13.10.1960
Efri deild: 3. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

5. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í gildandi lögum er hlutatala í happdrætti háskólans ákveðin 55 þús. hin mesta. Stjórn happdrættisins hefur mælzt til þess að fá heimild til fjölgunar á hlutamiðum. Hlutatalan er nú bundin í lögum, en eðlilegast og haganlegast þykir að breyta því þannig, að þessum málum verði skipað með reglugerðarákvæði, svo sem nú er gert í lögum um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Þykir eðlilegt og sjálfsagt að verða við óskum stjórnar happdrættis háskólans, og er efni þessa frv. það, að hlutatalan verði ekki bundin í lögum, eins og nú er, heldur ákveðin í reglugerð. Er þá að sjálfsögðu haft í huga, ef frv. verður samþykkt, að hámarkshlutatalan verði hækkuð í samræmi við óskir happdrættisstjórnar.