13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (2715)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ástæðan til þess, að útvarpsumr. um vantraust á ríkisstjórnina hafa dregizt svo mjög, er sú, að ríkisstjórnin krafðist þess, sem forseti sameinaðs Alþingis tók til greina, að afgreiða þáltill. um landhelgismálið, áður en umr. um vantraustið færi fram. Þessi háttur á málum er nokkuð umhendis, því þótt næg tilefni séu til að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, er þetta vantraust þó fyrst og fremst borið fram vegna aðgerða ríkisstj. í landhelgismálinu og til þess að sannprófa, hvort ekki finnist í stjórnarliðinu hér á Alþ. þingmenn, sem telji, að bikar ríkisstj. sé fullur.

Mér vinnst ekki tími til að ræða uppgjöf ríkisstj. í efnahagsmálum, enda gert af öðrum svo sem tími vinnst til.

Síðan landhelgismálið var rætt í útvarpi frá Alþ., hefur ýmislegt skýrzt nokkuð, og skal það rakið. Það hafa ekki fengizt á því neinar frambærilegar skýringar frá ríkisstj., hvað hefur knúið hana til að gera þennan samning með fordæmalausum réttindaafsölum og það eftir að allar þjóðir höfðu viðurkennt landhelgi okkar í verki og Bretar höfðu orðið sér til minnkunar og orðið að gefast upp. vegna þess að ofbeldið svaraði ekki kostnaði. Helzt má skilja á ummælum ráðherra, að uppgjöfinni valdi nýjar hótanir Breta um ofbeldi, en auðvitað er það þá tvöfeldni ríkisstj. og linka, sem hefur framkallað þær hótanir.

Ríkisstj. hefur hvað eftir annað borið fyrir sig þrjár afsakanir, allar falskar: að samningurinn nú sé svipaður og till., sem Íslendingar báru fram í Genf 1958 og 1960, að það sé eins og það, sem vinstri stjórnin léði máls á 1958, og að okkur sæmi ekki annað, enda bezt borgið með því að láta alþjóðadómstólinn dæma í málum okkar.

Till., sem íslenzka sendinefndin bar fram í Genf, var um það, að ríki, sem væru sérstaklega háð fiskveiðum, gætu sér til hagsbóta krafizt friðunar á veiðisvæðum utan landhelginnar, eins og hún er á hverjum tíma, og skyldu vísindamenn og gerðardómur ákveða, hvort friðunar væri þörf. Þetta er auðvitað gerólíkt því að leggja stærð landhelginnar undir alþjóðadóm, eins og Davíð Ólafsson og Hans Andersen sýndu fram á með skýrum rökum í bók, sem gefin var út um ráðstefnuna í Genf 1958.

Margsinnis hefur verið sýnt og sannað, að 1958 var vinstri stjórnin að fullnægja lögboðinni sáttatilraun við NATO-ríkin, þar sem reynt var á undirbúningsstigi að fá viðurkenningu þeirra fyrir einhliða rétti okkar til útfærslu í 12 mílur, áður en reglugerðin tók gildi og áður en nokkur sýndi okkur ofbeldi. Nú höfum við samið við einu ofbeldisþjóðina án þess að fá viðurkenningu hennar beinum orðum, en viðurkennum sjálfir, þótt rangt sé, með því að opna aftur landhelgina fyrir erlendum skipum, að við höfum verið óheimildarmenn að útfærslunni 1958.

En auk alls þessa er svo í þokkabót gert það, sem engum íslendingi hefur fram til þessa komið til hugar að ljá máls á, að afsala réttindum um aldur og ævi.

Nú hefur það skeð, að þessi ríkisstj. hefur sett þjóðina undir það ok að mega ekki breyta svo mikið sem einni grunnlínu, ekki færa út landhelgina um einn metra án þess að sækja um leyfi til ofbeldisþjóðarinnar og leggja málið undir alþjóðadómstólinn, þar sem Bretar ásamt öðrum andstæðingum okkar hafa meiri hluta og miklu sterkari aðstöðu til málafylgju. Þetta nálgast það að selja Bretum, versta andstæðingi okkar í landhelgismálinu, sjálfdæmi í málinu.

