15.02.1961
Sameinað þing: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í D-deild Alþingistíðinda. (2966)

153. mál, vaxtakjör atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var í tilefni af nokkrum orðum, sem féllu hjá hv. 11. þm. Reykv., þar sem mér þótti hann fara nokkuð úr hófá fram rangt með staðreyndir, sem ég vildi gera nokkrar athugasemdir.

Hv. þm. ræddi hér þá yfirlýsingu, sem vinstri stjórnin á að hafa gefið í sambandi við lausn vinnudeilnanna haustið 1958. Hann sagði, að ríkisstj. hafa þá lýst því yfir, að þá kauphækkun, sem þá var um samið, mætti leggja á vöruverðið og velta henni þannig yfir á neytendur í landinu, og við þetta hefðu atvinnurekendur að sjálfsögðu ekkert haft að athuga, og af því hefðu þeir samþykkt kauphækkunina. Það er nú alveg vitað mál. að hv. þm. getur ekki haft neitt sér til afsökunar að segja jafnmikla staðleysu sem þetta, nema það, að hann hafa trúað því, sem hans flokksblöð hafa margendurtekið sagt ósatt í þessum efnum. Annað getur það ekki verið. Hann hlýtur að háfa séð það, sem um þetta hefur verið upplýst af réttum aðilum á sínum tíma og það oftar en einu sinni.

Hvaða yfirlýsing var það, sem þarna var gefin. og hvernig var hún í sambandi við það, sem höfðu verið gefnar yfirlýsingar í hliðstæðum tilfellum áður? Sú yfirlýsing, sem þarna var gefin, var þannig, að ríkisstj. sagði, að eftir að hið nýja kaup tæki gildi, mundi verða miðað við hið nýja kaupgjald við útreikninga á verðlaginu. Um þetta var yfirlýsingin, nákvæmlega það sama sem hafði gilt í öllum tilfellum áður. Og vegna hvers vildu vinnuveitendur fá þetta fram nú eins og áður? Það var skýrt tekið fram hjá þeim, að þar sem um er að ræða, að ýmsir þættir atvinnurekstrarins í landinu framselja vinnulaun, eins og t.d. vélsmiðjurnar í landinu, þær framselja vinnulaun og fá síðan samkvæmt ákvörðun verðlagsyfirvaldanna í landinu að leggjæ tiltekna prósentu á þetta framselda vinnuafl, — þær vildu vitanlega fá að reikna í þessari verðlagningu hina seldu vinnu á því verði, sem þá hafði verið um samið, en ekki á löngu liðnum kauptaxta. En hins vegar var ekki nokkur minnsta yfirlýsing í þessu tilfelli gefin um það, að álagningin skyldi verða sú sama og áður var, það var leyfilegt að breyta álagningunni í hverju einstöku tilfelli og var gert í ýmsum greinum. Og þeim, sem vildu reyna að snúa mest út úr þessu á eftir, stjórnarandstæðingar þá, var gefinn kostur á því af ríkisstj. að vera með í þeirri stofnun í landinu, sem réð verðlaginu, að sjá um það, að þessi kaupgjaldshækkun, sem þarna var samþykkt, færi ekki út í verðlagið. Þeim var boðið upp á það af ríkisstj. allri í innflutningsskrifstofunni að sjá um það, ef þeir vildu styðja það, að verðlagið í landinu hækkaði ekki um einn einasta eyri, heldur yrði samkvæmt réttum leikreglum álagningarprósentan í hverju tilfelli minnkuð sem þessu næmi. En hvernig snerust þá við flokksbræður hv. 11. þm. Reykv. ? Þeir neituðu því þá að vera með þessum tillögum og hótuðu beinlínis stöðvunum í sambandi við mikilvæga þætti atvinnurekstrarins í landinu. En þeirra hlutverk hafði auðvitað verið það að berjast fyrir því, bæði áður og eftir, að reyna að halda álagningunni uppi sem hæstri, og því miður tókst ekki alltaf samstaða innan vinstri stjórnarinnar um að halda álagningarprósentunni svo lang,t niðri sem hefði vissulega verið hægt og verið þörf á. Hitt dettur vitanlega engum manni í hug, að eftir að samið hefur verið um tiltekið kaup og það almennt í landinu, þá verði ekki það kaup lagt til grundvallar í verðlagsútreikningum í landinu. Vitanlega verður reiknað með því kaupgjaldi í verðlagsútreikningum. Hitt stendur eftir sem áður opið, hvað menn vilja leyfa mikla álagningu. Það er gefið mál, að jafnt í sambandi við verzlunina í landinu, hið almenna vöruverð sem annað, mundu verðlagsútreikningur vera á eftir byggðir upp á því að miða við innkaupsverð og miða við vinnulaunakostnað, en sú tala, sem enn var opin og menn gátu hreyft tileins og þeir vildu, það var álagningarprósentan. Það hefur engum manni komið til hugar að neita því að miða við þetta kaupgjald. sem þá hafði verið um samið, í almennum verðlagsútreikningi, það var ekkert annað en útúrsnúningur. En hitt var vitanlega skiljanlegt mál að þeir aðilar, sem voru í hópi vinnuveitenda, nokkrir stórir, sem fyrst og fremst framseldu vinnuafli, þeir vitanlega óskuðu eftir því, að við það framsal yrði miðað við hið nýja kaup. Það er líka mesti misskilningur hjá þessum hv. þm., að vinnuveitendur hafa fyrst samið um kaupgjaldshækkunina í þessari vinnudeilu, þegar þetta lá fyrir, vegna þess að um þetta varð aldrei neinn ágreiningur og hefur ekki verið á undanförnum árum í sambandi við vinnudeilur, aldrei. Í öllum tilfellum hafa verðlagsyfirvöldin farið þannig að, að þau hafa miðað við það kaupgjald, sem um var samið á hverjum tíma, alltaf. En álagningarprósentuna hafa þau hreyft til á hinum ýmsu tímum. Auðvitað er það t.d. gefið mál að verði nú almennar kauphækkanir í þessu landi, þá verður auðvitað, eftir að þær kauphækkanir hafa verið samþykktar í verðlagningarstofnuninni, miðað við það kaupgjald, en ekki löngu liðið kaupgjald. Hitt er vitanlega allt annað mál hvort þarf að láta almennt vöruverð í landinu hækka af þessum ástæðum eða ekki, hvort ekki er hægt að taka jafnframt tillit til annarra þátta í atvinnurekstrinum, sem kunna að hafa bætt aðstöðu atvinnurekstrarins til að geta staðið undir kauphækkuninni.

