28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Að undanförnu hafa átt sér stað í Bandaríkjunum og Bretlandi býsna fróðlegar umr. um efnahagsmál. Sérstaklega hafa þessar umr. í Bandaríkjunum verið athyglisverðar. Þar hefur ný stjórn tekið við af stjórn Eisenhowers, og hefur hún talið sér nauðsynlegt að breyta um stefnu í efnahagsmálum í ýmsum grundvallaratriðum. Í umr. þessum leggja efnahagssérfræðingarnir megináherzlu á það, að rétt efnahagsmálastefna verði að tryggja aukna og sívaxandi þjóðarframleiðslu. Sú efnahagsstefna, sem leiðir til stöðvunar eða samdráttar þjóðarframleiðslunnar, er röng í grundvallaratriðum að þeirra dómi. Allir virðast efnahagssérfræðingar Kennedys vera á einu máli um það, að meginástæða núv. kreppuástands í Bandaríkjunum sé samdráttarstefna Eisenhower-stjórnarinnar. Það, sem olli mestu um samdráttinn, var að þeirra dómi of þröng útlánapólitík, of háir vextir, einkum hjá framleiðslunni, of lítill kaupmáttur lægstu launa í landinu.

Þessir dómar um efnahagsstefnu Eisenhowerstjórnarinnar eru á margan hátt athyglisverðir fyrir okkur. Það fer ekkert á milli mála, að samdráttarstefnan hér, hin svonefnda viðreisn, er skilgetið afkvæmi hinnar amerísku samdráttarstefnu Eisenhowers. Hér var sömu ráðum beitt eins og þar í ýmsum grundvallaratriðum. Hér var ákveðin þröng útlánapólitík, vextir voru stórhækkaðir, alveg sérstaklega á framleiðslunni, og kaupmáttur launa var keyrður niður. Afleiðingarnar hafa ekki heldur látið á sér standa hér í okkar landi. Þjóðarframleiðslan hefur minnkað á fyrsta ári samdráttarstefnunnar, og hefur slíkt ekki komið fyrir um margra ára skeið. Uppbygging framleiðslufyrirtækja hefur stöðvazt, atvinnuvegirnir stynja undan taprekstri, sem beint hefur leitt af viðreisnarstefnunni, og kaupmáttur launa hefur stórlega rýrnað, sem aftur hefur leitt af sér vaxandi samdrátt í innlendri framleiðslu.

Í Bandaríkjunum hefur dauðadómur verið kveðinn upp yfir samdráttarstefnu Eisenhowers, en hér er staðreyndum neitað og höfðinu lamið við steininn. Hér stritast ríkisstj. enn við að mæla samdráttarstefnunni bót, þó að hverju barni megi vera ljóst, út í hvílíkt öngþveiti hún leiðir, ef ekki verður breytt um stefnu. Þegar innflutningur á vörum til landsins stórminnkar, íslenzk flutningaskip koma ýmist tóm erlendis frá eða aðeins með slatta af vörum, þegar innflutningurinn í janúar s.l. féll nærri að segja um helming frá því, sem var í janúar 1960, þá segir ríkisstj. ósköp róleg og ánægð, að nú sé ástandið að lagast og viðreisnin að byrja, að verka. Þegar íbúðabyggingar stöðvast að mestu vegna dýrtíðar og peningaleysis almennings, þá sér ríkisstj. aðeins dýrðina í verzlunarfrelsinu, sem býður upp á birgðir af byggingarefni, sem enginn getur keypt. Þegar eini teljandi útflutningsiðnaður landsmanna, fiskiðnaðurinn, dregst verulega saman, þegar framleiðsla á frosnum fiski, minnkar í fyrsta skipti í mörg ár, en útflutningur á óunnum ísuðum fiski eykst hins vegar, þá segir ríkisstj., að það sé greinilega um ýmis batamerki að ræða í atvinnulífinu. Og þegar atvinnureksturinn kvartar undan taprekstri, sem afleiðingu af vaxtaokri, sívaxandi dýrtíð og því að tapa beztu útflutningsmörkuðunum, þá er ráðið að breyta rekstrartöpunum í löng lán.

