23.02.1961
Neðri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hvernig er nú með hæstv. viðskmrh.? Ég þarf einmitt að tala við hann út af aths., sem hann gerði við mína ræðu. (Forseti: Forseta er ekkert kunnugt um hæstv. ráðh. nú.) Á ég þá að bíða, eða ef til vill getur hæstv. forseti fallizt á að fresta þessu máli um sinn og taka önnur mál á dagskrá. (Forseti: Já, ég skal verða við þeirri ósk og fresta umr. um þetta dagskrármál í bili.) — (Fundarhlé.]

Herra forseti. Það mátti heyra á ræðu hæstv. viðskmrh., þeirri er hann flutti nú við þessa umr., að hann lítur enn á þetta frv. sem stórt mál, mjög stórt mál. Ég hef áður á það bent, að þarna eru í rauninni engin nýmæli á ferð. Það var áður búið að setja upp sérstakan seðlabanka með sérstakri stjórn, og meginatriði þessa frv. er að fjölga stjórnendum þeirrar stofnunar um þrjá, úr fimm í átta.

Hæstv. ráðh. talaði næst töluvert um ákvæði 11. og 12. gr., þ.e.a.s. um fjárheimtuna og fjárbindinguna frá innlánsstofnunum. Hann sagði, að í frv. til laga um Landsbanka Íslands, sem lagt var fram og lögfest í tíð vinstri stjórnarinnar, hefði verið ótakmörkuð heimild fyrir Seðlabankann til þess að heimta fé af innstæðum innlánastofnana, sparisjóða og banka, inn í Seðlabankann. Hann telur, að það hafi verið gallað ákvæði, en hann segir, að það hafi verið nauðsynleg heimild og viðurkennt af öllum þá, að það væri rétt að setja slíka heimild í lög. Ég hef áður tekið fram í fyrri ræðu minni hér við umr., að það muni hafa vakað fyrir þeim, sem settu þá heimild, að það væri gott að hafa þarna einhvers konar öryggisákvæði, sem mætti gripa til, ef það gerðist, að einhver innlánsstofnun sópaði til sín miklu af sparifé og hætta væri á því, að stjórnendur þeirrar stofnunar ráðstöfuðu því með þeim hætti, að valdið gæti hættulegri röskun í fjármálalífinu. Eins og ég þá benti á, var þessi heimild aldrei notuð í tíð vinstri stjórnarinnar. Sú stjórn hefði áreiðanlega aldrei misnotað heimildina, eins og þessi núv. ríkisstj. hefur gert. Þó að heimildin væri þannig eðlileg að vissu leyti og ekkert út á hana að setja, meðan viturlega var á málum haldið, getur hún verið mjög hættuleg í höndum manna eins og þeirra, sem fara nú með stjórn mála í landinu. Það hefur reynslan þegar sýnt, og þess vegna er það, sem ég legg til, að þessi heimild sé numin úr lögum. Núv. ríkisstj. er ekki treystandi til að fara með hana.

Hæstv. ráðh. segir, að tvær meginástæður valdi því, að heimildin eigi að vera í lögum. Seðlabankinn þurfi að hafa vald á peningamagninu í umferð. Hverju máli skiptir það fyrir Seðlabankann eða annan, sem á að hafa vald á peningamagninu í umferð, hvort það eru smáinnlánsstofnanir, sparisjóðir eða innlánsdeildir, víðs vegar um landið, sem hafa svo litið fjármagn, að engin áhrif getur haft á þróun peningamála í heild í landinu, — hverju máli skiptir það, þó að svo smáar stofnanir séu undanþegnar þessum ákvæðum?

Þá segir hæstv. ráðh., að í öðru lagi þurfi að tryggja öryggi innstæðueigenda í innlánsstofnunum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er honum kunnugt um það, að það hafi tapazt innstæðufé hjá sparisjóðum eða innlánsdeildum samvinnufélaga á liðnum árum eða áratugum?

Ráðh. mun vera kunnugur víða erlendis. Hann segist ekki þekkja nokkurt land á byggðu bóli, þar sem slíkar reglur séu ekki í gildi og þeim beitt. Þetta sé einmitt fastur þáttur í starfsemi seðlabanka um viða veröld. Ég get vel gengið inn á það, að hæstv. ráðh. sé kunnugri erlendis en ég. Hann mun vera það. Ég efast nú samt um, að annars staðar þekkist það, að séu gefnar út jafnhlægilegar og heimskulegar reglur um þessi efni og hér hafa verið gefnar út og ég hef nefnt dæmi um. En jafnvei þótt svo væri, að það fyndist einhvers staðar í öðrum löndum, þá eru reglurnar jafnvitlausar fyrir því.

