07.11.1960
Efri deild: 17. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í C-deild Alþingistíðinda. (2206)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það gætti þeirrar undarlegu mótsagnar í ræðu hæstv. dómsmrh., að hann sagði a.m.k. þrisvar sinnum og í öðru hverju orði og annarri hverri setningu svo að segja í byrjun ræðu sinnar: Við erum búnir að sigra í 12 mílna deilunni, 12 mílurnar eru staðreynd, — en svo varði hann meiri hluta af ræðu sinni til þess að rökstyðja það, að þennan sigur ættum við að kaupa, og sagði, að það yrði að meta það, hvort það, sem við þyrftum að borga fyrir það að fá viðurkenningu á þessum 12 mílum, yrði of dýrt.

Ég viðurkenni það, að líkingar geta alltaf haft rétt á sér. En líkingar geta verið settar fram til þess að villa. Hann tók það sem dæmi um það, hvort við, sem flytjum þetta frv, teldum, að það væri að afsala sér eignarrétti á húsi að leigja einstaklingi einstök herbergi í húsinu um ákveðinn tíma, og vildi taka þetta sem hliðstæðu við það, að Bretum yrði leyft að fiska hér einhvern árafjölda innan 12 mílna landhelgi. Ég viðurkenni, að það breytir á engan hátt eignarhaldi eigandans á húsi, þó að hann leigi hinum og þessum einstaklingum íbúðir í húsi sínu. Og dómsmrh. hæstv. var að minnast á það, að e.t.v. hefðu Bretar átt kost á því og þá sennilega fleiri að fá að fiska hér innan 12 mílna, ef þar væri um einhliða gerning að ræða. En mér er sem ég sjái hæstv. dómsmrh., þegar hann var nýbúinn að byggja húsið sitt, því að þannig horfir málið við, ef einhver berserkur hefði komið og barið á honum fyrir utan húsið hjá honum, og sagt: Ég viðurkenni alls ekki, þú skalt alls ekki fá að búa í friði hér í þessu húsi, nema þú látir mig hafa herbergi í þrjú ár. — Mundi hæstv. dómsmrh. eða nokkur maður með manndóm í hjarta láta bjóða sér slíkt? Það er þetta, sem hefur verið gert. Eftir að við erum búnir að sigra í málinu, þá á að berja okkur til þess að leyfa Bretum að fiska innan 12 mílna landhelginnar. Mundi hæstv. dómsmrh. eða nokkur annar láta einhvern berserk hér í bænum, þó að hann væri sterkari en húseigandinn, ganga að sér fyrir utan húsdyrnar hvað eftir annað og berja sig og segja: Ef þú lætur mig ekki fá, — ekki einu sinni leigir, — ef þú ekki lætur mig fá frítt herbergi í húsinu í þrjú ár, þá viðurkenni ég ekki eignarréttinn, og þú skalt verða barinn áframhaldandi fyrir utan dyrnar hjá þér, þangað til þú gerir þetta? — Það er náttúrlega nauðsynlegt að gera þetta til þess að afstýra hættu. Húseigandinn er í stöðugri hættu. Það er svarið, sem hann fær.

Ég er búinn að margtaka það fram, alveg eins og hæstv. dómsmrh., að sigur er unninn í þessu máli. Við erum búnir að sigra með 12 mílurnar, og tíminn er búinn að vinna það. Ég veit, að hæstv. dómsmrh. fylgist eins vel með og ég í brezkum blöðum. Það hefur komið hvað eftir annað fram í brezkum blöðum núna. Þegar þeir drógu flota sinn til baka, meðan á Genfarráðstefnunni stóð nú á þessu ári, þá sögðu brezku blöðin hvað eftir annað: Það er ekki hægt að senda flota upp aftur til þess að vernda skipin okkar. — Og af hvaða ástæðum er þetta? Það er vegna þess, að það kostar meira jafnvel en fiskurinn er verður að kosta herskip til þess að sjá um að vernda togarana.

Það er annað, sem er að koma í ljós. Það kom í ljós, að það voru að bresta taugar sjómannanna að sækja hér upp á þessi mið, þar sem eru jafnmikil illviðri, og eiga ekki völ á því að komast í landvar eða komast í land, ef þau beittu upp. Það meira að segja var kominn upp svo mikill leiði hjá hernum, sem var hér í Norðurhöfum í versta skammdeginu og þegar sjóir eru verstir, að þeir frömdu eyðileggingarstarf á herskipunum, sem áttu að fara hingað upp, til þess að þau gætu ekki farið. Við vorum búnir að sigra í þessu máli.

