuttu máli. Það er að vísu ekki á mínu færi að birta hv. þm. eða öðrum neina hærri vizku á þessu sviði, en ég hef þó talið mér skylt að hugsa um þetta mál eins og aðrir og reyna að mynda mér á því skoðun, sem er að sjálfsögðu mín persónulega skoðun.

Það má nú öllum ljóst vera, að kaupmannastétt vor þarf á bankaviðskiptum að halda og þeim æðimiklum og að þörfum hennar verður að sinna eftir því, sem föng eru á. En ég held ekki, að rétta leiðin til þess sé að stofna nýjan banka, eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held, að þetta sé röng leið, og það munu menn viðurkenna, þó að seinna verði.

Hv. frsm. fjhn. rakti hér nokkuð í almennum orðum sögu íslenzkra bankamála, frá því að Landsbanki Íslands var stofnaður á níunda tug aldarinnar. En það er ómaksins vert að virða fyrir sér bankakerfi Íslands, eins og það er í dag. Flestir vita raunar á því nokkur skil. Hér í Reykjavik eru nú eiginlega 6 bankar, og 3 þeirra reka samtals utan höfuðborgarinnar 2–3 útibú í hverjum landsfjórðungi. Við þessa 6 banka með útibúum starfaði á árinu 1958, eftir því sem ég hef komizt næst, rúmi. 470 manns, og rekstrarkostnaður þeirra fyrir utan vexti var eftir því, sem fram kemur í rekstrarreikningunum, rúmlega 66 millj. kr. á því ári, en mun vera nokkru meiri á árinu, sem leið, þ.e.a.s. árinu 1959. Húsakostur þessara stofnana samanlagður er allmikill og þarf sennilega að vera það, en ýmsum þykir nú nóg um það. Síðasta bankastórhýsið er, eins og menn sjá, að rísa hér í miðbænum yfir annan yngsta bankann, sem stofnaður var fyrir fáum árum, og einnig hefur það verið borið í tal, man ég, hér í hv. d., að annar banki, Seðlabankinn, væri að koma upp yfir sig einhverri vistarveru í austurbænum. Tveir af þessum sex bönkum eru ekki almennir viðskiptabankar, þ.e. Seðlabankinn og Framkvæmdabankinn, en hinir fjórir eru það: Landsbankinn eða viðskiptadeild hans, Útvegsbankinn, Búnaðarbankinn og Iðnaðarbankinn. Þeir taka allir við sparifé frá almenningi og veita almenn bankalán, og tveir þeirra hafa nú gjaldeyrisréttindi, þ.e.a.s. rétt til að yfirfæra gjaldeyri.

