07.12.1960
Sameinað þing: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

1. mál, fjárlög 1961

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er augljóst öllum, sem líta á fjárlagafrv. og till. hv. fjvn., meiri hl. hennar, að fjárhaldsmaðurinn á ríkisbúinu, ráðsmaðurinn þar, hæstv. fjmrh., lítur svo á, að það sé mikil þörf hækkaðra tekna til þess að standast útgjöldin við heimilishald ríkisins. En hins vegar er líka ljóst af fjárlagafrv., að það er ekki ætlazt til þess, að starfsmenn ríkisins, opinberir starfsmenn, þurfi til síns heimilishalds auknar tekjur. Ég sé ekki neitt, sem bendi til þess, að neitt eigi að lagfæra launakjör opinberra starfsmanna, þar sé daufa eyranu snúið að samtökum opinberra starfsmanna, sem þó hafa nýskeð látið til sín heyra, og verður varla annað sagt en þau samtök hafi lög að mæla og ættu rétt á, að það væri viðurkennt af stjórnendum ríkisbúsins, að heimilishald fjölskyldnanna þurfi á hækkuðum tekjum að halda, eins og heimilishald ríkisins sjálfs krefst þess. Í þessu er ekkert samræmi og enn minni sanngirni. Sama má auðvitað segja um alla launamenn, ekki þá sízt hina lægst launuðu í þjóðfélaginu, verkafólkið. Það er engin sanngirni í því og ekkert réttlæti að ætla því fólki að búa við ekki aðeins óbreytt launakjör, heldur lækkuð launakjör, á sama tíma sem forráðamenn ríkisbúsins biðja um hvern tug milljóna eftir annan til aukinna útgjalda. En það er liðið langt á nótt, og ég ætla ekki að gera neinn eldhúsdag að hæstv. ríkisstj. almennt í sambandi við fjárlögin, heldur aðeins mæla nokkur orð fyrir till., sem ég flyt eða er meðflm. að.

Ég sé það, að einn af þeim liðum, sem á að lækka á fjárlögunum, er kostnaður vegna framkvæmdar orlofslaganna, liður, sem snertir hina lægst launuðu í landinu, verkafólkið. Hann skal lækka. Ég er því meðflm. að till. um það, að sá liður hækki lítillega, eins og ég tel nauðsyn til, og mun verða nánar gerð grein fyrir þeirri till, af 1. flm. hennar. Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um það.

Á þskj. 185 flyt ég till., sem er nr. III á því þskj. Þar er í fyrsta lagi lagt til, að töluliður 52, Fjarðavegur, fái fjárveitingu, sem nemi 300 þús. kr., en honum eru nú ætlaðar 100 þús. kr. samkv. till. fjvn. Hér er um að ræða veg, sem liggur meðfram Álftafirði í Norður-Ísafjarðarsýslu, á að liggja um Kambsnes til Seyðisfjarðar, en byggðin í Seyðisfirði er ekki í neinu akvegasambandi, og hefur það tekið mörg ár vegna þess, hve fjárveitingarnar hafa verið smáar til þessarar vegargerðar, að þoka vegargerðinni út með Álftafirði áleiðis til Seyðisfjarðar. Í Seyðisfirði er rekið eitt stærsta sauðfjárbú á Vestfjörðum, og tveir aðrir bæir eru þar, sem þyrftu að komast í vegasamband, en það liggur við, að þessir bændur séu orðnir vonlausir um, að það gerist, meðan þeir eru á lífi, að Seyðisfjörður komist í akvegasamband við Álftafjörð og þar með við Ísafjörð, aðalmarkaðssvæði bænda um þessar slóðir. Ég hef farið hófsamlega í þetta og legg til, að fjárveitingin hækki um 200 þús. kr. Væri þá ef til vill hægt að gera akfært, a.m.k. að sumarlagi, frá Eyri í Seyðisfirði um Kambsnes og Álftafjörð til Ísafjarðar.

Þá legg ég til, að fjárveiting til Snæfjallastrandarvegar hækki úr 100 þús. kr. í 250 þús. kr. Þannig hagar þarna til, .að akvegur var gerður í Snæfjallahreppi fyrir einum 12–14 árum frá Mýri inn að Lónseyri við Kaldalón, en síðan hefur verið rutt vegarstæði frá Ármúla og inn fyrir Kaldalón og út með Kaldalóni að norðanverðu og þar með stefnt að því, að Snæfjallahreppur kæmist í samband við vegakerfið.

