07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1749)

52. mál, lækkun byggingarkostnaðar

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hv. heilbr,- og félmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n., Gísli Jónsson, Birgir Finnsson og Guðlaugur Gíslason, leggur til, að frv. verði fellt, en minni hl., Jón Skaftason og Hannibal Valdimarsson, gefur út nál. á þskj. 300 og leggur til, að frv. verði samþ. Ég skal þá, auk þess sem tekið er fram í nál., gera hér nokkuð frekari grein fyrir því, að rétt þyki að leggja til, að frv. það, sem hér um ræðir, verði fellt.

Frv. þetta er aðeins í tveimur greinum og fyrri greinin einungis tvær mgr., sem hvor fyrir sig kveður svo á um tvö mismunandi atriði.

Fyrri málsgreinin kveður svo á um, að ríkissjóður skuli árlega greiða til byggingarefnarannsókna iðnaðardeildar atvinnudeildar Háskóla Íslands fjárhæð, er jafngildir 1% af þeim fjárhæðum, sem byggingarsjóður lánar til íbúðabygginga á vegum húsnæðismálastofnunar ríkisins eða á annan hátt. Þessi ákvæði óbreytt eru því ekkert annað en viðmiðun, er fjárveitingavaldinu ber samkvæmt frv., ef að lögum verður, að fara eftir, þegar fjárveiting til þessara mála er tekin upp á fjárlög á hverju ári. Um annað eða meira ákveður ekki þessi grein og segir ekkert frekar um það atriði, og verður ekki skilið á greininni, að hér sé um að ræða viðbótarframlag úr ríkissjóði frá því, sem nú er lagt til þessara mála úr ríkissjóði. Þessi viðmiðun gæti því orðið hvort tveggja lægri upphæð eða hærri upphæð, eftir því sem lánað er á hverjum tíma. Miklu fremur má telja víst, að eftir að ákveðið hefur verið með lögum, við hvað skuli miða framlag ríkissjóðs til þessara mála, verði ekki auðvelt að fá frekari framlög tekin upp í fjárlög, jafnvel þó að tekjustofninn rýrnaði allverulega, sem vel gæti komið fyrir, eins og skal sýnt hér fram á síðar. Hitt er augljóst, að það getur ekki verið æskilegt, hvorki fyrir greiðanda né viðtakanda, að vita ekkert um það frá ári til árs, hvaða upphæð er um að ræða, sem leggja skal fram til þessara mála. Mundi það ekki einasta skapa að einhverju leyti erfiðleika um afgreiðslu fjárlaga þau ár, sem miklar fjárhæðir væru lánaðar úr byggingarsjóðnum, heldur og valda miklum erfiðleikum fyrir iðnaðardeildina þau árin, sem lánsfjárupphæðirnar lækkuðu verulega, og gætu vissulega kollvarpað fyrir fram gerðum áætlunum um framkvæmdir. Það viðhorf gæti og vel skapazt, að ríkisstj. hefði minni áhuga á því að afla fjár til byggingarsjóðsins, þegar vitað er, að aukin lán skapa ríkissjóði aukna útgjaldabyrði.

Meiri hl. n. lítur því svo á, að viðmiðun sú, sem ætlazt er til að lögfest verði, skapi báðum aðilum óvissu, sem kynni að valda og mundi valda margvíslegum erfiðleikum.

Í þessu sambandi þykir rétt að gera nokkurn samanburð á þeim upphæðum, sem nú er varið til þessara mála úr ríkissjóði, og því fé, sem deildin hefði fengið undanfarin 6 ár, ef viðmiðun sú, sem ákveðin er í frv., hefði verið í lögum á þessu tímabili.