Þá kem ég nokkru nánar að ástandinu, sem var hér 1958, þegar þessi kaupgjaldshækkun fór fram. Hvernig var afkoman á árinu 1958, þegar kaupið var hækkað frá 6–9.5%? Jú, opinberar skýrslur, sem ég veit að hv. 11. þm. Reykv. kannast við, sýna, að á þessu ári, jókst þjóðarframleiðslan nærri 13%. Framleiðsluaukning í sjávarútveginum var 20.8% á þessu ári. Spurningin var sú: Var með öllu óeðlilegt, að launþegar í landinu vildu fá nokkra hlutdeild í þeim auknu þjóðartekjum, sem urðu á þessu ári? Ég veit líka, og hv. 11. þm. Reykv. veit það, að nú liggur fyrir samkv. opinberum skýrslum, að meðaltalsaukning á þjóðarframleiðslunni undanfarandi fimm ár er 6.5%, 6.5% meðaltalsaukning á ári síðustu fimm árin. Spurningin er auðvitað sú: Er það eðlilegt á þeim tíma, sem þetta gerist, að þá sé kaup jafnvel hinna lægst launuðu í landinu lækkað með lögum frá Alþingi eða beinum stjórnarráðstöfunum, annaðhvort á beinan eða óbeinan hátt, svo að segja frá ári til árs? Ég held því fram, að það sé engin ástæða til þess og að efnahagsafkoma þjóðarinnar í lok ársins 1958 hafa ekki gefið tilefni til þess á neinn hátt.

