28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Út af ummælum hv. þm. Friðjóns Skarphéðinssonar skal það aðeins tekið fram, að fulltrúar Framsfl. í fjvn. gerðu þá grein fyrir eyðslustefnu stjórnarinnar, að til uppbyggingar í landinu var varið 28.5% af heildarútgjöldum fjárlaga, en nú aðeins 18.4%.

Hæstv. dómsmrh. sagði hér í gær, að efnahagsráðstafanirnar hefðu miðað að því að tryggja grundvöll atvinnuveganna og eftir atvikum mætti árangurinn eftir eins árs stjórn teljast góður. Ég verð nú að spyrja: Hvar er sá góði árangur? Hann virðist hvorki koma fram í bættri stöðu út á við né í afkomu atvinnuveganna. Skuldasöfnun erlendis hefur ekki stöðvazt. Greiðsluhallinn við útlönd árið 1960 var a.m.k. 400 millj. kr. Hv. þm. Sigurður Ingimundarson ætti að athuga, hvernig þessi staðreynd kemur heim við boðskap Draglands hins norska.

Vöruskiptajöfnuðurinn var árið 1960 óhagstæður um 817 millj. kr., árið 1959 var hann að vísu óhagstæður um 911 millj, kr., en árið 1958 varð hann aðeins óhagstæður um 613 millj. kr., allar tölurnar umreiknaðar eftir núv. gengi. Þetta eru einu réttu tölurnar um vöruskiptajöfnuðinn, og þær sanna, að hann er ¼ lakari 1960 en 1958. Fram hjá þessum staðreyndum kemst hv. þm. Birgir Kjaran ekki.

Og ekki var nú að heyra á hv. þm. Jóni Árnasyni í gær, að grunnur atvinnuveganna væri sérlega traustur. Hann sagði: Einstaklingar og bæjarútgerðir stynja undir taprekstri togaranna. — Var það vissulega sízt ofmælt, þar sem verulegur hluti togaraflotans er nú á leiðinni undir uppboðshamarinn, þrátt fyrir kreppuráðstafanir þær, sem ná hafa verið gerðar vegna útgerðarinnar. Já, hvar er hinn góði árangur? Kannske hann birtist í landbúnaði?

Hæstv. landbrh. gerir þá líklega grein fyrir því hér á eftir. Ég er viss um, að atvinnurekendum og launþegum leikur forvitni á að heyra, hvar hinn góða árangur er að finna. Að grundvöllur atvinnuveganna hafi verið tryggður, eins Morgunblaðið segir í frásögn af ræðu hæstv. ráðherra, er eitt hið allra mesta öfugmæli.

Hæstv. utanrrh. gerði stjórnarslitin 1958 að umræðuefni og átaldi Hermann Jónasson fyrir að hafa leitað eftir samvinnu við Alþýðusambandið um aðgerðir í efnahagsmálum, í stað þess að leggja fyrir Alþingi tillögur, sem hann taldi að Framsfl. og Alþfl. hefðu getað komið sér saman um, þar eð ekki hefði heldur verið hægt að útiloka þann möguleika, eins og hann orðaði það, að Sjálfstfl. féllist einnig á þær, og hefði þá átt að taka við ný stjórn þeirra þriggja flokka. Ég verð að láta í ljós undrun á svona málflutningi af hálfu ráðherra úr vinstri stjórninni: Í stjórnarmyndunarsamningi vinstri stjórnarinnar var því heitið skýrum orðum, að um lausn efnahagsvandamálanna skyldi höfð náin samvinna við stéttasamtök vinnandi fólks. Það hefði verið beint brot á stjórnarsáttmálanum að ganga fram hjá stéttasamtökunum og leita á Alþingi eftir samvinnu við Sjálfstfl., sem einskis hafði látið ófreistað til að koma vinstri stjórninni á kné og var í stjórnarandstöðu sinni ofsalegri og öfgafyllri en dæmi eru til hér á landi. Slík viðbrögð hefðu og verið í litlu samræmi við skoðanir hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, er fram komu í grein, er hann reit í Alþýðublaðið 28. nóv. 1957. Þar sagði hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir flokkar, sem mynduðu núv. ríkisstj. á s.l. sumri, gerðu sér og gera sér ljóst, að verðbólguhjólið verður ekki stöðvað nema með náinni samvinnu ríkisvalds og stéttasamtaka. Efnahagsmál þjóðarinnar verða ekki leyst, ef styrjöld geisar milli ríkisvaldsins annars vegar og stéttasamtakanna hins vegar. Ef hið opinbera fylgir þeirri stefnu í efnahagsmálum, sem Sjálfstfl. berst fyrir, má ganga út frá því sem vísu, að samtök launþega beiti sér gegn henni, svo sem átti sér stað á árunum 1950–56. Baráttan gegn verðbólgunni verður því ekki háð undir merkjum Sjálfstfl. Sigur á henni verður ekki unninn með aðild hans.“

Þessi ummæli hæstv. viðskmrh. ættu Alþýðuflokksmenn vandlega að íhuga nú.