Íhaldssemi alþjóðadómstólsins kom vel í ljós í máli Noregs og Bretlands um, hvort leyfilegt væri að draga beinar grunnlínur fyrir firði og flóa. Beinar grunnlínur höfðu verið í gildi í Noregi og hjá fjölda þjóða um óratíma. Samt fengust aðeins 8 dómarar af 15 til þess að samþ. þessa reglu. Bretar vita eins og endranær, hvað þeir eru að gera með því að draga okkur fyrir þennan dóm um aldur og ævi. Hitt gegnir furðu, að nokkur íslenzk ríkisstjórn skuli selja undir þennan dóm, sem smærri þjóðirnar treysta mjög takmarkað, stærsta lífshagsmuna- og sjálfstæðismál þjóðarinnar, því að helgun okkar á landgrunninu er lífsbjargarnauðsyn þjóðar, sem tvöfaldast að mannfjölda á næstu 30–40 árum.

Ég vík nú að einu því furðulegasta, sem komið hefur fram í þessum umr. Utanrrh. sagði, aðspurður á Alþ. 7. febr., að ríkisstj. hefði engar till. gert í viðræðunum víð Breta í landhelgismálinu. En Alþýðublaðið upplýsir 5. þ.m., að samningar hefðu tekizt á tveim fundum, sem Guðmundur Í. Guðmundsson og brezki utanrrh. hefðu átt með sér fyrir jólin í skrifstofu brezka utanrrh. í Downing Street. Eftir þessu að dæma er málsmeðferðin sú, að orðsending íslenzka utanrrh. er samin í utanrrn. brezka. Guðmundur Í. Guðmundsson tekur hana með sér til Íslands. Hún er skoðuð hér af ríkisstj., og síðan sendir hún hana aftur sem tilboð til Downing Street, þaðan sem hún er upprunnin. Það fer ýmsum að skiljast, hvers vegna ekki má breyta einum stafkrók í þessari tvíræðu og loðnu orðsendingu.

Í orðsendingunni er tekið svo til orða, að Bretar falli frá mótmælum á 12 mílna landhelgi Íslands. Ríkisstj. segir, að þetta þýði hið sama og að viðurkenna landhelgina óafturkallanlega, og safnar um það vottorðum. Hernámssamningurinn við Bandaríkin 1941 var óljós að orðalagi á einum stað. Bandaríkin sögðu, að vegna þessa orðalags væri þeim ekki skylt að hverfa héðan með herinn, þegar vopnaviðskiptum lauk, og við það sat. Ef „falla frá mótmælum“ þýðir sama og viðurkenna, hvers vegna má þá ekki nota hin réttu og skiljanlegu orð? Dettur nokkrum í hug, að sérfræðingar Breta, sem ákváðu þetta orðalag, hafi ekki gert það í ákveðnum tilgangi, sem eigi að nota á sínum tíma?

Í orðsendingunni er hvergi tekið fram einu orði, að Bretar lofi að hverfa úr íslenzkri landhelgi eftir þrjú ár. Stjórnarandstaðan bar fram þá brtt. að Bretar skuldbyndu sig til að hverfa héðan með skip sín að þrem árum liðnum. Till. var felld. En í stað þess dró utanrrh. upp leynibréf til sín frá brezku ríkisstj., þar sem hún segir, að hún hafi ekki í huga að krefjast framlengingar á fiskveiðum í landhelgi eftir þrjú ár. Þetta er tryggingin, sem okkur er boðin. Hvað halda menn að yrði úr svona tryggingu í höndum núv. stjórnar? Hvenær hefur verið guggnað fyrir brezku ofbeldi, án þess það hafi fært sig enn meira upp á skaftið?

En þótt allt þetta séu stór atriði, er þó enn ótalið það atriði orðsendingarinnar, sem er stærst og hættulegast. Það er afsal okkar Íslendinga á því að mega um aldur og ævi færa út landhelgina nema með samþykki Breta eða alþjóðadómstóls. Þetta er auk alls annars aðalinntak samningsins, segja brezk blöð, sem bezt vita. Við höfum í 13 ár reynt að ná í þetta réttindaafsal úr hendi Íslands, en árangurslaust. Nú höfum við náð því, og það er aðalatriðið. Nú getum við haldið íslendingum innan við 12 mílur. Við héldum, að þeir mundu heimta miklu meira, segir blað brezkra togaraeigenda. Það er rétt. Bretar hafa í mörg ár setið um að ná í þetta fjöregg okkar, eins og kölski um synduga sál og nú hafa þeir náð því úr hendi íslenzku ríkisstj. Þeir hafa afvopnað okkur. Þeir hafa kúgað ríkisstj. eða lokkað til þess að afhenda þeim það vopn, sem okkur hefur eitt dugað til þess að stækka landhelgi okkar, fyrst í 4 mílur, síðan í 12. Án þessa vopns væri landhelgin sennilega 3 mílur enn í dag. Um 30 þjóðir í heiminum hafa nú 12 mílna landhelgi og sumar þeirra meira, allt unnið með þessu vopni, einblína útfærslu. Engin þessara þjóða nema við hefur, svo að ég viti, látið þröngva sér til að afhenda þetta vopn og selja stærð landhelgi sinnar undir alþjóðadómstólinn. Þess vegna er enginn dómur frá alþjóðadómstólnum til um stærð landhelgi. Við höfum alltaf fram á þennan dag sagt, hvaða ríkisstjórn sem hefur setið að völdum: Ef þær þjóðir aðrar, sem hafa 12 mílna landhelgi og meira, gangast undir það að láta alþjóðadómstólinn dæma um stærð landhelginnar, skulum við einnig gera það. En að við, sú þjóð, sem þarf stærstu landhelgi, gerum þetta einir þjóða, kemur aldrei til mála. — Nú hefur þetta gerzt.