Og svo kom næst rúsínan hjá hæstv. ráðh.: Það er svo góður árangur orðinn af efnahagsráðstöfunum stjórnarinnar, að nú má slaka á þessum reglum, lækka vexti og slaka á bindingarákvæðinu. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara að ræða um efnahagsráðstafanir stjórnarinnar yfirleitt í sambandi við þetta frv., þann árangur, sem af þeim er orðinn. Menn hafa nú fyrir augum þann árangur, sem stjórnin hefur náð.

Hæstv. ráðh. segir, að þessar reglur um fjárheimtu og fjárbindingu þurfi að gilda um allar innlánsstofnanir, líka þær litlu, því að undanþágur séu óframkvæmanlegar, undanþágur muni valda samkeppni á milli innlánastofnana, og nefndi einhver dæmi um það, að slík samkeppni hefði átt sér stað. Hann segir því, að sama regla þurfi að gilda um allar. Þetta er falskenning. Það er ákaflega auðvelt að setja reglur um undanþágur fyrir hinar smærri innlánsstofnanir og gera þær þannig úr garði, að ef einhver slík stofnun færi að raka til sin fé í nokkrum verulegum mæli, þá væri hægt að gera þá kröfu til hennar, að hún skilaði hluta af því inn í Seðlabankann. Ef innstæðuaukning hjá einhverri smástofnun færi fram úr vissu marki, t.d. spariféð margfaldaðist á skömmum tíma, þá er vel hægt að grípa í taumana. Það er vel hægt, ef Þörf þætti, ef þessi innlánsstofnun, sem nú er litil, gerðist allt í einu svo umsvifamikil í peningamálunum, að hætta gæti stafað af fyrir þjóðfélagið í heild. Þessi fullyrðing hæstv. ráðh. er því algerlega haldlaus. Hvaða hætta er á því t.d., þó að undanþága væri fyrir hinar smærri innlánsstofnanir, sparisjóði og innlánsdeildir, að menn færu að fjölmenna norður í Flatey á Skjálfanda, menn úr öðrum byggðarlögum, og leggja þar fé sitt inn í sparisjóðinn — eða þeir tækju sér ferð á hendur norður í Arneshrepp á Ströndum til þess að leggja þar inn í innlánsdeild Kaupfélags Strandamanna eða í sömu erindagerðum vestur á Rauðasand til að leggja í innlánsdeildina þar, svo að ég nefni þær stofnanir, sem ég gerði nokkuð að umtalsefni í mínu nál. og minni framsöguræðu? Það getur víst enginn annar en hæstv. viðskmrh, komið auga á það, að þarna sé stór hætta á ferð. Hann mun vera, geri ég ráð fyrir, nokkuð einn um þá skoðun.

Hæstv. ráðh. spurði, hvaða aðila ég bæri sérstaklega fyrir brjósti, telur, að það séu fyrst og fremst innlánsdeildir samvinnufélaganna. Ég nefndi dæmi um sparisjóði í nál. mínu og í minni framsöguræðu. Ég hef í mínum málflutningi ekki gert neinn greinarmun á sparisjóðum og innlánsdeildum, litlum sparisjóðum og litlum innlánsdeildum, — engan greinarmun gert á því í mínu máli. Þess vegna er allt tal hæstv. ráðh. um það, að ég sé að heimta þarna einhverjar sérundanþágur fyrir innlánsdeildirnar, sem eigi ekki að gilda um sparisjóði af sömu stærð, alveg út í bláinn. Ég hef ekki gefið neitt tilefni til slíkra bollalegginga. Undanþáguákvæðin eiga að mínu áliti að ná jafnt til allra þeirra stofnana, sem hér eru nefndar innlánsstofnanir, sem hafa ekki í veltunni fjármagn yfir einhverja vissa upphæð.