Nei, sannleikurinn er auðvitað sá, að það hefðu verið hin herfilegustu svik, bæði gagnvart kjósendum og samstarfsmönnum, ef Hermann Jónasson hefði haustið 1958 valið þá leið, sem hæstv. utanrrh. segir nú að hann hefði átt að fara. Þegar meiri hl. Alþýðusambandsþings, þ. á m. þingfulltrúar Alþfl., hafði hafnað samstarfi við ríkisstj., var brostin forsenda fyrir myndun vinstri stjórnarinnar, og þá gerði Hermann Jónasson það, sem hver heiðarlegur stjórnmálamaður hlaut að gera undir þeim kringumstæðum, að biðjast lausnar.

Vegna ummæla hæstv. utanrrh, og reyndar annarra þingmanna, svo sem Gísla Jónssonar og Birgis Finnssonar o.fl., um afstöðu Framsfl. til varnarmála vil ég taka fram, að stefna Framsfl. í utanríkismálum og þ. á m. í varnarmálum er algerlega óbreytt frá því, sem verið hefur. Vil ég því til staðfestingar leyfa mér að lesa ályktun þá um utanríkismál, sem gerð var á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. í febrúarmánuði s.l. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Aðalfundur miðstjórnar Framsfl. vísar til fyrri samþykkta flokksins um utanríkismál og ítrekar þá stefnuyfirlýsingu, að Íslendingar hafi samstarf um öryggismál við nágrannaþjóðirnar, m.a. með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, og unnið sé að því, að herinn hverfi sem fyrst úr landi.“

Samkvæmt þessari yfirlýsingu er það stefna Framsfl., að Ísland starfi áfram í Atlantshafsbandalaginu, enda erum við samningslega skuldbundnir til þess um tiltekið tímabil, og það er auðvitað stefna Framsfl. hér eftir sem hingað til, að af Íslands hálfu sé staðið við alla löglega gerða milliríkjasamninga, alveg án tillits til þess, hvort Framsfl, hefur átt að þeim aðild eða ekki.

Þátttaka Íslands í Atlantshafsbandalaginu er ekki samrýmanleg hinni gömlu og að margra dómi úreltu eða jafnvel hættulegu hlutleysisstefnu. Það verða menn að gera sér ljóst.

En af þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu leiðir það engan veginn, að hér skuli eða þurfi ætíð að vera her í landi. Við inngönguna í bandalagið árið 1949 var því yfir lýst, að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar væru á Íslandi á friðartímum. Að þessari yfirlýsingu stóðu Framsfl., Alþfl. og Sjálfstfl. Á þeirri forsendu var gengið í NATO, og Bandaríkjastjórn fyrir hönd hinna bandalagsríkjanna lýsti fullum skilningi og samþykki á þessari yfirlýsingu. Þegar varnarliðið var tekið inn í landið 1951 vegna hins sérstaka hættuástands í heiminum, var út frá því gengið, að það yrði hér aðeins um takmarkaðan tíma og gildistími varnarsamningsins, sem er uppsegjanlegur með tiltölulega skömmum uppsagnarfresti, þyrfti á engan hátt að falla saman við gildistíma NATO-samningsins.

Afstaða Framsfl. til varnarliðsins hefur ætið verið í samræmi við stefnuna frá 1949. Hann vill ekki hafa varnarliðið hér á landi degi lengur en nauðsyn krefur. Hann vill ekki hafa her í landi á friðartímum. Auðvitað er það teygjanlegt, hvenær friðartímar séu, en það verða Íslendingar sjálfir að meta. Það getur að vísu verið vandasamt mat. Framsfl. vill vinna að því, að varnarliðið hverfi úr landi sem fyrst og svo fljótt sem fært þykir öryggis vegna, enda verði þá auðvitað höfð hliðsjón af ákvæðum NATO-sáttmálans og þeim skuldbindingum, sem við þar höfum undirgengizt. Stefna Framsfl. í utanríkismálum er þannig óbreytt og fast mótuð.

En nú vil ég spyrja fyrirsvarsmenn Alþfl. og Sjálfstfl.: Er stefna þeirra varðandi varnarliðið breytt frá því 1949 og 1951? Vilja þeir nú hafa hér her í landi á friðartímum? Svari þeir nú þessu, þeir fyrirsvarsmenn þessara flokka, sem hér eiga eftir að tala, eins skýrt og skorinort og ég hef tjáð mig um utanríkisstefnu Framsfl.

