23.02.1961
Efri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í C-deild Alþingistíðinda. (2336)

200. mál, söluskattur

Flm. (Daníel Ágústínusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. á þskj. 398 til laga um breyt. á l. nr. 10 22. marz 1960, um söluskatt.

Í sambandi við efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar á síðasta Alþ. voru gerðar stórfelldar breyt. á innheimtukerfi ríkissjóðs. Horfið var að verulegu leyti frá beinum sköttum á háar tekjur, en þess í stað var tekinn upp mjög viðtækur söluskattur á flestöll viðskipti, margvíslega starfsemi og þjónustu. Um þetta urðu mikil átök hér á Alþ., svo sem mönnum enn er í fersku minni, en þar kemur til það grundvallarsjónarmið, hvort afla beri teknanna eftir efnum og ástæðum eða heimta jafnt af öllum i sambandi við neyzlu þeirra og keypta þjónustu. Enda þótt ég telji fyrri leiðina miklu eðlilegri, ætla ég ekki í sambandi við þetta frv. að innleiða stórdeilur um þau grundvallaratriði, sem hér voru rædd á Alþ. á síðasta ári. Það, sem fyrir mér vakir, er að benda á nokkra galla, sem almenna athygli hafa vakið, sem á lögunum eru og mjög einfalt er að sníða af þeim. Af þessum sökum hef ég ekki hreyft við þeim þætti laganna, sem fjallar um viðskipti, heldur einungis um nokkur atriði, sem varða starfsemi og þjónustu. Ég hef gert það í þeirri von, að um þessi fáu atriði næðist samkomulag, og það ætti ekki siður að vera áhugamál stjórnarsinna en stjórnarandstæðinga að gera framkvæmd laganna ekki óvinsælli en nauðsyn ber til.

Reynslan hefur leitt í ljós þetta fyrsta ár laganna, að viðbótarundanþáguákvæði í 7. gr. þeirra, sem hér er lagt til að tekin verði upp, voru eðlileg og sjálfsögð, og mér er nær að halda, að stuðningsmenn söluskattsins á þingi í fyrra hafi ætlazt til og gert ráð fyrir, að sum þeirra atriða, sem hér eru talin upp, hafi þá átt að lenda í undanþáguákvæði samkv. ákvörðun ráðherra. En í niðurlagi 7. gr. um söluskatt segir: „Ráðherrann ákveður nánar um það, hvað fellur undir undanþáguákvæði þessarar greinar og næstu greina hér á undan.“ Er þar enn fremur átt við undanþáguákvæði 6. gr., sem fjallar um viðskipti eða sölu á vörum og verðmætum. Með leiðbeiningum þeim, sem ráðh. hefur gefið út handa skattheimtumönnum sínum, er í ýmsum atriðum seilzt lengra en lögin ætlast til, eins og ég vík að siðar. Er slíkt vitanlega alveg óviðunandi.

Skal ég næst víkja að breyt., sem skipta má niður i fjögur aðalatriði:

1) Lagt er til, að vinna með skurðgröfum og jarðvinnsluvélum og hvers konar vegagerðarvélum sé undanþegin söluskatti. Samkv. 6. gr. laganna er vinna við húsbyggingar og mannvirkjagerð svo og vinna við endurbætur og viðhald slíkra mannvirkja undanþegin söluskatti. Það virðist því mjög eðlilegt, að ræktunarframkvæmdir bænda, hvort sem um er að ræða skurðgröft eða jarðvinnslu, séu ekki síður undanþegnar söluskatti. Það á hvergi að heyrast, að bændur séu skattlagðir fyrir það að rækta jörðina, enda hefur Alþ. áður með setningu jarðræktarlaganna viðurkennt, að starfsemi þessa ber að styrkja með ríflegum greiðslum úr ríkissjóði, þar sem hér er um dýrar framkvæmdir að ræða og flestar þeirra unnar fyrir framtíðina. Í leiðbeiningum skattheimtumanna ráðherrans stendur hins vegar: „Búnaðarfélög og ræktunarsambönd eru söluskattsskyld af allri seldri vinnu og hliðstæðri starfsemi.“ Þetta er svo skýrt enn nánar í nefndum leiðbeiningum. Það fer því ekkert á milli mála, að nefnd starfsemi er úrskurðuð undir söluskatt:

Ég tel þetta alveg fráleitt og trúi ekki öðru en hv. alþm. séu mér yfirleitt sammála um það, að slík skattheimta sé með öllu óviðunandi. Búnaðarfélög og ræktunarsambönd eru ekkert annað en form fyrir samhjálp bænda og samstarf til að ná meiri og betri árangri en hver einstakur gæti gert. Sama máli gegnir um vegagerðarvélar. Skattlagning á þær er ekkert annað en skerðing á fjárveitingum til vegamála, og er það þeim mun fráleitara, þegar hér er um aðalframkvæmdir að ræða, sem kostaðar eru af ríkisfé, og alltaf er brýn nauðsyn á enn meiri framkvæmdum og enn meira fé.

Það er því alveg óskiljanlegt, hvernig það er til komið að gera vegagerð ríkisins að jafnmiklum tekjustofni og lögin gera ráð fyrir.

2) Samkvæmt 7. gr. laga um söluskatt er vinna við skipaviðgerðir og flugvélaviðgerðir undanþegin söluskatti. Það er eðlilegt, að sama gildi um landbúnaðarvélar, hverrar tegundar sem er, og vegagerðarvélar, svo að aðalatvinnuvegum þjóðarinnar sé ekki mismunað, eins og gert er með þessu.

Með frv. er lagt til, að úr misræmi þessu verði bætt.

Með auknum vélakosti landbúnaðarins hefur þróunin orðið sú hin siðari ár, að búnaðarfélög og jarðræktarsambönd hafa stofnsett viðgerðarverkstæði eða gerzt aðilar að þeim. Vinnan, sem á verkstæðum þessum er unnin fyrir bændurna, er framkvæmd á raunverulegu kostnaðarverði. Það er því með öllu óeðlilegt að skattleggja þetta samhjálparstarf íslenzkra bænda frekar en verkstæði, sem einstakir bændur settu upp til viðhalds vélakosti sínum.

3) Rekstur sjúkrahúsa er undanþeginn söluskatti samkv. 7. gr. laganna. Hins vegar fá skattheimtumenn ríkissjóðs þau fyrirmæli, að þvottahús bæjar- og sveitarfélaga og annarra opinberra aðila, þar með talin þvottahús sjúkrahúsa, séu söluskattsskyld af allri starfsemi sinni. Með leiðbeiningum þessum verður ekki betur séð en gengið sé lengra í framkvæmdinni en lögin mæla fyrir um. Þvottur hlýtur jafnan að vera snar þáttur í rekstri allra sjúkrahúsa og jafnnauðsynlegu mat, meðulum og skurðaðgerðum. Það þarf því talsverða hugkvæmni til þess að taka hann einan út úr starfsemi sjúkrahúsanna og leggja til, að hann verði tekjustofn fyrir ríkissjóð. Þetta er ef til vill sett inn í lögin til þess að þóknast einstaklingum, sem þvottahús reka, en það er jafnfráleitt fyrir það. Eða hver skyldi tilgangurinn vera með þessu ákvæði?

Þessi innheimtuaðferð er því fráleitari, þegar þess er gætt, að flest eða öll sjúkrahús landsins eru rekin með miklum halla og njóta þar að auki daggjalda frá ríkissjóði. Það er því ákaflega fráleitt, að slíkur rekstur geti verið tekjustofn fyrir ríkissjóð.

Sama máli gegnir og um þvottahús bæjar- og sveitarfélaga og samvinnuþvottahús. Það eru engin rök, sem mæla með því, að þessi starfsemi sé skattlögð til ríkissjóðs, frekar en farið yrði út á þá braut að leggja gjald á allar þvottavélar, sem væru í notkun víðs vegar um landið. Það mundi vissulega engum koma til hugar. Sameiginleg þvottahús margra heimila með öflugum og fjölbreyttum vélakosti við heita staði, þar sem því verður við komið, eru bæði fyrir einstaklinga og þjóðarheildina skynsamleg og heppileg ráðstöfun, sem hefur margvíslegan sparnað í för með sér. Þessi samhjálp um rekstur heimilanna má aldrei verða tekjustofn fyrir ríkissjóð.

Í sambandi við rekstur sjúkrahúsanna hef ég leyft mér að vekja athygli á öðru furðulegu atriði í sambandi við framkvæmd laganna um söluskatt, þar sem gengið er lengra en lögin mæla fyrir um.