En er ekki um einhver batamerki að ræða í peningamálunum? kunna menn að spyrja, með sérstöku tilliti til þess, sem Vilhjálmur Þór, aðalbankastjóri Seðlabankans, sagði í útvarpsþætti um þau mál fyrir stuttu. Við skulum athuga það í örstuttu máli.

Samkvæmt upplýsingum seðlabankastjórans jukust spariinnlög s.l. ár um 324 millj. kr., samanborið við 313 millj. kr. árið 1959. Aukningin er 11 millj. kr. En sé það haft í huga, að árið 1960 voru vextir 50–70% hærri en árið áður og spariinnlög hækkuðu það ár um 80–90 millj. kr. aðeins vegna hærri vaxta, þá er ljóst, að raunverulegur sparnaður hefur orðið minni s.l. ár en árið 1959. Í þessum efnum er því alls ekki um batamerki að ræða. Útlánaaukning varð minni s.l. ár en árið áður, sagði aðalbankastjórinn. Árið 1959 var um útstreymi að ræða úr Seðlabankanum, en árið 1960 var um innstreymi á fé í bankann að ræða. Hvað segja nú þessar upplýsingar í raun og sannleika um ástandið í peningamálunum? Jú, það, sem gerðist árið 1960, var þetta: Það ár var öll framleiðsla ársins flutt út og þó meira til eða sem nam 207 millj. kr. af eldri birgðum. Í árslok voru því birgðir af útflutningsvörum minni í landinu en nokkru sinni áður. Afleiðingin varð auðvitað sú, að lán Seðlabankans út á afurðir minnkuðu. Féð kom inn í bankann fyrir útfluttar afurðir umfram nýjar birgðir. Það var innstreymi í bankann í stað útstreymis áður, en þá jukust einmitt afurðabirgðirnar. Batamerkin koma því fram í því, að framleiðslan minnkaði, að minna var til að lána út á. Þessi ábati hefur haldið áfram. Í janúar og febrúar lá mestöll útflutningsframleiðslan niðri vegna verkfalla og verkbanna, sem beint leiddi af samdráttarstefnu ríkisstj. Seðlabankinn og ríkisstj. hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af miklum afurðalánum þennan tíma og þessi viðreisnarbati í peningamálunum hefur því haldið áfram.

Nei, það er sannarlega ekkert batamerki í peningamálum þjóðarinnar, þó að lán út á útflutningsframleiðslu minnki vegna minnkandi framleiðslu. Sannleikurinn er líka sá, að um engan raunverulegan bata getur verið að ræða í efnahagsmálum þjóðarinnar, nema þjóðarframleiðslan aukist, í þeim efnum gildir hið sama um efnahagsmál okkar og allra annarra þjóða. Aukin þjóðarframleiðsla var hér ekki s.l. ár, heldur þvert á móti.

Hv. þm. Birgir Kjaran gerði í ræðu sinni fyrr í kvöld nokkurn samanburð á rekstri ársins 1958 og rekstri ársins 1960. Árið 1958 var hið síðara stjórnarár vinstri stjórnarinnar, en árið 1960 var stjórnarár viðreisnarstjórnarinnar. Ég skal minna á örfá atriði í samanburði á afkomu þessara tveggja ára.

