09.03.1961
Sameinað þing: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (2447)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er nú augljóst af þeim umr., sem hér hafa farið fram. að hæstv. ráðh. eru orðnir æði aðþrengdir í málflutningi sínum öllum. Hæstv. utanrrh. kom hér upp í ræðustólinn nú fyrir nokkrum mínútum síðan til þess að reyna að telja þingheimi trú um, að ummæli hans hér á Alþingi þann 6. febr. og þau ummæli, sem birt eru í Alþýðublaðinu þann 5. marz, hvor tveggja ummælin um nákvæmlega sama tilfellið, en í rauninni í allra augum alveg gagnstæð, að þrátt fyrir það, þó að allt hljómaði nú gagnstætt, þá sannaði hvað annað og allt færi hér rétt saman, sagði hæstv. ráðh. En hvað var nú það, sem hér var um deilt? Hæstv. utanrrh. hafði sagt hér í umr. á Alþingi þann 6. febr., að engar tillögur og engin tilboð hefðu komið fram af hálfu Íslendinga varðandi lausn landhelgisdeilunnar við Breta. En í Alþýðublaðinu stóð aftur nú fyrir nokkrum dögum, að dagana fyrir jólin hafi á tilteknum fundum úti í London, eins og stendur í Alþýðublaðinu: „á þessum fundum varð til sú lausn, sem nú er fjallað um.“ Til ýmislegs má nú gripa, þegar menn eru komnir alveg í vandræði og eru í rauninni alveg innikróaðir. Þá segir hæstv. utanrrh.: Ég hafði sagt, að Íslendingar hefðu ekki gert neinar tillögur og engin tilboð, en hins vegar segir Alþýðublaðið, að sú lausn á deilunni, sem nú liggur fyrir Alþingi, hafi orðið til á þessum fundum í London dagana fyrir jólin, og þetta fari ekki í gagnstæða átt. Af þessu kemur auðvitað það, að utanrrh. er að lýsa því yfir, að Íslendingar hafi aldrei gert tillögur til lausnar á landhelgisdeilunni, þeir hafi aldrei gert tilboð, heldur aðeins það, að Bretar hafi gert tiltekið tilboð, gert tiltekna tillögu og Íslendingar þá gengið að henni. Þegar búið er að slá því föstu, að samkomulagið, sem hér liggur fyrir, hafi orðið til dagana fyrir jólin, en síðan segir ráðh. hér á Alþingi 6. febr., að ríkisstj. hafi engar tillögur gert og engin tilboð gert í málinu, þá er hann með þessu að segja, að Íslendingar hafi aldrei lagt neitt fram í málinu, heldur aðeins gengið að þeim tillögum, sem Bretar hafi verið búnir að gera. Auðvitað sjá nú allir menn, að það er ekki einu sinni hægt að ljúga sig út úr vandanum á þennan hátt.

Hér liggur það auðvitað óumdeilanlega fyrir, að samkomulagið var gert, eins og Alþýðublaðið hafði upplýst, dagana fyrir jól, og þegar hæstv. utanrrh. afneitaði því hér á Alþingi 6. febr., að Íslendingar hefðu gert nokkur tilboð í málinu, þá var hann að segja ósatt, vegna þess að þá þegar var búið að ljúka málinu. En svona sem sagt geta aðþrengdir menn orðið að grípa til aumra blekkinga.

Þá sagði hæstv. utanrrh. í ræðu sinni áðan, að það yrði ekki birt neitt úr hinu margumtalaða leynibréfi, sem hér hefur nokkuð borið á góma í þessum umr., að ekkert yrði birt nema þessi eina setning, sem hann hafði lesið upp úr bréfinu, enda væri bezt að birta ekki meira en búið væri að birta, því að stjórnarandstaðan mundi snúa hér út úr öllu, sem sagt yrði. Finnst mönnum þetta fullnægjandi skýring? Það er upplýst hér á Alþ., að það liggur fyrir bréf frá brezku ríkisstj., sem er tvímælalaust um þetta mál, sem hér liggur fyrir. Ein setning er þar slitin út úr og lesin, en því er neitað harðlega að leggja fram allt bréfið, vegna þess að óttazt er, að stjórnarandstaðan muni snúa hér út úr því, sem í bréfinu stendur.

Nei, því verður ekki neitað, að það er fullkomlega eðlilegt, með tilliti til þess. sem gerzt hefur í þessu máli, að menn tortryggi það nokkuð, hvað í þessu bréfi kann að standa, varðandi þessa lausn á málinu. Menn hljóta vitanlega um það að spyrja: Hvað er það, sem hæstv. ríkisstj. vill leggja hulu yfir í þessu efni? Hvað er það, sem hún er að fela, að þetta bréf sem varðar málið, skuli ekki mega koma fram? Hefur hún gert einhvern viðbótarsamning við brezku ríkisstj., sem þolir ekki dagsins ljós, eða hvað er hér á ferðinni? En öll er málfærsla þeirra ráðherranna orðin af svipuðu tagi og þetta.

