08.11.1960
Efri deild: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur nú talað í annað sinn og kemur nú upp í ræðustólinn með allmikið af plöggum úr stjórnarráðinu. Ég verð að segja: Það hefði verið viðkunnanlegra, að þessi hæstv. ráðh. hefði komið með þessi plögg úr skápum stjórnarráðsins og lesið upp úr þeim, áður en tveir fyrstu flm. frv. voru búnir að fullenda sinn ræðutíma, en þetta er í stíl við annan málflutning hæstv. ráðh. Þeir kunna kannske að fá leyfi til að gera aths. við það, sem hæstv. ráðh. hefur sagt nú, ég vænti þess. En það hefði auðvitað verið betra, að hann hefði lesið þetta upp fyrr.

Það er ekki á færi allra, sem ókunnugir eru innan stjórnarráðsins og í utanrmn., að dæma um réttmæti þeirra plagga, sem hæstv. ráðh. var nú að vitna til. Eitt rak ég þó augun í strax. Hann segir, að Íslendingar hafi rætt við aðrar þjóðir áður um landhelgina. Ja, voru það fréttir, að við ræddum um landhelgismálið á þingi Sameinuðu þjóðanna, að við höfum rætt um það á ráðstefnum í Genf og að við höfum rætt um það við NATO, sem er skylt að ræða við samkvæmt samningi þar um?

En hvað var það, sem hæstv. ráðh. las upp um það, að vinstri stjórnin eða einstakir ráðh. hennar hefðu rætt við eina þjóð — við eina þjóð um málið? Hvað hafði hann upp að lesa því til sönnunar, að vinstri stjórnin hefði rætt við Breta eða leitað nokkurs samkomulags við Breta? Ekki einn einasti stafur í upplestri hæstv. ráðh. kom um það, að vinstri stjórnin hefði talað nokkurn tíma við Breta um stærð landhelginnar eða neina aðra þjóð, heldur við hinar alþjóðlegu stofnanir, sem ég nefndi. Og svo ber hann þetta saman við samninga núv. ríkisstj. við Breta, við þá einu þjóð, sem sýndi okkur ofbeldi, sem réðst á okkur með vopnuðum herskipum.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta. En ég treysti því, að þeir, sem áttu sæti í vinstri stjórninni eða í utanrmn. og hér eiga kost á að fá að tala, þótt seint sé, taki til athugunar þessa ræðu hæstv. ráðh.

Allt það, sem hæstv. ráðh. nefndi, snerti tímabilið áður en Íslendingar færðu út landhelgina. Ekkert dæmi nefndi hann, sem hliðstætt er núverandi yfirstandandi samningum við Breta, eftir að landhelgin er ákveðin og eftir að Bretar hafa ráðizt á okkur.

Það er líka athyglisvert, að hv. 5. þm. Reykn. las líka upp úr bókum utanrmn. orðrétt, en hæstv. utanrrh. afgreiddi það með fljótheitum hér áðan: Það voru bara allt ósannindi! En er þá allt sannindi, sem hann las?

Hæstv. dómsmrh. hélt hér ræðu fyrir alllöngum tíma, í upphafi þessarar umr. Hann minntist á sjálft frv. og lét í veðri vaka, að ekki væri fjarri lagi, að frv. færi til n. og yrði athugað þar. Hann komst þó að þeirri niðurstöðu í ræðu sinni í gær, að frv. væri hið mesta óvit. En eitt sagði hann í hinni fyrri ræðu sinni, sem vakti athygli mína. Það var það að ef landhelgin hefði verið ákveðin með lögum, en ekki reglugerð 1958, þá hefði margt betur farið í gangi málsins. Mér er ókunnugt um, hvað það er, sem gat betur farið, ef hún hefði verið ákveðin með lögum, en ekki reglugerð. Nú vita allir, að reglugerðin um landhelgina hefur staðið óhögguð, hver stafkrókur hennar, til þessa dags, sem betur fer. Ef nú landhelgin hefði verið ákveðin með lögum á sama hátt efnislega og að öllu orðalagi og líka staðið óhögguð til þessa dags, hvað gat þá betur farið, ef þetta hefði verið gert með lögum heldur en reglugerð? Á að skilja þetta svo, að hæstv. dómsmrh. telji, að landhelgin hefði orðið með eitthvað öðrum hætti, ef hún hefði verið ákveðin með lögum? Og ef það er svo: Með hvaða hætti hefði hún þá orðið öðruvísi? Og þá er dálítill sannleikur í þessu, sem hæstv. dómsmrh. sagði. Það hefði betur farið, að landhelgin hefði verið ákveðin með lögum, þ.e.a.s. þá hefði hæstv. ríkisstj. ekki byrjað samninga við Breta, og það er það, sem er tilgangur þessa frv., að tryggja, að það komi ekki fyrir í annað sinn, að ríkisstj., hver sem hún er, fari að semja við eina þjóð um afslátt á landhelginni, án þess að Alþingi komi til.

