09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessar umr., en ég hjó eftir því áðan í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., að hann sagði, að það hefði komið fram í ritlingi um stjórnarskrármálið fyrir síðustu kosningar, um kjördæmabreytinguna, að tímabilið eftir 1930 og fram til þess tíma væri kennt við Framsfl., mundi verða kennt við Framsfl., og þetta væri eitt mesta framfaratímabilið í sögu þjóðarinnar og Framsfl. væri stoltur af því, að þetta tímabíl væri við hann kennt. Það er mjög mikill misskilningur, sem kemur fram í þessari skoðun hv. þm., vegna þess að það var beinlínis tekið fram og leiðir af eðli málsins, í sambandi við hvað þetta var sagt, að hér var verið að ræða um stjórnskipunina og stjórnlagadeilurnar á Alþingi eftir 1930, það tímabil, þegar voru hinar löngu og miklu deilur um lýðræðislega stjórnskipun í landinu, — það tímabil í þeim efnum mundi vera kennt við Framsfl., því að á öllu þessu tímabili hafði Framsfl. meiri völd á Alþingi og í stjórn landsins en honum bar í hlutfalli við það kjörfylgi, sem hann hafði með þjóðinni. Hann stjórnaði í skjóli misréttis og ranglætis á árunum eftir 1930, og það er vegna misréttis og ranglætis í stjórnskipun landsins, sem þetta tímabil verður kennt við Framsfl. Þennan misskilning er bezt að leiðrétta í eitt skipti fyrir öll, því að ég hef oft orðið var við þetta sama í Tímanum og annars staðar frá hv. þingmönnum Framsfl.

En varðandi svo, hversu mikið framfaratímabil þetta er, þá vil ég minna hv. þm. á það, að formaður Framsfl., Hermann Jónasson, sagði í útvarpsræðu fyrir kosningarnar 1956, að hér yrði að brjóta um blað, hverfa frá eyðimerkurgöngunni, sem þjóðin hefði verið í, og fara inn á nýjar leiðir í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar, — það yrði að brjóta um blað, vegna þess að Sjálfstfl. hefði haft lykilaðstöðu í þjóðfélaginu, eins og hann komst að orði, s.l. 17 ár. Þetta var rétt hjá formanni Framsfl. En á þessum 17 árum fyrir 1956, ætli það sé ekki þá, sem framfarirnar hafa orðið mestar og glæsilegastar í okkar þjóðfélagi, einmitt framfarirnar. Ég er hræddur um, að það sé dálítið önnur saga frá tíma fyrri vinstri stjórnarinnar, frá árinu 1934 og fram að stríðinu. En þarna hleypur gróskan í framfarir okkar Íslendinga, og það er á því tímabili, samkv. vottorði formanns Framsfl., sem Sjálfstfl. hafði lykilaðstöðuna í þjóðfélaginu.

Svo er aðeins eitt atriði enn, sem margoft hefur komið fram; og það var um þessa hættulegu stefnu núv. hæstv. ríkisstj. að draga fjármagnið utan af landinu og inn í Seðlabankann. Um þetta má sjálfsagt margt deila, og ég hef látið koma fram hér áður á þingi skoðun mína um, að það megi fara varlega í að draga fjármagnið, ef um það væri að ræða, utan af landinu og inn í Seðlabankann. En það er ljóst, að fyrir ríkisstj. vakti, að svo miklu leyti sem ákveðið var að binda fjármuni sparisjóðanna og innlánsdeilda kaupfélaganna í Seðlabankanum, að með því skapaðist tækifæri eða möguleikar til þess að forða atvinnurekstrinum frá strandi, að Seðlabankinn gæti þá, eins og hann raunverulega varð að gera á s.l. ári, gengið í ríkari mæli en áður inn á þá braut að lána þeim bönkum fé, sem aðallega standa undir útflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Það hafa aldrei verið önnur eins .lán, sem þessir bankar hafa þurft að fá hjá Seðlahankanum og m.a. getað fengið af þessum sökum, eins og á s.l. ári vegna erfiðrar aðstöðu sjávarútvegsins. En hvað mikið hefur svo verið dregið utan af landinu inn í Seðlabankann? Það væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það. Og ég leyfi mér nú að varpa fram þeirri spurningu: Getur þessi hv. þm. frætt okkur aðra þm. um það, hvað mikið hefur verið dregið úr innlánsdeildum kaupfélaganna á s.l. ári inn í Seðlabankann, eða einhverjir aðrir fylgismenn Framsfl. hér? Það er spurning, sem er mjög ofarlega í mönnum og menn vildu fá að vita um. Hún hefur ekki birzt enn þá opinberlega. En ég geri ráð fyrir því, að þeir menn, sem alltaf eru að tala um það, hvílík meinsemd það hafi verið að kippa þessu fé úr innlánsdeildum kaupfélaganna og inn í Seðlabankann, geti gefið þessar upplýsingar, og leyfi mér þess vegna að inna eftir upplýsingum um það.