19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

130. mál, söluskattur

Garðar Halldórsson:

Herra forseti. Frv. hæstv. ríkisstj. á þskj. 137 um framlengingu söluskatts gefur vissulega tilefni til þess, að rætt sé nokkuð um efnahagsmálin á breiðara grundvelli. Söluskatturinn og vaxtaokrið valda það miklu um dýrtíðaraukninguna, að ef hefði verið hægt nú að hverfa frá hvoru tveggja, samsvaraði það verulegri kjarabót alls almennings í landinu. Reynslan af dýrtíðinni, sem að verulegu leyti er tilbúningur hæstv. ríkisstj. og að margra áliti umfram það, sem nauðsynlegt var til þess að ráða fram úr aðkallandi vanda efnahagsmálanna, í þeim tilgangi gerð að fá hér aftur hina gömlu, góðu daga, sem hæstv. forsrh. talaði um hér á Alþ. s.1. vetur, með söknuði yfir, að þeir skyldu hafa horfið okkur, og tilhlökkun til þess, að þeir kæmu aftur, — sú reynsla, sem þegar er fengin, gefur hins vegar ærna ástæðu til þess, að nú sé gáð til veðurs, horft í kringum sig, hvernig umhorfs er, hvaða áhrif efnahagsmálaaðgerðirnar hafa haft á þeim skamma tíma, sem þær hafa verið í gildi, og hvert stefnir í þeim efnum.

Það hefur löngum viljað við brenna, að það hefur verið misjafnt viðhorf yfirmanna til undirmanna. Meðan sú var tíð, að mikið var af verkafólki í sveitunum, þekkist bæði það, að húsbændur gengu til allra verka með hjúum sínum, gengu á undan í verstu verkin og sátu við sama borð hvað matinn snerti. Hitt þekktist líka, þótt miklu væri fátíðara, að húsbændurnir sögðu aðeins fyrir verkum, en unnu lítt eða ekki sjálfir og skömmtuðu sér betri mat en hjúunum. Eftir að skilvindur voru komnar í notkun í sveitunum og framleiðsla smjörlíkis hafin, þekkti ég þess dæmi, að húsbændur höfðu á öðrum borðsendanum nýmjólk og smjör handa sér og börnum sínum, en undanrennu og smjörlíki á hinum endanum handa vinnufólkinu. Slíkir húsbændur, sem lögðu ekki á sig erfiði eða ætluðu sér betri hlut í mat, urðu ekki vinsælir meðal hjúa sinna og hélzt illa á þeim, meðan hinir, sem gengu á undan í erfiði og borðuðu sama mat og verkafólkið, voru vinsælir af því. Þeir gátu beðið verkafólkið að leggja mikið á sig, þegar þess þurfti við, þegar þeir lögðu ekki minna á sjálfa sig. Slíkir húsbændur urðu hjúasælir.

Hæstv. ríkisstj., sem er húsbóndinn á þjóðarheimilinu, hagar sér eins og bóndinn, sem lætur skammta sér nýmjólk og smjör, en verkafólkinu undanrennu og smjörlíki, Hæstv. ríkisstj. og þó einkum hæstv. fjmrh. hefur að vísu talað talsvert um, að mikið mætti spara í ríkisrekstrinum, en það er bara alltaf í undirbúningi í stað þess að viðhafa raunhæfar aðgerðir. Það hefði verið ólíkt sigurvænlegra fyrir hæstv. ríkisstj., þegar hún ætlast til þess, að allur fjöldinn af landsmönnum sætti sig við skertan hlut efnahagslega, að hún hefði við fjárlagaafgreiðsluna nú staðið við fyrirheit sin frá s.l. vetri og sýnt nú raunhæfar aðgerðir til sparnaðar í ríkisrekstrinum, en ekki látið sér nægja óraunhæfar kákaðgerðir, en það er hið rétta nafn á þeim fáu sparnaðartiðlögum, sem hún hefur sýnt þjóðinni nú. Hæstv. ríkisstj. verður ekki vinsæl meðal hjúa sinna á þjóðarbúinu, á meðan hún skammtar sér nýmjólk og smjör, en hjúunum undanrennu og smjörlíki. Það sér líka nú þegar á, þar sem þeir, er möguleika hafa á, ganga úr vistinni, flýja til annarra landa og leita sér þar betri húsbænda.