Í ræðu hæstv. utanrrh., fyrri ræðu hans, drap hann nokkuð á sjálft frv. og hvernig skyldi á því taka. Hann lýsti algerri andstöðu við frv., þ.e. að lögfesta landhelgisreglugerðina, og færði þau rök fyrir því, að ef þetta yrði gert, þá væri það vísbending til erlendra þjóða, að íslendingar ætluðu að nema staðar við 12 mílna takmörkin og hugsuðu ekki um frekari útfærslu. Hvernig má það vera, að hægt sé að komast að þessari niðurstöðu, að í reglugerðinni felist eða geti falizt möguleiki til frekari útfærslu, en ef það væru lög, þá kæmi það ekki til greina, að Íslendingar hugsuðu til frekari útfærslu? Eru erlendar þjóðir svo ókunnugar lagasetningu á Íslandi, að þær viti ekki, að lögum er hér breytt og að það tekur næsta skamman tíma að breyta hér lögum?

Það er ekkert einsdæmi, að lögum er breytt hér á einum degi, jafnvel á nokkrum mínútum. Voru þá ekki sömu möguleikar fyrir Íslendinga að stækka landhelgina með breytingu á lögum eins og með breytingu á reglugerð? Ég held, að það sé verið að gera gys að útlendingum, ef verið er að bera þeim á brýn svona mikla skammsýni og ókunnugleika um vinnubrögð lýðræðisþjóðar.

Hæstv. ríkisstj. hefur tekið einhliða ákvörðun um að hefja samninga við Breta um minnkun landhelginnar í framkvæmd, án nokkurs samráðs við Alþingi. Að vísu getur hæstv. ríkisstj. sagt, að þar sem Alþingi átti ekki setu í sumar, hafi ekki verið hægt að hafa samráð við það. En hæstv. ríkisstj. gat valið um þrjár leiðir, ef hún hafði nokkurn vilja til þess að halda þeirri þjóðareiningu og þeim samhug, sem verið hefur um þetta mál, fram til 10. ágúst s.l. Hún gat í fyrsta lagi kvatt saman aukaþing, og hefur aukaþing verið kvatt saman af minna tilefni áður. Ef henni þótti þetta of fyrirhafnarmikið, þá gat hún lagt málið fyrir þingflokkana, svo að þeir leituðu álits allra alþm., hvort þeir vildu, að hafnir skyldu samningar við Breta. Og í þriðja lagi gat hæstv. ríkisstj. frestað allri ákvörðun um samninga víð Breta, þar til Alþingi kæmi saman 10. okt. Ekkert af þessu gerði hæstv. ríkisstj. Hún hafði engan áhuga, engan vilja til að hafa samráð við einn eða neinn utan stjórnarráðsins um þá ákvörðun að hefja samningaviðræður við Breta. Og upp á sitt eindæmi tók hún þá ákvörðun 10. ágúst að eiga samningaviðræður þessar. Nú kvartar hæstv. ríkisstj. undan því, að stjórnarandstæðingar séu að hefja illdeilur innan íslenzku þjóðarinnar um þetta mál, þeir hafi rofið eininguna, þeir hafi rofið þann samhug, sem verið hefur um landhelgismálið fram að þessu. Ef einingin og samhugurinn hefur verið höfuðáhyggjuefni hæstv. ríkisstj., þá hefði hún ekki farið svona að 10. ágúst, þá hefði hún gert eitt af þrennu, sem ég nefndi áðan, til að hafa samráð við Alþingi. Þegar hún nú deilir á flm. þessa frv. um illdeilur, þá hefur hún algerlega snúið málinu við. Það er hún, en ekki við, sem hefur rofið eininguna í landhelgismálinu. Það er hún, sem hefur rofið þennan samhug.