Tíminn var búinn að vinna til sigurs í þessu máli. Og ef þeir héldu þessu áfram, þá hefur ekki verið neitt launungarmál með þá till., er hér kom fram í utanrmn., hvernig ætti að snúast við því. Ég álít, að það ætti að snúast við því á sama hátt og fjöldi manna hefur borið fram samþykktir um hér í þessu landi, ef á hefði þurft að halda. Við erum raunverulega búnir að sigra í málinu.

Það er rætt mjög mikið um það, að þeir, sem haldi uppi deilum í þessu máli, rjúfi þá einingu, sem nauðsynleg sé í málinu, það sé nauðsynlegt að standa saman og það sé illt verk að vekja deilur um þetta mál, eins og við gerum, stjórnarandstæðingar. En það, sem ástæða er til þess að vekja athygli á, er þetta: Um hvað hafa stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan, allir flokkar í þessu landi lýst sig sammála í 10 ár? Um hvað er það? Hvaða reglur eru það? Hvaða stefna? Og það frá því að við færðum út landhelgina 1950. Það eru tvær ófrávíkjanlegar meginreglur, sem við höfum verið sammála um allir. Það er það, að við semdum aldrei um það við neinar þjóðir eða neina þjóð, hvenær við færðum út fiskveiðilandhelgina né hver stærð hennar væri. Fiskveiðilandhelgin yrði að ákveðast í samræmi við lífshagsmuni þjóðarinnar og alþjóðarétt og það væri eitt af okkar stærstu innanríkismálum að taka þessa ákvörðun sjálfir, vegna þess að það væri lífsnauðsynjamál þjóðarinnar, og þar yrðum við eingöngu að fara að alþjóðalögum, gætum ekki samið um það við aðra. Í annan stað hefur það verið meginreglan, sem við höfum fylgt staðfastlega, að þær ákvarðanir, sem við tækjum í samræmi við alþjóðalög um stærð fiskveiðilandhelginnar, yrðu ekki aftur teknar, yrði ekki gefið eftir á, hvorki tímabundið né varanlega. Ég vil ekki lengja mál mitt um þessi atriði, en ég vil spyrja hæstv. alþm., hvort þeir efist um, að um ekkert mál í þessu landi, nema ef það er sjálfstæðismálið 1944, hafi verið ríkara samkomulag en um þessar tvær meginreglur, ef nokkuð er að marka yfirlýsingar Alþingis, stjórnmálaflokka, ríkisstjórna, í utanrmn., á kosningafundum, í blöðum og yfirleitt alls staðar, þar sem landhelgismálið hefur verið rætt. Ég álít, að ég þurfi ekki að rökstyðja þessa staðhæfingu mína. Þeir hv. 5. þm. Austf. og 5. þm. Reykn. lásu hér upp yfirlýsingar frá þingflokkunum, formönnum flokkanna, utanrrh., forsrh., sem sýna það, að þessi meginstefna, sem ég lýsti, er yfirlýst stefna allra stjórnmálaflokka í landhelgismálinu.

Það getur vel verið, að það sé hægt að ganga frá yfirlýsingum í málum. En ef þjóðin má ekki treysta slíkum yfirlýsingum, sem gefnar hafa verið í þessu máli og rökstuddar, ef hún ekki má treysta yfirlýsingum í stærsta lífshagsmunamáli sínu, hverju er þá hægt að treysta í þessu landi? Og ef á að ganga frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið og yfir lýst í þessu máli, að semja ekki við aðrar þjóðir um það, hvort við færðum út landhelgina eða hvenær við gerðum það eða hve stór hún væri ákvörðuð á hverjum tíma, og enn fremur, að við gefum ekki eftir af þeirri landhelgi, sem við höfum yfir lýst, — ef það sýnir sig, að þessum yfirlýsingum má ekki treysta og þær verða brigðaðar, þá er ég viss um það, og vil biðja hv. alþm. að hugleiða það, að það brestur margt í íslenzkri þjóðarkennd og íslenzku þjóðlífi, ef slíkt kemur fyrir.