Í umr. um efnahagsmálin hér á hv. Alþ. s.l. vetur leituðust þeir hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh. við að gera sem allra minnst úr þeim fórnum, sem fólkið í landinu þyrfti að færa á altari viðreisnarinnar. Kjaraskerðingin átti að vera fjarska lítil, hreint ekki yfir 3–4 vísitölustig, og stundum var því haldið fram jafnvel, að menn græddu á skattabreytingunni, og er nú hægt að vitna til nýrri dæma en umræðna frá í fyrravetur eftir síðustu ræðu hæstv. fjmrh. Dæmi var sett upp fyrir þjóðina í heild. Á móti gengisfellingu og hækkuðum sköttum kom lækkun eða jafnvel afnám skatta, 9% söluskatturinn og auknar bætur almannatrygginga. Þetta átti hér um bil að standast á fyrir þjóðina í heild, bara tilfærsla, eins og hæstv. viðskmrh. vildi orða það. En hvernig hefur svo sú tilfærsla orðið? Eins og rækilega var sýnt fram á í fyrravetur af okkur framsóknarmönnum hér á hv. Alþ. og víðar og reynslan hefur staðfest, er tilfærslan þannig, að álögurnar, kjaraskerðingin er hjá öllum almenningi, en hagnaðurinn er hjá tiltölulega fáum efnahagslega sterkum einstaklingum. Það var og er stefnt að því að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Ríku börnin eru börn ríkisstj. og fá að sitja til borðs við borðsenda hennar og borða með henni nýmjólk og smjör, meðan allur almenningur utar við langborðið á að láta sér nægja undanrennu og smjörlíki.

Í umr. hér á hv. Alþ. undanfarna daga hefur oft verið vitnað til umsagna ýmissa stéttarsamtaka um, hvernig reynslan væri af efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstj., hvernig efnahagsaðgerðirnar kæmu við atvinnuvegina, hvernig þeir væru á vegi staddir í viðreisninni. Þær lýsingar hafa því miður verið ófagrar, en raunhæfar og allt of sannar. Hvernig er svo viðhorfið í dag í landbúnaðinum? Er nokkuð líka sögu að segja þaðan og t.d. frá sjávarútveginum?

Ekki er hægt, hvað landbúnaðinn snertir, að skella nokkurri skuld á aflabrest. Tíðarfarið hefur, þegar landið er tekið sem heild, verið svo gott sem orðið getur hér á landi, og er það ekki lítið undirstöðuatriði í afkomu landbúnaðarins. Það er enn mikið til í því, að bóndinn eigi allt sitt undir sól og regni, þótt aukin tækni hafi nokkuð úr því dregið og breyttir búskaparhættir, þ.e.a.s. fráhvarf frá því, að hvert bú væri sjálfu sér að mestu leyti nóg, og til viðskiptabúskapar gert það að verkum, að sól og regn er ekki lengur bóndanum allt.

