31.01.1961
Efri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

168. mál, kirkjugarðar

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. menntmn. tók fram, var þetta frv. eða áþekkt frv. lagt fram hér á þingi fyrir 2 árum. Síðan hafa verið gerðar nokkrar breyt. á frv., eins og það kemur nú fram, og þær breyt. munu allar vera til bóta. Það var áberandi við frv., sem lagt var fram fyrir 2 árum, að í því voru ýmis atriði, sem mjög gátu orkað tvímælis. Enn finnast í frv. fáein atriði, sem vert væri fyrir hv. þdm. og sérstaklega hv. menntmn. að athuga nokkru betur, en inn á hin einstöku atriði skal ég þó ekki fara nú.

Það eru hnökrar í nokkrum greinum frv. og auk þess fáein atriði, sem efamál er að þar ættu að standa. Ég vil aðeins minnast á 16. gr. Þar segir, að grafhýsi megi gera í kirkjugarði. Við höfum nokkra reynslu fyrir grafhýsum hér í kirkjugarðinum í Reykjavík, og sú reynsla er ekki góð, og vil ég eindregið beina því til hv. menntmn., að hún athugi þetta atriði sérstaklega. Orða ætti greinina þveröfugt við það, sem nú er, á þá leið, að grafhýsi megi ekki gera í kirkjugörðum.

Önnur hliðstæð breyt. var gerð á frv. frá í hittiðfyrra. Það var á þá leið þá, að heimagrafreiti mætti gera. Síðan hefur þetta verið leiðrétt, og nú er ákveðið í þessu frv., að heimagrafreiti megi ekki gera. Þetta tel ég mjög til bóta.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta nú. En verið getur, ef ekki koma fram brtt. frá menntmn., að ég beri fram nokkrar brtt. við 2. umr. þessa máls.