13.12.1960
Neðri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

134. mál, efnahagsmál

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er á dagskránni og efnislega fjallar um niðurfellingu á útflutningsgjaldi og ráðstöfun á því fé, sem enn er óráðstafað, umræðurnar um það hafa farið nokkuð á víðara svið, og er það ekki nema eðlilegt, þar sem hér er um að ræða, að brugðið hefur verið upp einni mynd af því, hvernig tekizt hefur til með allvíðtæka breytingu á efnahagskerfinu, þótt hér sé í rauninni ekki fjallað um nema einn þátt þess. Ég sé ekki ástæðu til þess að taka þátt í þessari umr. á breiðasta grundvelli, en lítillega sé ég mig þó knúinn til, eftir að hafa hlustað á þær umr., sem hér hafa farið fram, að víkja að fáeinum efnisþáttum, sem svo mætti telja, að heyrðu ekki endilega nákvæmlega. þessum þætti einum saman.

Það er í fyrsta lagi, að hér hafa menn nokkuð deilt um það, hverju hafi af ríkisstj. hálfu verið lofað á fundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna, varðandi greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipaflotans. Hér hefur verið fullyrt, að ríkisstj. hafi lofað að borga þau gjöld, og af ríkisstj. hálfu hefur því hins vegar verið mótmælt, að slíkum greiðslum hafi verið lofað nema að vissu marki. Hæstv. sjútvmrh. sagði hér, að það væri alrangt, ef einhver hefði skilið orð sín svo, að af ríkisins hálfu eða ríkisstj. hálfu hafi verið gerð skuldbindandi ákvörðun um það að greiða þetta fé. Ég verð í sambandi við þetta að minna á það, að ég hef hér fyrr og í umr. um annað mál, fjárlögin, skýrt frá því, að allir þeir menn, sem ég hef talað við af þeim, sem sátu þann fund, en þeir eru hreint ekki fáir, töldu, að þessari vátryggingargreiðslu hefði verið lofað af ríkisins hálfu, bréflega að nokkru, en að því leyti sem vefengjanlegt hefði mátt telja, að þetta loforð væri svo víðtækt sem menn vildu fá í bréfi, þá hafi þar um verið bætt með sérstökum skilaboðum frá ríkisstj., þar sem hún gæfi út skuldbindandi loforð um það, að þetta yrði allt saman greitt. Nú get ég að sjálfsögðu ekki sett mig í dómarasess um það, hverjir hér segja satt og hverjir segja hér máske ekki nema helming af sannleika. En í þessu sambandi rifjast upp fyrir mér, að það kom ekki ósvipað atriði fyrir, þegar samninganefnd sjómanna var hér að semja um sín kjör í upphafi árs 1959 eða rétt um áramótin 1958–59. Þá stóð hér yfir samningagerð milli útvegsmanna og sjómanna, og við þá samningagerð var viðstaddur fulltrúi frá ríkisstj., og þeir samningar enduðu á því síðla nætur, þegar sjómenn höfðu gert samninga við útvegsmenn um það, fyrir hvaða verð aflahlutur sjómanna yrði keyptur, að fulltrúi ríkisstj. í þeim samningum var beðinn um skuldbindingu af ríkisstj. hálfu fyrir því, að þetta fiskverð, sem sjómenn og útvegsmenn voru þarna búnir að semja um, yrði ekki með löggjöf lækkað. Fulltrúi ríkisstj. brá sér frá og kom aftur með þau skilaboð, að því væri lofað, þetta fiskverð yrði ekki lækkað. Svo kom reynslan og skar úr málum, því að löggjöf var sett, litlu eftir að þetta skeði, þar sem þetta umsamda verð var lækkað um 10 aura hvert kg. Vanefndir voru að sjálfsögðu bornar upp á þann ráðh., sem þarna átti hlut að máli. En hann hefur jafnan haldið því fram, að hann hafi aldrei neitt slíkt loforð gefið út, heldur hafi hann bara hreinlega verið misskilinn, ef svo hafi verið. Og þegar þetta endurtekur sig nú gagnvart útgerðarmönnum, þá verð ég að segja það, að það er dálítið meira en meðalhæfileiki sumra manna til þess að láta aðra menn misskilja sig.