Svo kvaðst hæstv. ráðh. vilja gera mér tilboð, var að tala um, hvort ég vildi fallast á, að skattfrelsi sparifjár nái ekki til innlánsdeilda. Hann meinar sennilega, að það nái ekki til þeirra einstaklinga, sem leggja sparifé inn í innlánsdeildir kaupfélaganna. Hann meinar það sennilega. Allt frá því að samvinnulögin voru sett skömmu eftir 1920, hefur verið í þeim ákvæði um það, að kaupfélögum eða samvinnufélögum væri heimilt að hafa innlánsdeildir. Þetta var samþykkt ágreiningslítið hér á Alþingi á þeim tíma. Langflestir af þeim þingmönnum, sem þá töldust til svonefnds Íhaldsflokks, voru með þessu eins og aðrir, og þetta hefur haldizt í lögum síðan. Og þegar sett voru lög um skattfrelsi sparifjár hér á þingi fyrir nokkrum árum, — ég held, að það hafi verið 1954 í sambandi við breytingar á skattalögum þá, — þá þótti alveg sjálfsagt, að þetta skattfrelsi næði alveg eins til þess sparifjár, sem var í innlánsdeildum samvinnufélaga, eins og í sparisjóðum og bönkum, — og ég skal svara hæstv. ráðh. alveg skýrt: Ég er ekki til viðtals við hann um neina breytingu á þessu.

Þá segir hæstv. ráðh., að ég hafi haldið því fram, að með þessum reglum, sem Seðlabankinn hefur gefið út fyrir hönd ríkisstj., væri fjölbýlið að niðast á dreifbýlinu. Þarna gerir hæstv. ráðh. mér upp orð, sem ég hef aldrei mælt. Það er ríkisstj., sem er að niðast á dreifbýlinu, þeim, sem erfiðasta aðstöðu hafa, en ekki fjölbýlið, því þó að það séu sjö ráðherrar í núv. ríkisstj., þá kalla ég það ekki fjölbýli út af fyrir sig, og ég er sannfærður um það, að þessi fjársmölun utan af landsbyggðinni, dölum og ströndum, er ekki gerð með vilja fólksins í þéttbýlinu yfirleitt, ekki með vilja þess fólks, sem býr hér við Faxaflóa á þéttbýlasta svæði landsins. Það er áreiðanlegt, að það er ekki eftir þess beiðni, ekki eftir þess kröfum og ekki í þess þágu.

Hæstv. ráðh. segir, að það hafi verið mikil fjárfesting í landbúnaði undanfarið, og las upp tölur úr töflum um það. Þar að auki er mikið fé farið í rafmagnsveitur úti um landið. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi, þessi ummæli hæstv. ráðh., heldur en hann telji, að það hafi verið allt of langt gengið í því að byggja upp landbúnaðinn undanfarið og allt of langt gengið í því að láta fólkið, sem býr í sveitunum, fá rafmagn til heimilisnota og annarrar starfsemi, sem fólkið í þéttbýlinu hefur lengi notið. Það var auðvitað kunnugt áður, að það eru til menn í þjóðfélaginu og meira að segja hér á þessari samkomu, sem sjá ofsjónum yfir því, sem varið hefur verið til þessara hluta.

Það ber sennilega að skilja hæstv. ráðh. svo, að ríkisstj. ætli að halda fast við þær fáránlegu reglur, sem hún hefur látið Seðlabankann gefa út um þessa fjárheimtu. En af því að hann var að gera mér tilboð, sem hann svo nefndi áðan, þá vil ég borga honum í sömu mynt og gera honum ákveðið tilboð. Ég skal bjóðast til að aðstoða hann við að búa til reglur um undanþágur fyrir þær innlánsstofnanir, sem hafa svo lítið sparifé, að engri röskun getur valdið í fjármálalífinu í heild. Ég tel alveg vandalaust að setja svona reglur, og ég er nærri víss um það, að ef við legðum saman, ég og hæstv. viðskmrh., þá tæki það okkur ekki langan tíma að setja svona reglur. Og eins og hann bað um ákveðið svar frá mér, þá vil ég óska eftir ákveðnu svari frá honum um það, hvort hann vilji ekki taka þessu boði mínu, og ég skal þá vera tilbúinn, hvenær sem hann óskar eftir, ef sérstök forföll hamla ekki, að setjast niður með honum og búa til svona reglur.

Hér flutti hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) einnig ræðu. Í upphafi hennar talaði hann um leikaraskap. Mér kemur i hug, að hæstv. ríkisstj. gæti vel haft nokkurt gagn af sínum tilskipunum og gangnaseðlum, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni, jafnvel þó að allt það væri afturkallað og hætt að smala fénu frá smástöðunum úti um land hingað í Seðlabankann samkv. þeim fyrirmælum, sem í þessum plöggum felast. Það hefur nefnilega oft komið fyrir, að forvígismenn á sviði leiklistarinnar hafa stofnað til verðlaunasamkeppni um gerð leikrita, t.d. gamanleikrita, og ef slíkt ætti sér stað einhvern tíma innan skamms, gæti hæstv. ríkisstj. vel sent þessar tilskipanir sínar til þeirrar samkeppni, og ég verð að segja það, að þá mega aðrir höfundar í hópi leikritaskálda spjara sig, ef hæstv. stjórn á ekki að fá verðlaunin.

