02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (2396)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Íhaldsflokkar ýmissa landa hafa mikið lært af bardagaaðferðum nazistanna. Nazistarnir komu næstum aldrei fram í neinu máli eins og þeir voru klæddir. Þeir notuðu alls konar loddarabrögð til þess að dylja stefnu sína og tilgang og hvað þeir voru raunverulega að gera. Þeir kölluðu sig flokk fjöldans, en voru raunverulega flokkur fámennrar auðklíku, sem kostaði flokkinn. Þegar nazistarnir töluðu um frið, meintu þeir blóðuga styrjöld. Þegar þeir gerðu samning við ríki um hlutleysi, var árás oftast yfirvofandi. Ef nazistarnir hefðu verið búnir að ákveða stórfellda kjaraskerðingu eftir kosningar, mundu þeir áreiðanlega fyrir kosningarnar hafa notað slagorðin: „Leiðin til bættra lífskjara er að kjósa nazistaflokkinn.“ Eða ef þeir hefðu ætlað að innleiða óðaverðbólgu eftir kosningar, mundu þeir fyrir kosningarnar hafa lofað algerri stöðvun verðbólgunnar án nýrra álaga. Ef nazistar hefðu ætlað sér sérstaklega að lækka útsvör og skatta á þeim ríkustu, mundu þeir hafa lofað hátíðlega og margendurtekið, að þeir ætluðu að lækka útsvör og skatta á hinum fátæku.

Þekkið þið ættarmótið? Það er þessi vinnuaðferð, þessi loddaraleikur, sem notaður er af stjórnarflokkunum í flestum málum. Þessa vinnuaðferð þarf þjóðin að skilja. Þegar gera á eitthvað óvinsælt, eitthvað, sem er þjóðinni hættulegt, er venjulega lofað alveg því gagnstæða, eins og ég rakti hér að framan með fáeinum dæmum, og er þó af mörgu að taka. Þegar svo loks er gert það, sem alltaf var ásetningurinn að gera, er því kastað fyrir þjóðina alveg að óvöru með margbreytilegum, háværum áróðri úr öllum áttum til þess að rugla og æra dómgreind almennings og yfirvegun. Þessi vinnuaðferð var notuð í landhelgismálinu og er nú í algleymingi.

Stjórnarflokkarnir hafa alla tíð barið sér á brjóst og sagzt vera allra flokka einlægastir og kröfuharðastir í landhelgismálinu, nema einstöku sinnum, þegar þeir hafa fallið út úr þessari leikararullu af vangá, og það sýnir sig nú, sem margir vissu, að aðeins þá var nokkuð að marka það, sem þeir sögðu. Þegar vinstri stjórnin vann að útfærslu landhelginnar í 12 mílur 1958, léku núverandi stjórnarflokkar opinberlega áhugamenn í landhelgismálinu. En þegar átti að taka ákvörðun um framkvæmd, voru þeir undantekningarlaust á móti um einhver einstök atriði og gátu því ekki verið með. Þennan hráskinnaleik léku þessir flokkar viku eftir viku, eins og ég sannaði í útvarpsumr. frá Alþingi um landhelgismálið í vetur. Það var ekki fyrr en Framsfl. tók af skarið, heimtaði svar hjá Alþfl. og sagði við hann: Ætlarðu að vera með, eða ætlarðu að rjúfa stjórnarsamstarfið á því að neita að vera með útfærslunni og láta kjósa um málið? Játaðu eða neitaðu. — Þá guggnaði Alþfl., því að hann vissi, að hann yrði þurrkaður út í kosningunum, ef hann sviki í landhelgismálinu fyrir kosningar. Sjálfstfl. neitaði að fallast á útfærsluna vegna þess, að hann var henni andvígur, en sagðist vera á móti því, hvernig hún væri gerð. Hann vildi gera hana öðruvísi, án þess að segja nokkurn tíma, hvernig það ætti eð vera.

Ef Framsfl. og Alþb. hefðu ekki tekið af skarið, beygt Alþfl. — svínbeygt hann, eins og Pétur Benediktsson orðaði það í Ölver, og framkvæmt útfærsluna þrátt fyrir mótmæli Sjálfstfl., væri engin útfærsla enn í dag og allar þjóðir sargandi hér upp að 4 mílum. Útfærsla ákveðin einhliða af okkur íslendingum var eina færa leiðin. Öðruvísi hefði hún aldrei verið gerð. Eftir að útfærslan var gerð, voru blöð Sjálfstfl. með margendurtekið níð og nagg um útfærsluna, hún væri heimskuleg, enda stæðu að henni kommúnistar einir. Á fundum vestur á landi sagði Bjarni Benediktsson, að fávíslegt væri að ætla íslendingum stærri landhelgi en Bretar vildu samþykkja. Svipuð ummæli hafði Pétur Benediktsson í Ölver.