Hæstv, ríkisstj. hefur verið ýtarlega spurð um það, hvað hafi gerzt í samningaviðræðunum við Breta að undanförnu. Ráðh. mega aldrei heyra nefnda samninga. Það er bannorð í stjórnarherbúðunum að nefna samninga. Hæstv. utanrrh. skýrði svo frá, að í þessum viðræðum hefðu Íslendingar skýrt afstöðu sína í landhelgismálinu fyrir Bretum og Bretar skýrt sína afstöðu fyrir Íslendingum, engar nýjar tillögur hefðu komið fram í þessu máli og engin ný tilboð. Það er annars merkilegt, hvað Bretar eru lengi að skilja Íslendinga í landhelgismálinu. Íslendingar eru búnir í meira en tíu ár að skýra þessa afstöðu sína fyrir öðrum þjóðum og þar á meðal Bretum. Þeir hafa gert það á þingi Sameinuðu þjóðanna, þeir hafa gert það á sjóréttarráðstefnum í Genf, þeir hafa gert það í NATO, þeir hafa gert það í viðtölum sendiherra við einstakar þjóðir, og loks hafa þeir gefið út landhelgisreglugerð. En Íslendingar hafa gert meira. Þeir hafa gefið út, að ég ætla, fjórar hvítar bækur á ensku og dreift þeim út um heim. Er nú ekki tilgangslaust að vera að reyna að skýra málstað Íslendinga fyrir Bretum, ef þeir eru ekki farnir að skilja hann enn? Þurfti hæstv. ríkisstj. að verja tíu dögum suður í ráðherrabústað til að bæta við þær útskýringar, sem að undanförnu hafa átt sér stað? Og hæstv. utanrrh. sagði líka, að Bretar hefðu skýrt afstöðu sína til málsins fyrir Íslendingum. Voru nú Íslendingar ekki farnir að skilja Breta heldur? Skildu Íslendingar ekki Breta, þegar þeir settu á okkur löndunarbannið? Skildu Íslendingar ekki Breta, þegar þeir sendu veiðiþjófana inn í landhelgina eftir 1. sept. 1958? Skildu Íslendingar ekki Breta, þegar þeir sendu herskip inn í landhelgina? Þurftu Íslendingar að fá tíu daga viðræður suður í ráðherrabústað til þess að skilja Breta?

Það verður erfitt verk fyrir hæstv. ríkisstj. að sannfæra þjóðina um það, að í þessum samningaviðræðum hafi ekkert átt sér stað annað en svona lagaðar útskýringar, enda þurfum við ekki mörgum blöðum um þetta að fletta, því að hæstv. dómsmrh. hefur skýrt tiltölulega samvizkusamlega frá höfuðatriði í þessum viðræðum, og hann hefur látið prenta þessa ræðu sína í Morgunblaðinu, svo að alþjóð gæti séð, hvað var verið að ræða um við Breta nú að undanförnu. „Verið er að kanna, hvað hægt er að fá Breta til að fallast á og samkomulag getur orðið um. Þetta er viðfangsefnið,“ segir hæstv. dómsmrh., þvert ofan í það, sem hæstv. utanrrh. sagði þó daginn eftir. Hvernig ganga samningar fyrir sig? Ganga þeir ekki þannig fyrir sig, að hvor aðilinn kannar afstöðu hins til einstakra atriða í hugsanlegum samningum? Eða eru samningar kannske ekkert annað en að skrifa undir?

Nei, hæstv. dómsmrh. hefur sagt allgreinilega frá þessu, og meira að segja, hann hefur sagt frá einu höfuðsamningsatriðinu í þessum viðræðum, og það er, að Bretar fái að veiða innan íslenzkrar landhelgi um nokkurt árabil, enda fái Íslendingar hlunnindi í staðinn, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það. Sé þessi ræða hæstv. dómsmrh. borin saman við ræðu hæstv. utanrrh., þá skýtur þar mjög skökku við.

