28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Út af þessum viðbótarfyrirspurnum vil ég taka það fram, að ríkisstj. fjallaði sjálf um þetta mál. Hún annaðist viðræðurnar um það við Bandaríkjamenn. Hún kynnti sér aðstæður allar, og hún tók sínar ákvarðanir, án þess að nokkrar nefndir væru þar til kvaddar. Það var ekki ástæða til þess að bera þetta undir hina sérstöku nefnd, þar sem má segja, að þetta falli ekki undir hennar starf.

Að því er utanrmn. varðar, þá hefur ekki verið venja að fara með þessi mál til hennar, og ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að það sé tilgangslaust og enda ekki heppilegt að vera að ræða þessi mál í nefndum, þar sem kommúnistar eiga sæti, vegna þess að ef viðræður eiga að geta farið fram að nokkru gagni, þarf að fara nokkuð ýtarlega inn á málin í heild, og það er ástæðulaust og ekki heppilegt gagnvart hagsmunum ríkisins að vera að leggja þar allt of miklar upplýsingar fyrir flokk eins og kommúnistaflokkurinn eða Alþb. er.

Það, sem hér hefur gerzt, er sem sagt einfaldlega það, að talið hefur verið heppilegra, að menn úr sjóhernum önnuðust þessi störf, eins og högum er komið, heldur en að flughersmenn gerðu það. Varnarstöðvum verður ekki breytt, það verður ekki bætt við þær, og á engan hátt hefur dregið úr gildi Íslands sem flugstöðvar í sambandi við varnarmálin. Flugið breytist ekki, flugvélar verða hér í sama mæli, hvorki meira né minna en — áður hefur verið, og flugmenn til þess að annast það, sem gera þarf í því sambandi, — en sjálfur rekstur varnarstöðvanna og það, sem að honum lýtur, verður þegar þessi breyting er komin á, í höndum sjóliðsmanna, en ekki flugliðsmanna.