Bretar fylgdust vel með þessum röddum, töldu þær merki þess, að Íslendingar væru klofnir í landhelgismálinu. Þess vegna sendu þeir herskip hingað. Það voru sjálfstæðismenn, sérstaklega þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Bjarni Benediktsson, sem með skrifum sínum og tali kölluðu brezku herskipin í íslenzka landhelgi.

En undir haustið 1958 sáu sjálfstæðismenn, að þessi afstaða þeirra var hættuleg fyrir kjörfylgi þeirra, enda fengu þeir þá vitneskju um það frá Alþfl., að stjórnin mundi klofna og kosningar væru fram undan. Það var eins og við manninn mælt, sjálfstæðismenn urðu allt í einu allra manna skeleggastir í landhelgismálinu á yfirborðinu. Engir vissu þó betur en við framsóknarmenn af reynslunni, að Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn voru óheilir í málinu og þeim illa treystandi. En um tvær leiðir var að velja. Önnur var sú að reyna að fletta ofan af þeim í tvennum kosningum, sem hefðu vakið hatrammar deilur í landhelgismálinu. Hin var að halda eins og hægt var frið um málið og reyna að binda þessa flokka í málið með sameiginlegri þál. frá Alþ. Þetta er aðalástæðan til þess, að þál. frá 5. maí 1959 var samþykkt. Þar var því hátíðlega lofað af hverjum einasta þm. úr öllum flokkum að hvika hvergi frá 12 mílum í landhelgismálinu og afla viðurkenningar fyrir öllu landgrunninu íslendingum til handa. Það tók Framsfl. margar vikur að fá Sjálfstfl. og Alþfl. til að samþykkja þessa till., sverjast í þetta mál, en með henni töldum við að gert væri allt það, sem í okkar valdi stóð, til að koma í veg fyrir, að núv. stjórnarflokkar svikju í landhelgismálinu. En þetta hefur nú komið að engu liði. Brigðmælgin hefur orðið heitinu á Alþ. yfirsterkari. En samþykkt þeirra á Alþ. 1959 fyrir kosningar sýnir, að þessir flokkar vita, hvað þjóðin vill. Þess vegna eru slík heit gefin fyrir, en brigðuð eftir kosningar.

Við skulum líta á aðdraganda þál. þeirrar, sem hér liggur fyrir, síðustu mánuðina. Þegar kvisast tók, að samningamakk væri hafið við Breta, brugðust forustumenn stjórnarflokkanna reiðir við, sögðu, að það væri aðeins kurteisi að tala við mennina. En þeir sóru lengi vel við hvert tækifæri, að samningar um að sleppa Bretum inn í landhelgina kæmu aldrei til mála. „Ég veit ekki til, að ég hafi umboð til þess frá einum einasta kjósanda,“ sagði Ólafur Thors. Og Guðmundur Í. Guðmundsson var ekki síður háfleygur í sínum svardögum og hefur verið fram á síðustu stund.

Þegar ég heyrði þessa og aðra svardaga forustumanna stjórnarflokkanna um, að Bretum skyldi aldrei leyft að fiska innan 12 mílna markanna, fór mér ekki að litast á blikuna. Samkv. hinni alþekktu vinnuaðferð var verið að sverja þeim málstað tryggð, sem gróflegast átti að svíkja. Það leynist engum, að stjórnarflokkarnir gera sér ljóst, að þeir eru með vondan málstað. Ríkisútvarpið er notað til að tvílesa hina hálffölsuðu greinargerð. Gefin eru út aukablöð full af blekkingum. Fyrirsögnin í Alþýðublaðinu hljóðar: „Aldrei inn fyrir tólf.“ Daginn eftir: „Hörfa, úr þremur í tólf.“ Sömu dagana er verið að hleypa Bretum inn í landhelgina, a.m.k. til þriggja ára, og það er lauslegt loforð, eftir því sem hæstv. utanrrh. segir núna, frá Bretum um það, að þeir skuli fara eftir þann tíma. Rök stjórnarflokkanna fyrir því, að samningurinn sé góður fyrir Íslendinga, eru ummæli brezka útvarpsins og ýmissa brezkra blaða um, að samningurinn sé Bretum óhagstæður. Halda menn, að Bretar kunni ekki að hræsna, þegar þeir hafa hag af því? Hvenær hafa brezkir nýlendukúgarar verið öðruvísi en óánægðir eða látizt vera óánægðir, ef þeir hafa ekki fengið allt? Sögðu þeir ekki 1952, að 4 mílur væru gereyðilegging á brezkum fiskveiðum, og settu löndunarbann á íslenzka togara? Var óánægja Breta 1952 gild sönnun fyrir því, að 4 mílna landhelgi væri meira en nóg handa Íslendingum? Auk þess er í blöðum stjórnarflokkanna að mestu þagað um það, að brezkir útgerðarmenn lýsa ánægju yfir því, að við höfum orðið að éta ofan í okkur 12 mílurnar og lofað því að færa aldrei út nema tilkynna Bretum það með hálfs árs fyrirvana, fá samþykki þeirra eða fara með málið fyrir alþjóðadómstól.