Ég hef oft verið spurður um það undanfarin ár, hvort þörf sé á öllum þessum bönkum í höfuðstaðnum með öllu tilheyrandi til að taka við sparifé landsmanna, ekki meira en það þó er, og lána það út aftur, auk allra sparisjóðanna víðs vegar um land og líka hér í Reykjavík, sem einnig taka við þessu sparifé og lána það út. Og ég hef ekki séð mér fært að fullyrða, að svo væri. Ég hef a.m.k. haldið, að nóg væri að hafa þá 3 almennu viðskiptabanka, sem hér voru fyrir 30 árum. Þessir 3 bankar eru nú allir ríkisbankar og hafa raunar verið það í þessi 30 ár. Þó að Útvegsbankinn teldist að vísu hlutafjárbanki, var hann í rauninni ríkisbanki. Og það var orðin nokkuð almenn skoðun hér á landi, að bankar ættu að vera ríkiseign, eins og t.d. póstur og sími. Iðnaðarbankinn er, eins og hv. frsm. sagði, að nokkru leyti ríkiseign og því ekki með öllu horfið frá prinsipinu með stofnun hans. Það má vel vera, að iðnaðurinn hafi haft ávinning af stofnun þessa banka, og ég vil trúa því, að svo sé. En hitt veit ég, að hinir eldri bankar halda áfram að veita lán til iðnaðar í stórum stíl, og ég gæti líka trúað, að lánveitingar Iðnaðarbankans séu alls ekki allar til iðnaðar. Ég held, að staðreyndin sé sú eða verði sú, að enginn banki einskorði hina almennu lánastarfsemi sína við einn atvinnuveg. Ef þeir gerðu það, mætti segja, að þar væri til staðar verkaskipting og sérhæfing, sem telja má að stuðlaði að því að byggja útlánastarfsemi á sérþekkingu. En þetta er ekki svona. Og því hljóta menn að gera sér grein fyrir, þeir sem kynni hafa af bankastarfseminni. Sjávarútvegurinn hefur t.d. mikið af sínum lánum í Landsbankanum, iðnaðurinn líka, Útvegsbankinn lánar til iðnaðar og lítils háttar til landbúnaðar eins og Landsbankinn, Búnaðarbankinn lánar til iðnaðar og auðvitað líka mikið í landbúnað, og allir lána þeir í verzlun. Ég vil taka það fram, að ég er hér að tala um hina almennu bankastarfsemi, ekki hina sérstöku stofnlánasjóði atvinnuveganna. Ég gæti stutt mál mitt með tölum úr reikningum bankanna um þetta mál, hvernig lánin skiptast milli atvinnuveganna, því að þar eru gerðar skýrslur um þá skiptingu, ef einhverjir héldu því fram, að hér væri ekki farið með rétt mál, en ég geri ekki ráð fyrir því, að neinn geri það. Og ef einhverjir álíta, að nöfn viðskiptabankanna þýði í reyndinni verkaskiptingu, vantar áreiðanlega mikið á, að svo sé.

En nú kunna menn að spyrja, og það er eðlilegt: Gerir það nokkuð til, þó að bönkum sé fjölgað? Getur það gert nokkuð til? Og er þá ekki úlátalaust fyrir Alþ. að láta það eftir hverjum, sem um það. biður, að stofna banka? — Það virðist, að margir hér á hv. Alþ. telji, að svo sé. Þeir telja, að það skipti ekki neinu máli, þó að einum stórum sparisjóði sé breytt í banka. En ég vil bara segja: það hlýtur að skipta einhverju, því að annars væri ekki farið fram á það. Það er líka svo, alveg eins og kom fram hjá hv. frsm., að bankar njóta að lögum ýmissa sérréttinda, þeirra réttinda m.a., sem vísað er til í 11. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir. Og bankar hafa almennt skoðað á margan hátt meiri möguleika en sparisjóðir til að auka sinn hluta af sparifé almennings og einnig að öðru leyti. Bankar geta stofnað útibú, og til greina kemur, að þeir fái rétt til gjaldeyrisverzlunar, þótt enn hafi raunar ekki nema tveir þeirra þennan rétt. Samkv. lögum er hægt að veita öllum bönkum þennan rétt, þeim sem almenn viðskipti reka. En spariféð er takmarkað og annarri bankastarfsemi einnig mikil takmörk sett í þessu fámenna landi. Ef bönkum er fjölgað, dregur það að sjálfsögðu úr starfsemi eldri bankanna, sem þjóðfélagið á, að sama skapi, en þeir sitja hins vegar uppi með svipað starfslið og áður, — það vill verða svo, — og sama húsakost til starfsemi sinnar. Með því að stuðla að fjölgun banka er ríkið þess vegna sjálft að veikja sínar eigin bankastofnanir, ríkisbankana, og bankareksturinn í heild verður kostnaðarsamari fyrir almenning, og þetta er ekki æskilegt. Ég vil aðeins benda á það í þessu sambandi, að elztu bankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, inna af hendi talsvert mikla sérstaka þjónustu með því alveg sér í lagi að láta sjávarútveginum í té rekstrarlán með lægri vaxtakjörum en gilda um önnur lán. Nýir bankar munu draga til sín fé frá þessum eldri bönkum, en þeir munu hins vegar varla sækjast eftir að veita fyrirgreiðslur af þessu tagi og varla hægt að skylda einkabanka a.m.k. til slíks. En það er ekki hagstætt fyrir gjaldeyrisöflunina, að dregið sé úr möguleikum til aðstoðar á þennan hátt. Það veit ég ekki, hvort menn hafa athugað og hugleitt sem skyldi.