Það er alveg rétt, að við áttum auðvitað við að búa árið 1958 ýmiss konar vanda í okkar efnahagslífi, þrátt fyrir það þó að við hefðum haft gott ár og miklar tekjur almennt séð. Á því ári stóð þjóðin í stórkostlegri uppbyggingu, réðst í meiri framkvæmdir en jafnan áður. Keypt voru mjög dýr tæki til landsins, og ráðizt var í byggingu stórverksmiðja og stórra raforkuvera. Sú mikla fjárfesting, sem var á árinu 1958, leiddi eðillega til þess, að gjaldeyrisstaðan var ekki eins góð og menn hefðu annars kosið. En nú verða stjórnarsinnar að viðurkenna það, þegar þeir hafa stjórnað eftir sinni viðreisnarstefnu í eitt ár og orðið að taka við meiri greiðsluhalla í viðskiptunum við útlönd heldur en nokkurn tíma hefur verið áður á einu ári, — nú verða þeir að afsaka þennan mikla greiðsluhalla með því, að hann stafá af því, að við höfum verið að kaupa mikið af dýrum og varanlegum tækjum og flytja þau inn í landið á þessu ári. Þetta er rétt. Það er nefnilega ekki hægt að standa í því á einu og sama ári að kaupa mikið af skipum og ráðast í miklar stofnframkvæmdir, án þess að það eyðist við það gjaldeyrir, og þó að gjaldeyristekjurnar á viðkomandi ári séu allmiklar, getur orðið, þegar svo stendur á, nokkur greiðsluhaldi í viðskiptum við útlönd, á meðan á þessu stendur. Þetta hafa þeir viðreisnarmenn fengið að finna nú á árinu 1960. En það var nákvæmlega þetta sama, sem var að gerast í efnahagsmálum landsins árið 1958. Þá stóð þjóðin í stórfelldum framkvæmdum á þennan hátt. Þá var að vísu ástandið miklu betra en nú að því leyti til. að þá náðum við þrátt fyrir gífurlega mikla fjárfestingu, þrátt fyrir gífurlega mikla eyðslu í varanleg verðmæti, nokkurn veginn greiðslujöfnuði á því ári. Greiðsluhalli á árinu 1958 er talinn 90 millj. kr. En opinberar skýrslur sýna það, að birgðaaukning á því ári af útflutningsvörum var líka 90 millj. kr., svo að raunverulega stóðum við án greiðsluhalla á árinu 1958 þrátt fyrir þessa gífurlega miklu fjárfestingu og miklu framkvæmdir. En nú hins vegar á árinu 1960 er þessu öðruvísi varið. Greiðsluhallinn við útlönd er 460 millj, kr. á árinu 1960, en þá er líka gengið á útflutningsbirgðirnar í landinu um 200 millj. kr. Hefðum við nú í árslokin 1960 átt jafnmikið af framleiddri útflutningsvöru og við áttum í ársbyrjun, hefði greiðsluhallinn orðið yfir 200 millj. kr. meiri en hann varð, eða um 660 millj. Það er vegna þess, að þó að við getum skýrt nokkuð mikið af þessum mikla greiðsluhalla með miklum framkvæmdum eða innflutningi dýrra tækja, þá er afkoman á árinu 1960 miklum mun verri en afkoman var á árinu 1958.

Það, sem flokkur hv. 11. þm. Reykv., Sjálfstfl., kaus að segja árið 1958, stafaði af því, að hann vildi reyna að halda því fram, að staða þjóðarinnar í efnahagsmálum væri svo að segja orðin vonlaus, og hann vildi mála upp þessa erfiðleika fyrst og fremst til þess að réttlæta fyrirhugaðar ráðstafanir, sem forustumenn flokksins höfðu þá í huga og allar miða að því að skerða lífskjör almennings í landinu. Því var því haldið fram, að staðan 1958 væri svo slæm, að hún gæti ekki mætt þessari litlu kauphækkun, sem þá var samþykkt, og það þyrfti beinlínis að grípa til ráðstafana, sem miðuðu að því að lækka kaupið í landinu.

Hv. þm. ræddi hér nokkuð um það, að við stjórnarandstæðingar hefðum ekki bent á neinar leiðir út úr erfiðleikum þjóðarinnar í efnahagsmálum, og það væri þó munur á þeim, sem styddu stjórnina, að þeir hefðu þó þessa viðreisnarstefnu, svo ill sem hún væri. Nú veit hv. þm.. að þessu er ekki svo farið. Í andstöðu okkar hér á Alþingi höfum við greinilega bent á, hvaða leiðir við hefðum viljað fara í þessum efnum, sem hins vegar stjórnarflokkarnir hafa ekki viljað hlusta á. Ég skal hér drepa á nokkur atriði aðeins, af því að það yrði auðvitað allt of langt mál að fara í það að rekja okkar tillögur allar í þessum efnum.

