02.06.1960
Neðri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

135. mál, ríkisreikningurinn 1957

Jón Pálmason:

Herra forseti. Fyrst svo hittist á, að ég er hér staddur, þegar meðferð þessa reiknings fer hér fram, þykir mér ástæða til að segja nokkur orð.

Eins og þm. hafa veitt athygli, er þessi reikningur fyrir árið 1957 og því nokkuð langt um liðið, frá því að þeir atburðir gerðust, sem reikningurinn ber með sér. Ég skal geta þess, að við yfirskoðunarmenn höfum lokið yfirskoðun á reikningnum fyrir 1958 fyrir rúmum tveimur mánuðum, en reikninginn fyrir 1959 höfum við að venjulegum hætti ekki séð enn.

Það er svo jafnan um ríkisreikning, að hann er gleggsta sönnunin um fjárstjórnina á því ári, sem hann nær yfir, og um þennan ríkisreikning er það að segja, að hann er hæsti og að sumu leyti ljótasti reikningur, sem við höfum séð hér á Alþingi. Sannleikurinn er sá, að oft undanfarin ár, ár eftir ár, hefur það gerzt, að reikningsupphæðirnar hækka ár frá ári stórkostlega, og fyrir okkur yfirskoðunarmenn er það engan veginn geðfellt, þegar við erum að starfi og að gera aths. við ýmsar umframgreiðslur o.s.frv., að vita alltaf um það, að á næstu grösum, á næsta ári sé annað verra til en það, sem við erum með. Sannleikurinn er líka sá, að reikningurinn fyrir árið 1958 er töluvert hærri, eyðslan enn meiri en á árinu 1957.

Þau fjáraukalög, sem fylgja þessum reikningi, sem hér er til meðferðar, eru upp á 108 millj. kr., sem eru umframgreiðslur frá fjárlögum. Og þó er þess að geta, að fjárlögin fyrir árið 1957 voru 155 millj. hærri en fjárlögin fyrir árið 1956, svo að upphæðin, sem hækkunin er frá fjárlögum 1956 og til reikningsloka 1957, er hvorki meira né minna en 263 millj. kr. Nú er það svo, að það eru tvö meginatriði, sem við yfirskoðunarmenn höfum bæði á þessu ári og endranær lagt áherzlu á að fara í gegnum. Annars vegar eru það umframgreiðslurnar frá fjárlögum, sem sýna, að öll sú vinna, sem Alþ. á hverju ári leggur í það að undirbúa og afgreiða fjárlög, er ekki virt nema mjög takmarkað og allra sízt af sumum stofnunum, sem haga fjárreiðum sinum á þann máta sem engin fjárlög væru til og jafnvel enginn fjmrh. til. Hitt atriðið, sem er mjög ískyggilegt í þessu sambandi og sýnir, á hvaða leið við erum komnir, er það, hve alltaf fer sívaxandi það, sem er óinnheimt af tekjum ríkisins og stofnana þess. Og það er einmitt í allri fjárreiðu og reikningsskilum gleggsta sönnunin fyrir óreiðu. Sem sagt, það er eitt gleggsta óreiðumerki, sem um er að ræða, hvort sem hlut á að máli opinber stofnun, verzlun eða hvað annað.