Hv. 5. þm. Reykv. segir, að árið 1957 hafi verið fjölgað um 13 menn í bankaráðum og bankastjórnum við breyt. á bankalögum þá. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm., sem er töluglöggur, fari þarna rétt með, en ég hef ekki talið þetta saman. Við skulum segja, að þetta sé svo. En það kemur á daginn, að núv. ríkisstj. og hennar liði finnst þetta ekki nóg, því að þeir vilja samkv. þessu frv. bæta þremur við.

Þá talaði hv. 5. þm. Reykv. um mikil útlán til samvinnufélaga á liðnum árum, og var helzt að skilja, að hann teldi, að einkum þau útlán hefðu valdið verðbólgu. Hann nefndi tölur í þessu sambandi, það hefðu verið aukin útlán til samvinnufélaga, sem hann nefndi svo, um 250—300 millj. á fáum árum, og hann sagði, að þetta væru fyrst og fremst kaup afurðavíxla, aukin kaup afurðavíxla Seðlabankans vegna landbúnaðarins. Það er vitanlega ekkert óeðlilegt við það, þó að fé, sem lánað er út á afurðir landbúnaðarins, fari fyrst og fremst til samvinnufélaga, vegna þess að það er svo um meginhlutann af framleiðslu bændanna, að þeir annast sölu á henni sjálfir í gegnum sín samvinnufélög. En það er ástæða til að spyrja hv. þm. í sambandi við þetta: Telur hann, að landbúnaðurinn eigi að njóta minni réttar til þess að fá lán út á sínar vörur hjá bönkunum heldur en t.d. sjávarútvegurinn? Og: hvernig getur það frekar haft verðbólguáhrif, þó að það sé lánað út á landbúnaðarvöru, sem t.d. er seld úr landi, heldur en ef lánað er út á fisk, sem líka er seldur úr landi, og alveg eins þó að landbúnaðarvörurnar séu að miklu leyti seldar innanlands? Með framleiðslu á landbúnaðarvörum til notkunar innanlands er komið í veg fyrir, að það þurfi að kaupa slíkar vörur erlendis frá. Það er þannig sparnaður á erlendum gjaldeyri, og það er vitanlega fjarri öllu lagi, að slík lán geti valdið verðbólgu eða hafi gert það. Það væri fróðlegt að vita, hvort hv. 5. þm. Reykv. mælir hér fyrir munn síns flokks, hvort það er skoðun flokksins, sem gægist þarna fram hjá þessum hv. þm., að landbúnaðurinn eigi alls ekki að njóta sama réttar og sjávarútvegurinn að fá lán út á sínar afurðir. Það væri t.d. fróðlegt að vita, hvað hæstv. landbrh. segir um þetta. Hann er því miður ekki hér í sínum stól í þd. nú.

Hv. þm. segir, að það hafi sézt háreistar kaupfélagshallir hingað og þangað um landið að undanförnu, en ekki verið hægt að fá fé til uppbyggingar verzlunar og iðnaðar á hinum stærri stöðum. Hvernig skyldi það vera? Er tilfinnanlegur hörgull á verzlunarhúsum hér, t.d. í Reykjavík eða næsta nágrenni hennar? Vantar kannske hér byggingar yfir bankastarfsemi? Þessi hv. þm. ætti að geta svarað því, því að hann er bankastjóri. Hvað skyldu vera mörg bankahúsin og þau yfirleitt nokkuð stór, sem maður gengur fram hjá, þegar maður fer hér nokkur hundruð metra úr Austurstræti til austurs eftir Bankastræti og Laugavegi? Hvað hafa þessi hús kostað? Er kannske bankastarfsemin alveg á heljarþröm, af því að hana vanti húsnæði?