En spurningin er þá ekki um það eftir þær yfirlýsingar, sem tveir hv. þm., sem ég nefndi, hv. 5. þm. Austf. og hv. 5. þm. Reykn., lásu hér upp, það er ekki neinn efi um það, að þessar reglur eru sú meginstefna, sem fylgt hefur verið í þessu máli í 9 ár, — en þá er spurningin: Voru þessar reglur nauðsynlegar? Og við skulum athuga þá lítils háttar, á hverju þessar reglur og á hverju þessi stefna byggist. Tökum þá fyrst þá reglu að semja ekki við neina þjóð, hvenær við færum út fiskveiðitakmörkin né hver stærð fiskveiðilandhelginnar er á hverjum tíma. Spurningin er þá í fyrsta lagi: Er það framkvæmanlegt að semja við þjóðirnar um fiskveiðitakmörkin? Við höfum margsinnis fært að því rök, og ég verð að segja það, að ég skyldi verða allra manna fúsastur til þess að viðurkenna, ef rökveilur væru í þeim röksemdum, sem við höfum fært fram, þegar hefur verið sagt: Þetta er ekki hægt. Það er ekki hægt að semja við allar hlutaðeigandi þjóðir um stærð fiskveiðilandhelginnar. Á því yrði enginn endir, enda hefur sýnt sig, að þetta hefur ekki verið framkvæmanlegt hjá öðrum. — En það kann að vera, að það væri hægt að semja við eina þjóð, eins og virðist vera gerð tilraun til núna. En það bara sýnir sig, að um leið og búið er að semja við eina þjóð um einhver fiskveiðitakmörk, þá koma aðrar þjóðir, sem telja sig eiga að hafa beztu kjarasamninga vegna viðskipta við Ísland, og segja: Við viljum fá samning líka, — eins og kemur í ljós núna, þegar Norðmenn eru búnir að semja við Breta, þá koma Vestur-Þjóðverjar og segja: Við verðum að fá samninga líka, annars hefur það alvarlegar afleiðingar. — Það má þess vegna ganga út frá því sem gefnu, að það er ekki hægt að semja um fiskveiðilandhelgina. Það verður að taka einhliða ákvörðun um hana, ef á að ná fram einhverjum árangri. Þetta hafa allir stjórnmálaflokkar verið sammála um, frá því að við færðum út 1950, undantekningarlaust, — og allt, sem sagt er gegn því,að þetta hafi verið sú regla, sem við höfum talið okkur lífsnauðsyn að halda, er rangt. Hér verðum við enn fremur að gæta þess, hvað felst í því að reyna að semja. Hvort sem samið er við eina þjóð eða fleiri þjóðir, þá felst það í því að semja, að það er viðurkenning á því alveg ómótmælanleg, og það kemur greinilegast í ljós, ef við hugsum okkur, að við hefðum samið 1950 um þá litlu útfærslu, sem við gerðum þá fyrir Norðurlandi. Ég fullyrði það, að ef við hefðum gert það, þá hefði því verið haldið fram af okkar andstæðingum í fiskveiðideilunni og þeim, sem hafa fiskað hér við land, því hefði verið haldið fram: Þið sömduð 1950. Þið viðurkennduð þar með, að þið gætuð ekki fært út nema með því móti að ná samkomulagi við okkur, þið hefðuð ekki rétt til þess. — Þar af leiðandi hefðum við orðið 1952 og 1958 að leita samninga einnig. Þetta er sú stóra hætta, sem felst í því að taka upp samninga, að þegar búið er að gera það einu sinni, þá er því beitt af andstæðingunum sem viðurkenningu af okkar hálfu um það, að við höfum ekki getað fært til einhliða, og að hvenær sem við stígum næsta skrefið, beri okkur skylda til að semja um það aftur. Þess vegna höfum við verið sammála um það, að við gætum ekki samið, heldur yrðum við að taka okkar ákvarðanir einhliða, — og jafnframt, ef það hefðu verið teknar ákvarðanir um einhverjar tilslakanir 1958, þegar landhelgin var færð út, þá voru allir sammála um það, og í það atriði hefur hæstv. dómsmrh. vitnað hvað eftir annað, að það gæti ekki komið til greina sem samningur, heldur sem einhliða yfirlýsing, ef slíkt kæmi til greina.