Nú er aðaluppistaðan orðin í þessum umr. eiginlega tvennt, og hvor aðili á nú auðvitað sinn skammt af því af þeim tveimur flokkum, sem eru andvígir þessu samkomulagi. Hæstv. dómsmrh. sagði í umr. í gær, að Hermann Jónasson hefði með tillögum sínum í utanrmn., eins og dómsmrh. sagði, viljað efna til heimsstyrjaldar út af þessu máli. Hann notaði þetta orð hér í þessum ræðustól, að Hermann Jónasson vildi efna til heimsstyrjaldar út af málinu. Þetta er hlutur Framsóknar, þannig er hún afgreidd. En við Alþýðubandalagsmenn, við fáum vitanlega okkar hluta og þá alveg sérstaklega ég. Sagt er, að okkar afstaða sé sú og þá sérstaklega mín, að ég vilji endilega semja við Breta um að veiða innan landhelginnar. Og svo eru auðvitað teiknuð upp feiknalega stór og voldug kort í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu af öllum þeim svæðum við landið, sem ég vilji semja við Breta um, að þeir haldi áfram að veiða á. Halda menn ekki, að þeir séu orðnir dálítið aðþrengdir, þessir piltar, sem halda slíku fram sem þessu?

En hvert var nú tilefni þess, að menn fundu út slíkan áróður sem þennan, sem átti að jafnast á við heimsstyrjöldina hjá Hermanni, — þetta sem ég hef sagt? Jú, ég hafði lýst því hér yfir, sem ég hef oft gert áður, að Bretar hafi ekki getað stundað undir herskipavernd neinar fiskveiðar innan íslenzku landhelginnar. Ég orðaði það þannig hér, að þeir hefðu í þessum efnum haft hér í frammi hinn mesta fíflaskap. Ég sagði aldrei eitt einasta orð um það, að Bretar hefðu stundað veiðar, — ég sagði þvert á móti, að þeir hefðu ekki getað stundað fiskveiðar á þessum slóðum. En ég benti á, að sú heimskulega ráðstöfun Breta að ætla að binda skip sín á þröngum básum innan landhelginnar hefði orðið til þess, að íslenzku fiskimiðin eða Íslandsmið, eins og ég orðaði það, hefðu notið miklu meiri og betri friðunar en yfirleitt nokkurn tíma áður. Mér er það nefnilega ljóst, þó að piltunum, sem skrifa Morgunblaðið, sé það ekki ljóst, að meginhlutinn af fiskimiðum Íslands, þeim sem við ausum úr, liggur fyrir utan 12 mílna hringinn. Mér er það að vísu líka ljóst, að það er þýðingarmikið að vernda miðin, sem eru innan við 12 mílur, vegna þess uppeldis, sem þar á sér stað. En meginhlutann af okkar fiskmagni verðum við að taka annars staðar. Það er því mjög dýrmæt friðun á miðunum við Ísland, ef ein aðalfiskveiðiþjóðin, sem stundar hér veiðar, glæpist inn á slíkan fíflaskap, að hún neitar sér um það að geta stundað eðlilegar veiðar á Íslandsmiðum, eins og Bretar gerðu hér raunverulega um nærri 21/2 árs skeið. Ég sagði, að út frá friðunarsjónarmiðum væri okkur hagstætt, beinlínis hagstætt, að Bretar héldu áfram slíkum fíflaskap eins og þeim að loka skip sín inni í þröngum básum. Þetta sagði ég hér á Alþingi, og það þori ég að segja hvar og hvenær sem er. Út frá friðunarsjónarmiðum í sambandi við miðin við Ísland var þetta okkur hagstætt.

Hitt var annað mál, að gerð Breta í okkar garð var hin sama eftir sem áður. Þeir voru að reyna að brjóta hér niður íslenzk lög. Þeir sendu herskip sín til þess að hnekkja því, sem við vorum að gera. En okkur var ljóst, að þessar ráðstafanir þeirra gátu aldrei fært þeim sigur í deilunni við okkur. Til þess þurftu þeir að fá einhverja hjálp Íslendinga sjálfra til þess að draga lokur frá hjá okkur. Og þá hjálp hafa þeir nú fengið, enda hafa þeir vitað, hvaða menn voru til þess líklegastir allan tímann.

Hæstv. utanrrh. sagði hér í umr., að það hafi jafnan verið stefna okkar Alþýðubandalagsmanna í landhelgismálinu að miða okkar aðgerðir við það að spilla vináttu Íslendinga og Breta. Og enn fremur sagði hann, að hann og Alþfl. hefðu viljað fá meira tóm til þess að kynna útfærslu landhelginnar öðrum þjóðum. Hvað var það, sem við gerð um í þessum efnum, sem gat spillt vináttunni við Breta? Við gerðum ekkert annað en það að færa út landhelgislínuna. Við gerðum ekkert annað en að framkvæma það, sem hæstv. utanrrh. og flokkur hans hafði skrifað undir í samkomulagi við okkur, að við skyldum gera. Það var í júlímánuði 1956, þegar vinstri stjórnin var mynduð, sem slíkt samkomulag var gert. Það var dregið að fara í þessa útfærslu hálft árið 1956, allt árið 1957 og meira en hálft árið 1958. Allan þennan tíma vorum við að tilkynna Bretum og öðrum, hvað við værum ákveðnir í að gera, og hæstv. utanrrh. hafði það starf sérstaklega á höndum að eiga að útskýra málið. Á fundum Sameinuðu þjóðanna í lok ársins 1956 og í ársbyrjun 1957 undirstrikuðum við það, að við ætluðum okkur að færa út, við gætum ekki beðið lengur, við yrðum að fara að hefja framkvæmdir, og á Genfarráðstefnunni 1958, þá um veturinn, lýstum við því einnig yfir, að við mundum færa út í 12 mílur, og það gerði sjálfur utanrrh. á þeirri ráðstefnu, svo að okkar framkvæmdir í þessum efnum komu Bretum ekkert á óvart. Við Alþb.-menn vorum því ekki að knýja neitt fram í þessum efnum annað en það, að staðið yrði við gerða samninga og gefin loforð um stækkun landhelginnar. Hitt var alveg gefið mál, að það gat enginn maður stækkað íslenzku fiskveiðilandhelgina, án þess að Bretar yrðu óánægðir út í slíka ráðstöfun. Þeir, sem ætluðu því að halda vináttu við Breta á þeim grundvelil að gera þá ánægða í landhelgismálinu, hafa hlotið að hugsa sér að svíkja þjóðina um það, sem þeir voru búnir að heita henni, að stækka fiskveiðilandhelgina. Við höfðum veitt Bretum nægilega langt tóm. Þeir höfðu fengið nægilegan umþóttunartíma, ef þeir hefðu viljað sinna okkar aðvörunum, okkar tilkynningum í þessu máli. Það var því ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum.

