02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2402)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. fór með ýmsar býsna lævísar blekkingar í ræðu sinni hér áðan. Ein var sú — og sú, sem hæstv. ráðh., fjmrh. og félmrh., létu sér sæma að taka undir, að samþykkt frv. stjórnarandstæðinga um lögfestingu landhelgisfrv. mundi hafa komið í veg fyrir eða verið ósamrýmanleg breytingu grunnlína. Þetta er auðvitað alrangt. Munurinn er aðeins sá, að eftir lögfestingu frv. er það Alþingi, en ekki ríkisstj., sem ákveður grunnlínur. Og eins og allir vita, var frv. um lögfestingu landhelgisreglugerðarinnar flutt í því skyni að taka málið úr höndum veikgeðja og ístöðulausrar ríkisstj. og flytja það í hendur Alþingis sjálfs.

Það hefur verið látið að því liggja í þessum umr. og raunar líka í grg. þáltill., að samningurinn við Breta nú sé sambærilegur því, sem var boðið af hálfu vinstri stjórnarinnar sumarið 1953. Þetta er vægast sagt villandi röksemdafærsla og fær með engu móti staðizt, því að hér er um tvennt ólíkt að ræða. Með orðsendingu íslenzku ríkisstj. til NATO í maí og ágúst 1958 var leitað eftir því að fá fyrir fram og áður en reglugerðin var komin til framkvæmda viðurkenningu annarra ríkja á einhliða rétti Íslands til útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 12 sjómílur. Í þessum orðsendingum var framkvæmdastjórinn látinn vita, að ef slík viðurkenning fengist, yrði tekið til athugunar að láta útfærsluna á ytri 6 mílunum koma til framkvæmda í áföngum á Þremur árum. Það var vitað, þegar orðsendingar þessar voru sendar, að af hálfu ýmissa þjóða, þ. á m. sumra bandalagsþjóðanna, var litið á mál þetta öðrum augum en af Íslands hálfu og réttur Íslendinga til einhliða útfærslu vefengdur. Það liggur í augum uppi, að það er á engan hátt sambærilegt að leita þannig eftir viðurkenningu á reglugerðinni fyrir fram og áður en hún var komin til framkvæmda og hitt: að semja um tilslakanir frá gerðri ákvörðun gagnvart einni þjóð, að fara nú, eftir að reglugerðin hefur verið í gildi í nær hálft þriðja ár, að semja um undanþágur frá henni og það gagnvart þeirri einu þjóð, sem hefur ekki viljað viðurkenna gildi hennar, þeirri einu þjóð, sem hefur beitt Íslendinga hernaðarlegu ofbeldi í þessu máli. Og þessum augljósu sannindum verður ekki haggað af þeirri furðulegu fullyrðingu hæstv. menntmrh., sem hann lét sér um munn fara hér áðan, að þrátt fyrir allt væri þetta tvennt sambærilegt, vegna þess að 12 sjómílna landhelgin hefði ekki fengizt sumarið 1958. Þetta er nýstárleg kenning. Ég hef ekki heyrt þessa kenningu áður fram borna af Íslendingum. Þvert á móti hefur það hvað eftir annað verið tekið fram af ráðh., bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh., að við höfum þegar unnið sigur í þessu máli og að ekki mundi verða hvikað frá 12 mílunum, sem teknar voru upp 1958. Allur samanburður hæstv. forsrh. á ferkm. í þessu sambandi er út í hött, vegna þess að málið komst aldrei á það stig sumarið 1958, að til athugunar væri tekið, hvernig áfangaútfærslu á ytri 6 mílunum skyldi háttað í einstökum atriðum. Þegar svo hér við bætist, að viðræðurnar við NATO sumarið 1958 fóru fram samkvæmt beinni og óumdeildri skyldu, þá hljóta allir að sjá, að þetta tvennt, undirbúningsaðgerðirnar 1958 og samningurinn við Breta nú, er ekki sambærilegt.