Það eru, held ég, ein 8 eða 10 ár síðan yfirleitt hefur sézt nokkur fjárveiting á fjárlögum til byggðanna norðan Ísafjarðardjúps. Það eru fáir kjósendur á þessum slóðum, og það er máske þess, sem þeir gjalda. En þeir hafa líka fengið að horfast í augu við það s.l. áratug eða vel það, að til þessara byggðarlaga væru engar fjárveitingar. Norðan Djúpsins eru 3 fámennir hreppar, Nauteyrarhreppur, Snæfjallahreppur og Grunnavikurhreppur. Fjórði hreppurinn var eitt sinn til, Sléttuhreppur, einn af fjölmennustu hreppum Norður-Ísafjarðarsýslu með á sjöunda hundrað íbúa, en þar býr nú enginn maður. Hann hefur verið lagður í auðn. Á sömu leið virðist vera að fara með Grunnavíkurhrepp, sem hefur þó hin beztu lífsskilyrði fyrir allfjölmenna byggð. En í þeim hreppi er enn þá enginn akvegur nema örstuttur vegarspotti frá Grunnavíkurbryggju heim að Stað í Grunnavík. Þessi hreppur eða fólkið, sem þar býr enn, 40 manns eða svo, bíður eftir því ár eftir ár að komast í vegasamband að Djúpi, og gæti það fyrst orðið, þegar vegur hefði verið lagður út Snæfjallaströndina og vegatengingin, sem ég áðan gat um, inn fyrir Kaldalón, hefði komizt á. Full hætta er á því, ef hv. þm. opna ekki augun fyrir þeirri hættu, sem þarna steðjar að, að Grunnavíkurhreppur fari sömu leiðina og Sléttuhreppur, leggist í auðn, og það er nú einu sinni svona, að þegar fólk á þessum útkjálkum sér ekki, að ríkisvaldið vilji neitt að því stuðla, að byggð haldist, þá getur örvæntingin gripið fólk og landauðnin blasað við, fyrr en menn varir. Ég tel því, að það hefði verið full þörf á því að flytja till. um miklu hærri fjárveitingu en ég flyt þó till. um til Snæfjallastrandarvegar, til þess að koma vegargerðinni ekki aðeins inn fyrir Kaldalón og tengja þannig Snæfjallahreppinn við vegakerfið, heldur einnig að geta haldið vegargerðinni áfram út Snæfjallaströnd og áleiðis til Grunnavíkur, svo að fólkið þar sæi, að það væri þó að nálgast sú stund, að það kæmist í vegasamband við byggðirnar við Djúp. Ég teldi það því góðra gjalda vert, að fjárveitingin yrði hækkuð, þótt ekki væri nema úr 100 þús. í 250 þús., ef það mætti verða til þess að ljúka vegargerðinni fyrir Kaldalón. Þá gætu þó vaknað vonir um, að í framhaldi af því yrði svo t.d. á næsta ári og næstu árum haldið áfram vegargerðinni úr Snæfjallahreppi og áleiðis til Grunnavíkur. Ég vil því vona það, að þessi till. mæti skilningi hv. þm.

Í þriðja lagi flyt ég örlitla brtt. við lið nr. 55, tölulið 55, á 13. gr., Vatnsfjarðarvegur, á þá lund, að fjárveitingin hækki úr 20 þús. í 60 þús. kr. Ég sé ekki, hver er tilgangurinn með 10 og 20 þús. kr. fjárveitingum til vegagerða, með þeim tilkostnaði, sem nú er við slíkar framkvæmdir. Er það aðeins til þess að standast kostnað af flutningi tækja fram og aftur, án þess að verkið geti fengið neitt af fjárveitingunni? Ef það er ætlunin, þá geta 20 þús. kr. kannske dugað, en ef hitt er ætlunin, að einhver vegargerð verði til, að Vatnsfjarðarvegur lengist eitthvað, t.d. frá Skálavík og inn að Keldum, þá hygg ég,, að ekki verði komizt af með mínna en 50–60 þús. kr., eins og ég legg þarna til. Ég tel, að 10 og 20 þús. kr. fjárveiting til vegagerða hafi enga þýðingu, sé í raun og veru tilraun til að kasta fé.