Oft hefur ríkisstj. endurtekið það, að hún mundi aldrei aftur hleypa Bretum inn í íslenzka landhelgi. Oftar munu þó brezkir ráðamenn hafa endurtekið hitt, að aðalatriðið væri að stöðva íslendinga í frekari útfærslu, nema það færi fyrir alþjóðadóm. Þetta hafa þeir nú fengið ásamt stórri meðgjöf.

Og nú skulum við athuga samninginn. Hann er aðeins orðsending íslenzka utanrrh., tilboð hans, sem Bretar virðast hafa svarað eða munu svara játandi. Hvort svar Breta verður algert samþykki eða hálfyrði að einhverju leyti, liggur ekki fyrir. En segjum, að jáið verði án frekari vífilengja. Hvað fáum við með þessum samningi? Því er fljótsvarað. Við fáum minna en ekki neitt.

Það er alger fölsun hjá ríkisstj., að Bretar hafi gefið okkur það eftir að rétta grunnlínurnar á fjórum stöðum. Þessar og fleiri bognar grunnlínur voru dregnar 1952. Eftir Genfarráðstefnuna 1958 var talið heimilt að rétta þær. En þegar átti að gera það, um leið og fært var út í 12 mílur 1958, var ósamkomulag um það, hvaða grunnlínur skyldi rétta og hverjar yrðu látnar bíða. Sérstaklega voru Alþfl. og Sjálfstfl. með alls konar uppsteyt í málinu til þess að koma þannig í veg fyrir útfærsluna, sem þeir voru í hjarta sínu á móti, eins og kom hvað eftir annað fram. Hins vegar lýstu flokkarnir yfir, að rétt til að gera hinar bognu grunnlínur beinar hefðu Íslendingar, hvenær sem þeir óskuðu. Til þess að skera á hnútinn var því breyting grunnlínanna látin bíða 1958. En um leið og íslenzka ríkisstj, kaupir af Bretum á fjórum stöðum þann rétt, sem við áttum skýlausan, afsalar hún sér rétti okkar til frekari grunnlínubreytinga, nema samþykki Breta eða alþjóðadómstóls komi til. Þó er þörf á ýmsum grunnlínubreytingum. Þetta er ekki illa haldið á íslenzkum málstað!

Sagt er í þál. sjálfri og grg., að Bretar viðurkenni nú þegar 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Þetta er rangt, því að í orðsendingunni fer Guðmundur Í. Guðmundsson ekki fram á meira en Bretar falli frá mótmælum gegn 12 mílna landhelgi Íslands. Stjórnin segir auðvitað: Þetta er sama og viðurkenning. — Enginn, sem nokkuð þekkir til, tekur mark á slíkum yfirlýsingum. Hvers vegna segja Bretar ekki: Við viðurkennum 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands? — Dettur nokkrum manni í hug, að hitt orðalagið sé valið án sérstaks tilgangs? Þetta orðalag er valið til þess að geta sagt við íslendinga síðar, eins og þeir hafa sagt áður, ef þeir standa höllum fæti: Við Bretar höfum aldrei viðurkennt 12 mílna landhelgi við Ísland. Ef þið leyfið okkur ekki að fiska á vissum stöðum innan 12 mílna, kaupum við ekki af ykkur fisk o.fl., o.fl.

