06.02.1961
Neðri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að flytja hér fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. varðandi landhelgismálið. Mig langaði sérstaklega að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. utanrrh. varðandi það mál.

Frá því hefur verið skýrt nú síðustu daga, að það hafi komið fram í brezkum blöðum, að íslenzka ríkisstj. hafi gert ákveðnar tillögur til brezku stjórnarinnar um lausn á deilunni við Breta um fiskveiðiaðstöðu við Ísland. Ég vildi því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort þessi ummæli, sem fram hafa komið í brezkum blöðum nú nýlega, séu rétt, að íslenzka ríkisstj. hafi í viðtölum sínum við brezku ríkisstj. lagt fram ákveðnar tillögur til lausnar á þessu máli.

Þá vildi ég einnig leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvað annars líði þeim samningaviðræðum, sem fram hafa farið um þetta mál við fulltrúa brezku ríkisstj., hvort þessum viðræðum er í raun og veru haldið áfram enn eða hvort þeim sé lokið, og ef þeim er ekki lokið, hvað sé þá fyrirhugað um framhald þessara viðræðna. Er eitthvað ákveðið um það, hvenær næstu formlegir fundir verða hjá þessum viðræðunefndum, og verður viðtölunum þá haldið áfram hér á Íslandi eða í Bretlandi?

Þá finnst mér einnig ástæða til þess að spyrja hæstv. ríkisstj.: Telur hún ekki nú, eftir þann langa tíma, sem liðinn er síðan viðræður við brezku ríkisstj. hófust um þetta mál, — telur hún ekki nú kominn tíma til þess að fara að gefa Alþingi nokkra skýrslu um það, hvað fram hefur farið í þessum viðræðum, þar sem hún lýsti því yfir hér í þingbyrjun, að hún mundi hafa samráð við Alþingi um lausn á þessu máli? Er ekki kominn tími til þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að gefa alþingismönnum hér nokkrar upplýsingar um það, hvað fram hefur komið í þessum viðræðum og hvernig málið stendur sem heild? Mér þætti mjög vænt um það, ef hæstv. utanrrh, vildi svara hér þessum spurningum mínum, ef það mætti verða til þess, að við alþm. fengjum nokkuð frekar að vita um það, á hvaða stigi þetta mál er og við hverju má búast í því nú á næstunni.