Þá er það V. till. á þskj. 185, það er brtt. viðvíkjandi brúargerðum. Ef fyrri till. mín um hækkun fjárveitingar til Snæfjallastrandarvegar yrði nú samþykkt, þá væri þó ekki komið á vegasamband inn yfir úr Snæfjallahreppi til Nauteyrarhrepps, því að torfæra er þar á leið. Það er jökulsáin Mórilla í Kaldalóni, sem er nokkurt vatnsfall og þyrfti þá að brúa. Það er fyrst, þegar búið væri að brúa Mórillu og tvær aðrar smáár í botni Kaldalóns, sem Snæfjallahreppsbúar væru komnir í öruggt vegasamband við byggðirnar inn um Djúpið. Þetta er nokkurt mannvirki, brúin, sem þarna þarf að byggja, og hefur vegamálastjóri tjáð mér, að brúin mundi sennilega kosta um 500 þús. kr., og legg ég til, að nýr liður verði tekinn upp, til brúargerðar á Mórillu í Kaldalóni, 500 þús. kr.

Þá er önnur tillaga undir þessum rómverska lið, um það, að tekinn verði upp nýr liður, til bryggjugerðar á Drangsnesi, 200 þús. kr. Ég bar fram svipaða till. í sambandi við fjárlögin í fyrra, og var hún þá drepin. En ég fullyrði, að það er fyllsta þörf á því, að gerðar séu endurbætur á hafnaraðstöðu í kauptúninu Drangsnesi. Fyrir tveimur árum var keypt togskip, sem ætlað var að vera aðaluppistaðan í atvinnulífinu á Hólmavík og Drangsnesi, en að Drangsnesbryggju kemst þetta skip ekki, nema þegar hásjávað er og þegar bezt er og blíðast, þegar logn og ládeyða er. Þessa bryggju þarna þarf því að lengja, svo að skipið, sem keypt var til þessara byggðarlaga, geti athafnað sig þar og lagt þar afla á land, þó að ekki sé um að ræða hin beztu skilyrði. Áð minnsta kosti þyrfti það að vera hægt, þó að lágsjávað sé.

Liður VII á þessu sama þskj. er till. frá mér um hækkun fjárveitingar í Tálknafirði, eða með öðrum orðum, að liðurinn hækki úr 275 þús. í 400 þús. kr. Hafnarmannvirki á þessum stað eru áætluð og teiknuð af vitamálastjóra og gert ráð fyrir, að þau kosti allmikið fé. Þarna er að vaxa upp álitlegt kauptún, bátafloti er þarna nýr og glæsilegur, skipin hafa farið stækkandi með ári hverju. Þarna eru nú þrír stálbátar, sem halda uppi öllu atvinnulífinu í byggðarlaginu. En það er eins með þennan stað, þennan blómlega og vaxandi stað, Tálknafjörð, eins og með Drangsnes, að bryggjustúfurinn, sem þar er, er þannig, hann er það stuttur, að hinir stærri bátar, sem nú eru þarna uppistaðan í atvinnulífinu, komast þar ekki að, nema þegar hásjávað er, og geta alls ekki undir neinum kringumstæðum athafnað sig allir þar við bryggju í senn, en það þyrftu þeir að geta gert til þess að geta stundað óhindrað veiðiskap.

Í annan stað legg ég til, að fjárveiting til Melgraseyrarbryggju verði hækkuð úr 100 þús. kr. í 250 þús. kr. Mér er kunnugt um það, að vítamálastjóri mun hafa lagt til, að til Melgraseyrarbryggju væru nú teknar á fjárlög 400 eða 500 þús. kr. En ég legg til í minni hófsemd, að liðurinn hækki aðeins úr 100 þús. í 250 þús. kr. — tel, að vonir standi til, að þá yrði byrjað á því að lengja Melgraseyrarbryggju, en flóabáturinn um Ísafjarðardjúp, Fagranes, hefur aðalviðkomustað við þessa bryggju. Ferðamannastraumurinn að sunnan og frá Ísafirði og Vestfjörðunum inn um Djúp beinist að þessum stað, en Fagranesið kemst ekki að Melgraseyrarbryggju, nema þegar hásjávað er. Þessa bryggju þarf því að lengja, og vitamálastjórinn telur, að það kosti einar 500–600 þús. kr., og kemst þessi framkvæmd, svo nauðsynleg sem hún er, alls ekkert á stað með 100 þús. kr. fjárveitingu, hún er því næstum einskis virði. Á þeim grundvelli er ekki hægt að hefja framkvæmdir, en mundi ef til vill vera hægt, ef helmingur fjárins væri nú á fjárlagafrv., og þá þætti nokkuð víst, að önnur fjárveiting sams konar á næsta árs fjárlögum fyllti upp kostnaðinn. Mér er því . ljóst, að ég legg aðeins til, að fjárveitingunni væri þokað það upp á við, að hægt væri að ráðast í að byrja á mannvirkinu, en langt í frá, að 250 þús. kr. dugi til þess að ljúka því.

