17.02.1961
Efri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

120. mál, sala eyðijarðarinnar Hellnahóls í Rangárvallasýslu

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Jörðin Hellnahóll í Vestur-Eyjafjallahreppi í Rangárvallasýslu hefur verið í eyði, svo að áratugum skiptir, segir oddvitinn í áliti, sem fylgir þessu frv., en hefur verið nytjuð lengst af og um 26 ára skeið af ábúanda Moldnúps, sem er næsti bær við Hellnahól.

Frv. þetta var lagt fyrir Alþingi í fyrra, en varð þá ekki útrætt og er endurflutt nú. Hreppsnefndin í Vestur-Eyjafjallahreppi hefur á fundi 22. jan. 1960 samþ. að mæla með því, að bóndinn á Moldnúpi fái þessa jörð keypta af ríkinu, þar sem hún telur, að ólíklegt sé, að þarna verði reist sérstakt býli aftur. Skv. áliti hennar og trúnaðarmanna ríkisins að því er snertir þjóðjarðir telur landbn. Ed. eðlilegt, að jörðin verði seld, og mælir með sölunni.