09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í D-deild Alþingistíðinda. (2828)

87. mál, styrkir til landbúnaðarins

Garðar Halldórsson:

Herra forseti. Öldum saman lifði íslenzka þjóðin á landinu og landbúnaði, með þeirri litlu viðbót, sem unnt var að hafa af fiskveiðum uppi við landsteina. Aðstaða til allrar framleiðslu var frumstæð og fábrotin, allt byggðist á mannsaflinu. Öll tæki varð að gera í landinu. Orfið og hrífuna, færið og öngulinn bjuggu forfeður okkar til sjálfir. Jafnvel járnið í öngulinn var reynt að vinna hér. Það voru ekki skilyrði til annars en að lifa af landinu. Þegar illa áraði, varð fóðuröflunin oft lítil, með þeim afleiðingum, að búféð féll, fólkið svalt og jafnvel dó úr ófeiti, eins og það er orðað í annálum. Með tilkomu tækninnar, sem að vísu var lengi lítil, breyttist þetta, fyrst mjög hægfara, en síðan með meiri hraða. Það var farið að nota erlend efni í færin og erlenda öngla, og það komu járntindar í hrífurnar í stað trétinda áður. Bátarnir stækkuðu, og það komu vélar í þá. Þar með var miklu erfiði létt af mannshendinni, og þar með óx aflinn, hungurvofan fjarlægðist. Það var farið að slétta túnblettina í sveitunum, að vísu með handafli einu fyrst í stað. Þar á eftir komu sláttu- og rakstrarvélar, heyfengurinn óx, bústofninn stækkaði, fellishættan fjarlægðist. Og enn stækkuðu skipin og veiðitæknin öx og þar með aflinn, því að sjaldnast vantaði fiskinn. Fólk fór að setjast að við sjóinn til þess að vinna að mestu eða öllu við útgerðina og sjávaraflann. Tæknin við útveginn óx svo hratt, að nálgaðist byltingu. Á fáum áratugum var sjávarútvegurinn byggður upp sem vélvæddur atvinnuvegur, er sogaði til sín fólkið úr sveitunum. En á sama tíma og sjávarútvegurinn umskapaðist með byltingankenndum hraða frá róðrarbátum og seglskipum til vélbáta og togara, frá íshúsum, sem byggðu á íssöfnun að vetrarlagi, til íshúsa með frystivéfum, — á sama tíma. tekur landbúnaðurinn litlum breytingum í tæknilegum búnaði, en fólkinu, sem að honum vann, fækkaði óðfluga. Landbúnaðurinn hafði ekki skilyrði til að keppa við sjávarútveginn um vinnuaflið, þar sem hann varð alllangt á eftir í uppbyggingu og vélvæðingu.

En þegar svo var komið, að mjólkurvörur skorti til neyzlu við sjávarsíðuna, opnuðust augu manna fyrir því, að ekki mátti við svo búið standa. Það var ekki hægt margra hluta vegna að grundvalla þjóðfélagið á sjávarútvegi einum og þeim iðnaði, sem eðlilega fylgdi honum. Það varð að efla landbúnaðinn til samræmis við sjávarútveginn. Mörgum bændum var þetta löngu ljóst, en þeir fengu litlu áorkað. Fjármagn vantaði til verulegra umbóta, peningastofnanir voru ekki opnar fyrir bændum. En um þetta bil var farið að velta lítils háttar framlög úr landssjóði til umbóta í sveitunum. Það munaði að vísu lengi lítið um þetta, enda miðaði hægt allt til um það bil fyrir aldarfjórðungi.