Það hefur til þessa verið stefna íslenzkra stjórnarvalda, að landhelgina ætti að færa út með einhliða ákvörðun Íslendinga, en ekki með samningum við aðrar þjóðir nema þá alþjóðasamþykkt. Þess vegna var margendurteknum tilmælum frá NATO-þjóðunum um að taka upp samninga um landhelgismálið vísað á bug. Slíkum tilmælum var einmitt hafnað með orðsendingunni 20. ágúst 1958. Nú eru hins vegar teknir upp samningar við Breta um stærð landhelginnar og um réttindi Bretum til handa í fiskveiðilandhelginni. Það eru ný og hættuleg vinnubrögð í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Hvenær hefðu Íslendingar getað fært fiskveiðilandhelgina út í 12 sjómílur, ef sú útfærsla hefði verið háð samningum við aðrar þjóðir?

Þegar þess er gætt, sem ég hef hér stuttlega drepið á, er auðsætt, hversu allur samanburður á aðgerðum vinstri stjórnarinnar sumarið 1958 og samningum núv. ríkisstj. er fráleitur og fjarri lagi. En hvers vegna er þá ríkisstj. að reyna að réttlæta samninga sína við Breta með skírskotun til aðgerðanna 1958? Ástæðan er augljós. Ríkisstj. finnur, að málstaður hennar er veikur og vondur. Það er áreiðanlegt, að allur þorri fólks í þessu landi skilur ekki, hverja nauðsyn ber nú á þessu stigi til undansláttar gegn Bretum í landhelgismálinu. Það er viðurkennt af öllum, jafnvel af hæstv. ráðherrum, að 12 sjómílna reglan hafi sigrað, raunverulega hafi sigur verið unninn í landhelgismálinu. Það mun flestra kunnugra manna mál, að nú hafi aðeins vantað herzlumuninn til þess, að Bretar gæfust algerlega upp. Þess vegna reið einmitt á því nú, að öll þjóðin stæði fast á rétti sínum og hopaði hvergi. Þá hefði Bretum brátt skilizt, að þeir hefðu raunverulega tapað í þessari deilu, og líklega hafa þeir þegar gert sér það ljóst. Og það er trú margra, sem til þekkja, að þeir hefðu aldrei lagt út í herskipaverndina aftur. Þeim mun einkennilegra og óskiljanlegra er það, að ríkisstj. skuli, einmitt þegar málin standa svona, semja við Breta um að opna þeim landhelgina. Út yfir tekur þó, að ríkisstj, skuli semja svo um við Breta, að henni sé óheimilt að breyta fiskveiðimörkum á landgrunninu, nema hún hafi áður tilkynnt Bretum þá ákvörðun sína með sex mánaða fyrirvara og þar með auðvitað óbeint opnað samningaviðræður um málið og viðurkennt Breta, einu þjóðina, sem hefur beitt okkur hernaðarlegu ofbeldi í sambandi við útfærsluna, sem eins konar herraþjóð í landhelgismálum.

Með samningagerðinni við Breta hefur og ríkisstj. brotið í bága við áður yfirlýstan vilja Alþingis og gengið á gefin heit í landhelgismálinu. Í ályktun Alþingis frá 5. maí 1959 segir m.a.: „Lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“ Þarna er því berum orðum lýst yfir, að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 sjómílur. Við þessa yfirlýsingu Alþingis hefur ríkisstj. til þessa verið siðferðislega og þingræðislega bundin og það því fremur, sem ríkisstj. skírskotaði til þessarar ályktunar við valdatöku sína. Þá gaf forsrh. svo hljóðandi yfirlýsingu fyrir hennar hönd, orðrétt svo: „Þá þykir ríkisstj. rétt að taka það fram, að stefna hennar í landhelgismálinu er óbreytt, eins og hún kemur fram í samþykkt Alþingis 5. maí 1959.“ Þessa yfirlýsingu og þennan umboðsskort íslenzku ríkisstj. áréttaði svo forsrh. á Alþingi 25. apríl 1960. Þá sagði hann: „Ég hef ekkert umboð frá neinum í þessu þjóðfélagi, til þess að afsala Íslandi 12 mílna fiskveiðilandhelgi.“ Þarna hitti forsrh. vissulega naglann á höfuðið. Ríkisstj. hafði ekki umboð til þess frá neinum í þessu þjóðfélagi að fara að semja við Breta um þetta mál á þann hátt, sem raun ber vitni um, enda eru samningar þessir í algeru ósamræmi við kosningaloforð stjórnarflokkanna í síðustu kosningum. En með hví að opna landhelgina fyrir veiðiskipum annarra þjóða er landhelgin raunverulega minnkuð. Og hvernig sem menn annars líta á efni samningsins, þá verður aldrei komizt fram hjá þessum staðreyndum: heitrofum og umboðsskorti íslensku ríkisstj.