Öllum er kunnugt, að í landbúnaðinum hefur staðið yfir mjög stórstíg uppbygging nú undanfarið. Þar hafa verið stigin risaskref á tiltölulega fáum árum. Þetta hefur verið nauðvörn landbúnaðarins, ef hann átti ekki að verða algerlega undir í samkeppninni um sambærileg lífskjör við aðrar stéttir. Tíðarfarið, árgæzkan á þessu ári, hefði átt að eðlilegum hætti að lyfta verulega undir framkvæmdirnar í sveitunum. Mild vetrartíð og ágæt sumartið skapar vissulega mikil skilyrði til umbóta fram yfir lakara árferði. Það hefði því mátt ætla, að óvenju mikið væri um alls konar framkvæmdir í sveitunum á þessu ári, unnið væri með mesta móti við jarðrækt og mikið væri byggt, bæði af íbúðar- og peningshúsum, því að enn er mikið ógert og mikil þörf bæði á aukinni ræktun og meiri byggingum. En hverjar eru svo staðreyndirnar? Það liggja eðlilega ekki enn fyrir fullnaðarskýrslur um þetta, þar sem árið er ekki enn liðið. Samt er hægt nú þegar að sjá í stórum dráttum, hvernig þetta hefur gengið á árinu, hvað gert hefur verið.

Skurðgröfur vélasjóðs hafa á þessu ári grafið um 20% minna en á árinu 1959. Ekki fóru einu sinni allar gröfurnar í gang s.l. vor, af því að það skorti eftirspurn eftir vinnu þeirra. Nýrækt hefur minnkað á þessu ári samanborið við árið 1959, í Árnessýslu um rúmlega 30%, Rangárvallasýslu rúmlega 40% og Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu um 24%. Þegar nú þess er gætt, að í þessum fjórum sýslum voru 44% af allri nýrækt í landinu á árinu 1959, er ljóst, hversu mikil áhrif þessi stórkostlegi samdráttur í þessum sýslum hefur á heildarræktunina í ár. Hér um bil alls staðar er nú einnig miklu minna um undirbúning nýræktar fyrir næsta ár, þannig að samdrátturinn mun enn aukast stórlega á næsta ári. Þó hafa byggingar dregizt enn meir saman á þessu ári. Til dæmis hafa steinsteyptar hlöður, sem byggðar hafa verið í ár, verið 49% minni í Árnessýslu, 56% mínni í Eyjafjarðarsýslu og 69% minni í Rangárvallasýslu heldur en 1959. Votheyshlöðubyggingar hafa minnkað í Árnessýslu yfir 50% og í Rangárvallasýslu yfir 70%. Afleiðing þessa verður eðlilega sú, að jarðræktarframlagið, sem greiðist á næsta ári vegna framkvæmdanna í ár, lækkar stórlega. Lítur út fyrir, að í Árnessýslu lækki það allt að 40% og í Rangárvallasýslu eitthvað yfir 40%. Það mun segja til sín á komandi vori, þegar bændurnir fara að kaupa áburðinn, að þeim verður það erfiðara en undanfarið, því að algengt er, að jarðræktarframlagið er einmitt notað til áburðarkaupa. Íbúðarhúsabyggingar hafa svo enn gengið miklu mest saman. Dæmi eru til þess, að í heilli sýslu hafi aðeins verið byrjað á einu íbúðarhúsi á þessu ári.

Enginn skyldi láta sér til hugar koma, að þessi samdráttur stafi af því, að það sé búið svo mikið að gera í sveitunum af ræktun og byggingum, að ekki sé þörf á sama áframhaldi og verið hefur. Því fer víðs fjarri. Og ekki er heldur sú ástæða fyrir hendi, að áhugi bændanna fyrir áframhaldandi uppbyggingu sé minni nú en verið hefur. Nei, ástæðan fyrir samdrættinum er aðeins sú, að það er svo að þeim kreppt með efnahagsaðgerðum hæstv. ríkisstj., að þeir eru neyddir til samdráttarins. Til enn frekari vitnis um erfiðleikana er svo það, að nú ber meira á því en verið hefur, að menn sæki um ræktunarsjóðslán, þótt út á litlar framkvæmdir sé. Ég hef heimildir fyrir því, að það er allt ofan í 2000 kr. lán, sem sumir bændur taka nú. Vitanlega er það gert út úr hreinni neyð. Í venjulegu viðskiptaárferði mundi mönnum ekki hafa dottið svo smáar lántökur í hug.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að vara hæstv. ríkisstj. við þessari nýju braut, sem hún á s.l. ári kvaðst ætla að leiða þjóðina eftir, — braut, sem sneiddi hjá verðbólgu og samdrætti, eins og það var orðað í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. Hæstv. ríkisstj. ætti að vera farin að sjá, að þessi nýja braut er glötunarvegurinn sjálfur.