Þá sagði hæstv. utanrrh. hér enn einu sinni, að í fyrstu tillögum, sem við hefðum lagt fram í ríkisstj. um breytingar á fiskveiðilandhelginni, hefðum við gert ráð fyrir óbreyttum grunnlínum. Hvernig getur nú staðið á því, að menn lemja höfðinu við steininn á þennan hátt? Nú liggur þetta skriflega fyrir í höndunum á ýmsum mönnum, hefur verið birt opinberlega hvað eftir annað, að við lögðum fram tillögu 28. apríl 1958 með 12 mílna útfærslu og breyttum grunnlínum. Þetta voru þær fyrstu tillögur, sem lagðar voru fram, og það var farið fram á, að samkomulag mætti takast um þetta. Till. um óbreyttar grunnlínur kom ekki fram, fyrr en það hafði verið þrautreynt, að Alþfl. fékkst ekki til þess að standa að því að breyta grunnlínunum. Hvernig getur nú staðið á því, að menn eru að endurtaka svona ósannindi út af atburðum, sem liggja alveg skjalfast fyrir?

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hefur hæstv. dómsmrh. vikið nokkrum sinnum að því, að gerð hafi verið á fyrri Genfarráðstefnunni eða lögð hafi verið þá fram till. af — vinstri stjórninni, eins og hann orðar það, sem er nú auðvitað rangt, — tillaga, sem felur í sér gerðardómsákvæði varðandi rétt okkar til fiskfriðunar utan 12 mílna markanna. Ég hef áður bent þessum hæstv. ráðh. og öðrum á það, að til er alveg óræk sönnun fyrir því, að hér fer hann með rangt mál. Ég hef lesið upp í útvarpsumr. m.a. skjal frá Davíð Ólafssyni fiskimálastjóra og Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingi, sem voru fulltrúar Íslands á þessari ráðstefnu, þar sem þeir gera grein fyrir þessari tillögu og þar sem þeir mótmæla þessu, sem hæstv. dómsmrh. er að reyna að láta skína í varðandi þessa till., en það voru þessir aðilar, sem áttu alla ábyrgð á því, að þessi till. var flutt, og án leyfis íslenzku ríkisstjórnarinnar. En þessi till. var ekki á nokkurn hátt, eins og þeir nafa réttilega bent á, varðandi það að takmarka vald Íslands varðandi stækkun íslenzku fiskveiðilögsögunnar, — ekki á nokkurn hátt um það. Þessi till., sem fól í sér gerðardómsákvæði, var eingöngu um það, að í slíkum tilfellum, þegar það kemur upp, að það er talið óhjákvæmilegt að setja reglur vegna ofveiði utan þeirra marka, sem á hverjum tíma eru í gildi sem fiskveiðilögsaga, — þegar á að setja reglur varðandi ofveiði, þá er lagt til í þessari tillögu, að strandríki skuli þó hafa forgangsrétt til veiðanna undir slíkum kringumstæðum, en gerðardómur skuli fjalla um það, hvort um ofveiði hafi verið að ræða á þessu svæði eða ekki. Tillaga þessi er því eingöngu um það, hvort gerðardómur ætti að skera úr um það, hvort ofveiði væri fyrir hendi á tilteknum svæðum, sem liggja fyrir utan fiskveiðilögsöguna, ekki fyrir utan 12 mílur, heldur bara fyrir utan fiskveiðilögsöguna, sem þá var ótakmörkuð.

Hér er því vitanlega um algeran tilbúning hjá hæstv. ráðh. að ræða, þegar hann reynir að halda því fram, að við höfum með þessu staðið að tillögu, sem sé eitthvað í þá átt, sem felst í þessu samkomulagi, sem hér liggur fyrir varðandi vald alþjóðadómstóls um fiskveiðilögsögu Íslands.