Samkvæmt áætlun um rannsóknir til endurbóta á byggingarháttum og lækkun á byggingarkostnaði, bls. 10, eru tryggð framlög talin til byggingarefnarannsókna 700 þús. kr. Af þessu greiðir ríkið og ríkisstofnanir 600 þús., en einstaklingarnir 100 þús. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að það er misritun í nál. frá meiri hlutanum á þingskjali 286, þar sem sagt er, að ríkisstofnanir greiði 700 þús. kr. í ár til þessara mála, og leiðréttist þetta hér með. Sú upphæð skiptist þannig, eins og ég hef tekið fram, að 600 þús. kr. af því er greitt af því opinbera, en áætlað, að 100 þús. kr. komi frá einkaaðilum, — og bið ég velvirðingar á þeim mistökum, sem hafa orðið í sambandi við þetta atriði. Af þessu greiðir ríkið og ríkisstofnanir, eins og ég sagði áðan, 600 þús. kr. og einstaklingar 100 þús. Ef framlag ríkissjóðs hefði átt í ár að miða við ákvæði frv., hefði það átt að vera 718 þús. kr., eða 118 þús. kr. hærra en það er nú. Hins vegar hefði framlagið verið miklu lægra öll önnur ár og það svo, að meðalframlag hefði aðeins orðið tæpar 600 þús. kr. á ári og aðeins 340 þús. kr. árið 1959. Sýnir þetta bezt, hversu miklum sveiflum framlagið er háð, ef það á að miðast við upphæðir, svo sem ákveðið er í frv. Ég held, að það séu nægileg rök fyrir því, að það á ekki að samþykkja þetta frv., eins og það liggur fyrir óbreytt.

Þegar þetta er athugað, sýnist nær, að ekki einasta hv. deild geti fallizt á, að ekki sé rétt að lögfesta þessa málsgrein óbreytta, heldur að hv. flm. ættu einnig að leggja til, að frv. yrði ekki samþykkt óbreytt, þar sem engin trygging fengist fyrir því, að árlegt framlag mundi verulega hækka með því að samþykkja greinina óbreytta, en svo hefur þó væntanlega verið tilgangur hv. flm. með flutningi frv.

2. málsgr. 1. gr. kveður hins vegar svo á, að fé þetta skuli notað í því skyni að leitast við að finna leiðir til lækkunar á byggingarkostnaði.

Ekkert annað er í þessu frv. en þetta tvennt: annars vegar viðmiðunin um, hvað skuli greitt árlega til þessara mála, og hins vegar fyrirskipun um, að það skuli leitast við að finna leiðir til lækkunar á byggingarkostnaði fyrir það fé, sem hér er lagt til að veitt verði. Nú er það vitanlegt, að það eru til ýmsar aðrar leiðir til þess að lækka byggingarkostnað en byggingarefnarannsóknir, sem tvímælalaust kæmu til að verka fljótar og betur en vísindalegar tilraunir, sem ávallt gefa mismunandi árangur, margar hverjar mjög góðan árangur, aðrar mjög lítinn eða engan og kosta þó ef til vill margfalt meira fé. Er það öllum kunnugt, sem eitthvað þekkja til þeirra mála, enda væri engin þörf á að eyða miklu fé til tilraunarannsókna, á hvaða sviði sem væri, ef menn væru fyrir fram hárvissir um árangurinn.

Samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. væri ekki heimilt að ota fé til annars en til byggingarefnarannsókna til lækkunar á byggingarkostnaði. En samkvæmt 2. gr. væri skylt að nota féð í því skyni að leitast við að finna leiðir til lækkunar á byggingarkostnaði almennt, hvort sem um væri að ræða byggingarefnarannsóknir eða eitthvað allt annað, sem geti lækkað kostnað við bygginguna. Er sýnilegt, að þetta ósamræmi yrði að laga, ef gera á frv. að lögum.

Í áætlun rannsóknaráðs, sem ég minntist á hér áðan, er talað um, að tekjuþörfin til byggingarefnarannsókna sé nú í ár 1.3 millj. kr., eða 600 þús. kr. meira en það fé, sem fram er lagt samkvæmt fjárlögum og frá einstaklingum, en eftir fimm ár verði tekjuþörfin orðin 3.3 millj. kr. til þessara mála. Ekkert er um það sagt, hvort hér sé um hámarksþörf að ræða. En sé það svo, að þessi starfsemi ein þurfi á næstu fimm árum þær upphæðir, sem fram eru settar í áætluninni, til þess að koma að verulegu gagni, þarf nauðsynlega að hugsa henni fyrir allt öðrum og tryggari tekjustofni en gert er ráð fyrir í frv., sem hér er til umræðu, því að þar er, eins og ég hef sagt, aðeins gert ráð fyrir, að heildartekjurnar með sömu útlánaupphæðum og nú eru mundu verða um 700 þús. kr., enda er beinlínis lögð áherzla á það í áætluninni og bent þar á allt aðrar leiðir til fjáröflunar. Þegar málinu hefur verið komið á þetta stig, en það er áætlað að verði árið 1965, þá er talið nauðsynlegt, að við þetta verkefni eitt starfi 11 sérfræðingar og 9 skrifstofumenn sem lágmark, eftir því sem kemur fram í áætlun rannsóknaráðs. Sé það ætlun hv. flm. þessa frv., að samþykkt þess verði spor í áttina til að koma hér upp slíku embættisbákni fyrir þessa grein eina, þá skilst mér, að það þurfi einnig nánari athugunar við.