Og svo segir hv. þm. að nokkru leyti það sama og hæstv. ráðh., að mitt nál. snúist mest um það, að ég vilji ekki, að hluti af fé innlánsdeilda sé bundinn á sama hátt og fé sparisjóða úti um landið. Ég er búinn að svara þessari fjarstæðu áður. Ég hef engan greinarmun gert og geri ekki á fé innlánsdeilda og sparisjóða, sem hafa yfir litlu fjármagni að ráða. Og ég er alls ekki viss um það, að Seðlabankinn eða stjórn hans — með allri virðingu fyrir henni undir handleiðslu ríkisstj. núv. sé færari um að ráðstafa fé sparisjóða og innlánsdeilda um allt land heldur en stjórnendur þessara litlu stofnana á þeim stöðum, þar sem þær starfa. Ég er ekki viss um það. Hv. þm. segir, að þetta fé eigi ekki að vera alveg þrælbundið í Seðlabankanum, því að það séu möguleikar fyrir því og gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn veiti lán til ýmissa góðra hluta, og hugsanlegt sé, að eitthvað af þessu fé fari út á land til nauðsynlegrar uppbyggingar þar, og það er líka vikið að þessu í 11. gr. frv. Þar segir eitthvað á þá leið, að stjórn Seðlabankans skuli leitast við að greiða úr fyrir þeim innlánsstofnunum, sem fé hefur verið bundið fyrir, en þurfi mjög á því að halda, t.d. með því að taka af þeim verðbréf eða aðrar eignir. Þetta á þá að ganga þannig, skilst manni, að það á að heimta fé inn í Seðlabankann utan af landinu, frá hvað litlum stofnunum sem er, hvort sem það er nú heldur aðeins eitt ærverð eða eitt kýrverð, en svo, ef menn á þessum stöðum rekur upp á sker og þeir verða í vanda staddir, af því að það er búið að taka of mikið af þeim inn í Seðlabankann, þá geta þeir gert sér ferð á hendur til Reykjavíkur og talað við þessa menn í Seðlabankanum og farið fram á það, að þeir fái eitthvað til sinna þarfa. Þetta minnir á spil, sem krakkar innan við tíu ára aldur iðka stundum og er kallað langavitleysa.

Hv. þm. minntist á það, sem ég benti á sem dæmi í mínu nál., að Seðlabankinn krefðist þess, að hann fengi núna í apríl upphæð vestan af Rauðasandi, sem nemur verði fyrir eina á, loðna og lembda, og svo varpaði hv. þm. fram þessari spurningu: Ja, getur ekki verið, að ærverðið sé nú komið í fisk úti í Vestmannaeyjum? Hann fullyrti ekkert um þetta, og ég veit það ekki. En annars mun bankinn, sem hann stýrir, hafa útibú í Vestmannaeyjum, og má þá bankastjórinn manna bezt um þetta vita. Það skyldi nú vera svo, að ærin, sem þeir ætluðu að fá núna um sumarmálin að vestan, sé nú þegar komin til Vestmannaeyja. En meðal annarra orða, hvernig er með fiskinn þarna sunnan landsins, í Vestmannaeyjum? Mér hefur skilizt, að það fari litið fyrir því, að þar hafi fiskur verið dreginn á land, það sem af er þessu ári. Það er þá undantekning, eitthvað alveg sérstakt, ef þetta ærverð er nú bundið í fiskbirgðum þar.

Þá var hv. þm. að tala um það, að þess væru dæmi, að væru borgaðir hærri vextir í innlánsdeildum en öðrum stofnunum og fé fengist þar ekki útborgað. Ég veit það ekki, mér er ekki kunnugt um það, að þar sé ekki farið eftir hinum fyrirskipuðu reglum eins og annars staðar um vaxtahæðina. Mér er ekki heldur kunnugt um, að það hafi verið neitað að borga út fé innlánsdeilda. Það getur vel verið, að hv. þm. viti um einhver dæmi þess, — ég veit það ekki, og hann nefndi engin ákveðin dæmi. Það eru vissar reglur, sem gilda um útborganir úr innlánsdeildum alveg eins og sparisjóðum, þar sem það er ákveðið, hvenær menn geti fengið innstæður greiddar. Þar sem ég þekki til, er þetta þannig, að það er borgað viðstöðulaust út úr innlánsdeildum, ef óskað er eftir því, alveg eins og hjá sparisjóðum. Þannig er það alls staðar, þar sem ég þekki til í kaupfélögum.

Hv. þm. sagði að lokum, að ég legði áherzlu á að fella 11. og 12. gr. úr frv., en þó væru ákvæði þar um fjárbindinguna með meiri takmörkunum en í núgildandi landsbankalögum. Þetta er vegna þess, að ég reikna með því, þar sem 4 af 5 nm. í fjhn. hafa mælt með því, að þetta frv. yrði samþ., þá reikna ég fremur með því, að það verði samþ., og þá eins fyrir því, þó að þessar greinar verði felldar niður. En um leið og þetta frv. verður samþ. eins og það liggur fyrir að öðru leyti, þá falla úr gildi landsbankalögin, sem nú eru, og þar með þetta heimildarákvæði um fjárbindinguna, sem í þeim er.