Það var líka vikið hér að því, að þeim hv. þingmönnum Austurlands, sem hér töluðu í þessu máli og báðir voru ráðherrar í vinstri stjórninni svonefndu, færist ekki að hafa hátt um það, þótt eitthvað hafi sigið á ógæfuhlið, því að þegar þeirra stjórn lét af völdum, þá hafi blasað við mikið hyldýpi og alls staðar verið dökkt í álinn. Og þessu til sönnunar hefur hér verið vitnað í ræðu, sem þáv. forsrh., hv. 2. þm. Vestf., hélt, um leið og hann skilaði af sér eða sagði af sér sem forsrh. fyrir sig og ráðuneyti sitt. Það er að vísu rétt, að sá hv. þm., Hermann Jónasson, dró upp dökka mynd í sinni ræðu um ástandið. Hvort sem hann hefur nú metið ástandið nákvæmlega eins og honum fannst eða hvort hann hefur sagt eitthvað annað en honum raunverulega fannst, skal hér ósagt látið, en hitt er vitað, að þau ummæli, sem hann þá hafði, voru ekki raunhæf, þau voru ekki í samræmi við þann veruleika, sem fyrir lá, enda kom það líka í ljós, að sú stjórn, sem tók við völdum á eftir honum, og þar var hæstv. núv. sjútvmrh. forsrh., lifði í um það bil heilt ár á því að eyða upp þeim tekjuafgangi, sem vinstri stjórnin skildi eftir, og einnig þá tókst þeim hæstv. ráðh. að láta þjóðina misskilja sig feikilega, og það er nú kannske stærsti misskilningurinn, sem hann hefur komið til leiðar hingað til. Hann fékk sem sagt þjóðina til þess að misskilja sig þannig, að með því að nota þá sjóði, sem vinstri stjórnin skildi eftir, til þess að greiða niður vöruverð í landinu, væri hann búinn að stöðva dýrtíðina. Á þeim misskilningi byggist tilvera Alþfl. í dag, því að ef fólk hefði ekki fengið þann misskilning, þá er mikið vafamál, að sá flokkur væri hér staddur á Alþ. Það er sem sagt ekki með öllu ónýtt að hafa hæfileika til þess að láta misskilja sig.

Ég kem þá að þeim efnisþætti þessa frv., sem ég ætlaði að gera sérstaklega að umræðuefni. Efnisþættir þess eru í rauninni þrír: Í fyrsta lagi sá að breyta nokkuð frá gildandi lögum útflutningsgjaldinu af ákveðnum vörutegundum, ísfiski og niðursuðuvörum. Ég tel, að þar sé um að ræða réttmætan þátt, — er honum fylgjandi. Annar efnisþáttur frv. er það að afnema við lok þessa árs útflutningsgjald af þeirri framleiðsluvöru, sem framleidd verður eftir árslok, og með þeim röksemdafærslum, sem hér hafa verið fram færðar um það, að þessa sé ekki þörf, er sá efnisþáttur málsins auðvitað sjálfsagður. Hinn þriðji efnisþáttur málsins er um það að finna rétta eigendur að þeim afgangi eða að því fé, sem talið er að liggja muni eftir í útflutningssjóði, þegar hann hefur gert upp allar þær skuldbindingar, sem honum voru lagðar á herðar með lögum á sinni tíð, og þær skuldbindingar, sem hann hefur verið látinn taka á sig síðan.