Undanfarin ár hefur landhelgi smærri og sumpart undirokaðra þjóða sífellt verið að stækka. Þær hafa brotið sér leið og byggt á siðferðilegum og landfræðilegum rétti, þótt ekki hafi verið viðurkennt sem alþjóðalög. Þetta hefur ekki verið í andstöðu við réttinn, en ekki heldur samkvæmt neinum viðurkenndum alþjóðalögum. Við höfum verið í þessari fylkingu þjóða, sem með siðferðilegum og landfræðilegum rétti hafa verið að skapa þessa þróun. Nú gerumst við einir liðhlaupar úr þessari fylkingu og verðum í þess stað forustuþjóð í því að láta binda hendur okkar í þá tvöföldu fjötra að þurfa að sækja um leyfi til frekari stækkunar — og það til þjóðar, sem hefur misboðið okkur með ofbeldi. Og ef Bretar óska, verðum við að fara fyrir alþjóðadóm. Hvað yrði um framtíðarstækkun landhelgi, ef forustuþjóðirnar í þeirri baráttu gerðu sama og við, afhentu vopn sín og létu binda hendur sínar?

Bretar hafa fyrr og síðar haldið því fram, að þeir ættu sögulegan rétt til landgrunnsins í kringum Ísland, því að þeir hefðu byrjað að fiska það löngu á undan íslendingum. Með því að láta Íslendinga gangast undir tilkynningarskylduna eru Bretar að reyna að láta líta svo út, að í þessu felist viðurkenning þess, að þeir eigi rétt til landgrunnsins móts við Íslendinga sjálfa. Í þessu felst stórkostleg hætta síðar meir.

Það var ófrávíkjanleg regla, sem Jón Sigurðsson setti í sjálfstæðisbaráttunni, að afsala aldrei réttindum, hvaða fríðindi sem voru í boði. Á þjóðafundinum 1851 var lagt fram af Dana hálfu frv. um stjórnarfyrirkomulag Íslands. Ýmsum fríðindum var heitið gegn réttindaafsölun. Hótað var þá, að ef við Íslendingar ekki samþ. þetta frv., fengjum við aldrei neitt. Íslendingar höfnuðu þessu boði — og er sú saga kunn. Um þetta segir Eiríkur Briem í ævisögu Jóns Sigurðssonar:

„Hefðu Íslendingar sætt sig við frv. þetta, þá hefði verið úti um öll þjóðleg réttindi þeirra“, og enn fremur: „Þjóðlífi Íslendinga hafði verið háski búinn, en honum var nú afstýrt.“

Sagan sannaði, eins og endranær, þótt bið yrði á því, að ofbeldið guggnaði fyrir einhug og manndómi. Vegna þess að Íslendinga skorti hvorugt þá og síðar, endurheimtum við landið okkar.

Landgrunnið okkar varð og verður að endurheimta með sömu vinnubrögðum. Stjórnarandstaðan nú bauð fram einhug til að standa gegn ofbeldi Breta. Þeir voru að hopa. það veit allur heimur. En í stað þess að standa nú einhuga á réttinum með manndómi og fullkomna sigurinn, eins og áður var gert, guggnar ríkisstjórnin og afsalar sérrétti okkar til þess, sem okkur er dýrmætast næst landinu sjálfu, landgrunnsins, niðurlægir okkur undir leyfisbeiðni til Breta og lögsögn alþjóðadómstóls, sem andstæðingar okkar ráða. Og þessu réttindaafsali verður ekki náð til baka nema með langri og þrotlausri baráttu.

Hér er brotið blað í Íslandssögunni. Ríkisstj. hefur unnið sér til óhelgi um margt. En þótt ekki væri nema þetta eitt, á hún að víkja, áður en hún vinnur meira tjón. — Verið þið sæl.