Fyrir haustkosningarnar 1959 höfðu núv. stjórnarflokkar mjög fallegar stefnuskrár: Stöðvun verðbólgu, jafnvægi í þjóðarbúskapnum, uppbygging atvinnuveganna, aukin framleiðsla og bætt lífskjör, þar sem allar aðgerðir í efnahagsmálum miði fyrst og fremst að því að greiða fyrir aukinni framleiðslu, að ógleymdri yfirlýsingu landsfundar Sjálfstfl. vorið 1959, yfirlýsingu, sem svo var tekin upp í kosningastefnuskrá flokksins, þegar leið á sumarið. Þar segir m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Að flokkurinn skori á alla Íslendinga að sýna einhug í landhelgismálinu og láti ekki undan síga fyrir erlendu ofbeldi né sætti sig við minni landhelgi en nú hefur verið ákveðin, heldur sækja fram, þangað til tryggður hefur verið yfirráðaréttur Íslands yfir öllu landgrunninu.“

Vafalaust hefur fleiri en mér orðið hugsað til þessarar yfirlýsingar, þegar þeir hlustuðu á hæstv. ráðh. stjórnarf]okkanna í útvarpsumræðum nýlega, og trauðla skilið, hversu saman gæti farið boðskapur ráðherranna og stefnuyfirlýsingin.

Ég drap á það áðan, að hæstv. ríkisstj. hefði á s.l. vetri leitazt við að gera lítið úr þeirri kjaraskerðingu, sem þjóðarinnar biði. Til þess að mæla kjaraskerðinguna er notuð svokölluð vísitala, — vísitala, sem sýnir litla hækkun frá því, sem var 1. marz 1959. En almenningur, sem þekkir viðreisnina í framkvæmd og afleiðingar hennar, en ekki vísitöluútreikninginn, lítur vísitöluna líkum augum og forðum var litið á kaupmannsreizluna, sem var bogin og lóðið lakt.

Einn af tryggustu fylgismönnum hæstv. ríkisstj., varaþm. hv. 3. þm. Austf., líkti efnahagsmálaaðgerðunum á s.l. vetri við beiskt og bragðvont meðal, sem hann þó tæki glaður inn, af því að hann tryði á lækningamátt lyfsins. Hann tryði á lækninn, ríkisstj. Nú hefur annar stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. líkt lyfinu við eitur, sem lamaði þjóðarlíkamann. Líklega hefur lækninum þó ekki orðið það á í flaustrinu í fyrravetur að grípa skakkt glas, gefa þjóðinni annað lyf en ætlað var.

Það henti eitt sinn lækni, sem ætlaði að skera í ígerð í hálsinum á mér, að hann hitti ekki ígerðina fyrr en í þriðja skurði. Í hvert sinn, áður en hann snerti holdið með hnífnum, sagði hann: Það er búið. — Hann hafði sem sagt sagt þrisvar sinnum: Það er búið, áður en hann hitti ígerðina. En ég var þá auðvitað steinhættur að trúa honum. Það er líkt á komið með hæstv. ríkisstj. og lækninum mínum. Ríkisstj. ætlaði að rista í ígerð, sem hún taldi vera í efnahagskerfi okkar, en hún bara hitti ekki ígerðina frekar en læknirinn. Hæstv. ríkisstj. má vera alveg viss um það, að þótt hún segði þjóðinni, að þetta væri lækningin, verður því ekki trúað eftir þá reynslu, sem fengin er, og ef þjóðin væri nú um það spurð, mundi hún ekki fela þessari hæstv. ríkisstj. að skera í annað og þriðja sinn.