Hæstv. utanrrh. hefur haldið því fram, að við hefðum vikið frá þeirri reglu, sem ég tel mig hafa sannað að hafi verið fylgt án undantekningar, og meginefni ræðu hans var það, að því er hann sagði, að rifja upp fyrir mér, að þessari reglu, að við skyldum aldrei semja um landhelgina við neinn, hefði ekki verið fylgt í sambandi við þær ráðstafanir, sem við hefðum gert að undanförnu. Hann nefndi 1952 og vitnaði í skýrslu frá 1954, sem ríkisstj. hefur gefið út sem hvíta bók. Ég man nú vel eftir útfærslunni 1952 og tók þátt í flestum fundum, sem um útfærsluna voru haldnir. Og ég skil varla í því, að hæstv. forsrh. muni halda því fram, að við höfum samið um útfærsluna 1952. Það kemur nefnilega fram í skýrslunni 1954 og hefur oft verið talað um það til þess að niðra hæstv. forsrh., að hann hafi lítið rætt við þá í Bretlandi og aðeins við undirmenn og umræðurnar hafi verið óljósar. Ég veit ákaflega vel, hvers vegna umr. voru óljósar. Þær voru óljósar vegna þess, að það var samkomulag, áður en hæstv. ráðh. fór til London, að hann eingöngu kynnti Bretum þær ráðstafanir, sem við ætluðum að gera, en semdi ekki um málið á nokkurn hátt. Umboð hans, sem hann var sammála um sjálfur að væri eins og vera ber, var svo takmarkað, að hann mátti ekkert annað gera í málinu. Af þeirri einföldu ástæðu, að við höfum alltaf talið, að samningar um málið heftu aðgerðir okkar á seinni stigum þess, ef við þyrftum að færa út af nauðsyn, þá höfum við talið það eitt af því allra hættulegasta að semja um málið. Þess vegna var það dæmi, sem hæstv. ráðh. nefndi 1952, ekki sönnun um, að það hefði verið vikið frá reglunni, heldur sönnun um það, að reglunni var þá fylgt. Hæstv. forsrh. gerði enga tilraun til að ná samningum eða umræðum um samninga. Hann kynnti málið eingöngu og gerði ekkert annað.

Það er líka alveg augljóst af því, hvað Bretar hafa sótt á samtöl allan tímann, hvað þeir leggja upp úr því að fá okkur til að ganga inn á það sem reglu, að við þurfum að semja við þá um útfærslu landhelginnar. Þeir vita, hvað það hefur að þýða upp á seinni tímann. Þegar löndunarbannið stóð yfir, vildu þeir hvað eftir annað ræða við okkur um það að létta af löndunarbanninu, gegn því, að við semdum við þá um það að færa ekki út fiskveiðitakmörkin nema eftir einhvern tiltekinn tíma. Í deilum um þetta stóð langan tíma, og veit ég, að fjöldi hv. þm. man eftir þingfundum um þetta atriði. Ég er einn af þeim, sem vildu ekki undir neinum kringumstæðum semja um þetta atriði, af þeirri einföldu ástæðu, að ég hef alltaf talið það stórhættulegt að taka upp samninga um fiskveiðitakmörkin við nokkra þjóð, af þeim rökum, sem ég hef nefnt. Þá lágu fyrir hér á Alþ. tillögur um meiri og minni útfærslu fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum, og Bretar óttuðust, að það mundi verða tekin ákvörðun um það, um útfærslu fiskveiðilandhelginnar, en gerðu ráð fyrir því að sigra í málinu í Genf. En hvað skeður? Þegar við látum þá ekki hafa samninga um þetta, þá kom hér á borðin, — og ég veit, að margir hv. þm. muna eftir því, — þáltill., sem var samkomulag á milli stjórnarflokkanna og var borin fram og mig minnir að hæstv. forsrh. ætti að mæla fyrir. Um hvað var hún? Það var till. um dagskrá, þar sem Alþ. ályktar, að það sé ekki tímabært, eins og sakir standa, af ástæðu, sem það greindi, að færa út fiskveiðitakmörkin, og væri því tekið fyrir næsta mál á dagskrá.

Þessi till. kom aldrei til umr. hér. Vegna hvers? Vegna þess að Bretar neituðu að taka þetta gilt. M.ö.o.: þegar var einhliða yfirlýsing frá okkur um það að fresta málinu, þá töldu þeir það sér ekki nægja. Þeir vildu láta okkur ganga inn á samninga, til þess að hægt væri að segja: Þið tölduð ykkur þurfa að semja um málið við okkur. Þið hafið þar með viðurkennt, að við höfum hér réttinda að gæta, svo að þið þurfið að semja við okkur. — En er við ætluðum að lýsa því yfir einhliða, þá neituðu þeir, og það varð ekkert af samkomulagi og till. kom aldrei til umræðu.

Þennan reginmun gerðu Bretar á því að fá ákvörðunina einhliða frá okkur eða í samningum við sig.