Árið 1958 jókst framleiðsla útfluttra sjávarafurða okkar um 20.8%. Árið 1960 minnkaði þessi framleiðsla um 10%. Árið 1958 var afkoma atvinnuveganna hagstæð. Á því ári sýndu reikningar togaraflotans í landinu, að meiri hluti togaranna var rekinn með verulegum hagnaði, og á vetrarvertíðinni voru bátarnir reknir með verulegum hagnaði. Nú er hins vegar um stórfelld töp á öllum þáttum sjávarútvegsframleiðslunnar að ræða. Árið 1958 náðist fullkominn greiðslujöfnuður við útlönd, þegar tillit er tekið til birgðaaukningar á því ári, en árið 1960 var raunverulega um 600–700 millj. kr. greiðsluhalla að ræða í viðskiptunum við útlönd. Árið 1958 var um verulegan greiðsluafgang að ræða hjá ríkissjóði. En á árinu 1960 er um mjög knappan rekstur hjá ríkissjóði að ræða þrátt fyrir gífurlega háar auknar tekjur til ríkissjóðs. Árið 1958 var kaupgjald hækkað fyrst með lögum og síðan með frjálsum samningum. En árið 1960 hefur kaupið farið jafnt og þétt lækkandi alla mánuði ársins með hækkandi verðlagi, en raunverulega föstu kaupgjaldi. Þannig er nú samanburðurinn milli þessara tveggja ára. Þjóðarframleiðslan minnkaði á árinu 1960. Það er út af fyrir sig alvarlegt mál. En það, sem er enn ískyggilegra en sú staðreynd um minnkaða þjóðarframleiðslu á árinu 1960, er þó, að nú má öllum vera ljóst, að á yfirstandandi ári bendir allt til þess, að þjóðarframleiðslan fari enn stórum minnkandi. Tveir fyrstu mánuðir þessa árs fóru að mestu forgörðum hvað útflutningsframleiðsluna snertir. Orsakir þess voru óumdeilanlega árekstrar, sem leiddi af viðreisnarstefnu ríkisstj. Það er dýr stjórnarstefna, sem stöðvar mestalla útgerð landsmanna í tvo mánuði á vetrarvertíðinni. Og nú þessa dagana vofir beinlínis yfir sú hætta, að mikill hluti bátaflotans og togaraflotans verði stöðvaður vegna fjárhagsþrenginga. Vátryggingarfélögin hafa tilkynnt, að þau muni ganga að bátunum eða lýsa þá úr tryggingu vegna vanskila nú eftir nokkra daga. Og lífeyrissjóður togarasjómanna mun stöðva togarana, fáist ekki greiðslur á gjöldum til hans frá togaraflotanum. Og frystihúsin, t.d. í Vestmannaeyjum, stöðvast, fái þau ekki aukin lán fram yfir settar reglur ríkisstj. Þannig er nú allt í öngþveiti. Ríkisstj. verður að gera nýjar aðstoðarráðstafanir, ef á að halda framleiðslutækjum landsmanna úti á þessari vertíð.

Þannig stenzt í rauninni ekkert viðreisnarófögnuðinn. Fiskaflinn nú í marzlok er aðeins brot af því, sem hann er venjulega um þetta leyti. Kunnugustu menn búast við, að framleiðsla á hraðfrystum fiski verði varla meira en 60–70% af venjulegri ársframleiðslu. Fari svo sem allt bendir til, að togaraflotinn veiði að mestu leyti fyrir erlendan ísfiskmarkað og stærri vélbátar tækju einnig upp siglingar til Bretlands á komandi hausti, verður að telja líklegt, að svona fari. Slíkt mundi auðvitað leiða til stórminnkandi gjaldeyristekna og atvinnuleysis í fiskiðnaðinum.

Þá virðist allt benda til þess, að vinnudeilur séu fram undan, þar sem ríkisstj. gerir enn ekkert til þess að mæta sanngjörnum kröfum verkamanna um kjarabætur. En kjarabætur er ekki hægt að veita, segir ríkisstj., fyrst atvinnuvegirnir tapa yfirleitt. Þetta svar ber þess ljóst vitni, að ríkisstj. skilur ekki einföldustu atriði þess vanda, sem nú er við að glíma í atvinnumálum þjóðarinnar. Vandi atvinnulífsins er sá sami og vandi almennings almennt. Það er viðreisnarstefnan, sem er orsök erfiðleika beggja. Það er vaxtaokur viðreisnarinnar, sem þjarmar að atvinnuvegunum. Það eru söluskattar og aðrar viðreisnarráðstafanir, sem hækka verðlagið í landinu. Það er samdráttarstefnan, sem torveldar framkvæmdir, dregur úr atvinnu og minnkar heildartekjur þjóðarinnar, jafnt atvinnurekstrarins sem launþega, sem bölvuninni veldur.

