21.03.1961
Efri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

213. mál, minnispeningur Jóns Sigurðssonar

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og grg. þess frv., sem hér liggur fyrir, ber með sér, er efni þess það að heimila ríkisstjórninni að slá minnispening úr gulli í tilefni af 150 ára afmæli Jóns Sigurðssonar á sumri komanda og verði því fé, sem inn kemur vegna sölu minnispeningsins, varið til framkvæmda á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar að Rafnseyri við Arnarfjörð, en að dómi kunnugra hefur sá staður verið í þeirri niðurníðslu að undanförnu, að ekki er vammlaust fyrir Íslendinga og íslenzk stjórnarvöld. Fjhn, hefur haft þetta mál til athugunar og mælir einróma með því, að það verði samþykkt.