01.03.1961
Sameinað þing: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

199. mál, lánveitingar úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitabæja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. samhljóða þessari var svarað hér fyrir að mig minnir rúmri viku, en þá mun þessi fsp. hafa verið komin í prentun, að öðrum kosti hygg ég. að hún hefði ekki verið lögð formlega fram. Þetta var undir umr. hér í hv. Alþ., og fyrirspyrjandinn þá var hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég get að sjálfsögðu ekkert nýtt sagt í þessu sambandi nú varðandi Þessa fsp., en ég get til áréttingar endurtekið það, sem ég þá sagði.

Það er rétt, sem hv. fyrsti fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að það hefur skapazt venja í sambandi við lánamál ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs sveitabæja, sú venja að lána mestan hlutann í desembermánuði ár hvert, en þær umsóknir, sem berast svo seint, að ekki gefst tími til að afgreiða þær fyrir jól, hafa alltaf verið látnar bíða a.m.k. fram í marzmánuð. Það hefur verið reglan. Á s.l. ári mun þetta hafa dregizt fram í apríl. Það sem nú er eftir að lána út á framkvæmdir fyrra árs, er ekki meira en verið hefur undanfarin ár. Það, sem fyrir liggur af umsóknum um lán úr ræktunarsjóði, er um 6.8 millj. kr. og úr byggingarsjóði um 2.3 millj. kr., samtals 9.1 millj.

Ég get endurtekið það, sem ég sagði, þegar fsp. var borin fram óformlega hér áður, að þessar lánveitingar munu fara fram í marz eða apríl n. k. Hef ég svo ekki neinu verulegu við þetta að bæta, vona, að hv. fyrirspyrjendur láti sér þetta nægja.