Ég hef lagt það saman á þessum reikningi samkv. okkar aths., sem hv. alþm. hafa sjálfsagt lesið, hvað það er mikið, sem stofnanir ríkisins og starfsgreinar eiga í árslok 1957 óinnheimt af sínum tekjum og á að vera komið inn. Og þetta er hvorki meira né minna samtals en 165 millj. kr. Mönnum kann að þykja þetta ofboðsleg upphæð, og það er hún. Ég sagði hér í ræðu um daginn, að ég hefði gert mér hugmynd um, að þetta væru 150 millj. Ég hafði þá ekki lagt þetta nákvæmlega saman, en eftir nákvæman samanburð er þetta fyllilega 165 millj. kr., sem er óinnheimt. Stærstu liðirnir á þessum lista eru þessir: Það er óinnheimt af sköttum og tollum hjá innheimtumönnum ríkisins: sýslumönnum, bæjarfógetum og tollstjóra, 45.9 millj. kr., og þó hefur verið fellt niður sem ófáanlegt á þessu ári nokkuð á fjórðu millj. kr. Hjá Landssímanum er þetta 14.3 millj., hjá tóbakseinkasölunni 9.7 millj., hjá flugmálunum 3.6 millj. Og svo kemur stærsta og ískyggilegasta upphæðin, og það er Tryggingastofnun ríkisins, en hún á óinnheimt í árslok sjálf um 44.5 millj. kr., og þeir sjóðir, sem hún hefur með að gera, sem eru lífeyrissjóðir og atvinnuleysistryggingasjóður, þar er óinnheimt fullar 25 millj. kr. Þetta eru stærstu upphæðirnar, sem hér er um að ræða, og hvernig sem á það er litið, þá er það mjög ískyggilegt mál, hvernig þetta er komið. Það lakasta í þessu efni frá mínu sjónarmiði a.m.k. er það, að innheimtan kemur þannig fyrir sjónir, að annaðhvort sé hún hlutdræg eða það sé mjög mikill mismunur á því, hvað þeir menn, sem hafa með þetta að gera, ganga hart eftir eða hvað mikil skilsemi á hinn bóginn er hjá þeim, sem eiga að greiða. Það hefur t.d. ár eftir ár komið glöggt fram, að hjá sumum sýslumönnum er innheimt svo að segja allt, hjá öðrum er þetta þveröfugt, og mismunurinn er ákaflega mikill. Þó er enn alvarlegra ástandið hjá Tryggingastofnun ríkisins, því að það má segja, að eftir því sem þeir reikningar líta út, þá sé sú starfsemi komin úr böndunum, vegna þess að allir þessir tugir milljóna, sem þarna er óinnheimt, sýna það, að annaðhvort er ólag á stjórn þessarar stofnunar ellegar þá að búið er að leggja á svo há gjöld, að það er ekki mögulegt að innheimta þau. Og það lakasta í því er þetta, að sum bæjar- og sveitarfélög hafa ekki borgað neitt af árstillaginu og jafnvel meira sums staðar óinnheimt en árstillagið allt, önnur, bæði sýslufélög og sveitarfélög, hafa greitt allt, og fjöldi einstaklinga, sem eiga að borga til þessarar stofnunar, hefur greitt öll sín gjöld, en hjá hinum er skuldin mjög ískyggileg.

Nú er það svo, að þegar við erum að verki, sem erum yfirskoðunarmenn og þið vitið að erum fulltrúar þriggja flokka, þá verður að vera samkomulag um okkar aths. okkar á milli og okkar till. til úrskurðar, eftir að við höfum fengið svör frá ráðh. En við höfum haft reynslu fyrir því á undanförnum þingum, að hvað oft sem við gerum aths. við einstök atriði eða fjárreiður einstakra stofnana, þá er ekkert tillit til þess tekið, hvorki á Alþ. né í stofnuninni sjálfri, heldur haldið áfram ár frá ári sömu ósiðunum, hækkaðar fjárveitingar og svo allt látíð reka á reiðanum með stjórnina.

Eitt af því, sem er mjög athyglisvert, er það, að sumar stofnanir ríkisins, og á ég þá ekki sízt við áfengisverzlun og ríkisútvarp, hafa á undanförnum árum lánað úr sjóðum sínum til félaga og fyrirtækja, og þau lán gengur mjög illa að innheimta. Þau eru sum hver í vanskilum frá því 1951 og 1952, og þeim, sem stjórna þessum fyrirtækjum, gengur mjög illa að fá á þeim skil. Þeir, sem þarna eiga hlut að máli, bera það fyrir sig, þegar við höfum gert aths., — og ég held, að það séu nú kannske ekki nein ný lán, nema eitt hálfrar millj. kr. lán, sem veitt hefur verið til útgerðar á Austfjörðum, ný lán á þessu ári 1957, — en þeir forstjórar og aðilar, sem þarna hafa verið að verki, bera það oftast fyrir sig, þegar við höfum fundið að þessum útlánum, að þetta sé gert með leyfi hlutaðeigandi ráðh.

En vegna þess, hvernig tekið hefur verið á þessum aths., höfum við nú ekki farið lengra í því með okkar úrskurðartill. en að leggja til, eins og hv. frsm. gat hér um, að þetta sé til viðvörunar, það sé til eftirbreytni og það sé til athugunar framvegis, og sumt kemur til greina við endurskoðun reikningsins næsta. Þetta geta hv. alþm. séð með því að lesa aths., svörin og úrskurðartill. En þær tvær aths., sem hv. frsm. gat um og rétt er að við vísuðum til aðgerða Alþ., sem var varðandi útgjöld ríkisútvarpsins og ástandið í Tryggingastofnuninni, þær eru þess eðlis, að það er ekki hægt að gera sér grein fyrir, að það sé hægt að úrskurða þær á annan máta en að það verði að taka til sérstakra ráðstafana frá Alþingis hálfu.

Að öðru leyti skal ég nú ekki um þetta fjölyrða, nema frekara tilefni gefist til, en ég vildi segja þessi orð til þess að gefa hv. þm. nokkurt yfirlit um það, sem ég tel ískyggilegast í þessari starfsemi og kemur glöggt og greinilega fram á því ári, sem reikningurinn er fyrir.