En það er ástæða til þess í þessum efnum að átta sig eilítið betur á því, sem hér hefur komið fram í þessum umr. varðandi aðalefni þessa samkomulags, sem einmitt snýr að ákvæðunum um alþjóðadómstólinn, og snýr að því, sem er meginafsalið frá Íslands hálfu, sem er varðandi það, að Ísland falli frá sínum einhliða rétti til stækkunar á sinni fiskveiðilandhelgi. Enginn vafi getur leikið á því, að í því samkomulagi, sem hér liggur fyrir, enda er í rauninni ekki borið á móti því af talsmönnum þessa samkomulags, felast þau ákvæði, að við Íslendingar afsölum okkur réttinum, sem við tókum okkur með landgrunnslögunum, til þess að við mættum ákveða fiskveiðilögsöguna á landgrunninu. Hér eftir eigum við ekki að hafa einhliða rétt til þess að lýsa yfir stærð þessarar fiskveiðilögsögu. Þessu atriði afsölum við okkur. Við erum með þessu að afsala þeim rétti, sem okkur hefur dugað bezt fram til þessa í landhelgismálinu. Við notuðum þennan rétt árið 1952, þegar við breyttum landhelginni þá. Við notuðum þennan rétt árið 1958, þegar við breyttum landhelginni. Þetta er m.ö.o. rétturinn, sem við höfum stutt allar okkar aðgerðir við. Þessum rétti erum við nú að afsala. Þetta er líka sá réttur, eins og hér hefur oft verið tekið fram í þessum umr., sem ekki færri en 31 þjóð í heiminum hefur þegar notfært sér varðandi stækkun á sinni fiskveiðilandhelgi. Og það er einmitt þessi einhliða réttur til útfærslu á fiskveiðimörkum, sem hefur orðið til þess, að nú er almennt talið, að það fari að koma að þeim tíma, að t.d. alþjóðadómstóllinn hljóti að fara að viðurkenna slíka almenna reglu eins og 12 mílur eru nú að verða sem alþjóðalög, sem dóma væri hægt að byggja á. Ég segi: það eru allmiklar líkur til þess, að sá tími sé nú að nálgast, að dómstóllinn muni fara að telja sér fært að miða við þetta. Ef við hefðum hins vegar staðið þannig að þessu máli, að við hefðum ekki verið í hópi þeirra þjóða, sem unnu að því með þessum einhliða útfærslurétti að skapa þennan þjóðarétt, þá eru engar líkur til þess, að við hefðum getað vonazt til þess, að alþjóðadómstóll gæti innan skamms farið að leggja slíkt til grundvallar dómsniðurstöðu.

Það er vert að hafa það í huga, að hæstv. forsrh., Ólafur Thors, lýsti því yfir alveg ótvírætt í umr. um landhelgismálið árið 1952, eins og hann sagði, að strandríki hefði einhliða rétt til þess að ákveða sjálft stærð fiskveiðilögsögu sinnar. Og sama árið. 1952, sagði Bjarni Benediktsson, að við mundum aldrei semja við aðrar þjóðir um stærð okkar fiskveiðilögsögu, því að Ísland hefði, eins og hann orðaði það, lagalegan og siðferðilegan rétt til þess að ákveða einhliða verndun fiskimiðanna við strendur landsins. Þennan rétt höfðum við, þennan rétt viðurkenndi forsrh. landsins 1952, þennan rétt viðurkenndi núv. hæstv. dómsmrh. 1952, á þessum rétti höfum við einmitt náð þeim árangri í útfærslu landhelginnar, sem við höfum náð. En nú er verið að snúa við blaðinu, nú er verið að reyna að gera lítið úr þessum rétti okkar og halda því fram, að þessi einhliða réttur sé enginn lagalegur réttur, hann sé í rauninni aðeins réttur þeirra, sem vilja fara ofbeldisleiðina.

En eru þá miklar líkur til þess, að ákvæðin um málskot til alþjóðadómstólsins geti komið okkur Íslendingum í stað þessa einhliða útfærsluréttar, sem við höfum haft? Eru líkur til þess? Það hefur verið á það bent hér í umr., að aðeins um einn þriðji þjóða innan Sameinuðu þjóðanna hafi fengizt til þess að lýsa því yfir, að þær vildu leggja mál sín til úrskurðar hjá alþjóðadómstólnum, en þó flestar þeirra með fyrirvara, þannig að þær vilja sjálfar geta ákvarðað um það, hvað af sínum málum þær leggi undir úrskurð dómsins. En tveir þriðju þjóðanna innan Sameinuðu þjóðanna hafa ekki viljað fallast á það að bera mál sín yfirleitt undir úrskurð dómsins. Það er líka á það bent, að af þeim 15 dómendum, sem nú eiga sæti í alþjóðadómstólnum, eru 9 sem fulltrúar þeirra þjóða, sem okkur hafa verið andstæðastar í landhelgismálinu. Það hefur verið á það bent líka í þessum umr., að í 7 ára starfi þessa dómstóls hafi það aðeins komið fyrir einu sinni í einu máli, að dómandi hafi greitt atkv. andstætt því, sem ríki hans óskaði eftir eða hafði haldið fram. Á það hefur líka verið bent í þessum umr., að alþjóðadómstóllinn hefur aldrei í sögunni kveðið upp dóm um víðáttu fiskveiðilandhelgi eða víðáttu landhelgi. Engin þjóð hefur varpað slíku máli fyrir dóminn. Hann hefur aldrei kveðið upp neinn dóm um víðáttu landhelgi. Það hefur líka verið bent á það í þessum umr., að allfjölmenn laganefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út yfirlýsingu um það, að á það væri sú nefnd ásátt þrátt fyrir mikinn ágreining að öðru leyti, að ekki væru í gildi neinar fastar reglur um víðáttu landhelgi.