Og í þessu máli liggur annað í augum uppi. Ef þessi einkabanki verður nú stofnaður, sem hér er farið fram á, með lagaleyfi, þá er þar með vísuð ný leið. Þá verður auðvitað hvorki sanngjarnt né framkvæmanlegt að neita öðrum aðilum, sem þess óska og það geta, um leyfi til að stofna einkabanka í viðbót. Stofnun banka verður þá sennilega svipað formsatriði og að veita verzlunarleyfi. Í umr. um þetta mál hefur verið minnzt á þessa hluti, og í nál. segir hv. fjhn. beinlínis, og er vakin athygli á því af hv. frsm. n., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá munu nm. og vera þeirrar skoðunar, að íslenzkum þjóðarbúskap geti verið æskilegt, að bankar með mismunandi rekstrarfyrirkomulagi, ríkisbankar, einkabankar og samvinnubankar, starfi jöfnum höndum hlið við hlið. Við umr. um frv. og þau réttindi, sem í því felast viðvíkjandi skattfrelsi o.fl., bar það á góma, hvort eigi væri sjálfsagt, að aðrir aðilar, svo sem t.d. samvinnusamtökin eða verkalýðssamtökin og samtök sveitarfélaga, yrðu og slíkra réttinda aðnjótandi, ef þau vildu koma upp banka á sama hátt og kaupmannasamtökin nú. Er það skoðun nm. og þingflokkanna, sem þeir eru fulltrúar fyrir, að þau réttindi, sem með þessu frv. eru veitt Verzlunarbankanum, skuli og veitt slíkum aðilum, ef þeir óska þess við svipuð skilyrði og hér um ræðir, og þá með samþykkt líkra laga og lagt er til í þessu frv.“

Hv. fjhn. hefur sem sé gert sér grein fyrir þessu, enda kom það fram hér við 1. umr., að stofnun þessa einkabanka með lögum hlyti að leiða af sér stofnun fleiri banka, ef fram á það væri farið. Hins vegar er ég ekki alveg víss um, að þessi hv. n. hafi gert sér grein fyrir öllum möguleikum, sem fyrir hendi kunna að verða á komandi árum til þess að stofna slíka banka. Það er að vísu trúlegt, að slíkar bankastofnanir geti komið einhverjum að gagni í framtíðinni. En skyldi þetta ekki vera of stór yfirbygging? Er ekki alltaf verið að tala um það hér í blöðum og jafnvel hér á Alþ.? Er ekki alltaf verið að tala um ríkisbáknið, sem menn segja að sé alltaf að vaxa og margir telja sig hafa vilja til þess að draga eitthvað úr, en ráða ekkert við? Ríkisbáknið vex, og ætli það sé ekki með þessu frv. helzt til mikið gefið undir fótinn um það, að bankabáknið fari að vaxa eitthvað í áttina við það, sem hitt báknið vex, og kannske meira? Þessi bákn og vöxtur þeirra er kannske gagnlegur, og kannske hefur hv. fjhn. haft í huga það, sem skáldið sagði í Vestmannaeyjum fyrir mörgum árum: „Strjáll er enn vor stóri gróður, stendur hann engum fyrir sól“. Kannske henni hafi þótt sem það gerði ekkert til, þó að hann ykist eitthvað, þessi stóri gróður, og eitthvað fjölgaði stórhýsum, sem hver banki telur sjálfsagt að byggja yfir sig, það mundi ekki skyggja á hinn minni gróður, og er vonandi, að það reynist rétt. En ég held, að það verði ekki að þessu mikið gagn og að hér sé, eins og ég sagði áðan, ekki stefnt í rétta átt.