Í 7. gr. laganna er útfararþjónusta undanþegin söluskatti. Hins vegar segir í leiðbeiningum ráðh. til skattheimtumannanna: „Sala á líkkistum og líkklæðum er söluskattsskyld.“ Virðist því nokkuð á reiki, hvað er undanþegið söluskatti við útfararþjónustuna. Einhvern tíma hefði sjálfstæðismönnum þótt skattheimta þessi ganga í lengra lagi, einkum ef hún á ekki stoð í lögum. Væntanlega verður þetta atriði tekið til athugunar ásamt öðrum breyt. við meðferð málsins nú.

4) Fjórða atriðið í frv. því, sem ég hef leyft mér að flytja hér, er um það, að samkomuhald, sem að meira og minna leyti er söluskattsskylt, verði undanþegið því í allmörgum atriðum. Ég hef í frv. þessu leyft mér að leggja til, að þessi undanþáguákvæði verði veitt þannig: „Samkomur ungmennafélaga, íþróttafálaga, kvenfélaga, skátafélaga, bindindisfélaga og annarra menningarfélaga. Enn fremur allar samkomur annarra aðila, sem haldnar eru til ágóða fyrir líknar- eða menningarstarfsemi.“ Framangreind félög eiga það sameiginlegt að vanta fé til starfsemi sinnar og berjast í bökkum fjárhagslega, enda njóta mörg þeirra fjárhagslegrar aðstoðar hins opinbera, ríkis og bæjarfélaga. Það er því alveg ástæðulaust fyrir ríkissjóð að vera að seilast eftir tekjum af slíku starfi eða samkomuhaldi þessara félaga, sem oft er unnið af miklum þegnskap og fórnfýsi, en tiltölulega lítið oftast upp úr því að hafa og stundum alls ekki neitt, og kemur þá vitanlega fyrir, að það er lagður söluskattur á þennan rekstur, enda þótt hann sé stundum rekinn með halla, þar sem fyrirmæli eru um það að leggla jafnan á selda aðgöngumiða án tillits til þess, hvernig reksturinn hefur gengið að öðru leyti.

Í sambandi við skemmtisamkomur er svo margt annað, sem fellur undir söluskatt, t.d. veitingasala, akstur o.fl., svo að öll skynsamleg rök mæla með því, að sleppt sé söluskatti af seldum aðgöngumiðum hjá þeim félögum eða félagasamböndum, sem ég hef hér minnzt á að framan.

Að lokum vil ég draga saman það, sem er meginatriði þessa frv., sem hér liggur fyrir:

1) Að vinna með skurðgröfum, jarðvinnsluvélum og hvers konar vegagerðarvélum verði undanþegin söluskatti.

2) Að viðgerðir á þessum tækjum séu ekki söluskattsskyldar frekar en viðgerðir á skipum og flugvélum.

3) Að þvottahús sjúkrahúsa, bæjar- og sveitarfélaga og samvinnuþvottahús verði undanþegin söluskatti, enda er rekstur sjúkrahúsa það nú i lögum.

4) Að samkomur tiltekinna félaga og samkomur haldnar til ágóða fyrir líknar- og menningarstarfsemi verði ekki söluskattsskyldar.

Ég tel, að hér sé um fá og einföld atriði að ræða og það mundi mjög draga úr óvinsældum söluskattsins, ef þau næðu að ganga fram nú þegar, og vænti ég þess, að hv. stjórnarsinnar kunni að meta það.

Hér er ekki um að ræða tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð, sem skiptir verulegu máli, og innheimta á þeim atriðum flestum, sem hér er lagt til að njóti undanþágunnar, er seinvirk og erfið. Ég vænti því, að Alþ. telji breyt. þær, sem í frv. felast, sanngjarnar og eðlilegar eftir þá reynslu, sem fengin er, og það væri í rauninni eðlilegra að geta gengið. frá þessu strax en að látá mál eins og þetta kosta harðvítuga baráttu um langan tíma, þar sem þetta skiptir ekki fyrir ríkissjóð verulega fjármuni. En ég er sannfærður um það, að nái þessi fáu, sanngjörnu og einföldu atriði ekki nú fram að ganga, þá mun baráttan fyrir þeim áreiðanlega halda áfram og það af mjög mörgum aðilum.

Að lokinni þessari umr. legg ég svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.