Við fáum með þessari yfirlýsingu ekki neitt. Fiskveiðar Breta undir herskipavernd höfðu misheppnazt. Sjómennirnir, jafnvel sjóliðarnir, óánægðir og taugaveiklaðir yfir að geta ekki leitað landvars. Fiskveiðarnar svo lélegar undir herskipavernd, að þær borga ekki herskipakostnaðinn. Framferði Breta svo mikil smán fyrir þá og álitshnekkir meðal þjóða, sem þeim ríður lífið á að vera í áliti hjá, að þetta eitt var margfalt meira tap en allar fiskveiðar í íslenzkri landhelgi. Þess vegna höfðum við sigrað í deilunni, eins og Bjarni Benediktsson hefur lýst yfir oftar en nokkur annar maður. Inn í íslenzka landhelgi hefðu brezku togararnir aldrei komið aftur undir herskipavernd eftir seinni Genfarráðstefnuna, ef Bjarni Benediktsson hefði ekki kallað þá þangað í annað sinn með því að náða veiðiþjófana, en á það litu Bretar sem veilu og undanhald.

Eftir að landhelgismálið komst í hendur undanhaldsmanna, hlaut að fara eins og nú horfir. Það, sem Íslendingar afsala sér, er tilgreint með ákveðnum orðum og ekki skorið við nögl. Næstu þrjú ár hafa veiðiskip, sem skrásett eru í Bretlandi, — þeir geta boðið upp á skrásetningu, Bretarnir, — leyfi til að fiska hér upp að 6 mílum á svæðum að mestu leyti í kringum landið. Eru þessi svæði auðsjáanlega valin með tilliti til þess, hvar fiskigengd er mest á hverjum tíma og hægast að sitja fyrir fiskigöngum inn á svæði, þar sem veiði er ekki leyfð. Eftir því sem ríkisstj. upplýsir, mega íslendingar eiga von á fleiri skipum en þeim, sem skrásett eru í Bretlandi, inn í landhelgina. Með þessu leyfi erum við Íslendingar búnir að ómerkja það, sem við höfum sagt á alþjóðavettvangi og í mörgum hvítum bókum, sem dreift hefur verið út um heim. Þar höfum við haldið því fram m.a., að við hefðum rétt til útfærslu í 12 mílur og mundum aldrei víkja frá þeim rétti. Við höfum haldið því fram, að þetta sé okkar lífsnauðsyn, því að sannað hafi verið með vísindalegum aðferðum, að um ofveiði verði að ræða, ef útlendum veiðiskipum, sem fjölgar hratt við landið, verði hleypt inn í landhelgina. Nú gerum við allt þetta tal okkar að engu. Frammi fyrir öllum þjóðum segjum við: Það, sem við héldum fram, var skrök eitt.

En það er ekki allt þar með búið, því að ákveðið er í orðsendingunni, að ef Íslendingar hér eftir þurfi að færa út landhelgina, þótt ekki sé nema rétta grunnlínu, sem víða þarf að gera, þá megi þeir það ekki nema tilkynna Bretum náðarsamlegast með sex mánaða fyrirvara einum þjóða. Og ef Bretar vilja ekki fallast á útfærsluna, geta þeir heimtað, að alþjóðadómstóll skeri úr. M.ö.o.: við étum ekki aðeins ofan í okkur, að við höfum haft heimild til að færa út án samþykkis Breta í 12 mílur, heldur lofum við því að gera þetta aldrei aftur. Þar með eru landgrunnslögin frá 1948, sem allir flokkar stóðu einhuga að og eru heimildarlög til að friða allt landgrunnið, raunverulega þurrkuð út. Þessi leyfisbeiðni til Breta um stækkun íslenzkrar landhelgi og úrskurður alþjóðadómstóls virðast alls ekki tímabundin. Ég skora á stjórnarflokkana að svara nú þegar hér í útvarpinu, hvort Íslendingar, aldir og óbornir, eigi að vera bundnir á þennan klafa, nema þeir brjóti hann af sér.

Sjálfsagt er að koma fram með brtt. um að afnema þetta ákvæði úr samningnum, en til vara, að það verði tímabundið. Sést þá, hvort ríkisstj. er alvara að leggja þessa fjötra á óborna Íslendinga, þannig að íslenzka þjóðin megi ekki um alla framtíð gera neitt í landhelgismálinu nema með samþykki Breta eða alþjóðadómstóls, sem enginn veit, hvernig kann að verða skipaður í framtíðinni.

