02.12.1960
Efri deild: 31. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það má að sjálfsögðu deila nokkuð um það, hvort eðlilegt sé, að í slíkum stjórnum eins og stjórn bjargráðasjóðs sitji fjórir eða fimm menn. Það má einnig deila nokkuð um það, hvort réttmætt sé, að fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands eigi þar sæti, þó að mér finnist það satt að segja ekki liggja sérstaklega beint við, að fulltrúi frá verkalýðssamtökunum sitji þar, þegar litið er til margra annarra stjórna og, ráða, þar sem verkalýðssamtökin eiga engan fulltrúa, en sennilega ríkari þörf fyrir fulltrúa heldur en í þessu tilfelli. En á það almennt skal ég þó ekki leggja neinn dóm.

Ástæðan til þess, að ég vildi segja hér nokkur orð, er fram komin brtt. frá hv. 9. þm. Reykv. um það, að fimmti maðurinn í þessari sjóðsstjórn verði forseti Alþýðusambands Íslands. Ég álít, að þegar löggjafarvaldið hefur veitt Alþýðusambandi Íslands fulltrúa í ýmsum opinberum nefndum, stjórnum og ráðum, þá hafi það verið gert á grundvelli þess, að Alþýðusambandið sé allsherjarsamtök íslenzkra launþega, sem sé opið öllum stéttarfélögum og stéttarfélagasamböndum. Ég hugsa, að þetta hafi verið einn höfuðgrundvöllurinn undir aðild Alþýðusambandsins að þessum stofnunum. En nú hefur það því miður sýnt sig, að þessi grundvöllur er ekki lengur fyrir hendi. Á síðasta Alþýðusambandsþingi, sem háð var fyrir um það bil hálfum mánuði, var fjölmennasta sérgreinasambandi landsins neitað þar um inngöngu án nokkurra gildra raka. En ef þetta samband hefði verið tekið inn, hefði meðlimum Alþýðusambandsins líklega fjölgað um það bil um 15%. Það er aðeins á þessu atriði, sem ég vildi vekja athygli. Ég lít nokkuð öðrum augum á Alþýðusambandið eftir því, hvort það er opin samtök eða lokuð. Og þess vegna tel ég, að löggjafarvaldið verði nú að líta það nokkuð öðrum augum en áður, þegar þess er farið á leit, að Alþýðusambandið fái slíka fulltrúa eins og hér er rætt, eftir það, sem gerðist á síðasta Alþýðusambandsþingi, unz sá slagbrandur, sem þar var settur fyrir inngöngudyrnar, er aftur numinn á brott.