Enn fremur nefndi hæstv. utanrrh. viðtölin í NATO, og hann fór alveg rétt með það, að við erum bundnir við það samkvæmt reglugerð, sem gefin hefur verið út og við gengizt undir í NATO, mig minnir frá 1956, að ræða ágreiningsmál í NATO, ef þau verða milli þeirra þjóða, sem eru félagar í NATO. Og þetta var gert, ekki til að semja við Breta, heldur til þess að ræða um ágreininginn við þá og aðrar þjóðir, sem hafa ekki viljað viðurkenna útfærsluna. Og hann minntist á það, að í sambandi við það mál, mig minnir að hann segði í ágúst, þá hefðum við ekki gert tilboð, — hann orðaði það svo, og það sýnir greinilega, hvað við vorum á verði um þessar reglur, að láta ekki koma til samninga, — en hann segir, að við höfum sent ábendingu um það, hvernig væri hægt að leysa málið, — ekki tilboð, vegna þess að við vildum ekki ganga inn á samninga við neinar þjóðir um málið. Það getur vel verið, að þetta sé of mikil stífni frá hendi þeirra, sem vilja ekki fallast á samninga. En ég hef ekki, af fullkominni einlægni talað, séð þau rök, sem hrinda því, að þessi regla eigi að gilda, því að ef við semjum núna um 12 mílurnar, sem má þó ganga út frá nokkurn veginn að sé alþjóðaregla, og ef við förum að semja um það við einhverjar þjóðir að fá það viðurkennt, hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug, þegar á að fara að færa út fyrir 12 mílur, út á landgrunnið, þar sem allt er vafasamara út frá alþjóðarétti, að við gætum gert það, nema þeir heimti, að við semjum um það við stærri ríkin, og beiti ofbeldi að öðrum kosti? En ég fullyrði, að það er álit ýmissa sérfræðinga, að 12 mílna landhelgi geti, þegar tæknin eykst, — og hún eykst mjög hratt, — orðið minni fyrir okkur en 3 mílna landhelgin var áður, meðan tæknin var minni. Við getum því algerlega átt líf okkar undir því að geta fært út, út fyrir þessar 12 mílur, þegar tæknin vex, með þeim afleiðingum, að miðin eru þurrkuð upp.

Ég hef þess vegna sýnt fram á það, að þessi þrjú dæmi, sem hæstv. utanrrh. nefndi sem frávik frá þeirri reglu að semja ekki, þau sanna öll regluna og sanna, að við höfum alltaf talið okkur — einnig á þessum stigum — nauðsynlegt að halda regluna: 1952, 1958 og einnig í viðræðunum við NATO.

Þá er að athuga í eins stuttu máli og mér er hægt hina stefnuyfirlýsinguna, að láta aldrei hrekjast frá þeim ákvörðunum um stærð landhelginnar, sem við höfum tekið af lífsnauðsyn og í samræmi við alþjóðareglur. Eins og ég sagði hér áðan, var komið til álita sérfræðinga og ýmissa manna, sem ákváðu landhelgina í upphafi, að lýsa einhliða einhverjum tilslökunum við vinaþjóðir, meðan þær væru að breyta til um fiskveiðar sínar. En það á ekkert skylt við það að lýsa yfir 12 mílum, eins og við höfum gert, færa fram þau rök á alþjóðavettvangi, að okkur sé lífsnauðsyn að fá þetta, fullyrða í bókum og á alþjóðafundum, að við munum aldrei hvika frá þessari ákvörðun um eitt skref, aldrei gefa neitt eftir, vegna þess að þetta sé okkur lífsnauðsyn, og síðan einn góðan veðurdag, þegar yfirlýsingar okkar eru búnar að sannfæra umheiminn að verulegu leyti, eins og ég fullyrði að er búið, þá eigum við allt í einu að fara að semja við þjóðir, semja um afslátt í málinu og það við þá þjóð, sem verst hefur komið fram. Við höfum kynnt málstað okkar mjög rækilega að ýmsu leyti. Það hafa verið gefnar út fjórar bækur, sem hafa verið smærri og stærri, um rétt okkar til 12 mílna landhelgi, um lífsnauðsyn okkar að vernda fiskimiðin, og þetta væri það lágmark, sem við þyrftum þegar í stað, og enn fremur um það, eins og ég sagði áðan, að aldrei yrði frá þessu slakað.