Það getur verið gott að hafa, alþjóðadómstól til að skera úr vissum málum. Norðmenn gátu vel farið fyrir Haagdómstólinn með það, hvar þeir mættu hafa beinar grunnlínur, enda fiskveiðar Norðmanna ekki nema 7% af þjóðartekjum þeirra. Við hefðum og eftir útfærsluna 1952, sem var í samræmi við dóminn í máli Norðmanna, áhættulaust getað látið málið koma fyrir Haagdómstólinn, því að vitað var fyrir fram um málalokin, enda neituðu Englendingar. Ef friða á einhver svæði á úthafinu, eins og við Íslendingar gerðum till. um í Genf, utan landhelgi strandríkis fyrir ofveiði, til þess að strandríki, sem lifir aðallega á fiskveiðum, geti fiskað þar, er ekki óeðlilegt, að sérfræðingar og alþjóðadómstóll skeri úr um það, hvort þar er um ofveiði að ræða og hvað þetta svæði úthafsins á að vera stórt. En að reyna að rugla þessu saman við alþjóðadómstól um stærð landhelginnar alla tíð sýnir aðeins, að stjórnarflokkarnir verða að grípa til beinna falsana til að verja sinn vonda málstað.

Við Íslendingar höfum alltaf sagt: Ef allar þjóðir, sem hafa 12 mílna landhelgi og meira, vilja játast undir dóm alþjóðadómstólsins um það, hvort þær eigi rétt á 12 mílna landhelgi eða stærri, þá munum við ekki skerast úr leik. En að við, sem þurfum stærri landhelgi en aðrar þjóðir, séum teknir út úr einir þjóða og kúgaðir til að játast undir það um aldur og ævi, að við megum aldrei breyta landhelgi okkar, hve rík sem þörfin er, nema með leyfi Breta eða alþjóðadómstóls, það er hróplegt ranglæti, því að vegna veiðitækninnar getur vel svo farið, að 12 mílna landhelgi verði okkur að minna gagni en 3 mílna landhelgi áður. Með þessu værum við að fá alþjóðadómstóli vald til þess að ákveða, hvort okkur á hér eftir að vera heimilt að vernda auðlindir, sem tilvera þjóðarinnar byggist á, þ.e. vald til þess að kveða upp dóm um það, hvort við eigum að fá að lifa í eigin landi. Slíkt vald mun engri þjóð nokkurn tíma hafa komið til hugar að fá alþjóðadómstóli í hendur, kannske ævarandi, ef á að skilja ákvæðið þannig.

Eitt er þá ótalið, sem er ekki beinlínis fjárhagslegt, en engu minna fyrir það. Ríkisstjórnir hafa undanfarið gefið út og dreift um mörg lönd svonefndum hvítum bókum um skýlausan rétt okkar til að gera það, sem við höfum gert í landhelgismálinu, um lífsnauðsyn okkar til þess að gera það og margt fleira. Í þessum bókum er margt og mikið rætt um yfirgang Breta og veiðiþjófnað. Allt í einu berast þær fréttir af Íslandi, að við kyngjum öllum stóryrðunum, gefum upp mikið af landhelgi, sem við höfum helgað okkur á þriðja ár og allar þjóðir hafa virt nema ein. Þessari einu þjóð, þeirri sem hefur sýnt okkur ofbeldi og stundað hér veiðiþjófnað undir herskipavernd, bjóðum við fyrstri þjóða inn í landhelgina til þess að hirða árangur friðunarinnar. Og við skuldbindum okkur í ofanálag til að hreyfa ekki við því að færa út landhelgina nema með þessarar þjóðar samþykki, þessarar sömu þjóðar, sem hér hefur stundað ofbeldi og veiðiþjófnað fyrr og síðar. Hvílík niðurlæging frammi fyrir öllum þjóðum! Hvílík smán!

„Lífgjafi þessa lands er vor saga,“ segir Einar Benediktsson. Þessi lífgjafi segir okkur afdráttarlaust, að alltaf, þegar við Íslendingar guggnuðum fyrir ofbeldi og hótunum erlendis frá, alltaf þegar við létum kúga okkur til að gera nauðungarsamninga um afsal réttinda, vorum við að færa bölvun yfir þjóðina. Hér er einn slíkur samningur á ferð, sem þróttlaus ríkisstj. ætlar að láta kúga sig til að gera. Slíkir samningar eru alltaf forgylltir með ofsalegu skrumi, meðan verið er að koma hlekkjunum á þjóðina. Einfaldar sálir blindast um skeið. En bak við skrumið, undir gyllingunni er nú eitt stórfelldasta afsal réttinda, sem saga þjóðarinnar greinir. Til þess að gefa slíkt réttindaafsal hefur enginn þm. umboð, enginn þm. hér í þessum sal, því að allir flokkar og allir þm. sóru þann eið fyrir síðustu kosningar að hvika hvergi í landhelgismálinu. Vegna þess er skylt að hafa þjóðar atkvæði um þetta mál. Kjósendur einir hafa rétt til að samþykkja samninginn eða hafna honum. Án samþykkis kjósenda verður hann því markleysa ein. — Verið þið sæl.