Þegar menn hafa nú þessar staðreyndir í huga, þá ætla ég, að menn sjái glöggt, að það sé ólíku saman að jafna að eiga mál sín varðandi útfærslu á fiskveiðilandhelgi undir úrskurði þessa dómstóls, sem svona er ástatt um, eða hafa þann einhliða rétt, sem orðið hefur okkur happadrýgstur fram til þessa og allar aðrar þjóðir hafa orðið að notfæra sér, þegar þær hafa lagt í að stækka sína landhelgi. Það getur því ekki leikið neinn vafi á því, að það, sem er að gerast í þessum efnum, er það, að Íslendingar eru með þessu ákvæði að afsala sér þýðingarmiklum rétti, sem þeir hafa notfært sér, sem þeir hafa haft alla sína sigra af í þessu máli, en þeir eru í stað þess að skuldbinda sig að hlíta úrskurði dóms, sem getur ekki eðli málsins samkvæmt kveðið upp dóm um lögmæti stærðar eða víðáttu landhelgi.

Ég hef því haldið því fram hér í þessum umr., að það ákvæði þessa samkomulags, sem bindur Íslendinga í sambandi við frekari útfærslu landhelginnar við dómsúrskurð alþjóðadómstólsins, jafngildi raunverulega því, að um ókomin ár getum við ekki breytt okkar landhelgi til frekari útfærslu frá því, sem nú er, vegna þess að það eru engar líkur til þess, að á næstunni eða næstu áratugum fáist samkomulag með þjóðunum í heiminum, sem verði fullnægjandi til þess, að dómarar þessa alþjóðadómstóls treystu sér til þess að löggilda víðáttumeiri landhelgi en t.d. 12 mílna landhelgi. Þegar Bretar samþ. því þetta ákvæði, vita þeir, hvað þeir eru að gera. Þeir vita, að þeir eru að loka okkur hér inni, þeir eru að girða fyrir það, að við getum stefnt til frekari útfærslu, og það er líka þetta, sem aðalmenn þeirra í þessu máli segja alveg opinskátt nú um þessar mundir.

Ég vil t.d. benda á það, að nú fyrir nokkrum dögum birti hið þekkta brezka fiskveiðitímarit, Fishing News, ummæli eftir varaforseta félags brezkra togaraeigenda einmitt um þetta atriði, og orðrétt stendur í blaðinu sem hér segir: „Sem svar við spurningum eftir fundinn sagði hr. Cobley, varaforseti félags brezkra togaraeigenda: Stjórn hennar hátignar hefur unnið gott verk með því að halda Íslandi innan 12 mílna markanna. Við óttuðumst einmitt, að þeir ætluðu sér að taka miklu meira.“ Þessi aðili, sem hefur einmitt verið í hópi þeirra, sem hafa sótt fastast að okkur Íslendingum varðandi það að koma brezka veiðiflotanum sem næst ströndum okkar, veit alveg, hvað er meginkjarni þessa samkomulags, sem hér er verið að gera. Hann telur, að það hafi verið vel unnið verk hjá brezku ríkisstjórninni að takast að ná því marki að halda Íslendingum innan 12 mílna markanna, vegna þess að þeir óttuðust það mest, að við ætluðum að taka meira.

Hér hefur líka nokkuð verið rætt um grunnlínur, og það eru býsna einkennilegar umr., sem hér hafa farið fram um þær. Allir hafa auðvitað veitt því athygli, að hæstv. ríkísstjórn lagði á það megináherzlu í málflutningi sínum fyrir þessu samkomulagi, að það, sem Íslendingar væru hér að vinna með samkomulaginu, væri það, að þeir ættu að fá á fjórum stöðum mjög þýðingarmikla útfærslu á grunnlínum. Við, sem erum andstæðir þessu samkomulagi, höfum aftur á það bent, að í gildi væru alþjóðalög og reglur varðandi grunnlínur, sem bæði Bretar og Íslendingar væru aðilar að, og við hefðum því ekki með sérsamkomulagi átt að þurfa að kaupa það neinu verði. Nú vil ég spyrja: Reynir hæstv. ríkisstjórn að neita því, að árið 1958, á fyrri Genfarráðstefnunni, hafi þjóðirnar komið sér saman um fastar reglur varðandi grunnlínur, sem bæði brezka ríkisstjórnin undirskrifaði og íslenzka ríkisstj. undirskrifaði? Nei, það hefur enginn maður hér í þessum umr. treyst sér til þess að neita, því, að svona lægi málið fyrir. En fyrst við vorum orðnir ásáttir á Genfarráðstefnunni um reglur þær, sem skyldu gilda um drátt á grunnlínum, fyrst þær reglur lágu alveg mótaðar og fastar fyrir, um hvað þurfti þá að semja? Um hvað þurfti þá að semja? Í þeim efnum, eins og ég hef sagt hér áður, var hægt að skjóta máli til úrskurðar alþjóðadómstóls, því að þar hafði hann fyrirliggjandi föst lagaákvæði í mörgum greinum um það, hvernig með skyldi fara um drátt á grunnlínum. Það var hægt að fá úrskurð dómstólsins um þessi atriði. Íslendingar höfðu líka margsinnis haldið fram opinberlega, að þeir ættu rétt til þess samkvæmt alþjóðalögum að breyta þessum grunnlínum, og við höfum talið upp allmargar grunnlínubreytingar. En nú, þegar ríkisstj. Íslands gerir samkomulag við Breta í þessu máli, þá eru teknar út aðeins 4 af 11 grunnlínubreytingum, sem við Íslendingar höfum haldið fram að við ættum rétt á, þá eru teknar 4 af þeim, sem við áttum tvímælalausan rétt til samkvæmt samkomulagi, sem Bretar höfðu staðið að eins og við. Það voru teknar aðeins 4 af þessum 11 og sagt: Sjáið þið nú til, nú fáum við þessar 4 frá Bretum. — Getur það verið, að hæstv. ríkisstj. endist svona málflutningur lengi? Ég veit, að það eru eflaust til einhverjir í byrjun, sem líta á þau viðbótarsvæði, sem hér eiga að koma inn í okkar fiskveiðilögsögu, og þeir hugsa gott til þess. En þegar þeir aðilar fá að heyra það og vita, að við áttum óumdeilanlegan rétt til þess samkvæmt alþjóðasamþykkt, sem bæði við og Bretar höfðum staðið að, þá geta menn ekki metið þetta sem neinn gjaldeyri fyrir þær fórnir, sem við eigum að færa samkvæmt þessu samkomulagi.