Hæstv. utanrrh. undirstrikaði það, að í viðræðum þessum hefði aðeins verið rætt á grundvelli samþykktar Alþingis frá 5. maí 1959. Hver eru efnisatriðin í þessari samþykkt frá 5. maí 1959? Það er í fyrsta lagi, að mótmælt er ofbeldisaðgerðum Breta. Ekki er það neitt samningsatriði. Þar er í öðru lagi lýst yfir, að Bretar séu að knýja Íslendinga til undanhalds með þessum ofbeldisaðgerðum og að Íslendingar muni ekki láta af 12 mílna landhelgi þrátt fyrir þessar ofbeldisaðgerðir. Þetta er í þriðja lagi yfirlýsing Íslendinga um það, að Bretum þýði ekki að beita þessum ofbeldisaðgerðum, því að Íslendingar muni ekki hafa minni landhelgi en 12 mílur þrátt fyrir það. Í fjórða lagi er nefnt í þessari samþykkt Alþingis, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslendinga til landgrunnsins alls. Af þessum fjórum efnisatriðum í samþykkt Alþingis frá 5. maí 1959 er aðeins eitt, sem hægt væri að semja um, þ.e. viðurkenning á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Um hin atriðin er ekki hægt að semja og undir engum kringumstæðum hægt að semja um stærð landhelginnar, 12 mílur, eins og segir í þessari samþykkt Alþingis. Það er ekki heldur hægt að semja um viðurkenningu á rétti Íslands til landgrunnsins alls við neina eina þjóð, nema þá fáist sú viðurkenning frá öllum þeim þjóðum, sem hlut eiga að máli. Þó er ekki ástæða til að vita það, þótt hæstv. ríkisstj. hefði farið að leita fyrir sér um þetta atriði við Breta. Það mátti gjarnan byrja á Bretum. Það þurfti bara að halda áfram.

Nei, það fer víst ekki milli mála, að hæstv. ríkisstj. var ekki að ræða við Breta á grundvelli samþykktar Alþingis frá 5. maí. Þjóðinni er það ljóst, að hún á fiskimiðin út að 12 mílum, alveg eins og hún á landið sjálft. Hún hefur allan afnotarétt þessara fiskimiða, alveg eins og hún á afnotaréttinn af landinu sjálfu. Og hún hefur fullt vald yfir þessum fiskimiðum, eins og hún hefur vald yfir landinu sjálfu. Um þennan afnotarétt getur þjóðin ekki samið. Hún getur ekki samið um það við aðra, hvort hún á þennan rétt eða ekki, og ef hún fer að semja um skerðingu á þessari stærð landhelginnar, þá er hún að minnka hana, þá er hún að ganga í berhögg við samþykkt Alþingis frá 5. maí í fyrra.

En það er staðreynd, segja hæstv. ráðh., að deila er uppi á milli þessara tveggja þjóða, að deila er uppi og þessa deilu verður að leysa. Það er vægast sagt óvenjuleg deila þetta. Brezka ríkisstj. ræðst inn í landhelgi Íslendinga með vopnuðum herskipum, fremur þar veiðiþjófnað og eyðileggingu á fiskimiðunum og hótar manndrápum, ef Íslendingar láta ekki undan. Það er hægt að velja einhverja hliðstæðu sjálfsagt frá Bretlandi sjálfu, sem mætti líkja þessu við. Ef innbrotsþjófur ræðst inn í banka í London og rænir úr fjárhirzlu bankans, er þá risin deila milli bankans og þjófsins? Eiga þá bankastjórinn og innbrotsþjófurinn að setjast að samningaborði til að leysa deiluna? Til hvers eru Bretar með Scotland Yard og dómstóla í svona málum? Hvers vegna semja þeir ekki bara við þessa menn? Ef Íslendingar eiga að semja við Breta um landhelgina, þá held ég, að Bretar ættu að semja við sína bankaræningja. Svona fráleit eru sjónarmið þeirra manna, sem nú vilja semja við Breta.

