05.12.1960
Neðri deild: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

120. mál, sala eyðijarðarinnar Hellnahóls í Rangárvallasýslu

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af okkur þrem þm. úr Suðurlandskjördæmi og endurflutt. Það var flutt í fyrra af okkur hinum sömu þm., en fékk ekki endanlega afgreiðslu. Það fer fram á, þetta frv., að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að selja bóndanum á Moldnúpi í Vestur-Eyjafjallahreppi, Einari Jónssyni, eyðijörðina Hellnahól. Þessa eyðijörð hefur þessi ágæti bóndi nýtt nú nærfellt 26 ár, gert þessari eyðijörð töluvert til gagns með framræslu og ræktun, og fylgir hér á þskj. vottorð frá oddvita Vestur-Eyjafjallahrepps um það, hversu Einari Jónssyni bónda á Moldnúpi hafi vel farnazt í umhirðu sinni á þessari eyðijörð ríkissjóðs.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti, sem farið er fram á það við hv. Alþ., að hér séu samþykkt lög til heimildar fyrir ríkisstj. að láta af hendi jarðir ríkisins, og ég er viss um það, að hér eru allar aðstæður í þessu efni fyrir hendi, miðað við samsvarandi afgreiðslur fyrr á tímum, — allar aðstæður fyrir hendi, að þessum mæta bónda verði gefið færi á að kaupa þessa jörð, sem hann svo lengi hefur nytjað.

Ég vil vænta þess, að sú nefnd, sem fær til athugunar nánar þetta mál, sem mun verða landbn., taki rögg á sig í þetta sinn og afgreiði þetta tiltölulega litla mál, en þó mikilvæga fyrir þennan mann, sem hér er um að ræða, bóndann á Moldnúpi, — taki það til athugunar og afgreiði það með þeim hraða, sem auðið er, þannig að frv. geti orðið að lögum á þessu þingi.

Ég skal svo ekki hafa framsögu um þetta mál öllu lengri, en vil óska þess, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.