Fyrir áratug eða svo hefði verið hægt að slá því föstu, ef menn hefðu viljað, ef hv. Alþ. hefði viljað, að gömlu ríkisbankarnir þrír skyldu nægja og bankakerfið skyldi vera ríkiskerfi. Þá voru ekki aðrir bankar. Þá var hægt að stinga við fótum. En um það leyti eða upp úr því var Iðnaðarbankinn stofnaður, og um hann má segja það, að hann er að nokkru leyti eign ríkisins og í vissum tengslum, a.m.k. nafntengslum, við einn aðalframleiðsluatvinnuveg þjóðarinnar, þótt gömlu bankarnir hafi haldið áfram að vera að nokkru leyti lánsstofnanir fyrir iðnaðinn, eins og þeir voru og eins og rétt var og skylt, eins og ég gat um hér áðan. En nú er aftur rétti tíminn til að nema staðar, ef menn vilja, og leggja ekki út á einkabankabrautina, þá braut að stofna hreina einkabanka. Og það verður ekki séð, að hér skorti, eins og sakir standa, tilfinnanlega verzlunarbanka. Mjög mikið af fé núverandi banka er í útlánum hjá verzluninni, eins og eðlilegt er, og verzlanirnar margar vilja hafa viðskipti við þá áfram og þeir við þær. En einmitt nú er tími til þess og rétti tíminn til þess að lita í kringum sig og gera sér grein fyrir því, hvort á að leggja út á nýja braut í þessum bankamálum og láta bankakerfið vaxa, láta það vaxa eins og það vil] vaxa. Ef það verður ekki gert nú, þá verður mjög erfitt að gera það síðar, og fyrir því verða menn að gera sér grein.

Eins og ég sagði í upphafi, sýnist mér ýmislegt benda til þess, að frv., sem hér liggur fyrir, eigi mikið fylgi hér á hv. Alþ. Hv. fjhn. er hér á einu máli, og mætti það merkilegt heita, ef það dygði ekki máli til samþykkis og framgangs hér í d., hvað sem svo hv. Ed. kann að gera, þegar málið kemur til hennar. En eins og ég sagði áðan, mun ég samt greiða atkv. gegn þessu máli og þykist nú hafa gert stuttlega grein fyrir þeirri afstöðu, svo sem skylt er.

Ég skal ekki hafa grg. mína öllu lengri fyrir þessari afstöðu. Það segja sumir, að þetta sé lítið mál og skipti ekki miklu máli, hvort það sé samþykkt eða ekki. Ég hef nú vikið ofur litið að því atriði. En það er því miður í löggjöf eins og í sagnfræðinni, að það getur vafizt fyrir mönnum að gera mun á aðalatriðum og aukaatriðum. Hér gæti það nú verið, að svo væri. Kennslubækur í mannkynssögu fjölluðu til skamms tíma mest um bardaga og þá, sem fyrir bardögum stóðu, og hér á landi og viðar hættir mönnum við að láta heillast af orrustugný stjórnmálanna meir en góðu hófi gegnir. En hinar stóru og áhrifaríku ákvarðanir eða ákvörðunarleysi eru stundum gerðar af mönnum, sem eru eins og annars hugar. Og ég er ekki frá því, að hv. fjhn., sem hefur í mörgu að snúast um þessar mundir út af málum, er til hennar er vísað, kunni að hafa gefið sér heldur lítinn tíma til þess að íhuga þetta mál. En hvað sem því líður, vildi ég ekki láta hjá líða að segja það, sem ég hef nú sagt um þetta mál, hvort sem nokkuð reynist hafa verið á það hlustað eða ekki.