Það er enginn vafi á því, að það hefur verið meginatriði í stefnu núv. ríkisstj. að ætla sér að jafna hallann, sem verið hefur á gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar við útlönd, sem hefur verið eitt aðalvandamálið. — að ætla sér að jafna þetta á þann hátt að hugsa sér almennan stórfelldan niðurskurð í landinu á framkvæmdum og kaupgetu. Þetta hefur verið stefnuatriði núverandi ríkisstjórnar, að ætla að ná jöfnuði á þann hátt að minnka kaupgetuna í landinu. Það átti að minnka framkvæmdir í landinu. Það átti að draga úr innflutningi og þrengja þær reglur, sem í gildi hafa verið í sambandi við útlán banka, hækka útlánsvexti gífurlega, allt miðandi að því að draga saman í efnahagskerfinu sem heild. Nú er enginn vafi á því, að stjórnarflokkarnir hafa gert sér fulla grein fyrir því, að þessi samdráttarstefna mundi hafa þá afleiðingu, að hún drægi einnig úr tekjusköpun hjá þjóðinni, að hún yrði ekki aðeins þess valdandi. að tekjur hinna lægst launuðu í landinu kynnu að lækka og neyzla þeirra nokkuð að minnka, heldur hafa þeir gert sér fyllilega grein fyrir því, að það mundi ekki vera hægt að halda uppi þessari stefnu, án þess að kæmi til nokkurrar þjóðarteknaminnkunar eða samdráttar í þjóðartekjunum.

Við hins vegar höfum haldið því fram, að það ætti að fara í þessum efnum gersamlega aðra leið, það væru til ýmsar leiðir, sem stefndu að því marki að auka þjóðarframleiðsluna, eins og gert var á tímum vinstri stjórnarinnar. Það sýna opinberar skýrslur, að aldrei hafa verið nýttur betur skipastóll landsmanna og þau atvinnutæki. sem við réðum yfir, en einmitt á árunum 1957 og 1958, vegna þess að stefnan, sem þá ríkti, var beinlínis miðuð við það að reyna að bæta kjör útflutningsframleiðslunnar og þeirra manna í þjóðfélaginu, sem unnu að framleiðslu á útflutningsvörum. Það var hlynnt að útflutningnum, eftir því sem tök voru á. og útkoman varð sú, að árið 1957, þegar þjóðin þó bjó við mjög svipuð atvinnutæki og hún bjó við á árinu 1956, varð starfræksla framleiðslutækjanna t.d. fyrri hluta ársins, á sjálfri vetrarvertiðinni, rúmlega 20% meiri en hún hafði verið á vetrarvertiðinni árið á undan. Meðaltalsaukningin á því, hvernig bátaflota landsmanna þá var beitt, hvað margir bátar stunduðu veiðar á vetrarvertíðinni í hverjum einstökum mánuði og hvað margir menn unnu þá á flotanum, sýnir þetta, að þessi tæki okkar voru nýtt um það bil 20% betur en árið á undan. Og þetta hélt enn áfram á árinu 1958. Bæði þessi ár var það svo, að þá var ekki um framleiðslustöðvun að ræða einn einasta dag vegna ágreinings um kaup og kjör eða vegna ósamkomulags framleiðenda við ríkisvaldið. Þá var séð um það í tæka tíð, að flotinn þyrfti ekki að stöðvast, og var hægt að reka framleiðslutækin allan þann tíma, sem aðstæður að öðru leyti leyfðu. Og út úr þessu höfðum við það, að við fengum yfir 20% eins og ég sagði, yfir 20% framleiðsluaukningu árið 1958. Það var líka séð um það á þessum tíma, öfugt við það, sem hefur verið nú, að svo væri um hnútana búið, að það væri alltaf búið að selja meira af framleiðsluvörum okkar en búið var þá að afla, þannig að við þurftum að keppast við allt árið að hafa upp í fyrirframgerða samninga. og við höfðum þá tryggt okkur þá beztu markaði. sem um var að ræða. Nú t.d. er ástandið þannig, að við vitum, að hversu mikið sem veiðist af síld, er ekki hægt að nýta hana nema á þann ófullkomnasta hátt, sem til er. Við getum ekki fryst meira af síld en við erum búnir að gera. Af hverju? Það liggur þó fyrir, að okkar aðalmarkaðir, sem hafa keypt af okkur frosna síld, t.d. í Tékkóslóvakíu, Austur-Þýzkalandi og Póllandi. þessir aðilar hafa sagt: Við erum tilbúnir til að kaupa margfalt meira magn en við höfum þegar tekið, — af því að þeir hafa not fyrir þetta. En við getum ekki selt þeim meira. en við erum búnir, þó að skipin okkar séu full af síld, vegna þess að það er búið að haga innflutningsmálunum þannig, það er búið að kaupa þær vörur frá öðrum þjóðum, sem höfðu lánað okkur til bráðabirgða gjaldeyri til þess að kaupa þaðan vörurnar, sem við áður keyptum frá þessum löndum og opnuðum okkur markað fyrir, og því geta þær ekki keypt af okkur þessar vörur, sem þær gjarnan vilja fá, af því að röng viðskiptapólitík er búin að loka fyrir okkur þessum mörkuðum, og þjóðin tapar vitanlega á öllu saman. Hið nákvæmlega sama er að segja í sambandi við sölu á saltsíld til Austur-Þýzkalands, en það land hefur einmitt gjarnan viljað kaupa af okkur allmikið magn af slíkri síld. sem við veiðum hér yfir veturinn, á haustin og veturna, sem er ekki af sömu gæðum eða sömu gerð og okkar Norðurlandssíld, allmiklu magrari síld og nokkuð misstór. En við getum ekki notfært okkur nú þennan markað, sem við vitum þó um, vegna þess að viðskiptajöfnuður okkar við landið er svo óhagstæður. Okkar innflytjendur hafa snúið innkaupum sínum frá þessu landi og til annarra landa, sem kaupa ekki af okkur nema lítið. Þessi ranga viðskiptastefna beinlínis miðar að því að draga úr tekjum þjóðarheildarinnar.

