16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrir tveimur dögum beindi ég þeirri fsp. til hæstv. dómsmrh. utan dagskrár í hv. Ed., hvort hann gæti gefið þingheimi skýrslu um atvik, sem hafði samkvæmt fréttum, sem mér höfðu borizt og ég taldi áreiðanlegar, gerzt kvöldið áður í íslenzkri landhelgi og mér virtist allmikilvægt.

Hæstv. ráðh. svaraði þessari fyrirspurn minni svo, að hann hefði, þegar hún var fram borin, ekki heyrt hið minnsta um þetta atvik, enda hefði hann ekki verið viðstaddur í sínu ráðuneyti þá um morguninn. Út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga, að hæstv. ráðh. hafði ekki verið mættur til vinnu þann morgun, ég veit, að hann er svo vinnusamur maður, að hann hefur verið við vinnu einhvers staðar annars staðar, — en það var ekki það, sem ég spurði um. Það, sem fyrir mér vakti með spurningu minni, var þetta: Hvaða yfirmenn landhelgisgæzlunnar íslenzku báru ábyrgð á þeim fyrirskipunum, sem yfirstjórn landhelgisgæzlunnar gaf út kvöldið 13. nóv. til varðskipsins Þórs, eftir að varðskipið Þór hafði komið að brezkum togara innan 3 mílna fullrar, löglegrar og óumdeildrar, landhelgi Íslands og hafði eftir fregnum, sem mér hafa borizt, haft fullt tækifæri til þess að taka þann togara? Þetta var spurningin. En ég hef haft spurnir af því, að menn í Vestmannaeyjum og víðar höfðu hlustað þá um kvöldið 13. nóv. á skeytaskipti eða orðaskipti, sem höfðu farið á milli foringja á varðskipinu Þór og yfirstjórnar landhelgisgæzlunnar, og þær skipanir höfðu borizt frá yfirstjórn landhelgisgæzlunnar að hætta að skjóta aðvörunarskotum að þessum togara og hætta að veita honum eftirför.

Í gær var svo birt í dagblöðunum skýrsla frá landhelgisgæzlunni um þetta atvik. Skýrslan er stutt, en hún er að mínu áliti óljós, og í alla staði ófullnægjandi. Ég vil 1eyfa mér að rifja upp aðalatriði þessa atviks, eins og þau koma fram samkvæmt þessari skýrslu. Þau eru á þessa leið.

Kl. 19.29 um kvöldið 13. nóv. verður vart við brezkan togara 10 sjómílur innan fiskveiðitakmarkanna við Ingólfshöfða, þ.e.a.s. áreiðanlega innan 3 mílna landhelgi. KI. 20.45 talar skipherrann á varðskipinu Þór, Jón Jónsson, um loftskeytastöðina í Vestmannaeyjum við forstjóra landhelgisgæzlunnar og tjáir honum, að hann sé að reyna að stöðva brezkan togara, sem sé langt fyrir innan fiskveiðitakmörkin, hann sé að reyna að stöðva hann, með því að hegðun þessa togara hafi verið grunsamleg, því þegar varðskipið hafði nálgazt togarann, hafði hann sett á fulla ferð út, slökkt öll ljós, en varðskipið hafði þá skotið að honum aðvörunarskotum og fylgt honum eftir, án þess þó að togarinn stöðvaði ferð sína. En samkvæmt upplýsingum landhelgisgæzlunnar í dagblöðunum var skömmu síðar sent skeyti til varðskipsforingjans á varðskipinu Þór um að skjóta ekki fleiri aðvörunarskotum að togaranum, reyna hins vegar að ná númeri togarans og fara að reyna að ná upp vörpu togarans, sem líklegt væri að hann hefði höggvið af sér. Síðar um kvöldið berast svo upplýsingar frá varðskipinu Þór um, að nafn togarans hafi náðst, það er hið ágæta og fræga nafn William Wilberforce með einkennisstöfunum H-200, og það leikur ekki á tveim tungum, að varðskipið hefur komizt svo nærri þessum togara, að sézt hefur nafn hans og númer. En samkvæmt skipun frá forstjóra landhelgisgæzlunnar átti varðskipsforinginn að hætta að skjóta aðvörunarskotum, þótt hann kæmist svo nærri þessum mílna fiskveiðitakmarkanna fram til 12. ágúst í sumar.