En til hvers er ég að rifja þetta upp? Það er vegna þess, að þetta allt og miklu fleira er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar svo er komið, að það getur gerzt hér á hinu háa Alþingi, að flutt er till. til þál. eins og sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 96. Af texta tillögunnar er næsta erfitt að gizka á tilgang flm., hv. 9. landsk., með flutningi till. Till. fjallar um að rannsaka, hvort og hve mikið bændastéttin og landbúnaðurinn njóti styrkja, framlaga og fríðinda af hálfu hins opinbera umfram aðrar stéttir og atvinnuvegi. Það á ekki að rannsaka, hvort umrædd framlög séu landbúnaðinum nauðsynleg eða hvort yfirleitt landbúnaður yrði stundaður hér á landi án þeirra. Það á ekki að rannsaka framlag landbúnaðarins í þjóðarbúið, sem auk framleiðslu matvælanna hefur alið upp allar þær þúsundir fólks, sem þaðan hafa flutzt til annarra atvinnuvega, og það á ekki heldur að rannsaka, hve margt fólk í öðrum atvinnugreinum hefur beint og óbeint framfæri sitt af landbúnaði vegna atvinnu við vinnslu, verzlun og flutninga. Hv. flm. hefur ekki heldur áhuga á að láta rannsaka, hvernig aðrar þjóðir búa að sínum landbúnaði, samanborið við það, sem hér er, og með hliðsjón af aðstæðum. Öll þessi atriði þarf þó að athuga og fræða þjóðina um. Það hefði verið verðugt viðfangsefni fyrir hv. flm. að beita sér fyrir slíkri rannsókn. Ég held, að hann hefði haft meiri heiður af flutningi slíkrar till. en þessarar, sem er á þskj. 96. En öll þessi atriði telur hv. flm. auðsjáanlega ekki skipta máll. Hitt er hv. flm. aðalatriði, að vita, hvort landbúnaðurinn fái eitthvað meira í sinn hlut í krónutölu en aðrir atvinnuvegir.

En hverju á flutningur þessarar till. að þjóna? Það þarf að þekkja hv. þm. til þess að skilja það. Atvik, sem hér gerðist á hv. Alþ. á s.l. vetri, varpar kannske svolitlu ljósi á þetta. Fjvn. flutti óskipt og ágreiningslaust brtt. við fjárlögin, brtt., sem var til leiðréttingar á framlagi til Búnaðarfélags Íslands og hækkaði framlagið um 260 þús. kr. Þegar til atkvæða kom hér í sameinuðu Alþingi, greiðir hv. 9. landsk., einn allra alþm., atkv. gegn þessari till., sem fjvn. flutti samhljóða. Þar skein í innrætið, hina neikvæðu afstöðu hv. flm. til landbúnaðarins og fólksins, sem að honum vinnur.

Á þskj. 104 flytjum við hv. 5. þm. Austf. brtt. við þáltill. á þskj. 96. Með þessari breyt. teljum við, að þáltill. mætti verða til nokkurs gagns, hefði jákvæðan tilgang. Sú rannsókn, sem við leggjum til að gerð verði, er nauðsynleg vegna hinnar öru fjölgunar þjóðarinnar. Framleiðsla landbúnaðarafurða þarfnast svo mikils undirbúnings, að það mun ekki af veita að fara í alvöru að hugsa fyrir, hvernig á að mæta aukinni þörf fyrir landbúnaðarvörur, auk þess sem hiklaust ber að stefna að því, að landbúnaðurinn geti aflað gjaldeyristekna með sölu nokkurs hluta framleiðslunnar á erlendan markað.

Í þessu sambandi og að gefnu því tilefni, sem felst í þáltill. á þskj. 96, þykir mér rétt að víkja fáum orðum að því, sem gerzt hefur í íslenzkum landbúnaði undanfarin ár. En ég vil fyrst aðeins benda á, að án þeirra framfara, sem orðið hafa í íslenzkum landbúnaði síðan 1950, mundum við hafa verið þannig á vegi staddir með framleiðsluna í dag, að það hefði þurft að flytja inn landbúnaðarvörur fyrir um 300 millj. kr. á ári til þess að fullnægja neyzluþörfinni. Árabil það, sem ég miða við í þessum samanburði sem ég ætla að gera í örstuttu máli, eru 8 ár eða árin 1951 til og með 1958, en það er ekki hægt að fara nær árinu í ár, vegna þess að skýrslur liggja ekki fyrir enn. Á þessum 8 árum hefur mjólkurframleiðslan vaxið um 23 millj. lítra, kjötframleiðslan hefur vaxið á 8. þús. tonn, töðuframleiðslan hefur vaxið um rúmlega í millj. hestburða, ræktaðir hafa verið 28 þús. hektarar, vélgrafnir skurðir eru yfir 6 þús. km og 26 millj. m3, handgrafnir skurðir eru um 220 þús. m3, handgrafin lokræsi eru 153 km, grjótnám er yfir 200 þús. m3, girðingar hafa verið lagðar nálega 3500 km, byggðar hafa verið áburðargeymslur nálega 140 þús. m3, þurrheyshlöður um 820 þús. m3 og votheysgeymslur rúmlega 144 þús. m3. Sett hafa verið upp í kringum 1700 súgþurrkunartæki, og þær hlöður, sem þau eru i, eru að flatarmáli 55660 m2. Kartöflugeymslur hafa verið byggðar 23 þús. m3. Því miður liggja ekki fyrir skýrslur um það, hvað byggt hefur verið yfir marga nautgripi og sauðkindur, en það er mikið, sem byggt hefur verið á þessum árum yfir búfé, eins og gefur að skilja af því t.d., að á þessum árum hefur sauðfé fjölgað um 360 þús. Þá hafa á þessum sömu árum verið keyptar rösklega 3500 dráttarvélar, auk annarra tækja, sem þeim þurfa að fylgja, og annarra verkfæra.