En varðandi ákvæðin um alþjóðadómstólinn og þær skuldbindingar, sem Íslendingar eru að taka á sig í þeim efnum, er líka ekki ófróðlegt að virða það fyrir sér, hvernig þessari skuldbindingu er háttað í því samkomulagi, sem hér liggur fyrir. Jú, það er tekið fram í þessu samkomulagi, að íslenzka ríkisstjórnin skuli tilkynna þeirri brezku, ef fyrirhugað sé að færa út fiskveiðimörkin við Ísland. Þetta er auðvitað alveg einstakt fyrirbæri og óþekkt hjá öðrum. En mér dettur nú í hug að spyrja, m.a. vegna þess, að það hafa komið mjög háværar kröfur fram um það og nú endur teknar fyrir stuttu í sjálfu Bretlandi og einnig Skotlandi, að þeir færðu út sína landhelgi við Skotland, eins og skozku fiskimennirnir hafa margsinnis krafizt á undanförnum árum, en nú kemur krafan upp aftur, — verða Bretar þá að spyrja okkur? Nei, það er ekkert ákvæði um það í þessum samningi. Við höfum engan málskotsrétt til alþjóðadómstólsins í sambandi við það, sem Bretar kunna að gera í þessum efnum, hvorki á einum né öðrum stað í heiminum. Og engin þjóð, sem við vitum um, er bundin slíku ákvæði sem þessu einhliða, að hún verði að tilkynna annarri tiltekinni þjóð um fyrirætlanir sínar í þessum efnum og lúta því ákvæði að verða að leggja mál sitt undir alþjóðadómstól, ef hinn aðilinn krefst þess. Hér er alveg greinilega um að ræða einhliða afsal á réttindum af okkar hálfu, en skuldbindingar frá Breta hálfu eru hér engar.

En auk þessa meginatriðis, sem er hættulegast af öllu í þessu samkomulagi, réttindaafsals varðandi möguleika á frekari útfærslu á íslenzku fiskveiðilandhelginni, eru svo auðvitað önnur ákvæði í þessu samkomulagi, sem eru stórhættuleg, og ekki er auðvelt að meta, hvað þau geta kostað okkur Íslendinga. Það er auðvitað enginn vafi á því, að það getur orðið okkur kostnaðarsamt, Íslendingum, að heimila Bretum og öðrum fiskveiðiþjóðum að veiða upp að 6 mílna mörkunum, þótt ekki væri nema um 3 ára tímabil. Allar blekkingaráðstafanir af hálfu hæstv. ríkisstj. breyta hér engu um, slíkar reikningskúnstir eins og þær, að þegar það liggur fyrir, að það svæði í kringum landið, sem á að hleypa Bretum á, jafngildir fullum 20% af allri fiskveiðilandhelgi okkar, þá taka menn upp á því að reikna þetta niður með hinum furðulegustu reikningskúnstum og koma niður í það, að þetta sé nú ekki mikið. Fyrst reikna menn það út og segja: Á þessu tiltekna svæði við landið mega þeir bara vera í tvo mánuði, á öðru svæði mega þeir bara vera í fjóra og svo sex, svo átta o.s.frv. — Og þegar menn eru búnir að hlutfalla þetta allt saman niður, þá segja þeir: Þetta jafngildir eiginlega ekki meira en því, að þeir fengju að veiða á 5000 km2 svæði stanzlaust í þrjú ár. — Hvað á nú svona útreikningur að þýða? Þó að Bretar eða hvaða fiskveiðiþjóð sem er fengi hér ótakmarkaða heimild til þess að veiða upp að 6 mílunum, alveg ótakmarkaða heimild, þá mundi hún auðvitað aldrei veiða látlaust alla mánuði ársins á sömu fiskimiðunum. Aðili, sem væri alveg óbundinn, mundi auðvitað hreyfa sig til, eftir því sem fiskurinn veiðist á hinum ýmsu slóðum við landið. Sá aðili, sem fær því leyfi til þess að veiða á hverjum stað við landið á þeim tíma, sem þar veiðist bezt, hefur fengið allar sínar óskir uppfylltar í þessum efnum, og það þarf ekkert að reikna þetta með einhverjum dagsláttuútreikningi, eins og hér er gert.