Þegar tveir dagar voru eftir, að þessir frestir rynnu út, þann 10. ágúst í sumar, þóknaðist svo íslenzkri ríkisstj. hæstv. að tilkynna, að nú væri hún reiðubúin til samninga um landhelgismálið við brezku stjórnina. Þeir samningar hafa staðið yfir síðan og standa yfir enn í dag, ef ég skil málið rétt.

Hæstv. utanrrh. upplýsti í umr. í Ed. fyrir skömmu, að þann 10. okt., daginn sem Alþingi var sett, daginn, sem brezkir samningamenn, sem hér höfðu verið frá 1. okt., héldu heim til Englands, hefðu tveir brezkir ráðherrar, utanrrh. Breta sjálfur og brezki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann, kallað fyrir sig á fund brezka togaraeigendur, í alveg ákveðnu skyni, sagði hæstv. utanrrh., til þess að kynna þeim samningaviðræðurnar, efni samningaviðræðnanna, sem farið hefðu fram hér í Reykjavík frá 1. til 10. okt., þessara samningaviðræðna, sem við fáum ekkert að vita um, — en af eðlilegri nauðsyn, sagði hæstv. utanrrh., af þeirri nauðsyn, að þessir ráðh. þurftu að fá brezka togaraeigendur til þess að lofa því enn einu sinni að veiða ekki innan 12 mílna fiskveiðitakmarkanna fyrst um sinn, þó að fresturinn, sem þeim hefði þóknazt að gefa, væri útrunninn þann 12. okt.

Samkvæmt öllum þessum yfirlýsingum hafa brezkir togaraeigendur skuldbundið sig til að láta ekki togara sína veiða innan 12 mílna markanna, og brezka stjórnin hefur skuldbundið sig til að beita ekki herskipum sínum innan 12 mílna markanna. Þetta hefur verið margsvikið af báðum aðilum. Það var svikið í sumar, og það er svikið enn.

En hvað hefur gerzt nú í þessum málum? Við höfum fullar líkur til þess, að hér hafi gerzt eitthvert frekasta brot, sem hafi verið framið af brezkum togara, þ.e.a.s. innan 3 mílna markanna, og þá hafi íslenzkt varðskip átt þess fullan kost að taka hinn seka brezka togara eða grunaða brezka togara. Hvers vegna gerði varðskipið það ekki? Hver bar ábyrgð á þeirri fyrirskipun, sem var gefin af hálfu íslenzkrar landhelgisgæzlu að kvöldi 13. nóv. til varðskipsins Þórs að hætta að skjóta aðvörunarskotum að þessum togara, þegar varðskipið var svo nálægt honum, að það mátti greina nafn hans og númer, og hætta að elta hann, þegar það var svo nálægt honum? Hver bar ábyrgðina?

Ég sagði áðan, að ég spyr ekki, hvar hæstv. dómsmrh. hafi verið að morgni 14. nóv. En ég spyr: Leyfði forstjóri landhelgisgæzlunnar, herra Pétur Sigurðsson, sér að taka þá ábyrgð á sig að skipa íslenzku varðskipi að sleppa úr höndum sér brezkum togara þetta kvöld, að sleppa honum úr höndum sér með því að hætta að skjóta að honum aðvörunarskotum, banna því að skjóta að honum aðvörunarskotum, banna því að elta hann? Eða hafði hann samráð við hæstv. dómsmrh.? Ég spyr um þetta, og ég spyr um þær reglur, sem nú eru gildandi um hegðun íslenzkra varðskipa gagnvart brezkum lögbrjótum, meðan samningarnir við Breta standa yfir.