Það er strax orðið nokkuð breytt hljóð í þeim ríkisstjórnarmönnum og fylgiliði ríkisstj. í sambandi við málflutninginn í landhelgismálinu. Allt geipið um stórsigur er að hverfa úr ræðum þeirra ríkisstjórnarmanna. Bjarni Benediktsson dómsmrh. lagði áherzlu á það í umr. í gærkvöld, að landhelgismálið hafi verið viðkvæmt deilumál, sem nauðsynlegt hafi verið að leysa. Guðmundur Í. Guðmundsson utanrrh. lét orð liggja að því, að útfærslan 1958 hafi verið gerð af Alþb. hálfu til þess að reka fleyg á milli Íslendinga og vestrænna lýðræðisþjóða. Það er rétt að víkja örfáum orðum að þessum málflutningi.

Hvernig var raunverulega hið viðkvæma deilumál, sem Bjarni Benediktsson talar um að nauðsynlegt hafi verið að leysa? Frá sjónarmiði hins almenna Íslendings stóð landhelgismálið þannig: Við höfðum haft 12 mílna fiskveiðilandhelgi í 2½ ár. Í rúmt ár höfðu Bretar reynt veiðar undir herskipavernd innan markanna, en þó algerlega án árangurs. Afleiðingarnar af þessum tilraunum Breta urðu þær, að fiskimiðin við Ísland voru á þessu tímabili raunverulega betur friðuð en nokkurn tíma áður, nema þá að stríðsárunum einum undanskildum. Enginn sjómaður og enginn útgerðarmaður í landinu hafði beðið ríkisstj. að breyta þessu ástandi á fiskimiðunum og semja við Breta, en þúsundir landsmanna höfðu skorað á stjórnina að ljá ekki máls á neinni tilslökun, og stjórnin hafði marglofað þjóðinni því. Þannig stóð málið í augum þjóðarinnar. En hvað er dómsmrh. þá að tala um viðkvæmt deilumál, sem orðið hafi að leysa? Jú, vandi hans var þrýstingurinn frá NATO-herrunum. Það voru þeir, sem kröfðust samninga af honum og fríðinda fyrir Breta í íslenzkri landhelgi. Fleygur sá, sem utanrrh. talaði um að við Alþýðubandalagsmenn hefðum rekið á milli íslands og annarra NATO-landa, var einvörðungu fólginn í því að standa við gefin loforð allra stjórnmálaflokka á Íslandi um að stækka fiskveiðilandhelgina í 12 mílur.

Kommúnistar reyna að níða niður alþjóðadómstólinn, segja stjórnarsinnar, og þeir halda því jafnvel fram, að stækkun landhelginnar 1958 í 12 mílur hafi verið á móti alþjóðalögum. Hér er farið rangt með staðreyndir. Það hefur verið afdráttarlaus túlkun okkar Alþýðubandalagsmanna, eins og reyndar allra Íslendinga, að engin ákvæði væru til í alþjóðalögum, sem banni 12 mílna landhelgi. Hitt hefur legið ljóst fyrir öllum, að engin skýr ákvæði eru til í alþjóðalögum um víðáttu landhelgi. Þannig lýsti þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna yfir því þann 4. júlí 1956, að hún teldi, að fastar reglur væru ekki til um viðáttu landhelgi, en hún teldi þó, að alþjóðalög heimiluðu ekki stækkun landhelgi út fyrir 12 mílur. Einmitt vegna þessa hafa tvær alþjóðaráðstefnur verið haldnar til þess að reyna að ná samkomulagi um lagareglur í þessum efnum, svo að alþjóðadómstóllinn hefði eftir einhverju að dæma í slíkum málum. Þetta eru staðreyndir málsins. Samningur, sem bindur okkur þeirri skyldu að láta alþjóðadómstólinn skera úr um frekari stækkun fiskveiðilandhelginnar við Ísland, jafngildir því raunverulega að stöðva alla frekari útfærslu, eins og nú er högum háttað varðandi alþjóðareglur í þessum efnum. Þetta hafa Bjarni Benediktsson og Guðmundur Í. Guðmundsson vitað fullvel og öll íslenzka ríkisstj. Þetta vissu þeir á sama hátt og fiskimálaráðherra Bretlands, mr. Soames, sem nýlega undirstrikaði einmitt þessa staðreynd í bréfi varðandi landhelgissamninginn, sem hann skrifaði togaramönnum í Hull. Þetta er aðalatriði samkomulagsins, sagði brezki ráðherrann. Þetta atriði er óuppsegjanlegt og veitir því Bretum fulla tryggingu fyrir því, að um frekari útfærslu við Ísland verði ekki að ræða a.m.k. næstu 20 árin. Brezki ráðherrann lét þess getið, að Bretar hefðu getað fengið meiri fríðindi til veiða innan landhelginnar við Ísland, en einmitt þessi trygging var aðalatriði, sagði hann, og því var höfuðáherzlan lögð á hana.