Ég vil ekki og hef ekki notað nein stóryrði í þessu máli. En ef það er rétt, að það verði litið á það sem lítilmennsku, dæmið, sem ég tók áðan af húseiganda, að láta berja á sér fyrir utan húsdyrnar, þangað til hann leigði herbergi eða lánaði fyrir ekki neitt í húsi sínu, — ef það yrði talin lítilmennska, sem ég býst nú við að yrði talið af flestum, þá er það alveg hliðstæð lítilmennska í mínum augum, — ég vil ekki hafa of stór orð, — að láta eina þjóð, sem verst kemur fram af öllum þjóðum í landhelgismálinu, berja sig til hlýðni. Ég skal segja ykkur, að það er ekki hægt að semja við þjóð, sem hagar sér svona, og það gerir engin þjóð með sæmdartilfinningu, Nú er alltaf verið að hóta. Í blöðunum í dag og í gær er sagt, að togaraeigendur í Bretlandi, ég veit ekki, hvaða samtök það eru, hafi beitt sér fyrir að loka fyrir fisk, þangað til deilan leystist. Það er alltaf verið að setja þessa sömu skrúfu á. En ég álít, að það megi kaupa það nokkru verði og kaupa það nokkrum óþægindum að gera ekki sjálfan sig að lítilmenni eða þjóð sína að lítilmenni í eigin augum.

Ég held, að íslenzka þjóðin finni það til, að ef þetta er gert fyrir hennar hönd, þá finni hún sig lítillækkaða, og ég er ekki í neinum vafa um það, að eftir þær yfirlýsingar og eftir þá skeleggu baráttu, sem háð hefur verið á alþjóðavettvangi í þessu máli, þá verður litið á þetta af öðrum þjóðum þannig, að það verður fyrir okkur, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni, stórfelldur álitshnekkir. Það er sagt, að það eigi að afstýra hættum með þessu. Því halda báðir hæstv. ráðherrar fram, bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. Það hefur verið bent á það, að þetta hafa hingað til ekki þótt rök í málinu. En ég segi nú fyrir mig, að ég hef, — ég vil ekki segja aldrei, — ég hef sjaldan talið hættu afstýrt með því að beygja sig fyrir þeim, sem ber á manni. Það geta kannske einhverjir aðrir nefnt dæmi þess að afstýra hættu með að glúpna fyrir þeim, sem beita menn ofbeldi, hvort sem það er þjóð eða einstaklingur, en ég hygg, að hitt sé algengara, að það afstýri ekki hættunni, heldur kalli á meiri hættu. Og ef gengið er inn á þessi rök, að vegna þess að ein þjóð ber á okkur og sýnir okkur ofbeldi,jafnvel þó að við séum búnir að sigra í málinu og hún að gefast upp við ofbeldið, þá þurfum við að kaupa okkur frið, — hvar enda þau rök? Við skulum hugsa okkur, að þeim þjóðum sem hafa ekki sýnt okkur neitt ofbeldi, heldur sýnt okkur fullkomna tillitssemi, er vissulega bent á leiðina, sem á að fara gagnvart Íslendingum, ef á að ná við þá góðum samningum. Hvers vegna skyldu ekki þær þjóðir, sem hafa sýnt okkur tillitssemi hingað til og sjá það, að við semjum og gefum ívilnanir þeirri einu þjóð, sem hefur sýnt okkur ofbeldi og vanvirt okkar löggæzlu, að ekki sé meira sagt, að við sýnum henni þá sérstöku tillitssemi að veita henni sérréttindi fram yfir allar aðrar þjóðir, — hver ábyrgist það, þegar búið er að gefa ávísun á okkar stjórn á þennan hátt, að það komi ekki eitthvað af þessum þjóðum og segi: Við ætlum að fiska hérna, — leiti ekki eftir samkomulagi endilega og segist vilja fá beztu kjarasamninga, heldur segi: Við ætlum að fiska hérna — og sendi nokkur herskip? Hver ábyrgist það? Og þegar tíminn er útrunninn, hvað verður þá? Þegar þessi 3 ár eða hvað það nú