Það gefur auga leið, að allar þessar umbætur, ræktun, byggingar og vélvæðing, hafa kostað stórfé. Ætla ég, að engum, sem ber skyn á þessa hluti, blöskri það þótt ríkið hafi lagt til í jarðræktarframlag á þessum 8 árum 128 millj. kr. og gert ræktunar- og byggingarsjóði mögulegt að lána til framkvæmdanna í sveitunum 280 millj. Það er lítill hluti, sáralítill hluti af því, sem þessar umbætur hafa raunverulega kostað. Og þess er rétt líka að gæta, að á sama tíma og þetta gerist í sveitunum fækkar vinnandi fólki við landbúnaðinn um 700 manns og aðkeypt vinna við landbúnaðarframleiðsluna minnkar um 17% að magni til.

Í sambandi við þessa till. sem hér er til umr., væri einnig ástæða til að athuga dálítið, hvernig nágrannaþjóðir okkar búa að sínum landbúnaði, en ég skal ekki fara nema örstutt út í það, aðeins nefna fá dæmi frá tveimur löndum, Bretlandi og Noregi, dæmi um það, hvað ríkin þau leggja fram til landbúnaðar.

Í Bretlandi er ræktunarframlag 7–12 pund á ekru – en ekran er aðeins röskir 4 þús. m2 fyrir að plægja upp gamalt graslendi. Vitanlega er ekki um óræktað land að ræða í Bretlandi, það er naumast til, heldur er þetta fyrir að vinna upp áður ræktað land. Þetta framlag er misjafnt eftir því, hvað landið er erfitt, og eftir því, hve lengi það hefur verið óhreyft. Og áburður er greiddur niður í Bretlandi, misjafnt eftir landshlutum og aðstæðum, en það getur orðið allt að heimingi verðs áburðar og kalks, sem þar þarf að bera á jarðveginn. Til byggingar votheysgeymslna er greiddur hálfur byggingarkostnaður, þó ekki yfir 250 sterlingapund á hverja geymslu. Til vatnsveitna er greiddur styrkur allt að hálfum kostnaði. Smábýli eru þar aðstoðuð með allt að 100 sterlingspundum, ef bændurnir á þeim gera 3–5 ára áætlun um jarðabætur, er miða að því að bæta afkomu búanna. Umbótastyrkur er greiddur í Bretlandi allt að 1/3 af kostnaði við umbætur á flestum múr- og naglföstum tækjum og byggingum öðrum en íbúðarhúsum. Þetta nær yfir vegi, brýr, gripagrindur, girðingar, réttir, rafmagn, skýlisveggi og framræslu. Í ýmsum tilfellum veltast styrkir til tilraunabygginga, allt að hálfum kostnaði. Þá er komið að framleiðslunni, búfénu. Styrkur á geldneyti vegna kjötframleiðslu er 9 pund og 5 shillingar árlega, og á hverja kú, sem skilar kálfi, er einnig greiddur styrkur. Það er líka misjafnt eftir landshlutum. Það er mest í hálendi Skotlands og það framlag er allt að 12 sterlingspundum og 10 shillingum á ári, og er þá samanlagt orðið á kúna og kálfinn, sem undan henni kemur, nálega 23 sterlingspund á ári.

Ég kom allra snöggvast til þessara landa í sumar og hitti bændur meðal annars í hálendi Skotlands, og þar töldu þeir, að án þessa styrks héldist ekki byggð á þeim jörðum. En ríkið greiðir framlög til þeirra. Brezka ríkið telur sér hag í því að efla landbúnaðinn.