VIII, liður á þessu sama þskj., 185, er till., sem ég flyt ásamt 5 öðrum þm., og er hún við 20, gr. fjárlagafrv. og er á þá leið, að atvinnu og framleiðsluaukningarfé skuli í fyrsta lagi vera 11 millj. kr., eins og nú er á greininni, auk þess 10 millj. kr. sveitarfélögum til aðstoðar til að bæta tafarlaust úr atvinnuleysi, sem þegar er skollið á eða er yfirvofandi, og í þriðja lagi 4 millj. kr. til samgöngubóta á landi, allt eftir ákvörðun 5 manna nefndar, sem kosin er hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi. Liðurinn yrði þannig alls 25 millj. kr.

Það, sem er nýtt í þessari grein, er það, að ég legg til, að tekin sé upp fjárveiting að upphæð 10 millj. kr., sem skuli vera þeim sveitarfélögum til reiðu, sem neyðast til þess að ráðast í framkvæmdir til þess að bæta tafarlaust úr atvinnuleysi, sem er skollið á eða er yfirvofandi. Við vitum, að þeir staðir eru nú margir og þau sveitarfélög mörg, — verða sjálfsagt enn fleiri, áður en langir tímar líða, sem komast ekki hjá því að ráðast í sérstakar atvinnubótaframkvæmdir vegna atvinnuskorts. Sveitarfélögin munu vera lítt viðbúin að þurfa að gera þessar ráðstafanir, en ástandið hefur hríðversnað á síðustu vikum og mánuðum, svo að nú er það auðsætt, að alvarlegt atvinnuleysisástand er skollið á á mörgum stöðum hér á landi. Ég hygg því, að 10 millj. kr. upphæð mundi ekki hrökkva langt til þess að aðstoða sveitarfélögin í þessum vanda, en væri þó eins konar viljayfirlýsing af hendi ríkisvaldsins um, að það vildi bæta nokkuð fyrir sín stóru brot í þessum efnum, því að holskefla atvinnuleysisins er skollin yfir vegna samdráttarstefnu hæstv. ríkisstj. og einskis annars. Stjórnarstefnan hefur brotið niður atvinnulífið í landinu og skapað það atvinnuleysi, sem við horfumst nú í augu við og verður enn verra á næstu vikum.

X. liðurinn á þessu sama þskj, er till., sem ég flyt ásamt 5 öðrum þm. og er við 22. gr. fjárlaga, heimildagreinina, og er um það, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að 50 millj. kr. lán vegna húsnæðismálastofnunar ríkisins. Þetta lánsfé skal húsnæðismálastjórnin endurlána þeim húseigendum, sem vegna fjárhagsörðugleika eiga á hættu að missa íbúðir sínar, og skulu lánin veitast eftir nánari reglum, sem húsnæðismálastjórn setur í samráði við ríkisstj. Hér er ekki um það að ræða að auka það fé, sem húsnæðismálastofnuninni eða réttara sagt byggingarsjóði ríkisins er ætlað til almennra lánveitinga. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. sjái fyrir nauðsynlegu fé til þeirrar almennu lánastarfsemi. En það ástand hefur skapazt vegna stjórnarstefnunnar, að fjöldi manns, sem hefur verið að brjótast í því að koma upp íbúð yfir höfuð sér og sinna, getur nú átt það á hættu, hvenær sem er, að missa íbúðirnar, ýmist hálfgerðar eða nýlega fullgerðar, vegna vaxtanna, vegna brestandi atvinnutekna og annarra ástæðna, og þá er hugsunin með þessari till. sú, að myndaður sé af ríkisvaldinu eins konar bjargráðasjóður húseigenda og að húsnæðismálastjórnin noti þetta fé, allt að 50 millj. kr., til þess að hjálpa þeim húseigendum, sem séu í þann veginn að missa íbúðir sínar. Þetta er þess vegna tillaga, sem tekur ekki á því að leysa almennt lánsfjárþörfina vegna húsnæðismálanna í landinu, heldur til þess að firra voða af þeirri stjórnarstefnu, sem nú er rekin, að því er snertir þá, sem verið hafa að brjótast í því að byggja handa sér íbúðarhúsnæði.

Ég vil vænta þess, að þessar till. mínar mæti skilningi, og tel þær allar vera þess eðlis, að fyllsta ástæða sé til fyrir hæstv. fjvn. að taka þær gaumgæfilega til athugunar og taka þær til greina.