er, sem talað er um, er útrunnið og þeir eiga að fara út fyrir landhelgina, hvað verður þá? Við höfðum samning frá 1901. Hann var uppsegjanlegur, ég man ekki, hvort það var með eins eða tveggja ára fyrirvara. Bretar höfðu leyfi til að fiska hér upp að 3 sjómílum, og við höfðum sagt þeim samningi upp. Það heyrist varla minnzt á þennan samning og að honum hafi verið sagt upp. En sleppum því. Eru menn alveg vissir um það, þegar við erum svo tilleiðanlegir að láta undan valdinu, að það verði ekki beitt valdi aftur eftir 3 ár eða 4 ár, þegar samningurinn er útrunninn, að það verði ekki settar á sömu þumalskrúfurnar aftur með markaðinn, að það verði ekki sagt: „Nú hafið þið svo miklu betri aðstöðu til þess að fiska heldur en þið hafið haft áður og við verri,“ eins og þeir hafa verið að tæpa á við sumar þjóðir, „að við getum ekki keypt af ykkur neinn fisk, þið landið ekki hérna einum einasta ugga“ o.s.frv.? Hættan er alltaf sú, að þeir, sem slá undan ofbeldinu, fái ofbeldismennina yfir sig aftur hvað eftir annað. Það er reynslan, og gæti ég trúað, að eins gæti skeð í þessu máli, þannig að hættunni sé ekki afstýrt með því að láta undan ofbeldinu, heldur kallað á hana, kannske úr fleiri áttum.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns og þegar ég svaraði hæstv. dómsmrh., þá er þetta raunverulega, eins og hann sagði líka sjálfur, búið mál. Það er búið mál, vegna þess að Bretar eru af þeim ástæðum, sem ég rakti í seinustu ræðu minni og lauslega nú í upphafi ræðu minnar, þeir eru að gefast upp við að fiska á þann hátt, sem þeir hafa gert, og þeir eru enn fremur að gefast upp vegna þess, að eftir Genfarráðstefnuna telja þeir sér þessa styrjöld hér við Ísland álitshnekki. Og það skyldi nú ekki vera það, sem hæstv. dómsmrh. á við, þegar hann segir, að Bretar vilji fá þetta mál úr sögunni af öðrum ástæðum og vegna hagsmuna, sem eru meira virði að þeirra áliti heldur en fiskveiðideilan? Þeir eru að verða og hafa þegar orðið sér til minnkunar í þessari deilu. Það fer ekki fram hjá veröldinni, að hver þjóð eftir aðra hefur fært út, þar sem Bretar hafa hagsmuni, m.a. Kínverjar, — og hvað gera þeir þar? Meira að segja brezk blöð gera gys að Bretum og segja: Hvers vegna sýnið þið ekki skörungsskap gagnvart Kínverjum, þegar menn í Hong Kong, — eða hvar það nú er, sjómenn, sem þið eigið að gæta hagsmuna fyrir, ganga atvinnulausir og hálfsvelta? Hvers vegna setjið þið ykkur ekki upp á háan hest og neitið því að viðurkenna 12 mílna landhelgi hjá Kínverjum? Þannig hefur verið spurt um fleiri þjóðir. En við erum eina þjóðin í veröldinni, að því er ég veit, af yfir 30 núna, sem höfum 12 mílna landhelgi, höfum mesta nauðsyn fyrir hana af öllum þjóðum í veröldinni, það er viðurkennt, en erum eina þjóðin, sem er beitt ofbeldi og það af okkar eigin sambandsþjóð. Haldið þið, að þetta fari fram hjá veröldinni? Og þar sem allar þjóðir hafa varið átölulaust sínar 12 mílur, þá tel ég enga goðgá samþykktir sjómannanna á Akranesi og víðar um land, sem hafa krafizt þess, að fyrst við höfum hervernd, þá verði þess krafizt af bandaríska hernum eða þeim, sem honum ráða, að þeir verji íslenzku landhelgina fyrir þessum ágangi, eins og aðrar þjóðir hafa varið undantekningarlaust sína landhelgi, þar sem það sýnir sig, að við erum sjálfir ekki þess megnugir vegna fámennis.

