06.02.1961
Neðri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Spurzt hefur verið fyrir um það, hvort fram hafi komið af hálfu Íslands einhver tillaga eða tilboð til Breta um lausn á landhelgisdeilunni. Það er enn fremur spurzt fyrir um það, hvað líði samningaviðræðum okkar við Breta út af þessu máli, hvers megi vænta um framhaldsviðræður, og þá sérstaklega spurzt fyrir einnig um það, hvort vænta megi skýrslu frá ríkisstj. fljótlega um málið.

Út af öllum þessum fyrirspurnum þykir mér rétt að skýra frá því, að í sambandi við fund Atlantshafsbandalagsins í desembermánuði átti ég nokkrar viðræður við utanrrh. Breta um málið, bæði í París og eins á heimleiðinni í London. Þessar viðræður fóru fram í því skyni að reyna að glöggva sig sem bezt á því, með hvaða hætti tök kynnu að vera á því að leysa fiskveiðideiluna, og sérstaklega að leita eftir því, hvort hægt væri að finna einhverja lausn, sem við gætum talið aðgengilega fyrir okkur. Í þessum viðræðum kom ekki fram nein tillaga eða neitt tilboð af Íslands hálfu um lausn málsins, og við höfum ekki síðar sett fram neina slíka tillögu. Strax eftir heimkomu mína gaf ég ríkisstj. skýrslu um málið. Jólafrí var þá að byrja og þing ekki saman komið, og varð því lítið úr framhaldsumræðum innan ríkisstj. En síðan hefur málið verið þar til athugunar og engin ákvörðun verið tekin og ekki gengið frá neinni tillögu eða neinu tilboði. Þegar ríkisstj. hefur athugað málið betur, verður tekin ákvörðun um það, hvernig fer um framhald þess.

Á þessu stigi vil ég aðeins minna á ummæli hæstv. forsrh., daginn sem Alþingi var sett, um samráð við þingið, áður en endanleg ákvörðun í málinu yrði tekin. Sú yfirlýsing er að sjálfsögðu í fullu gildi, og mun ríkisstj. fara eftir henni, þegar hún telur, að málið sé komið á það stig, að tiltækilegt sé að leggja það fyrir Alþingi. Eins og málið stendur nú, eru umræður ekki það langt komnar, að það geti talizt heppileg meðferð á því og líkleg til farsællar lausnar að fara að vekja um það umr. í einstökum atriðum með því að flytja um það nákvæma skýrslu hér á hv. Alþingi.