13.11.1961
Efri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

42. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. tók fram, var ég ekki mættur á nefndarfundi, þegar mál þetta var afgreitt, og vegna þess vil ég lýsa því yfir, að ég er samþykkur ályktun n. og tek þátt í fyrir mitt leyti að mæla með samþykkt frv. Það er eins og segir í athugasemdum, að venja hefur verið, Þegar laun hafa hækkað í landinu, að hækka líka framlög trygginga að því er ellilaun og örorkubætur snertir. Og nú er ekki aðeins um það að ræða, að laun hafi verið hækkuð, heldur hefur gengið líka verið lækkað, svo að það væri skrýtinn maður, sem væri því mótfallinn, að þetta frv. yrði samþ., hefði ekki þá tillitssemi til hins aldraða og vanheila fólks. Ég segi: Minna má alls ekki vera.