Ég skal ekki fjölyrða miklu meira um þetta mál. En það var eitt atriði, sem hæstv. utanrrh. minntist á, og það var tillaga okkar í Genf um sérréttindi okkar til þess að fá að fiska á vissum svæðum utan 12 mílna landhelgi, ef sérstakar aðstæður eru til staðar að áliti vísindamanna. Þessa tillögu fluttum við 1958 og endurfluttum hana núna í ár: Ég minntist á það, að tillögur hefðu komið fram um lögsöguna utan 12 mílna. Það er nefnilega að koma í ljós og er aðkallandi mál, sem verður ekki gengið fram hjá til lengdar, eins og allir menn sjá, sem hugleiða það, að utan 12 mílna er ekki hægt að komast hjá að setja reglur. Það er ekki hægt að halda því áfram að fiska með netum og með línu, með botnvörpu og með dragnót á sömu svæðunum án þess að eyðileggja stórkostlega hver fyrir öðrum. Og þessi eyðilegging verður meira og meira áberandi, eftir því sem þrengir að á höfunum, og allir eru sammála um það, þó að ekki sé búið að finna leið til þess, að á þessu verði að ráða bót, og hefur lítillega verið gert með sérsamningum.

Hæstv. utanrrh. sagði, að till. okkar um þetta efni, sem við stungum upp á að yrði flutt á þinginu, hefði ekki fengið neinar undirtektir hjá þeim nefndum, sem till. hefði verið rædd við. Þetta er hálfur sannleikur. Þeir, sem þetta var rætt við, svöruðu því flestir, að ráðstefnan í Genf 1960 væri fyrst og fremst til þess að ákveða 12 mílna takmörkin — eða ekki tólf mílna takmörkin og töldu þeir, sem voru málinu vinveittastir, að það væri mjög vafasamt að blanda öðrum málum um fiskveiðiréttindi utan 12 mílna landhelginnar inn í ráðstefnuna, vegna þess að það væri rétt að snúa sér núna af alhug að því, hvernig ákvarðanir yrðu teknar um 12 mílna landhelgina. En það er enginn efi á því, að þetta mál hlýtur samkv. eðli málsins, eins og ég sýndi fram á og hver maður sér, að koma til athugunar, og það er náttúrlega ekkert launungarmál, að ef strandríki fá lögsögu á ákveðnum svæðum utan 12 mílna landhelgi og rétt til þess undir vissum kringumstæðum að ákveða, hvaða veiðarfæri eru notuð, þá eru það stórfelld forréttindi fyrir strandríkin.

Nei, það, sem við þurfum að gera í landhelgismálinu, er ekki að slá undan eða semja. Við erum búnir, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, að vinna okkar 12 mílur, og við þurfum að snúa okkur að öðru, enda kemur þetta greinilega fram í þáltill. um landhelgismálið frá 5. maí 1959. Þar er tekið fram, að við eigum ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi í fyrsta lagi. Í annan stað, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslendinga til landgrunnsins alls, svo sem stefnt er að með lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlinum umhverfis landið. Vitanlega er hér átt við, að ekki komi til mála viðkomandi 12 mílum heldur tímabundin undantekning. En ég vitna í þessa ályktun vegna þess, að hæstv. ríkisstj. segist vera að framkvæma þessa ályktun frá 5. maí 1959, og ef hún er að framkvæma ályktunina, getur hún ekki verið að ræða um 12 mílurnar og undantekningu frá 12 mílna reglunni, vegna þess að það er harðbannað í ályktuninni, eins og ég las: „ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis lendið.“ Samningur eða undanþága til Breta eða annarra þjóða um það, að þeir megi fiska upp að einhverju vissu marki fyrir innan 12 mílur, er vitanlega ekkert annað en frestun á því að fá 12 mílurnar viðurkenndar. En það er annað, sem lagt er sérstaklega fyrir ríkisstj. Henni ber að afla viðurkenningar á rétti okkar Íslendinga til landgrunnsins. Og þá kemur spurningin um þetta, — það er sagt, að Bretar hafi sérstaklega sótzt eftir þessum samtölum, hvað eftir annað tekið fram: Er það þá tilfellið, að Bretar séu svona ólmir í það að fá að viðurkenna hjá okkur landgrunnið, að þeir vilja tala við okkur? Það kemur greinilega fram, að það eru Bretar, sem hafa sérstaklega sótzt eftir því að taka upp þessi samtöl. Og það kemur greinilega fram í þingsályktuninni, að það, sem á að vinna að, er að afla viðurkenningar fyrir friðun landgrunnsins.

Nei, ég held, að við ættum að reyna að vera sammála um það, að við erum búnir að vinna okkar sigur í 12 mílna stríðinu. Við eigum að halda okkur við þær meginstefnur, sem við höfum fylgt í tíu ár og verið sammála um í tíu ár í þessari landhelgisdeilu, það er eina leiðin til þess, að þjóðin geti staðið saman í málinu. Og við eigum, jafnhliða því sem við stöndum saman um þessar meginreglur, sem ég hef sýnt fram á að hefur verið fylgt, vegna þess að þær eru eðlilegar og nauðsynlegar sem skynsamlegar bardagaaðferðir í málinu og að víkja frá þeim er þess vegna óskynsamlegt, — við eigum að halda okkur að þessum vinnubrögðum, og eins og kemur fram í till. frá 5. maí 1959, eigum við að snúa okkur að því að byrja kynningu á nauðsyn okkar á landgrunninu öllu og baráttu okkar fyrir því. Það er sú stefna, sem Alþ. hefur markað með þessari þál. frá 5. maí 1959, og það er það, sem við alþm. ættum að vera sammála um að taka upp sem meginbaráttumál í landhelgismálinu. Ég er ekki í neinum vafa um það, að ef við gerum þetta, þá stendur öll þjóðin að baki okkar í því máli, öll undantekningarlítið eða undantekningarlaust.