16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

1. mál, fjárlög 1961

Eysteinn Jónsson:

Ég mun ekki ræða um fjárlögin almennt. En áður en ég kem að því að tala fyrir brtt., sem við flytjum 4 þm. af Austurlandi, vil ég aðeins minnast á eitt atriði annað. Hæstv. ríkisstj. hefur látið þess getið utan þings, — ég held það hafi verið í haust, — að hún mundi standa fyrir því, að lagður yrði vegur til Keflavíkur, myndarlegur vegur, og þessi vegargerð er nú hafin. Um málið sjálft vil ég segja, að ég tel, að þarna sé byrjað á því að framkvæma mikið þjóðnytjamál, sem lengi hefur dregizt, og sé ekkert nema gott um það að segja, að í þessa nauðsynlegu framkvæmd er ráðizt. En hæstv. ríkisstj. hefur aldrei gefið neina yfirlýsingu eða tilkynningu eða skýrslu um þetta mál á Alþingi, og ég heyrði áðan, þegar frsm. minni hl. talaði, mér til nokkurrar undrunar, að það hafa ekki heldur fengizt fram í fjvn. neinar upplýsingar um það, hvernig þessi vegargerð er kostuð. Er hún kostuð af ríkissjóðstekjunum, eða er hún kostuð af lánsfé, sem ríkisstj. hefur fengið milli handa, eða er hún kostuð af einhverju öðru fé og þá hvaða fé? Ég heyrði, að hv. frsm. minni hl. spurði um þetta, og mér sýnist mikil nauðsyn á því, að hæstv. ráðherra gefi hv. Alþingi upplýsingar um þetta. Ég vildi þess vegna taka undir þessa ósk hv. frsm.

Við fluttum hér fjórir þm. af Austurlandi nokkrar brtt. við 2. umr., sem teknar voru þá til baka og eru nú endurfluttar, og sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka neitt af því, sem ég sagði þá um þær, en vísa til þess.

Þá höfum við bætt við örfáum till., sem ég vil fara um fáeinum orðum.

Það er fyrst; að meiri hl. sá, sem hér ræður húsum, lækkaði fjárveitingar til Breiðdalsvegar um 50 þús. kr. í fyrra. Kom það mjög illa niður, vægast sagt. Nú leggjum við til, að úr þessu verði bætt og fjárveitingar til vega í þessum dal gerðar jafnháar því, sem þær voru áður. Í dalnum er afar mikið óunnið að vegagerð og ástand þeirra mála langt frá því að vera í æskilegu horfi.

Þá hvarf þessi sami meiri hl. að því í fyrra að fella algerlega niður smáfjárveitingu, sem hafði verið til að lagfæra veg út í svokallaða Vöðlavík. Hún liggur á milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Í þessari vík eru fimm heimili, sem styðjast nokkuð jöfnum höndum við land og sjó, þó meira við land. Þangað liggur grýttur vegarslóði, sem hægt er að fara á jeppum og vörubifreiðum, þegar bezt lætur um veðráttu, en annars alls ekki. Undanfarin ár hefur verið reynt að laga þarna ofur lítið á hverju ári fyrir smáfjárveitingu, sem verið hefur í því skyni, og hefur þá verið farin ein ferð og unnið fyrir viðhaldsfé og svo þetta fé til endurbótanna. En síðan núv. þingmeirihluti fann upp það snjallræði, að það ætti að hafa fjárveitingar til veganna sem allra fæstar, og felldi niður þessa fjárveitingu, þá fer vegavinnuflokkurinn eingöngu til þess að vinna fyrir viðhaldsféð og loku fyrir það skotið, að nokkuð sé lagaður þessi vegarslóði frá því, sem hann er nú. Það er alger kyrrstaða. Slíkt er ömurlegt og getur ekki staðizt, því að það er mikil ástæða til þess að hlynna að því, að þessi fimm heimili geti verið þarna áfram. En litlar horfur eru á því, að svo verði, ef þessi nýja stefna í vegamálum á að standa í framkvæmd mjög lengi. Það fara þangað vegavinnumenn eftir sem áður með þessa fáu viðhaldsaura, en þeim er bara algerlega bannað að laga nokkuð veginn í leiðinni, eins og þó áður var gert, fyrir þá tiltölulega litlu fjárhæð, sem veitt var.