Hæstv. sjútvmrh. hefur hér látið liggja orð að því, að hann telji rétt, að útvegsmenn fái í sína vörzlu fé þetta, þar sem það sé frá þeim komið. Nú veit ég, að útvegsmenn eru mjög þurfandi fyrir þetta fé eða fyrir fjárhæð, sem þessu nemur, og raunar þótt stærri væri. Engu að síður lít ég svo á, að hér sé ekki fé ráðstafað til réttra eigenda, og vil ég nú rökstyðja það nokkru nánar. Með þessu mótmæli ég þó engan veginn því, að af opinberri hálfu verði gerðar ráðstafanir til þess að mæta þeim halla að einhverju, sem útvegurinn hefur orðið fyrir á þessu ári, t.d. með því að hið opinbera greiði tryggingariðgjöld skipaflotans. En þegar við athugum málið nánar, þá verður auðséð, að réttur eigandi að þessari upphæð hefur ekki verið nefndur enn í þessum umræðum. Við setningu þeirra efnahagslaga, sem ríkisstj. á sinni tíð kallaði viðreisn, var svo ákveðið, að taka skyldi 5% útflutningsgjald af öllum útfluttum afurðum. Það var augljóst öllum, að þetta útflutningsgjald verkaði í rauninni sem lækkun á fiskverði. Þessi lækkun á fiskverði kom svo auðvitað fram í öllum þeim útreikningum, sem gerðir voru um það, hvað útgerðin þyrfti og hvað þeir aðilar yfirleitt þyrftu, sem áttu að hafa tekjur sínar af fiskframleiðslu. Litlu eftir að þessi efnahagslöggjöf var samþykkt og á meðan reiknað var með 5% útflutningsgjaldi, urðu sjómenn að taka afstöðu til þess, á hvaða verði þeir seldu sinn skiptahlut, sinn hlut af fiskinum, sem á land er dreginn. Þeir framkvæmdu að þessu sinni að vísu ekki samningagerð um þetta atriði með sama hætti og oft hafði verið gert áður, því að í rauninni urðu þeir að lúta fyrirskipun ríkisstj. um þetta, því að hún ákvað í sinni efnahagslöggjöf, að fiskverð til sjómanna skyldi vera kr. 1.66 fyrir kg af hausuðum og slægðum þorski og annað verð eftir því. Þetta verð var auðvitað fengið með því, að ríkisstj, fannst þetta hæfileg greiðsla, á meðan hún reiknaði með því, að verðmæti fisksins yrði að finnast út með 5% frádrætti fyrir útflutningsgjaldinu. Litlu síðar en þetta skeði barst ríkisstj. bréf frá samtökum útgerðarmanna, þar sem þeir lýstu neyðarástandi sinu með þeim hætti, að það yrði a.m.k. að gefa eftir helminginn af útflutningsgjaldinu, til þess að möguleiki væri til þess, að útgerð gæti haldið áfram. Ríkisstj. varð þess vegna sjálf að bera fram frv. um það á því sama þingi, sem hún hafði fengið viðreisnarlögin samþykkt, að útflutningsgjaldið lækkaði um helming, þ.e.a.s. úr 5% í 21/2%. Þetta var gert að ósk útvegsmanna. Nú er því svo varið, að allur sá bátafiskur, sem á land kemur, en það er miklu meira en helmingurinn af öllum afla, sem á land kemur, er ekki eign útgerðarinnar nema að tæplega hálfu leyti. Sjómenn á bátaflotanum eru eigendur að meira en helmingi þess afla, sem á land er dreginn. Það má þess vegna segja, að með því að lækka útflutningsgjaldið úr 5% í 21/2 % hafi útgerðarmönnum verið gefið eftir útflutningsgjaldið að öllu leyti af þeim hluta aflans, sem þeir voru eigendur að, fyrr en þeir höfðu keypt afla af öðrum aðila, sem var eigandi hans, þegar á land kom. Nú er upplýst, að þetta 21/2% útflutningsgjald sé svo drjúgt, að eftir það liggi miklar summur í sjóði. Verður auðvitað ljóst, að þeirri ríkisstj., sem ákvað skiptaverð til sjómanna með þeim hætti, sem gert var á s.l. ári, ber skylda til þess að ráðstafa þessu fé, úr því að ekki þurfti að nota það í þær þarfir, sem hún hélt fram, að því verði ráðstafað sem kaupuppbót til sjómanna. Og verð ég nú rétt að segja það, að hæstv. sjútvmrh., sem er formaður flokks, sem kallar sig Alþfl., og auk þess telur sig vera sérstakan skjólstæðing Sjómannasambands Íslands, hefði átt að detta í hug, hver væri eigandi að þessu fé, áður en hann gaf út loforð um að ráðstafa fénu með allt öðrum hætti. Ég leyfi mér að vekja athygli þeirrar hv. n., sem kemur til með að fá þetta frv. til meðferðar, á því, að hér er í rauninni verið að ráðstafa fé, sem sjómenn á íslenzka fiskiskipaflotanum eru réttir eigendur að, og ef með sanngirni í garð þeirrar stéttar væri að farið, þá ætti að deila því fé, sem 21/2% útflutningsgjaldið gefur, sem kaupuppbót til sjómanna á íslenzka fiskiskipaflotanum árið 1960.