20.03.1961
Efri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

182. mál, afhending Þingeyjar í Skjálfandafljóti

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir um sölu Þingeyjar í Skjálfandafljóti, En í þessu frv. segir, að ríkisstj, skuli heimilt að selja Suður-Þingeyjarsýslu eignarhluta ríkisins í Þingey í Skjálfandafljóti, sem er 3/4 hlutar eyjarinnar, fari salan fram með því skilyrði, að eyjan verði friðuð fyrir ágangi búfjár. Enn fremur segir, að söluverðið skuli ákveðið með mati dómkvaddra manna, enda sé við það mat tekið tillit til þess skilyrðis, sem sett er um söluna. Frv. þetta mun vera flutt að beiðni sýslumanns og sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu, en sýslunefndin hefur samþ. að reyna að ná eignarhaldi á eyjunni með það fyrir augum að friða hana og gera hana að eins konar héraðsgarði og vernda hinar sögulegu minjar, sem við hana eru tengdar. Hefur allshn. fallizt á þessi sjónarmið og mælir því með, að frv. verði samþ. Fyrir nefndinni lá einnig brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. e., brtt. á þskj. 402. Einstakir nm. áskildu sér rétt til þess að fylgja þessari brtt., enda má segja, að hvort sem frv. yrði samþ. óbreytt eða með þessum breytingum, sem þarna eru lagðar til, þá sé í báðum tilfellum sá höfuðtilgangur tryggður, að eyjan komist í eigu sýslunnar og að hún verði þá gerð þar að eins konar héraðsgarði og hinar sögulegu minjar þar verndaðar.