Það er enginn vafi á því, að sú ranga efnahagsmálastefna, sem nú er rekin, þessir gífurlega háu vextir, sem hér hafa verið gildandi, og þær reglur. sem settar hafa verið um útlán, hafa beinlínis ýtt á það, að bæði fiskibátar og togarar hafa neyðzt til þess í mörgum tilfellum að sigla með aflann óunninn á erlenda markaði þjóðarheildinni til tjóns, því að auðvitað hefðum við fengið miklum mun meira fyrir þennan afla, ef hann hefði veríð fullunninn í landinu. Og útkoman hefur orðið sú, að á s.l. ári dró stórlega úr því magni, sem við höfðum áður framleitt af frosnum fiski, en auðvitað jókst það magn, sem við fluttum út sem ísvarið. Röng viðskiptastefna og röng efnahagsmálapólitík miðar í þessum efnum að því að skerða tekjur þjóðarheildarinnar. Við höfum bent á þetta oft áður. Við viljum haga þessari stefnu á allt annan hátt en nú er gert. Sú stefna núv. ríkisstj. að ætla sér að knýja fram þá kjaraskerðingu, sem hún hefur stefnt að, hlaut vitanlega að leiða til þess fyrr eða síðar, eins og við höfum alltaf bent á, að það yrðu stórfelldar framleiðslustöðvanir í landinu, sem drægju úr þjóðarframleiðslunni, úr þjóðartekjunum.