Hæstv. utanrrh. sagði í fyrri ræðu sinni, að ekkert tilefni hefði gefizt til þess að hefja deilur hér innanlands um landhelgismálið. Það er ekkert tilefni, að nú er fyrirætlunin að leyfa Bretum að veiða í íslenzkri landhelgi. Hélt hæstv. ríkisstj. virkilega, að hún gæti brotið á bak aftur þjóðarviljann og samþykkt Alþingis frá 5. maí 1959, að alþm. tækju því þegjandi og hljóðalaust, að nú væri samið á þennan hátt? Hélt hæstv. ríkisstj., að sá einhugur og sú samstaða, sem verið hefur í landhelgismálinu hjá þjóðinni allt fram í ágústmánuð í sumar, að þessi einhugur mundi engan málsvara eiga hér inni á Alþingi?

Þá hefur hæstv. ráðherrum, sem hér hafa talað, orðið tíðrætt um þá lífshættu, sem íslenzkir sjómenn séu í, ef þessi deila helzt áfram. Hvernig stendur á því, þegar verið var að undirbúa útfærslu landhelginnar, að fulltrúar þessara tveggja flokka, Sjálfstfl. og Alþfl., komu ekki fram með þennan ótta sinn? Impruðu þeir nokkurn tíma á því, að það væri varhugavert að færa út landhelgina vegna þessarar lífshættu? Hótanir Breta voru þó fram komnar, áður en landhelgisreglugerðin var gefin út. Datt þeim ekki í hug að benda hinum, sem komu ekki auga á þetta, á þessa miklu lífshættu? Nei, þeir gerðu það ekki. Þannig var reglugerðin gefin út, og frá 1. sept., að herskipin komu inn í landhelgina, og til þessa dags hafa þeir ekki tekið eftir lífshættunni, fyrr en nú á síðustu stundu, þegar farið er að ræða við Breta.

Ekki þarf að orðlengja um það, að allir munu vilja leggja lið sitt til þess að afstýra slysum, hvers kyns sem þau eru og hvort sem þau eru úti á fiskimiðunum eða annars staðar. Um það er ekki ágreiningur. Íslendingar hafa ekki látið standa á sér að hætta lífinu til þess að bjarga ekki aðeins Íslendingum, heldur Bretum við strendur Íslands. Og þótt hæstv. ríkisstj. sé nú að reyna að slá á þá strengi, að flm. þessa frv. skeyti ekki um líf sjómanna, þá stoðar það þá ekki, það mun ekki einn einasti heilbrigður Íslendingur leggja trúnað á slíkan málflutning.

Hafa sjómenn beðið hæstv. ríkisstj. að semja við Breta til að afstýra hættunni á Íslandsmiðum? Hafa þeir kannske gert það? Þeim var málið skyldast, ef þeir voru í þessari lífshættu eða vildu ekki leggja sig í þessa lífshættu. Hvaða samþykktir hafa íslenzkir sjómenn gert og sent ríkisstj. til þess að afstýra þessari hættu, sem þeir eru í og munu verða í? Ég hef ekki heyrt þess getið. Hins hef ég heyrt getið, að íslenzkir sjómenn hafa sent mótmæli gegn samningunum við Breta. Og sú afstaða er þyngri á metunum heldur en þetta orðagjálfur hæstv. ríkisstj. um lífshættuna, sem hún fyrst uppgötvar nú.

