18.10.1960
Neðri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (1871)

7. mál, löggilding bifreiðaverkstæða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að hæstv. ráðherra hefur lagt fram frv. til laga um þetta efni, sem hér um ræðir, en vildi aðeins í stuttu máli gera hér nokkra athugasemd og heyra, hvort hæstv. ráðh. væri því nokkuð andvígur, að það verði tekið til athugunar í nefnd.

Eins og fjárlagafrv. ber með sér, eru nú veittar um 2 millj. og 500 þús. kr. til bifreiðaeftirlitsins. Þó er vitað, að bifreiðaeftirlitið getur á engan hátt fullnægt að líta eftir ástandi bifreiða í landinu, svo að öruggt sé. Til þess þyrftu bifreiðar að koma til eftirlits miklu oftar en gert er ráð fyrir. Ef nú þessi háttur er tekinn upp að löggilda bifreiðaverkstæði, eins og frv. gerir ráð fyrir, vildi ég mega spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki væri mögulegt að taka upp meira samstarf á milli þeirra verkstæða og bifreiðaeftirlitsins, m.a., að inn verði sett í frv. ákvæði um það, að ef slíkt verkstæði verður þess áskynja við viðgerð bifreiðar, að bifreiðin af einhverjum ástæðum sé ekki í ökufæru ástandi eða einhverjir hlutar hennar séu augsýnilega í því ástandi, að slysum geti valdið, þá sé þeim ekki heimilt að afhenda bifreiðina aftur til eiganda, fyrr en gert væri við slíka hluti í bifreiðinni, en jafnframt væri þá einnig ákveðið, að bifreiðaverkstæðið mætti gefa út skoðunarvottorð fyrir þær bifreiðar, sem þau hafa yfirfarið og gert við, og það einnig gæti létt mjög á bifreiðaeftirlitinu, samfara því sem það mundi veita mikið öryggi í sambandi við bifreiðaakstur.

Þessu vildi ég hafa skotið hér fram og vildi vænta þess, að hæstv. ráðh. hefði ekkert við það að athuga, að n. sú, sem fær þetta mál til meðferðar, ræddi þetta sérstaklega við bifreiðaeftirlitið og þá aðila, sem standa að þessu frv. Ég tel persónulega sjálfur, að það sé hægt að draga mikið úr kostnaði við bifreiðaeftirlitið með því að fara inn á þá braut, sem ég hef hér bent á, enda kunnugt um, að þetta er gert í Bandaríkjunum, þar sem aðaleftirlitið á bifreiðum hvílir á þeim verkstæðum, sem eru löggilt til þess að gera við bifreiðar þar í landi.