Hvernig er þetta komið nú? Það er komið þannig, að nú er liðinn einn og hálfur mánuður af þessu árí. Hvað skyldum við hafa fryst mikið af fiski nú, — það er okkar aðalútflutningsiðnaður, — hvað skyldum við hafa fryst mikið af fiski nú á þessum eina og hálfa mánuði, berið saman við það, sem var í fyrra? Aðeins lítið brot. Stærsta vetrarvertíðarverstöðin okkar hefur verið án starfrækslu atvinnutækja nú í einn og hálfan mánuð, og ætti þetta að vera augljóst fyrir stjórnarvöldin. Það er þannig, að allan janúarmánuð lá Vestmannaeyjaflotinn bundinn vegna ágreinings, sem upp kom milli útgerðarmanna þar og efgenda fiskvinnslustöðvanna eða öllu heldur nokkurra vildarvina ríkisstj. hér í Reykjavík, eða m.ö.o.: samtök í Vestmannaeyjum, samtök atvinnurekenda, sem eru undir stjórn þeirra. manna, sem hafa verið stuðningsmenn ríkisstj., þekktir sjálfstæðismenn, um allt land, — samtök þeirra hafa stöðvað atvinnutækin í allan janúarmánuð, vegna þess að þeir vilja ekki fallast á þá stefnu í þessum málum, sem ríkisstj. ætlar að reyna að knýja fram. Og sama hefur gerzt hér. Sú stöðvun, sem aðallega hefur orðið hérna við Faxaflóa að undanförnu, er í sambandi við deilu við yfirmenn. Þar er annars vegar Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og stjórn þess er skipuð að miklum meiri hluta þekktum sjálfstæðismönnum, og forseti sambandsins er einn af fyrrv. þm. Sjálfstfl., Ásgeir Sigurðsson. Þessir menn hafa líka risið upp og sagt, að þeir yndu ekki við þessa stefnu. Þeir hafa líka heimtað leiðréttingu á sínum kjörum, sem búa þó auðvitað við miklu betri almenn launakjör en hinir lægst launuðu á bátunum og í landi. Og við vitum að það eru ekki aðeins þessar vinnudeilur, heldur eru þær um allt, og allt miðar þetta að því, að ríkisstj. með þessari röngu efnahagsmálastefnu sinni skerðir þjóðartekjurnar, hún dregur úr þeim og svo ætlar hún að sanna á eftir, að af þessum ástæðum verður auðvitað að lækka kaupið.

Stefna ríkisstj., sem miðaðist við það að ætla að leysa þann vanda, sem var að vissu leyti í sambandi við gjaldeyrisviðskipti þjóðarinnar við útlönd. með samdráttaraðferðinni, er alrangt, og hún er óhagstæð fyrir þjóðarheildina. En það var fullkomlega hægt að treysta á hina leiðina, eins og málum var komið hjá okkur, að við gætum vel náð greiðslujöfnuði í viðskiptum okkar við útlönd með því að hafa nokkra stjórn á okkar fjárfestingu, láta hana ekki vera jafnstjórnlausa og hún því miður var, einnig í tíð vinstri stjórnarinnar og með því að treysta á það, að við gætum haldið hér uppi kröftugri framleiðslu og við gætum treyst á framleiðsluaukningu, en ekki samdrátt. Hér er vitanlega um gersamlega aðra stefnu að ræða en þá. sem ríkisstj. hefur rekið, og er enginn vafi á því, að hv. 11. þm. Reykv. veit mætavel um það, að í þessum efnum er stefna okkar allt önnur en stefna ríkisstj., og hann veit hver stefna okkar er í þessum efnum.