En eru allir árekstrar á Íslandsmiðum úr sögunni, þó að ríkisstj. semji við Breta? Hafa aldrei gerzt árekstrar á Íslandsmiðum áður og meiri og alvarlegri árekstrar heldur en jafnvel síðan Bretar sendu herskipin inn í landhelgina? Hvað gerðist á Dýrafirði 10. okt. 1899? Ekki var landhelgisdeila þá. Ekki var landhelgisútfærsla þá. Þá voru ekki einu sinni herskip neins staðar hér í námunda. Þá var það, að brezkur veiðiþjófur er að veiðum inni á miðjum Dýrafirði, auðvitað innan þeirrar 4 mílna landhelgi, sem þá var. Þá var sýslumaður Ísafjarðarsýslu Hannes Hafstein, sem síðar varð fyrsti innlendi ráðherra þjóðarinnar. Hann brá við og ætlaði sér að taka veiðiþjófinn, fékk með sér hreppstjórann, Jóhannes Guðmundsson, og fjóra menn aðra, mannaði út bát og fór út til togarans. Hvað gerðu Bretar þá? Þeir sigldu á bátinn af ásettu ráði og hvolfdu honum. Enginn var syndur á bátnum nema Hannes Hafstein einn. Honum varð um megn að bjarga öllum félögum sínum, þótt hann gæti komið tveimur þeirra á kjöl, og ekki aðhöfðust Bretar neitt til að bjarga Íslendingum. Nei, það var bóndi úr landi, sem sá atburðinn og hratt bát sínum fram og reri út. Þegar sá bátur nálgaðist togarann, þá fyrst drógu Bretarnir upp aðframkomna Íslendingana, þar með Hannes Hafstein, þá sem eftir lifðu, en þrír höfðu drukknað. Hvaða öryggi getur íslenzka ríkisstj. nokkurn tíma boðið íslenzkum sjómönnum við veiðar hér við strendur Íslands? Ef Bretar eru af þessu tagi nú eins og þeir voru á Dýrafirði fyrir 61 ári, þá erum við aldrei öruggir fyrir slysunum, og Bretar hafa sýnt í þessu máli, að þeim er til ýmislegs trúandi. Samningar stoða lítið í slíkum efnum.

Ég ætla, að það hafi verið hæstv. dómsmrh., sem lét orð falla á þá leið út af þeim árekstrum, sem hefðu orðið og kynnu að verða, ef ekki væri samið við Breta, að slíkir árekstrar væru ekki sök annars aðila, það væri sök beggja, ef ekki væri afstýrt slíkum árekstrum. Er það nú orðin sök Íslendinga, að árekstrar verða á Íslandsmiðum? Þarna held ég að hafi ekki verið dæmt alveg hlutlaust. Eiga Íslendingar sök á árekstrum, sem kunna að eiga sér stað vegna ofbeldisaðgerða Breta?

Nei, við ákveðum ekki stærð landhelginnar með hliðsjón af árekstrum. Við getum það aldrei. Eða hvað ætli landhelgin megi vera stór, til þess að það sé öruggt, að árekstrar eigi sér ekki stað? 4 mílur dugðu ekki 1899.

Hæstv. dómsmrh. sagði í fyrri ræðu sinni, að Bretar hefðu hagsmuni af því, að þessi deila leystist, auk þess sem við hefðum hagsmuni af því, en það væru ekki aðeins fiskveiðihagsmunir, sem Bretar væru að hugsa um, þar kæmu líka aðrar ástæður til. Hvaða ástæður eru það? Hvað er það annað en fiskveiðihagsmunir, sem rekur Breta til þess að beita Íslendinga ofbeldi? Við héldum, að það væru fiskveiðihagsmunir, meðan þeir sendu herskipin inn í landhelgina. En nú, þegar Bretar leggja svo mikið kapp á að ná samningum við Íslendinga, þá eru það líka aðrar ástæður en fiskveiðihagsmunirnir, sem koma þar til. Ég held, að þetta sé rétt hjá hæstv. ráðh. Það eru aðrar ástæður. Það eru jafnvel fyrst og fremst aðrar ástæður, og þær eru, að Bretar eru að tapa áliti í heiminum út af ofbeldisverkum sínum í garð Íslendinga. Þeir hafa orðið fyrir álitshnekki og þeir vilja gjarnan reyna að bæta fyrir það, sem búið er. Það er ástæðulaust fyrir okkur að hlaupa undir bagga í þessu efni með fórnum, sem við getum ekki á okkur lagt. Ef Bretar þurfa að bjarga sér frá álitshnekki heimsins, þá geta þeir gert það á eigin eindæmi, þeir geta hætt öllum árekstrum, öllum ofbeldisverkum hér við Ísland. Það er það eina, sem þeir geta gert í þv.í efni og bætt fyrir sér. Við eigum ekki að þurfa að hjálpa þeim til þess.