Því hefur ekki verið hnekkt hér í þessum umr., að heimild Breta til þess að veiða upp að 6 mílum er í öllum aðalatriðum miðuð við það, að þeir fái að veiða alls staðar þar við landið, sem þeim væri hagstæðast á hverjum tíma. Það er auðvitað enginn vafi á því, að ýmsir þm. í liði ríkisstj. sjá þetta og vita, og þeir kvíða fyrir því að þurfa að taka á sig afleiðingarnar af því, sem hér er verið að gera. Það er engin tilviljun, að einmitt um það leyti sem ríkisstj. var að taka ákvörðunina um það, að hún ætlaði að hleypa erlendum fiskiflota inn í okkar fiskveiðilandhelgi, að hún ætlaði að hleypa brezka flotanum hér upp að 6 mílum, þá kom fiskimálastjóri, Sjálfstæðisflokksmaðurinn Davíð Ólafsson, með alla rófuna af sjávarútvegsþingmönnum Sjálfstfl. hér á Alþ., þá lagði hann fram till. um það, að við skyldum athuga að senda íslenzka fiskiskipaflotann, sem væri yfir 150 tonn að stærð, til fiskveiða við Afríku. Hann vissi, að hér mundi þrengjast um. Þessir aðilar vissu, að hér voru menn að tefla út í alger vandræði, og þá hvarflaði að þeim að finna einhvers staðar pláss fyrir íslenzk fiskiskip, og þá flytja menn till. hér á Alþ. um það að senda jafnvel 150 tonna báta til veiða suður við Afríkustrendur, á sama tíma sem auðvitað átti að senda brezka flotann, þúsund tonna skip þeirra, hér upp að 6 mílum. Og nú síðustu dagana, um sama leyti og var verið að kasta fram þessari till. um að hleypa Bretunum inn í landhelgina, flytur einn af sjávarútvegsþingmönnum Sjálfstfl. till. um það, að gerðar verði nú sérstakar ráðstafanir til þess að friða grunnmiðin hér við landið, friða uppeldisstöðvarnar á okkar fiskimiðum. Það fer ekki illa á því að flytja till. um þetta, á sama tíma sem menn er að gera hér till. um það að hleypa mörg hundruð erlendum veiðiskipum upp á smábátamiðin allt í kringum landið á þeim tímum, sem bátarnir stunda mest veiðar. Það fer ekki illa á því að flytja slíka till. á sama tíma.

Mér sýnist, að það, sem liggi fyrir í þessu máli, sé þetta: Hér er ætlað að gera samkomulag við Breta, sem tvímælalaust felur í sér afsal frá okkar hálfu á okkar einhliða rétti til stækkunar á fiskveiðilandhelginni. Um þetta geta varla verið deilur. Í öðru lagi felur þetta samkomulag það í sér, að ef einhver erlend þjóð, eins og t.d. Bretar, eða aðrar þjóðir, sem geta orðið aðilar að þessu samkomulagi, krefst þess, að ágreiningar, sem upp rís um útfærslu okkar fiskveiðilandhelgi, sé borinn undir úrskurð alþjóðadómstóls, þá eigum við Íslendingar einir allra að vera bundnir ef því ákvæði. Aðrar þjóðir eru það ekki. Engin þjóð hefur viljað samþ. þetta ákvæði allt fram til þessa fyrir sig. Þá liggur það einnig fyrir, að samkvæmt þessu samkomulagi eigum við, eftir því sem hér hefur verið upplýst af hæstv. ríkisstj., að vera bundnir af þessum ákvæðum um það, að við afsölum okkur einhliða rétti til útfærslu án málskots til alþjóðadómstólsins, — við eigum að vera bundnir af þeim um aldur og ævi. Þessi ákvæði eiga að vera óuppsegjanleg með öllu.

Í þessu samkomulagi felst einnig það, að Bretar og aðrar fiskveiðiþjóðir, sem veiðar stunda hér í Norður-Atlantshafi, eiga að fá heimild til þess að veiða upp að 6 mílna mörkunum í næstu 3 ár, svo að segja í kringum allt landið.

Þá sýnist mér, að það geti ekki leikið vafi á því, að hægt sé að fullyrða, að þessi samningur sé vægast sagt ótryggilega orðaður fyrir okkur Íslendinga. Í þessum umr. er búið að benda á það, að mörg ákvæði samkomulagsins eru svo vafasöm að orðalagi, að mikill vafi getur leikið á því, hvernig framkvæmdin verður, hvernig skilningur þeirra verður, sem að þessu samkomulagi standa. Það er t.d. í samkomulaginu engin bein viðurkenning á okkar 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Þar er um að ræða orðalag, sem allir vita að samkvæmt íslenzkri málvenju er ekki hið sama og að viðurkenna. Og við höfum það líka fyrir okkur, að Bretar hafa sjálfir litið öðruvísi á þetta orðalag en orðalagið að viðurkenna. Þannig hafa þeir komið fram við okkur í landhelgisdeilunni hér áður. Því verður ekki heldur neitað, að í samkomulaginu er ekki eitt einasta orð, sem á ótvíræðan hátt skuldbindur Breta til þess að fara út úr okkar fiskveiðilandhelgi að þriggja ára tímabilinu liðnu, — ekki eitt einasta orð, sem skuldbindur þá tvímælalaust. Þvert á móti er orðalag samningsins þannig, að það er eins og það sé sniðið með tilliti til þess, að Bretar geti sagt á eftir, að þeir hafi aldrei með þessu samkomulagi tekið á sig skuldbindingar, sem stæðu nema í þrjú ár.