Við Alþýðubandalagsmenn höfum enga sérstaka andúð á alþjóðadómstólnum. Ekkert er við það að athuga að beina til hans utanríkismálum, sem alþjóðalög eru ákveðin um. En alþjóðadómstóllinn hefur aldrei kveðið upp dóm um víðáttu landhelginnar, og engri þjóð hefur til hugar komið, að til hans væri hægt að sækja formlega viðurkenningu á 12 mílna landhelgi eða þar yfir, eins og málin standa í þessum efnum.

Nú hefur það gerzt í landhelgismáli okkar, að 150 brezkir togarar eru þegar komnir á bátamið okkar, að fiskibátar okkar, t.d. á Austfjörðum, hafa beinlínis orðið að flýja sín eigin fiskimið undan ágangi brezkra togara, að íslenzkir bátar eru farnir að tapa veiðarfærum sínum í erlenda togara, að brezku togararnir stanza ekki einu sinni við 6 mílna mörkin, heldur fara inn fyrir þau, og einn slíkur togari hefur þegar verið tekinn og sektaður. Þetta er aðeins byrjunin. Ekki efast ég mikið um, að við eigum eftir að hafa stórfellt tjón í veiði og á veiðarfærum vegna þessa ráðslags.

Góðir Íslendingar. Efnahagsstefna ríkisstj. hefur gersamlega brugðizt. Eins og nú horfir, er haldið beint út í öngþveitið. Samdráttarstefnan hefur bitnað hart á öllum launþegum. Þeir geta ekki lengur búið við hina harkalegu kjaraskerðingu, og því má telja víst, að til árekstra dragi. En viðreisnarstefnan er ekki aðeins hættuleg launþegum landsins, hún ógnar afkomu allra landsmanna, ef ekki verður snúið af braut þessarar hættulegu stefnu.

Bændur og verkamenn eiga hér sömu hagsmuna að gæta. Þeir hafa að vísu fyrst og sárast fundið fyrir afleiðingum kjaraskerðingarstefnunnar, en atvinnureksturinn hefur líka fundið sama vandann. Svikin í landhelgismálinu eru í raun og sannleika í beinu sambandi við viðreisnarstefnuna. Viðreisnin er framkvæmd hér að erlendri fyrirskipun og samkvæmt ráðum þeirra, sem andstæðastir voru okkur í landhelgismálinu allan tímann.

Sjálfstæð íslenzk efnahagsstefna, sem miðuð er við heildarhagsmuni þjóðarinnar, byggist á aukinni og sívaxandi framleiðslu. Sú stefna er miðuð við trú á atvinnulega uppbyggingu í landinu og það að nýta auðlindir landsins. Dýrmætustu auðlindir okkar eru fiskimiðin í kringum landið. Það er því grundvallaratriði þjóðlegrar framleiðslustefnu að vernda fiskimiðin við landið og tryggja sem bezt einkarétt okkar til þess að nytja þau. Við verðum að vinna landhelgisrétt okkar aftur. Samningurinn við Breta þarf að sendast þeim til baka sem ógilt plagg. En til þess að þetta megi takast, þarf þjóðin að losna við núv. ríkisstjórn og óheillastefnu hennar, bæði í innan- og utanlandsmálum. Að því marki þarf að keppa, og því marki þarf að ná sem allra fyrst. — Góða nótt.