Ég skal svo láta þessi dæmi nægja frá Bretlandi, en víkja að Noregi. Þar er greitt vegna jarðræktar upp að 20 hektörum á jörð allt að 2800 norskar kr. á hektara, en 2800 norskar kr. munu nú í dag samsvara nálega 15 þús. ísi. kr. Vatnsveitur eru í Noregi styrktar með 35% af kostnaði. Ræktunarvegir, sem eru yfir í km á lengd, eru styrktir að hálfu, þ.e. ríkið greiðir hálfan kostnað af lagningu ræktunarvega, ef þeir fara yfir í km. þó ekki yfir 25 þús. norskar kr. í stað, það er eins og þið sjáið nokkuð á annað hundrað þús. ísl. kr. Til endurbyggingar útihúsa er veitt allt að 15 þús. norskum kr. á býli, til byggingar votheysgeymslna allt að 60% kostnaðar, hámark 1500 norskar kr. Til aðstoðar þeim, sem eru að byrja búskap, reisa bú, er veittur styrkur eða framlag allt að 9 þús. kr. til útihúsabygginga og allt að 3200 kr. — hvort tveggja norskar kr. — til íbúðarhúsabygginga, samtals allt að 12200 norskum kr. Auk þess eiga þessir menn kost á láni vaxtalausu í 7 ár, að upphæð 40 þús. norskar kr., og geta þar að auki fengið 10 þús. norskar krónur að láni með vöxtum. Beri menn svo þessi dæmi saman við það, hvernig búið er að landbúnaði hér á landi.

Einnig er rétt í þessu sambandi að vekja athygli á, hversu mikið líklegt er að landbúnaðurinn þurfi að auka framleiðsluna á næstu árum vegna fólksfjölgunar í landinu, þótt ekki sé við annað miðað en líklega innanlandsþörf. Kunnugt er, að á s.1. vetri nægði ekki mjólkurframleiðslan. Það varð að flytja inn smjör, og rétt að skjóta hérna inn í, að innflutta danska smjörið varð dýrara en íslenzka smjörið. Það verður ekki fullkomlega séð enn, hvort mjólkurframleiðslan nægir í vetur, en það eru a.m.k. ekki líkur til að hún verði meiri en þarf. Það má vera, að það aðeins merjist án innflutnings smjörs. Það liggur því fyrir, að það þarf að auka mjólkurframleiðsluna í landinu í réttu hlutfalli við fólksfjölgunina, og ef fólksfjölgunin verður ámóta mikil hlutfallslega til aldamóta og hún hefur verið s.l. áratug, þá lætur nærri, að fjölga þurfi kúm í landinu á næsta áratug fram að 1970 um 7800 kýr, á áratugnum 1970–80 9200, á áratugnum 1980–90 11400 og síðasta áratuginn af öldinni 14200, eða samtals 43200 kýr. Á þessum 40 árum, sem eftir eru til aldamóta, þarf að gera meira en að tvöfalda nautgripastofninn í landinu til þess eins að fullnægja líklegri innanlandsþörf, ef þjóðinni fjölgar með sama hraða á þessum tíma og verið hefur.

Kjötframleiðslan er núna í augnablikinu lítið eitt meiri en innanlandsneyzlan, en þó ekki meiri en það, að á næstu 40 árum þori allt að því að tvöfalda hana, og tilsvarandi framleiðsluaukning og þó raunar nokkru meiri þarf eðlilega að verði á kartöflum, eggjum, grænmetisræktun og gróðurhúsaframleiðslu.

Það ættu því ekki að vera skiptar skoðanir um, að mikil verkefni eru fram undan, og það verður að hafa opin augu fyrir því, að þau verkefni leysast ekki af sjálfu sér. Bændurnir í landinu hafa á undanförnum árum vissulega lagt hart að sér við uppbyggingu landbúnaðarins, enda áorkað miklu. Þetta hafa þeir ekki gert fyrst og fremst til hagsbóta fyrir sjálfa sig, heldur hefur þjóðfélagið í heild notið starfa þeirra. Þeir hafa ekki stefnt að því að alheimta daglaun að kvöldum, það er ekki hægt í landbúnaði. Það gengur enginn bóndi þess dulinn, að það fjár,magn og sú orka, sem hann leggur í umbætur, ræktun og byggingar á jörðinni sinni, verður honum ekki endurgoldin nema að nokkru leyti gegnum afrakstur búskaparins og ekki heldur þótt hann selji jörðina. En bóndinn veit, að það, sem þar ber á milli, kemur eftirkomendunum til góða í því, að hann skilar jörðinni sinni betri, jafnvel miklu betri en hann tók við henni. Því er það, að þegar þetta er líka alþjóðarþörf að umbæta sveitirnar, þá er það bein skylda ríkisvaldsins að leggja nokkuð af mörkum til uppbyggingarinnar og búa þann veg að bændastéttinni. að hún geti unað hag sínum við umbótastarfið.