Í skýrslum þeim, sem rannsóknaráð sendi nefndinni, kemur fram, að spara mætti allt að 20% í byggingarkostnaði, ef nægilegt fé yrði veitt árlega til byggingarefnarannsókna. Skilst mér, að hv. minni hluti byggi einnig á þessari áætlun, telji, eftir því sem fram kemur í nál., að hún sé allraunhæf. Í þessu sambandi er þó bent á, að væntanlega megi steypa loft sér, lyfta þeim síðan upp, einnig mætti steypa sér veggi og þil liggjandi, reisa þau síðan lóðrétt og koma þeim þannig fyrir á rétta staði. Þá mætti einnig spara mjög í þykkt steypu með því að nota rétt byggingarefni. Þetta eru þær hugmyndir, sem rannsóknaráð veltir fyrir sér, og á þeim er byggður þessi útreikningur, að spara megi um 20%. Einangrun megi bæta og einkum megi bæta svo alla gerð húsa, að viðhald yrði margfalt minna. Þá megi og skipa á annan og betri hátt öllu rými í húsunum og auka stórkostlega notagildi þeirra þannig. Á þessum umbótum öllum og ýmsum öðrum er útreikningurinn um 20% lækkun byggingarkostnaðarins gerður. Að vísu fylgir sá böggull skammrifi, að nauðsynlegt er talið að byggja eitt eða fleiri tilraunahús til sönnunar eða afsönnunar þessum áætlunum, eins og almennt gerist í tilraunastarfsemi yfirleitt.

Ég ætla mér ekki þá dul að gagnrýna á einn eða annan hátt þá tæknilegu útreikninga, sem hér eru gerðir af sérfræðingum, og áætlunina, sem byggt er á, en ég fullyrði, að hér hefur láðst að taka með í þann reikning mannlegt eðli, sem verður ekki einfaldlega útilokað, hversu mikil vinna sem lögð er í það af stofnunum að sýna fram á eða sanna gildi tilraunanna. Það má því áreiðanlega gera ráð fyrir því, að áætlunin um sparnað í byggingum og tæknilegri þróun fái ekki staðizt. Til sönnunar þessum ummælum þykir mér rétt að benda á, að á undanförnum árum hefur orðið allvíðtæk tækniþróun hér á landi í byggingariðnaði og það svo, að það er iðnaðarstéttinni og verkfræðingum til mikils sóma. En hefur sú þróun öll orðið til þess að lækka byggingarkostnaðinn? Það verða — hygg ég — fáir, sem treysta sér til þess að halda því fram, og þó er margt af því þess eðlis, að það hefði átt að koma þeim, sem byggðu, í vil og þeim mönnum, sem stóðu að því að koma upp yfir sig húsaskjóli og oft af mjög veikri fjárhagslegri getu. Skal hér aðeins bent á tvö dæmi máli mínu til stuðnings.

Þegar tekin var upp sú aðferð hér að mála hús með rúllum í stað bursta og enn fremur að nota plastmálningu í stað olíumálningar, komust menn að raun um, að þessi aðferð var bæði margfalt fljótlegri og margfalt ódýrari. En ætti að kaupa þetta verk af faglærðum málurum, mun ágóðinn ekki hafa runnið í vasa verkkaupanda. Þá var mældur upp flöturinn, sem málaður hafði verið, og reiknað á mælistokk, hvað fyrir það skyldi greitt, og það alveg eins, þótt tækniumbæturnar færðu verksala margfaldan gróða. Og yfirleitt hefur það sama átt sér stað í sambandi við skriðmót og aðra steinsteypu- og múraravinnu. Er þá notaður reiknistokkur til að tryggja verksala allan ágóða af tækniumbótunum í iðnaðinum og það svo gegndarlaust, að verkkaupandi kemur hér engri vörn við. Teldi ég, að ef ætti að tryggja það, að ríkissjóður legði fram árlega svo og svo mikla upphæð til tæknirannsókna eða tilrauna, þá þyrfti einnig að setja í þetta frv. skýr ákvæði um, að það kæmi ekki aðeins verksala til góða og í hans vasa, heldur einnig verkkaupanda, en um það er ekkert orð í þessu frv.