Ég skal líka drepa hér á eitt annað atriði, sem ég tel mjög mikilvægt og sýnir grundvallarmun í stefnu núv. ríkisstj. í efnahagsmálum og stefnu t.d. vinstri stjórnarinnar og í rauninni miðast við stefnu margra annarra ríkisstjórna sem höfðu verið við völd fyrir daga viðreisnarstjórnarinnar. En það er það atriði, að núv. viðreisnarstefna er byggð á því að setja hagsmuni og kröfur innflytjendanna, sem kaupa inn vörur til landsins, setja þeirra hagsmuni númer eitt, en setja. hagsmuni útflytjenda og útflutningsins númer tvö. En það er auðvitað enginn vafá á því, að þannig hafði það verið um nokkurt árabil, að heildarstefnan í viðskiptamálum þjóðarinnar var sú að hafa hagsmuni útflutningsins nr. 1, en kröfur innflytjenda yrðu að vera þar í öðru sæti, eða m.ö.o.: sú stefna var hér látin gilda að verulegu leyti, hefði auðvitað mátt færast betur út en gert var, að hér var almennt sagt: Við verðum að byggja akkur örugga og góða markaði fyrir þá vöru, sem við framleiðum. Við verðum að tryggja okkur örugga sölu á því, sem við getum framleitt. Og við verðum síðan að segja við þá, sem annast innflutninginn: Þið getið fengið að spila úr þessu, sem svona hefur til unnizt, eftir því sem hægt er, og innflutningurinn verður að miðast við þetta. En nú var þessu gersamlega snúið við. Nú var sagt: Nei, nú tökum við stór erlend lán upp á 800 millj. kr., fáum okkur þannig gjaldeyri í kassann, sem er lánsfé. — Og síðan er sagt við innflytjendur, auðvitað eftir þeirra eigin kröfum og duttlungum: Nú getið þið keypt inn það, sem þið viljið, og þar sem þið viljið, eftir því sem ykkur hentar nú bezt, algerlega án tillits til þess, hvort nokkurt öryggi væri fyrir því, að útflutningur og framleiðsla þjóðarinnar gæti raunverulega lagt til þann gjaldeyri, sem til þyrfti til að borga þennan innflutning. Og það er vitanlega augljóst, að af þessu hlaut að leiða, þessari stefnubreytingu, að það yrði komið til útflutningsins eftir einhverjum leiðum fyrr eða síðar og sagt við útflytjendur: Þið verðið að selja framleiðslu ykkar á þau gjaldeyrissvæði, hvort sem ykkur líkar það betur eða verr, og fyrir það verð, sem þar fæst, til þess að við getum fengið þann gjaldeyri, sem við þurfum að fá, til þess að borga þær skuldir, sem við erum búnir að efna til. — Það er þetta, sem hefur verið að gerast, útflutningi landsmanna til tjóns. Það hefur verið stofnað til mikils innflutnings á alls konar vörum frá hinu svonefnda harða gjaldeyrissvæði, án þess að væri bent á það, að þar hefðu skapazt nokkrir nýir markaðir frá því, sem við höfðum haft í þeim löndum áður. Og auðvitað er það svo, að ef við a.m.k. búum við jafnmikla framleiðslu eða vaxandi framleiðslu frá því, sem áður var, þá rekur okkur í strand í sambandi við þessa efnahagsmálastefnu. Það er enginn vafi á því. Og okkar útflutningur er farinn að gjalda þessa í stórum stíl, en þó mun það koma miklu sárar og meir fram á næsta ári en gerist á árinu 1960. Það voru nefnilega þær aðstæður fyrir hendi, að það var nokkuð hægt að draga á þessa hluti í nokkra mánuði, en vitanlega hlaut að koma að því og hlýtur að koma að því, að þarna skapast erfiðleikar. Þannig er þetta, og það er vitanlega hægt að nefna þetta í mörgum öðrum greinum, hvernig stefna núv. ríkisstj. hefur miðað að því að draga saman tekjur þjóðarinnar. Og þegar við höfum gert athugasemdir við þessa stefnu, höfum við einnig gert grein fyrir því, hvernig við vildum hafa þetta á annan veg.

Það hefði að vísu verið nokkurt tilefni til þess að ræða hér um hugleiðingar þær, sem komu hér fram hjá hv. 11. þm. Reykv. um vaxtapólitíkina. Ég verð að segja það, að mig undrar það, að hann skuli halda fram slíkum kenningum sem hann gerði hér í sambandi við vaxtapólitík. Það var helzt að skilja á málflutningi hans, að það yrði að hafa vextina svo háa, að þeir gætu fyllilega bætt upp þá verðrýrnun á höfuðstól peninganna, sem margfaldar gengisbreytingar eða verðbólga kynnu að hafa orsakað á undanförnum árum. Dettur nú hv. þm. í hug, að það sé stætt á þessari leið og yfirleitt nokkur þjóð hafa treyst sér til þess að fylgja fram þessari stefnu? Við skulum taka dæmi. Við skulum hugsa okkur, að það gerist, sem flokkur þessa hv. þm. er að hóta þessa dagana, að verði almenn kauphækkun nú í vetur eða vor, þá verði að lækka gengið. Þýðir það þá um leið, að þá eigi að hækka vextina? Og enn verður þetta eflaust gert, því að því hefur verið haldið fram, að það verði vitanlega að lækka gengið, jafnóðum og kaupið hækkaði, og alltaf á að hækka vextina. (Forseti: Má ég benda hv. þm. á, að venjulegur fundartími er nú liðinn, og ef hann á eitthvað eftir —) Nei, ég gæti nú lokið ræðu minni, (Forseti: Ég vildi gjarnan fá að fresta fundinum, og þm. gæti þá haldið áfram næst, ef ræðunni er ekki lokið.) Nei, ég á lítið eftir, en ég get vitanlega hætt. ef forseti óskar þess.