Hæstv. dómsmrh. hefur skýrt frá því, að verið sé að kanna möguleika til þess að veita Bretum leyfi til veiða innan íslenzkrar landhelgi, enda fái Íslendingar hlunnindi í staðinn, sem séu jafnmikils virði og hitt, sem Bretar fái innan landhelginnar. Og í ræðu sinni í gær nefndi hann þetta nákvæmar og kallaði það fiskveiðihagsmuni. Hverjir eru þeir? Hvað er þetta, sem Bretar ætla að borga með? Hverjir eru þessir fiskveiðihagsmunir, sem Bretar geta látið Íslendinga fá í staðinn fyrir það að fá að veiða hér innan landhelginnar? Þeir mega vera nokkurs virði Íslendingum, ef það á að jafnast á við þetta, jafnvel þótt ekki yrði nema um nokkurra ára bil, sem Bretar veiddu hér í íslenzkri landhelgi. Það er viðurkennt, að dýrmætustu fiskimið innan landhelgi Íslendinga muni vera á beltinu frá 4 mílum út að 12 mílum. Og sem dæmi um þetta vil ég nefna þann landshluta, þar sem ég er kunnugastur, Vestfirði. Þegar landhelgin var færð út 1952 um eina mílu, þá töldu Vestfirðingar sér það lítils eða einskis virði, nánast einskis virði. Af hverju? Af því að fiskimið þeirra voru utan við 4 mílurnar. Þá þótti það sæmilegur afli á bát á vetrarvertíð að afla 350–500 tonn, mjög algengt, að aflinn var minni. En þótt skammt sé frá útfærslu landhelginnar í 12 mílur, þá er þetta þegar farið að breytast svo, að á síðustu vetrarvertíð höfðu flestir bátar yfir 500 tonn, 700 og 800 og allt upp yfir 1000 tonna afla, og þeir eru ekki í neinum vafa um það, Vestfirðingar, að þetta er að þakka útfærslunni, útfærslunni frá 4 mílum út í 12. Ef ætti að hleypa Bretum núna inn í þetta belti, þótt ekki væri upp að 4 mílum, við skulum gizka á 6 mílum, þá mundi mikill hluti af þessum dýrmætustu fiskimiðum við þennan landshluta verða — ég vil segja eyðilögð og þar með þeir miklu lífshagsmunir, sem Vestfirðingar hafa af fiskveiðum þarna.

Hvaða fiskveiðihagsmuni á þá að tryggja þessum landshluta, svo að ég taki dæmi, sem jafnast á við þetta? Hæstv. dómsmrh. nefnir, að það séu fiskveiðihagsmunir utan 12 mílnanna. Ég hef heyrt þess getið, hvort sem það er ágizkun eða ekki, að þarna sé átt við það, að Bretar lofi að fiska ekki utan 12 mílnanna á ákveðnum svæðum. Ég tek það fram, ég hef engar sannanir fyrir þessu, hvort þetta er rétt. Ég hef heyrt þessa ágizkun. Ef það er nú meiningin, að það eigi að borga Íslendingum brezku veiðarnar inni í landhelginni með slíku, hvernig verður þá sú borgun? Ekki hafa Bretar neitt umboð til þess að heita slíku fyrir aðrar þjóðir. Þeir geta lofað slíku fyrir sjálfa sig, en ekki aðra. Við skulum að veiða inni í landhelginni, en veiddu ekki á einhverjum ákveðnum blettum utan landhelginnar. En hvað er um allar hinar þjóðirnar, sem hafa veitt uppi við Ísland? Veiða þær ekki áfram bara hugsa okkur, að þeir gerðu þetta, þeir fengju á þessum miðum, og veiða þær ekki bara þeim mun meira á þeim, ef Bretar eru þar ekki? Það er ekki annað hægt að sjá, segi ég, en að slíkur verzlunarsamningur væri harla lítils virði fyrir Íslendinga. Þessi mið utan 12 mílna landhelginnar yrðu Íslendingum bókstaflega ekki meira virði en þau eru nú, því þó að Bretar hyrfu af þeim, þá mundu aðrar þjóðir notfæra sér þau þeim mun betur og eyðileggingin á fiskistofninum þar verða alveg eins eftir sem áður. Ef það eru hins vegar einhverjir aðrir fiskveiðihagsmunir, sem Íslendingar eiga kost á, þá væri æskilegt að heyra eitthvað um það. En því aðeins nefni ég þetta nú, að ég vænti þess, að hæstv. ráðherrar mótmæli þessu, ef það er svo, að þetta hefur ekki komið til mála.

