24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

217. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Eftir því sem ég hef komizt næst, hafa 727 nýbýli verið byggð hér á landi, eftir að nýbýlalögin gengu í gildi, og 159 eyðijarðir byggðar upp. Sést af þessu, hversu mikinn þátt lög þessi hafa átt í uppbyggingu sveitanna á þessu tímabili, en á öllu landinu eru talin liðlega 6 þúsund sveitabýli. Margt af þessum nýbýlum er mjög vel hýst og ræktun komin í ágætt horf og bústofn sæmilegur, þó að þar sé auðvitað misjafnt um að litast eins og annars staðar. T.d. eru í einu byggðahverfi sunnanlands, í Ölfusi, átta býli vel hýst og með mikla ræktun, sem bera 20 kúgildi hvert, og í Húnavatnssýslu eru 3 býli í hverfi, sem bera 24.3 kúgildi til jafnaðar. Þetta eru aðeins dæmi. En meðaltals áhöfn á nýbýlum mun vera 14.7 kúgildi.

Það yrði að sjálfsögðu of langt að fara að lýsa því, hversu það fólk, sem ráðizt hefur í og ræðst í það stórræði að koma sér upp býli og bústofni og áhöldum með tvær hendur tómar, hefur orðið að klífa þrítugan hamar. Stundum er á það bent, að þetta fólk njóti mikillar aðstoðar frá alþjóð til þessara hluta og er því alls ekki að neita, að nýbýlalögin hafa hér gert kleift það, sem annars var ókleift. En þrátt fyrir það er hér um afar mikil framlög að ræða frá þessum einstaklingum. Eins og nú er, mun það kosta um 1.3 milljónir að koma upp sæmilegu nýbýli með ræktun og húsum og áhöldum og áhöfn, sem nemur 20–24 kúgildum. En framlag landnámsins til þess býlis er 60 þús. kr., og auk þess má gera ráð fyrir öðrum 60 þús. kr. í jarðræktarstyrk. Lán úr byggingarsjóði hefur verið 75 þús. kr. og ræktunarsjóðslán geta orðið í mesta lagi 200–250 þús. kr. Alls eru lán og styrkir í kringum 400 þús. Þá verður einstaklingurinn að leggja fram frá sjálfum sér, eins og nú er, um 800–900 þús. kr., og getur þá hver sem er gert sér í hugarlund, hversu gífurlegt átak það er fyrir einstakling að ráðast í stofnun nýbýlis. En þrátt fyrir þetta koma þó enn fram umsóknir um aðstoð við stofnun nýbýla litlu færri en verið hefur, eða um 50 umsóknir á síðasta ári, að því er mér er tjáð, móti 60–70 umsóknum næstu ár á undan.

1957 voru nýbýlalögin endurskoðuð og endurbætt. T.d. voru sett inn í þau þá ákvæði 38. gr. um það, að greiða skuli aukajarðræktarstyrk, sem nemur talsverðri upphæð, til smábýla, sem hafa innan við 10 hektara tún, til þess að styðja að því að koma þeim býlum í viðunandi ástand til búskapar, miðað við nútímakröfur.

Í samræmi við framansagt má það ljóst vera, að allir þeir, sem í nýbýlastofnun ráðast nú, eiga afar örðugt uppdráttar, þegar allt verðlag á efni og vinnu hefur stórum hækkað síðan 1957, fyrst með efnahagsráðstöfunum 1958 og síðan með gengisbreytingunni 1960. En sá gleðivottur er þó enn fyrir hendi, að margt fólk í landinu vill leggja það á sig að byggja upp sveitirnar, þótt það kosti gífurleg fjárframlög og mikla vinnu, því að eins og fyrr segir, liggur enn fyrir fjöldi umsókna hjá nýbýlastjórn um stofnun nýbýla.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, gengur út á það að hækka nokkuð framlög til landnámsins frá því, sem ákveðið er í lögum frá 1957: 1) Að framlag til ræktunar á nýbýlum hækki úr 5 millj. kr. í 61/2 millj. Mun láta nærri, að sú hækkun geti numið 15–20 þús. kr. á býli, og verður þá ræktunarstyrkur á býli um 50 þús. En ræktun 10 hektara túns, sem er talið lágmark á eitt býli, kostar nú 123 þús. kr. 2) Að framlag vegna bygginga eða byggingarstyrkur á nýbýlahús hækki úr 11/2 millj. upp í 2, og hækkar þá byggingarstyrkur úr 25 þús. kr. upp í 40 þús. á íbúðarhús. 3) Í 38. gr. og 41. gr. laganna frá 1957 eru ákvæði um að greiða viðbótarjarðræktarstyrk til smábýla með undir 10 hektara túnstærð, 5 millj. kr. á ári, næstu fjögur ár, þ.e. 1958, 1959, 1960 og 1961. Með þessu ári fellur þetta ákvæði því niður og mun hugsun löggjafans þá, þ.e. 1957, hafa verið sú, að 1961 yrðu allar jarðir komnar með 10 hektara tún. En nú þykir sýnt, að enn þurfi fjögur ár til að ná því takmarki. Til viðbótar verkefni því, er 38. og 41. gr. nefndra laga fjalla um, var svo samþykkt á Alþingi í fyrra lagaákvæði um það, að af þessu fé mætti greiða lítils háttar byggingarstyrk vegna íbúðarhúsa bænda, er mjög erfiðan fjárhag hafa, 25 þús. kr. á hús, sbr. lög nr. 49 11. júní 1960. Þykir sýnt, að a.m.k. 40 íbúðarhús árlega muni koma undir þetta lagaákvæði. Hækkun sú, sem hér um ræðir í þessu frv. í þessu skyni, er 1 millj. miðað við lögin frá 1957. Alls hækkar þá framlag vegna þessa lagafrv., ef samþykkt verður, frá því, sem það var áður, um 1.5 millj. á 1. gr., 0.5 á 2. og 1 á 3., sama sem 3 millj.

Landbn. er sammála um, að nauðsynlegt sé að hækka framlög á þessu þingi vegna landnámslaganna til að mæta að nokkru leyti auknum kostnaði við stofnun nýbýla og í öðru lagi til að fullnægja lagaákvæðum nr. 59 1960. Það er tillaga meiri hl. n., að frv. þetta verði samþykkt óbreytt.