Fyrst ég er farinn að tala hér um utanríkismál, langar mig til að minna á eitt atriði, sem frá mínu sjónarmiði er grundvallaratriði í sambandi við utanríkismál. Það er nauðsynin á sem mestri samstöðu stjórnmálaflokkanna í utanríkismálum. Við getum deilt hart um innanlandsmál. En í utanríkismálum þurfa að mínum dómi þeir flokkar að standa saman og starfa saman, eftir því sem unnt er, sem aðhyllast sömu grundvallarsjónarmið í þeim málum, jafnt stjórnarflokkar sem stjórnarandstaða. Reynslulítil smáþjóð þarf á öllu sínu að halda í skiptum við aðrar þjóðir. Á þeim vettvangi þurfum við að varðveita sem mesta einingu þrátt fyrir átök um innanlandsmál. Þessi sjálfsagða regla var illu heilli þverbrotin í samningagerðinni við Breta um landhelgismálið og það enda þótt þeirri aðferð hefði jafnan verið fylgt áður, að því er ég bezt veit, að láta stjórnarandstöðuna fylgjast með öllum aðgerðum í landhelgismálinu. En um samningagerðina við Breta nú hafði ríkisstj. ekkert samráð við stjórnarandstöðuna, bar málið á samningastigi ekki einu sinni undir utanrmn., svo sem skylt var þó að lögum, og gaf hvað eftir annað á Alþingi yfirlýsingar, sem vægast sagt voru stórlega villandi eða jafnvel alrangar. Þannig má ekki halda á viðkvæmum utanríkismálum.

Um sjálfan landhelgissamninginn ræði ég eigi hér, enda hefur hann verið áður rækilega ræddur, bæði í þessum umr. og áður.

Herra forseti. Eins og margsannað er í þessum útvarpsumr., hefur stjórnarstefnan þegar beðið algert skipbrot. Hinar harkalegu efnahagsaðgerðir ríkisstj., sem auk gífurlegrar gengisfellingar voru m. a. fólgnar í stórkostlegri vaxtahækkun, söluskattsviðauka og lánasamdrætti, leggjast með vaxandi þunga á atvinnuvegina og allan almenning í þessu landi. Atvinnufyrirtækin eru að sligast undan stórauknum rekstrarkostnaði. Stofnfjárkostnaður er öllum nýjum framkvæmdum þrándur í götu. Rúmu ári eftir viðreisnina, sem öllu átti að bjarga, er nú svo komið fyrir útgerðinni, bæði vegna efnahagsaðgerðanna og af öðrum óviðráðanlegum ástæðum, að gera verður sérstakar ráðstafanir henni til bjargar. Því er nú verr og miður, að þau úrræði munu ekki nægja togaraútgerðinni til bjargar; nema því meiri breyting verði á aflabrögðum eða á afurðaverði. Landbúnaðurinn þarf á svipaðri fyrirgreiðslu að halda, en til þessa hefur stjórnarliðið þverskallazt við því að veita bændum hliðstæða aðstoð. Hjá því verður þó ekki komizt til lengdar, að vandræðum bændastéttarinnar verði sinnt, enda þótt hagur bænda sé að sjálfsögðu misjafn og gott veðurfar á s.l. ári hafi hjálpað þeim mikið.

Á valdatíma núv. ríkisstj. hafa lífskjör og afkomumöguleikar almennings áreiðanlega stórversnað, þrátt fyrir auknar fjölskyldubætur, niðurgreiðslur og nokkrar skattalækkanir, einkanlega þó á hátekjumönnum. Þar er eigin reynd ólygnust, hvað sem öllum vísitöluútreikningi líður. Stjórnarliðar hafa neyðzt til að viðurkenna erfiðleika atvinnuveganna og lífskjaraskerðinguna, en þeir segja bara: Þessi vandræði standa ekki nema í bili. Bíðið þið nú róleg, þangað til þetta breytist til batnaðar. — En þeir nefna ekki, hversu lengi þurfi að bíða, enda er það nú svo, að það eru allar líkur til þess, að samdráttarstefnan haldi framvegis áfram að verka á sömu lund og að undanförnu, þ.e.a.s. framkvæmdir haldi áfram að dragast saman, að framleiðsla og þjóðartekjur á hvern einstakling verði minni, að framtak manna haldi áfram að lamast, atvinnan að minnka og lífskjörin að versna. Og sannleikurinn er sá, að seint mun aftur vora í íslenzku atvinnulífi, ef hauststefnu hæstv. ríkisstj. verður óbreyttri áfram haldið.

Eftir 16 mánaða stjórnartímabil er niðurstaðan í stuttu máli sú, að „viðreisnin“ hefur ekki leitt til viðreisnar, heldur vandræða á svo að segja hvaða sviði sem er. Viðreisnarstefna ríkisstj. er því réttnefnd vandræðastefna. Frá þeirri vandræðastefnu þyrfti að hverfa sem allra fyrst. Það eina rétta og það eina heiðarlega, sem stjórnarliðið gæti gert, eins og sakir standa, er að viðurkenna ósigur sinn, gefast upp og leggja málin undir dóm kjósenda. Eftir nýjar kosningar þyrfti að mynda stjórn á breiðum grundvelli, sem nyti trausts fjölmennustu þjóðfélagsstéttanna jafnt í sveit og við sjó, — stjórn, sem hyrfi frá samdráttarstefnunni, en hefði að höfuðmarkmiði skipulagða stóraukningu þjóðarframleiðslunnar. — Góða nótt.