Þetta er meginniðurstaðan. Og það, sem vinnst í þessum efnum, er það, að Bretar hætta þessum fíflaskap, sem ég hef hér orðað, að þeir hafa leikið hér innan okkar landhelgi nú um 21/2 árs skeið, þeim fíflaskap, sem aldrei gat borið nafnið fiskveiðar og var alveg vitað mál að hvorki brezkir sjómenn, brezkir útgerðarmenn né brezk stjórnarvöld vildu standa að lengur. Það hafði verið reiknað út af íslenzku landhelgisgæzlunni á sínum tíma og gefið opinberlega út, að básarnir, sem Bretar höfðu tekið sér úr okkar fiskveiðilandhelgi, þar sem þeir voru að leika þennan fíflaskap sinn, jafngiltu í kringum 31/2% af okkar fiskveiðilandhelgi allri, og þessi litlu svæði voru þess eðlis, að það var útilokað að fiska þar. En þau urðu til þess að geyma þar brezku skipin og halda þeim frá því að veiða annars staðar á Íslandsmiðum á sama tíma. Í staðinn fyrir þessi 31/2% af fiskveiðilandhelginni, sem Bretar gátu leikið þennan sinn leik á, á nú að afhenda þeim rösklega 20% af allri fiskveiðilandhelginni í 3 ár að minnsta kosti. Telja einhverjir, að þetta sé vinningur fyrir fiskveiðimálefni Íslands og fiskfriðunarmál hér á Íslandsmiðum? Eru þeir menn einhverjir til, sem raunverulega halda því fram, að það muni vera betra fyrir fiskveiðar Íslendinga og fiskfriðunarmálin hér við Ísland að hleypa brezka veiðiflotanum og veiðiflota annarra landa inn á 20% af allri okkar fiskveiðilandhelgi eða upp að 6 mílum um þriggja ára skeið, heldur en þó að við þyrftum að horfa upp á Breta leika þennan fíflaskap sinn í básunum, sem þeir hafa gert nú 21/2 ár? Nei, frá fiskveiðisjónarmiði sjá allir, að hér er um gífurlegt tjón að ræða fyrir okkur Íslendinga, en ekki öfugt, eins og látið hefur verið í skína.

Við höfum hér, þeir sem hafa talað á móti þessari þáltill. ríkisstj., lagt á það mikla áherzlu hér í þessum umr., að hæstv. ríkisstj. vildi fallast á það sem lágmarkskröfu okkar að láta þetta samkomulag við Breta ekki öðlast fullnaðargildi, fyrr en meiri hl. þjóðarinnar hefði þá staðfest það í þjóðaratkvgr. Er nú til mikils mælzt að fara fram á það við ríkisstj., sem aðeins styðst við knappan meiri hl. á Alþingi. að hún skuldbindi þjóðina ekki um alla framtíð til þess að afsala sér jafnmikilvægum réttindum, sem hún hefur haft og stuðzt við fram til þessa í sinni landhelgismálabaráttu? Er til mikils mælzt að fara fram á það við ríkisstj., sem stendur jafnknappt og sú stjórn, sem nú situr á Íslandi. að hún bindi þjóðina ekki um alla framtíð á þennan hátt? Það getur engum manni dulizt, að neiti ríkisstj. að bera þetta mál undir þjóðaratkvæði, þá er það vegna þess, að hún veit, að meiri hl. þjóðarinnar er á móti þessu samkomulagi. En hvað er þá hæstv. ríkisstj. að gera, ef hún ætlar að gera þennan samning við Bretann gegn vilja meiri hl. þjóðarinnar? Slíkt er ofbeldisaðgerð og ekkert annað, og við slíkt verður vitanlega ekki unað.

Ég vil svo að lokum vekja enn athygli á því, að báðir andstöðuflokkar hæstv. ríkisstj. hér á Alþingi hafa gefið út yfirlýsingar um það, að þeir telji þjóðina ekki skuldbundna af þessum samningi, þó að hann verði samþ. hér á Alþingi og af hæstv. ríkisstj., og að þeir muni báðir beita sér fyrir því að losa þjóðina undan oki þessa samkomulags, svo fljótt sem tök eru á. Ég hef sagt það hér áður í þessum umr. og endurtek það hér enn: Þessi svikasamningur, sem hér er ráðgert að gera, getur aldrei verið i gildi lengur en sú ríkisstj., sem nú situr við völd, situr þar. Um leið og hún fer frá völdum, fellur þessi samningur líka úr gildi. Það verður reynt að sjá til þess af þjóðinni, að nýr meiri hl., sem skapast á Alþingi, uni ekki við þennan samning. Og við skulum vona, að það verði ekki langt eftir því að bíða, að þær kosningar komi í þessu landi, að sá dómur verði kveðinn upp yfir þessari ríkisstj. og þessum samningi, sem með þarf.