Það er ekki í fyrsta sinn nú í þessu máli að Íslendingar verða fyrir ágengni erlends valds á hagsmuni sína og sjálfstæði. Af því hefur þjóðin bitra sögu á liðnum öldum. Jafnvel strax á 11. öld fengu Íslendingar heim sendimenn annarra þjóða í þessu skyni, þessara erinda. Þá var þjóðin ekki þess megnug að rísa gegn þessari ásælni hins erlenda valds. Fyrir því tapaði hún sjálfstæðinu 1262, að hún lét undan þessari ásælni, lét knýja sig til undanhalds, eins og Bretar ætla nú að knýja Íslendinga til undanhalds. Af sömu ástæðum og með sama hætti kúgaði hið erlenda vald Íslendinga til að gangast undir einveldisskuldbindinguna í Kópavogi 1662, og til þess að fullgera það verk, sem þá gerðist, hafði Hinrik Bjelke með sér vopnaða dáta, sem hann raðaði í kringum þingstaðinn og benti forustumönnum Íslendinga á, þegar þeir andmæltu því, sem þarna var verið að gera. Bretar nota herskip með fallbyssum nú. Það er ekki með öllu óskylt. En þá var þjóðin lítils megnug, þá var hægt að kúga hana til undanhalds, þá var hægt að svelta hana til undanhalds. En hún er ekki svo lítils megnug nú. Nú er þjóðin sterk. Nú ætti ekki að vera hægt að kúga hana. Það er því þeim mun verri frammistaða Íslendinga nú að láta kúga sig til undanhalds en var þá, sem þjóðin er sterkari nú en þá. Ég segi: Aðferðir voru svipaðar fyrr á öldum og nú eru viðhafðar af hálfu Breta, ýmist vinmæli, fagurgali eða hótanir. Það eru ekki allir búnir að gleyma sendiför Þórarins Nefjólfssonar í þann tíð, þegar Ólafur Noregskonungur vildi ná fangstað á Íslendingum. Þegar Íslendingar höfðu neitað að gangast undir vald Ólafs konungs, þá bað Þórarinn Nefjólfsson bara um Grímsey, þetta útsker, til handa konungi. Bretar biðja bara um nokkurra ára leyfi til að veiða innan íslenzkrar landhelgi. Þórarinn Nefjólfsson hét Íslendingum í staðinn gæðum af Noregi. Bretar heita Íslendingum í staðinn einhverjum fiskveiðihlunnindum, eftir því sem hæstv. ríkisstj. segir, eða rætt er um það, — ég skal ekki segja, hvort hún er búin að heita því, en rætt er um þann möguleika. Það er ekki heldur óskylt. Þórarinn Nefjólfsson hét vináttu konungs. Nú eigum við að semja til þess að endurreisa vináttu okkar við Breta og fá deiluna úr sögunni. Og Guðmundur ríki á Möðruvöllum vildi verða við tilmælum konungs. Hann taldi vináttu konungs sér meira virði en útsker þetta. Og enn eigum við Guðmund, sem vill ekki með öllu útiloka möguleikana til vinsamlegra samninga við Breta. (Gripið fram í.) Hann er enn ekki genginn til samninga við Breta, hefur mér skilizt. — Já, Ólafur konungur. — En sá er kannske munurinn nú og þá, að Guðmundur ríki átti sér bróður, Einar á Þverá, mikils metinn og vitran mann, og Guðmundur ríki hafði vit á því og fyrirhyggju að leita álits þessa vitra bróður síns og hjá honum fékk hann þær ráðleggingar sem björguðu Íslendingum í það sinn. Á nú Guðmundur ríki nútímans engan bróður, sem getur ráðlagt honum heilt, svo að betur fari en nú horfir? Ég vildi óska þess, að hæstv. ríkisstj. tækist, jafnvel á síðustu stundu, að finna þann Einar Þveræing, sem nú gæti bjargað henni og þar með þjóðinni.