Þegar alls þessa er gætt, er sannarlega ekki að undra, þótt ríkisstj. finnist hún þurfa að skjóta sér á bak við aðra, að hún telji sig þurfa að styðja sinn slæma málstað við fordæmi. En það getur hún bara ekki, því að framkoma hæstv. ríkisstj. í þessu máli er algert einsdæmi.

En það er segin saga, að þegar maður hefur gert eitthvað illt af sér eða telur sig hafa framið eitthvert skammarstrik, þá reynir hann að skjóta sér á bak við aðra. Það er sú gamalkunna staðreynd, sem liggur til grundvallar þeirri tilraun stjórnarsinna og málgagna þeirra og síðast hér í þessum umræðum hæstv. utanrrh. að vitna til fyrri ummæla minna til framdráttar þessum undansláttarsamningum sínum við Breta. Þar er auðvitað um vísvitandi rangtúlkun að ræða. Við umr. um landhelgismálið í vetur sagði ég það eitt, sem allir vitibornir menn hljóta að taka undir, að hvert eitt spor í landhelgismálinu hefði átt að vera þannig undirbúið, að við hefðum verið við því búnir að leggja það undir úrlausn alþjóðadóms, og að smáþjóð yrði jafnan að gæta þess að hafa réttinn á sína hlið og ganga ekki í berhögg við alþjóðalög. Í ræðu minni er ekki eitt orð í þá átt, að við eigum að semja um það fyrir fram við eina þjóð að leggja allan ágreining varðandi stækkun landhelginnar undir alþjóðadóm, en það er auðvitað allt annað en að undirbúa mál svo vel og vandlega að vera við því búinn að leggja málið undir úrlausn alþjóðadómstóls, en þá að sjálfsögðu eftir samningi um það hverju sinni. Það skilur hver, sem skilja vill. Í umræddum ummælum mínum var ekkert ofsagt, og við þau stend ég hvar og hvenær sem er. Ánægjulegt væri það, ef hæstv. ráðh. Alþfl., utanrrh. og menntmrh., gætu gefið yfirlýsingu um það hér á Alþingi, að þeir vildu standa við öll sín fyrri ummæli hér á Alþingi, því að öllum er kunnugt, að þeir hafa horfið frá svo að segja öllum stefnuskrármálum Alþfl.

Það ákvæði þessa samnings við Breta, sem að mínum dómi er langsamlega háskalegast og ógeðfelldast, er skuldbindingin um að tilkynna Bretum með sex mánaða fyrirvara, er færa á út landhelgislínuna í framtíðinni. Þessi skuldbinding felur það óbeinlínis í sér, að við viðurkennum Breta sem eins konar samningsaðila um útfærslu fiskveiðimarkanna eftirleiðis, að við hverfum frá landgrunnslögunum frá 1948, en þau eru byggð á þeirri forsendu, að allt landgrunnið umhverfís Ísland tilheyri því. Frá þeirri reglu er horfið með þessum samningi. En frá landgrunnsstefnunni á alls ekki að hopa, því að miðað við þá þróun, sem átt hefur sér stað í landhelgismálum til þessa, er hvort tveggja sennilegt, að innan tíðar verði þörf nýrrar, verulegrar útfærslu og að alþjóðalög viðurkenni rýmri rétt fiskveiðiþjóðar í því efni en nú. Með þessu tilkynningarákvæði er opnað fyrir samningaviðræður við Breta hverju sinni, og þá fer niðurstaðan eftir því, hverjir þá halda um stjórnvölinn í þessu landi.

Hér er um að tefla hreinan nauðungarsamning, sem felur í sér það tvennt að opna landhelgina fyrir Bretum og torvelda frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar um ófyrirsjáanlegan tíma eða loka þar jafnvel leiðum. Þess vegna er stundarfriðurinn í landhelgisdeilunni við Breta of dýru verði keyptur að mínum dómi. — Góða nótt.