27.03.1961
Neðri deild: 86. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í D-deild Alþingistíðinda. (3040)

218. mál, skipun rannsóknarnefndar til að rannsaka viðskipti við Axel Kristjánsson og h/f Ásfjall

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, enda er tíminn naumur.

Það er rétt, sem hér hefur fram komið, að það er ekki neitt nýtt, að töp hafa orðið á ríkisábyrgðum vegna togararekstrar. En langoftast þegar slík töp hafa orðið, hafa þau stafað af því, að ríkið hefur verið að hjálpa til að efla togaraútgerð á stöðum, þar sem vafasöm skilyrði til togaraútgerðar voru fyrir hendi, og vildi vinna að því með þeim hætti að koma þar upp aukinni atvinnu, og langoftast hafa það þá verið bæjarfélögin sjálf eða félagssamtök, sem hafa staðið að slíkum rekstri. Í þessu tilfelli er ekki um neitt slíkt að ræða, og því er ekki að neita, að þetta mál er á margan hátt sérstakt og óvenjulegt og er þannig vaxið, að það er ekki óeðlilegt, að það skapist ýmiss konar tortryggni í sambandi við það. Ég vil hins vegar ekki persónulega fullyrða neitt um það á þessu stigi, hvort hér kunni að vera um einhverja sekt að ræða eða ekki. Það álít ég óupplýst, eins og málið liggur fyrir nú. Þess vegna tel ég líka, að það sé mjög nauðsynlegt að fá um þetta mál fyllri og rækilegri upplýsingar af opinberri hálfu en þegar hafa fram komið, og ég vil taka fram í því sambandi að mér finnst sú ræða, sem hæstv. utanrrh. flutti hér áðan, ekki vera fullnægjandi til að gefa þær upplýsingar um þetta mál sem nauðsynlegt er af opinberri hálfu. Ég vil þess vegna leggja áherzlu á það, að sú þingnefnd, sem fær þetta mál til athugunar, — mér skilst, að hv. flm. hafa lagt til. að málið færi til fjhn. og fengi þar athugun athugaði um það, hvort rétt væri að samþykkja þá tillögu eða ekki. Mér finnst, eins og ég sagði áðan, nauðsynlegt, að í þeirri nefnd verði þetta mál tekið til rækilegrar meðferðar og gengið eftir því af viðkomandi opinberum aðilum, að þeir gefi skýrslur um það, sem fullnægjandi séu, og fjhn. taki svo afstöðu til þess á eftir, hvort hún álítur rétt að stíga það spor, sem hér er lagt til, að skipuð verði þingrannsókn í málinu. En það er að vísu nokkuð veigamikið spor, þegar fyrirskipuð er þingrannsókn út af einu einstöku máli, og þess vegna þurfa að liggja fyrir gildar ástæður til þess, að svo sé gert. Og áður en það er gert, þá tel ég, að það sé nauðsynlegt, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar hér í þinginu, gangi eftir rækilegum upplýsingum frá hæstv. ríkisstj. um þetta mál og byggi svo sínar ákvarðanir á því, hvort hún álítur framhaldsrannsókn vera nauðsynlega eða ekki eða þá rannsókn, sem þessi till. gerir ráð fyrir. En á það vil ég leggja áherzlu, að það er nauðsynlegt, að þetta mál verði betur upplýst af hálfu ríkisstj. en þegar er orðið og að það sé eðlilegt, að þingið gangi eftir því að fá þær upplýsingar, þó að ef til vill þurfi ekki að grípa til þeirra rannsóknaraðferða, sem gert er ráð fyrir í tillögunni. Um það verða menn að dæma, þegar það liggur fyrir, hve víðtækar upplýsingar ríkisstj. vill gefa um málið.