Nákvæmlega sömu sögu er að segja um vegarspotta, sem kallaður er Dalavegur. Hann liggur inn í Fáskrúðsfjarðardalinn. Þar eru einnig fjögur mjög myndarleg heimili, sem hafa afar mikla framleiðslu. Þangað liggur vegarslóði, sem er ófær, ef nokkuð er að veðri, en hægt að slarka þarna á vörubílum, þegar bezt lætur, alveg eins og á hinum staðnum. Það er látið í þennan vegarspotta örlítið viðhaldsfé á hverju ári og var áður smáfjárhæð til endurbóta líka, 15 þús. kr. En í fyrra, þegar þessi nýja, snjalla stefna var tekin upp, voru þessar 16 þús. kr. strikaðar út, þannig að vegavinnuflokkurinn fer eftir sem áður á vettvang, en hefur aðeins þessa fáu viðhaldsaura, en er algerlega bannað að laga nokkuð veginn. Við leggjum til, að úr þessu verði bætt og aftur tekin upp þessi litla fjárveiting, sem var þó til að bæta veginn ofur lítið á hverju ári. Það er alveg sama um þetta að segja og í hinu dæminu: Ef þessi nýja stefna fær að vera í framkvæmd mjög lengi, þá eru ekki líkur til annars en að fólkið á þessum fjórum heimilum verði að gefast upp og flytja eitthvað annað, en hvort það verður hagur fyrir þjóðarbúið, það er annað mál. Ég efast um, að framleiðsla þess verði meiri eða framlag í þjóðarbúið en það verður með því að nytja þennan dal og þau lönd, sem að honum liggja, en þar er óvenjulega heppileg aðstaða fyrir sauðfé.

Þá er till. um að leggja fram 35 þús. kr. til að halda áfram vegagerð inn norðurdalinn í Skriðdal. Það er nákvæmlega sama að segja um þetta og hinar fjárveitingarnar, nema þarna er um heldur hærri fjárhæð að ræða og hún miðuð við, að þarna sé hægt að gera nokkru meira en á hinum stöðunum. Það vantar veg þar á innstu bæina í dalnum. Þar er framúrskarandi aðstaða til framleiðslu á allar lundir, en samgöngur í lélegu lagi. Fjárveiting í þetta var strikuð út samkvæmt hinni nýju stefnu, og það er alveg nákvæmlega sama og með hinar. Það sparast ekki, að vegavinnuflokkur fari á vettvang, því að hann fer á vettvang og lagar ofur lítið til árlega á þessum slóðum, en honum er bara algerlega bannað að gera nokkrar endurbætur. Með öðrum orðum, það verður enn meiri sóun á verðmætum en áður, því að flokkurinn fer á vettvang og aðhefst meira en helmingi minna en áður og fer síðan heim. En fólkið situr með sárt ennið og fær enga úrlausn sinna mála.

Þá er brtt. frá okkur um að hækka aðeins ofur lítið framlag til Mýravegar í AusturSkaftafellssýslu. Þar er verið að brúa Hornafjarðarfljót, sem er stórmerkileg framkvæmd, og frá brúnni þarf nýjan veg inn á þann veg, sem fyrir var um Mýrarnar og er aðalbrautin sunnan fljótsins. Að vísu eru settar í þetta 200 þús. kr., en það mun ekki duga til þess að koma brúnni í samband við sæmilegan veg, og flytjum við því till. um, að fjárveitingin verði ofur lítið hækkuð.

Í Öræfunum skortir ákaflega mikið á, að vegir séu komnir í sæmilegt horf, enda er þar erfitt um vegagerð, því að það þarf geysilega mikið að gera þar af ræsum og alls konar ráðstöfunum vegna vatnsins, sem þar sækir mjög á vegarstæðið. Flytjum við till. um að auka ofur lítið framlög til Öræfavegar.

Ég vil vonast eftir, að hv. alþm. sjái sér fært að fylgja þessum till., sem eru ekki stórvægilegar, en gætu þó haft óvenjumikla þýðingu, samanborið við það, hversu lágar fjárhæðir þarna er um að ræða.

Þá flytjum við till. um að tileinka Egilsstaðaflugvelli 250 þús. kr. af því fé, sem veitt er til flugvalla, en hafa þeim mun minna óráðstafað í frv. Rökin eru þau, að það er mjög slæmt ástand um alla fyrirgreiðslu fyrir farþega á Egilsstaðaflugvelli og það vegna þess, að þar hefur ekki verið nein viðunandi flugstöðvarbygging, heldur aðeins smáskúr, sem notazt hefur verið við. Nú hefur undanfarið verið unnið að því að koma upp nokkrum hluta af flugstöðvarbyggingu, en vegna þess að mjög aukið húsrými þarf fyrir vaxandi öryggisráðstafanir á flugvellinum, verður þessi fyrsta byrjun á flugstöðinni, sem nú er komin upp, allt of lítil til þess að bæta úr frumstæðustu og brýnustu þörfum fyrir húsnæði á flugvellinum. Þess vegna leggjum við til, að til flugvallarins verði veittar 250 þús. kr. til að byrja á næsta áfanga af flugstöðvarbyggingunni, sem er afar aðkallandi verk.