Hér þykir og rétt að benda á, að svo lengi sem byggingarleyfi og lóðaúthlutun hefur verið í höftum, hafa þeir menn, sem komizt hafa yfir þau hnoss, fengið drjúgan gróða af því að hálfbyggja hús og framselja þau síðan til annarra, sem óskuðu að geta sjálfir ráðið yfir verkinu frá upphafi, en var meinað það af framangreindum ástæðum. Er talið, að slíku álagi á meðalíbúð hafi verið stillt í hóf, þó að það hafi farið yfir 100 þús. kr. á hverja íbúð. Ég geri ráð fyrir, að eins og frv. er nú óbreytt, gefi það enga vörn þessum mönnum í því atriði, sem ég hef hér minnzt á, og veit ég þó, að þessi atriði mundu tvímælalaust verka fyrr og betur, ef hægt væri að ráða bót þar á, heldur en þótt væri aukið um helming fé til byggingarefnatilrauna, og vil ég þó ekkert segja á móti slíkum ágætisrannsóknum.

Þá eru þau dæmi ekki heldur óþekkt, að menn hafi orðið að sæta okurkjörum á lánum til bygginga og það svo, að sá kostnaður mun oft hafa numið allt að þeirri upphæð, sem vonazt er til að sparist við byggingarefnarannsóknirnar.

Þá er það vitað, að menn, sem hafa haft gnægð fjár og listrænan hugsunarhátt, hafa lagt mikið fé í það að gera hús sín sérkennileg og skrautleg ásýndum. Hefur þá verið meira hugsað um þá hlið málsins en þá hagnýtu, svo sem oft kemur fram í skýrslum rannsóknaráðs. Ég geri mér ekki miklar vonir um það, að iðnaðardeildinni takist allt í einu að breyta þeim hugsunarhætti, einkum þegar hið opinbera ýtir undir það að viðhalda honum með því að verðlauna þá, sem lengst ganga inn á þá braut að byggja sérstæð hús og í langmestu ósamræmi við íslenzka náttúru, íslenzka veðráttu og íslenzka staðhætti, eins og dæmi eru til, m.a. hér í þessari ágætu borg. Máltækið segir, að ekki þurfi nema einn gikk í hverri veiðistöð, og margir vilja keppa í fótspor þeirra, sem verðlaun hafa fengið fyrir það, en kostað þó allmiklar fórnir, bæði fyrir mennina sjálfa og fyrir þjóðfélagið.

Ég hef látið þessi ummæli falla til þess að sýna fram á, að í áætlun rannsóknaráðs er sannarlega ekki gert ráð fyrir öllum afföllum. Það gengur enginn þess dulinn, að byggingarkostnaður á Íslandi er nú og hefur lengi verið svo hár, að maður undrast yfir því, að menn fái almennt undir honum risið. Sá sparnaður, sem fengist við byggingarefnarannsóknir einar, er aðeins lítið brot af því, sem til þess þarf að koma þessum málum í viðunandi horf. Önnur atriði eru þar miklu áhrifameiri og nærtækari, ef menn vilja unhæfar og skjótar umbætur. En það er allt svo miklu víðtækara mál en svo, að unnt sé að fella inn í það frv., sem hér liggur fyrir. Þeir hv. alþm., sem greiða atkv. með samþykkt frv., telja sjálfsagt, að það verði öruggasta leiðin til lækkunar á byggingarkostnaði að stuðla að því að koma upp 20 manna skrifstofubákni til að vinna að byggingarefnarannsóknum með allt að hálfrar fjórðu millj. kr. útgjöldum á ári frá ríkissjóði. Hinir, sem eru þeirrar skoðunar, að leita beri eftir öðrum úrræðum í þessu vandamáli, greiða atkv. gegn því. Meiri hl. væntir þess, að hv. deild fallist á till. hans og þau rök, sem hann færir hér fram fyrir máli sínu, og greiði atkv. gegn frv. á þessu stigi. Ég skal hins vegar taka það fram, að málið er svo alvarlegt, að það þarf að rannsaka það miklu nánar, enda er málið nú meðal annars í rannsókn hjá húsnæðismálastjórn, eins og kemur fram í hennar umsögn.

Ég legg svo til fyrir hönd meiri hlutans, að málið verði fellt.