20.03.1961
Efri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

117. mál, ábúðarlög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir til ábúðarlaga, er allmikill lagabálkur, og verður að sjálfsögðu ekki hér farið nákvæmlega út í einstakar greinar hans. En forsaga þessa frv. er sú, að á Alþingi 1958 kom fram þáltill. í Sþ. um að endurskoða gildandi lög um ábúð leigujarða. Flm. þeirrar till. voru Ágúst Þorvaldsson, Ásgeir Bjarnason og Halldór E. Sigurðsson. Allshn. Sþ. samþ. að mæla með þessari till., eftir að hún hafði sent hana til umsagnar nokkrum stofnunum, sem helzt snerta landbúnaðinn. Á Alþ. var svo kosin þriggja manna nefnd til þess að framkvæma þessa endurskoðun, og skipuðu þá nefnd Jón Sigurðsson á Reynistað, Ágúst Þorvaldsson alþingismaður og Pálmi Einarsson landnámsstjóri. Nefnd þessi mun hafa lagt mikla vinnu i starf sitt og m.a. kynnt sér löggjöf um þetta efni í nágrannalöndunum og Norðurlöndum einkum — og annað það, er þetta varðar, svo sem skipulag jarðeignamála yfirleitt í þessum löndum.

Hér á landi eru í gildi lög um ábúð frá 1884, frá 1933 og frá 1951, ekki samhljóða nema í sumum greinum, enn fremur lög um ættaróðal og erfðaábúð frá 1943 og lög um landnám og nýbyggðir frá 1952. Allir þessir lagabálkar koma mikið og sumir mjög mikið inn á réttindi og skyldur landeigenda annars vegar gagnvart leigujörðum og einnig réttindi og skyldur leiguliða. Það er að sjálfsögðu margs að gæta, svo að ekki reki sig þar eitt á annars horn, þar sem þrír lagabálkar eru í gildi um þessi efni og gilda raunar dálítið misjafnt, vegna þess að eftir eldri lögum sumum hafa byggingarbréf verið gerð og þau hafa verið látin gilda, þar til ábúendaskipti verða á jörðum.

Á síðasta þingi var þetta frv. lagt fram í Nd., og fékk það þar afgreiðslu í n. og alla venjulega meðferð. Í Ed. varð það ekki útrætt þá. Nú í vetur hefur frv. enn gengið í gegnum Nd. og verið athugað þar í nefnd og tekið þar lítils háttar breytingum frá því í fyrra. Við hv. 5. þm. Austf., Páll Þorsteinsson, höfum farið í gegnum þennan lagabálk allan og borið saman við gildandi lagaákvæði, að því er við álítum nokkuð tæmandi, grein fyrir grein, og álítum, að þetta frv. sé af nefndarinnar hálfu, sem samdi það og ég gat um áðan, gert af vandvirkni. Breytingar eru ekki miklar frá því, sem gilt hefur í þessu efni hin síðustu ár, en mörg ákvæði gerð skýrari en þau voru, og er það til bóta.

Að sjálfsögðu eru þó nokkur nýmæli í lagabálki þessum fram komin vegna breytinga, er ætíð verða með nýjum tímum, einkum má benda á 1. gr. frv. um, hvað teljist lögbýli, einnig um búrekstraraðstöðu, eyðibýli, nýbýli, garðyrkjubýli og smábýli. Ákvæði um þetta í löggjöfinni eru tiltölulega ný.

Í 10. gr. er nýmæli um það, hvernig reikna skuli jarðarafgjöld, og er þar um allmikla breytingu að ræða frá því, sem áður hefur gilt. Áður fyrr voru þau reiknuð eftir kúgildum, en í seinni tíð hafa þau aðallega verið reiknuð eftir fasteignamati, en nú er gert ráð fyrir, að þau verði reiknuð eftir búrekstraraðstöðu á hverju býli og því, hvað býli er talið bera mikla áhöfn, en greidd annars í peningum.

12. gr. er mjög löng og ýtarleg og fjallar um húsabætur á leigujörðum og skyldur landeigenda til uppbyggingar og húsabóta og einnig að sjálfsögðu skyldur og réttindi leiguliðans. Grein þessi fjallar um mesta vandamálið, sem jafnan fylgir því að eiga jörð og búa ekki á henni sjálfur. Mörgum mun finnast, að ábúðarlögin leggi miklar skyldur á herðar landsdrottni í þessu efni, sem hann í ýmsum tilfellum geti vart undir risið. En ákvæði þessi eru raunar ekki ný, þó að þau séu nú gerð öllu skýrari en verið hefur, enda þótt sumir jarðeigendur hafi ekki fullnægt þeim hér til, og á ég þar einkum og sérstaklega við jarðeignadeild ríkisins sjálfa. Þá eru þau eigi síður nauðsynleg til að stuðla að eða tryggja ábúð á sem allra flestum jörðum í landinu, en það tel ég vera þjóðarnauðsyn.

Ég tel, að lagabálkur þessi sé til umbóta frá eldri ákvæðum, sem eru fremur ónákvæm sum og auk þess ósamhljóða í ýmsum greinum, og leyfi ég mér því hér með að leggja til, að frv. þetta verði samþykkt.