27.10.1960
Efri deild: 11. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki nema tvær greinar, og það er ekki ætlun mín að ræða landhelgismálið í heild í sambandi við flutning þessa frv. Frv. fylgir einnig stutt grg., og ég mun ekki, án þess að gefist sérstakt tilefni til, ræða þetta mál ýtarlega. Það hefur verið það mikið rætt, og það, sem þetta frv. felur í sér, er í sjálfu sér ákaflega einfalt atriði. Það er um það að staðfesta sem lög reglugerð nr. 70 30. júní 1958, um fiskveiðilandhelgi Íslands.

Því er svo háttað, að flestar þjóðir hafa um landhelgi sína, ekki aðeins fiskveiðilandhelgi, heldur landhelgina yfirleitt, lög frá löggjafarsamkomu sinnar þjóðar. Og í sjálfu sér held ég, að það sé eðlilegt að fallast á, að það sé sá eðlilegi háttur, sem á er hafður í sambandi við þetta mál. Þetta hefur æxlazt öðruvísi hjá okkur, og ástæðan er í höfuðatriðum sú, að það var lögð mikil áherzla á það af lögfræðingum margra þjóða, að landgrunnsreglan mundi e.t.v. verða hin almenna regla að því er snerti fiskveiðiréttindi hlutaðeigandi þjóða. Þetta sjónarmið var ákaflega ríkjandi 1948, þegar landhelgislögin voru sett. Án þess að farið sé nánar inn á það, kom fljótt í ljós á fyrri ráðstefnunni í Genf, að þessi regla um réttindi á landgrunninu varð ekki ríkjandi að því er fiskveiðiréttindi snertir. Stórveldin komu því þannig fyrir á þeirri ráðstefnu og fengu meirihlutasamþykkt fyrir því, að réttindi á hafsbotninum tilheyrðu hlutaðeigandi þjóðum á nánar tilteknum svæðum, en fiskveiðarnar, sem eru fyrir ofan hafsbotninn, voru ekki látnar fylgja með, jafnvel þó að veitt sé með tækjum, sem eins og við vitum eru dregin eftir hafsbotninum og raska þar öllu lífi.

Ég ætla ekki að rökræða það, hversu sanngjarnt þetta hefur verið. En fyrir þessari stefnu fékkst meiri hluti og hann löglegur og meira en það. En þrátt fyrir það, þótt þetta hafi verið samþykkt, heldur vitanlega baráttan um landgrunnið áfram. Það er alveg augljóst mál af þeim umræðum, sem urðu á síðustu ráðstefnunni í Genf, og þeim rökum, sem þar voru borin fram af fjöldamörgum þjóðum. Sú barátta að því er fiskveiðarnar snertir á landgrunni heldur að sjálfsögðu áfram. Ég nefni þetta án þess að rökræða nánar um þetta atriði.

Það er lítill vafi á því, að það álit, að þessi stefna mundi verða ríkjandi, að hlutaðeigandi þjóðir ættu landgrunnið, einnig að því er fiskveiðar snerti, varð því ráðandi, að lögin frá 1948 voru sett, og síðan hefur verið fylgt þeirri reglu, eins og okkur er kunnugt, 1952 og 1958, að ákveða fiskveiðitakmörkin með reglugerð.

En það, sem þetta frv. fer fram á, er, að reglugerðin frá 1958, eins og ég sagði áðan, verði lögfest. Raunverulega er frv. um það eitt að flytja þetta vald frá þeim, sem hafa heimild til þess að gefa út reglugerðir, sem er hlutaðeigandi ráðh. í ríkisstj., — flytja það til Alþingis sjálfs. Ég þarf ekki að efast um það, að hv. alþm. geta yfirleitt fallizt á, að þetta sé eðlilegt. Með þessu móti kemst miklu meiri festa í málið, og eins og ég sagði í upphafi, þá er þessu svo háttað, að flestar þjóðir hafa um þessi atriði löggjöf.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri á þessu stigi. Ég geri ráð fyrir því, að það sé eðlilegast að vísa því til allshn., 2. umr. og allshn., og ég hef sérstaklega óskað eftir því við nefndina, að afgreiðslu þessa máls verði flýtt.