28.11.1961
Neðri deild: 27. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Þetta frv., sem hér er nú til umr. og hefur legið mjög lengi fyrir hv. þd., er fylgifiskur gengislækkunarfrv. Það fjallar um skattlagningu, sem nemur mörg hundruð millj. kr., en engin grg. hefur fylgt þessu frv., og það hefur ekki verið og e ekki enn hægt að átta sig á því, hversu þessi skattlagning er mikil. En augljóst er, að hún nemur mörg hundruð millj. kr.

Hæstv. ráðh. gaf hér upp tölur varðandi suma liði þessara álaga, þ.e.a.s. þá, sem eru í 7. gr., en það er ekki nema nokkur hluti af því, sem í frv. felst í heild, og erfitt að átta sig líka á þeim tölum í skyndi. En það er óhætt að slá því föstu, að þetta frv. gerir ráð fyrir mörg hundruð millj. kr. skattlagningu á útflutningsatvinnuvegina.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að verðhækkun á birgðum útflutningsvara verði tekin og færð í ríkissjóð til að greiða gengistap á skuldum, sem mér skildist þó á hæstv. ráðh. að væri sáralítið, og þá aðallega til að greiða töp á ríkisábyrgðum, sem fram að þessu hafa verið talin með almennum útgjöldum ríkissjóðs. Það er því hægt að slá því föstu, að með 6. gr. frv. er tekin verðhækkun á birgðum útflutningsvara af framleiðendum og færð í ríkissjóð.

Þess eru dæmi, eins og hæstv. forsrh. tók fram, að verðhækkun útflutningsvara, sem orðið hefur við gengisbreytingar og líka, þegar lagt var á 55% almenna gjaldið, að slíkar verðhækkanir hafa verið teknar og færðar í þá sjóði, sem staðið hafa undir uppbótum á útfluttar afurðir. Þetta hefur verið gert, þegar gengislækkun hefur tekið við af uppbótakerfi. En 1950, þegar gengislækkun var gerð, án þess að hún kæmi í staðinn fyrir uppbótakerfi, var engin slík ráðstöfun gerð, að því er ég bezt hef getað séð.

Það eru sem sagt dæmi þess, að verðhækkun á birgðum útflutningsvara hefur við gengisbreytingar verið tekin og færð inn í sjóði, sem hafa staðið undir útflutningsuppbótum til útflutningsatvinnuveganna sjálfra. En ég finn ekkert dæmi þess, — og er fús að leiðrétta það, ef það reynist rangt, — ekkert dæmi þess, að verðhækkun útflutningsvörubirgða hafi verið tekin af framleiðendum og látin renna í ríkissjóð, eins og nú er ætlunin að gera með þessu frv.

Það er því alveg nýr háttur, sem á er hafður að þessu leyti. Mér sýnist engin sanngirni mæla með þvílíkri tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Mér sýnist því þurfa að endurskoða með öðru fleira þetta ákvæði frv. rækilega.

Afkoma ríkissjóðs sýnist ekki heldur vera þannig á þessu ári, að það réttlæti slíka neyðarráðstöfun að taka af framleiðendum þessa verðhækkun vegna gengislækkunarinnar.

Með gengislækkuninni sjálfri hafa tekjur ríkissjóðs vaxið verulega, þannig að ég sé ekki betur en það sé útlit fyrir sæmilega afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Það sýnist því ekki vera réttiætanlegt frá því sjónarmiði, að þar vanti stórkostlega fé, að gera aðra eins neyðarráðstöfun og þá að taka þetta verðmæti frá útflutningsframleiðslunni og færa það inn til ríkisins. Þó að verið sé í þessu sambandi að tala um greiðslur vegna tapa á ríkisábyrgðum, þá er það ekkert nema orðaleikur. Það er gert ráð fyrir þeim greiðslum, einmitt töpum á ríkisábyrgðum, á fjárlögum. Hér er því ekki um neitt annað að ræða en að verið er að taka þessa fjármuni og færa inn í ríkissjóðinn til að standa þar undir almennum gjöldum eða til að koma þar á greiðsluafgangi, sem hægt verði að frysta í Seðlabankanum. En það virðist vera uppáhaldsaðferð núv. hæstv. ríkisstj. að fara þannig með þá fjármuni, sem hún getur klófest umfram allra brýnustu dagleg útgjöld.

Þetta er ekkert hliðstætt því, þegar gengishækkun á útflutningsvörubirgðum hefur verið látin renna í þá sjóði, sem hafa staðið undir útflutningsuppbótum til framleiðslunnar sjálfrar.

Ég vil líka í þessu sambandi minna á eitt atriði, og það er, að mjög margir framleiðendur við sjávarsíðuna hafa orðið fyrir geysilega þungum skellum í sambandi við kaup á skipum og bátum til landsins, — orðið fyrir þungum skellum einmitt vegna tveggja gengislækkana, sem orðið hafa með stuttu millibili. Og ég vil segja, að ef það verður ofan á að taka gengishækkunina á birgðunum af útflytjendunum, þá sýnist mér fullkomlega til athugunar, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, og þó öllu heldur fullkomlega réttmætt, að eitthvað af því fjármagni yrði notað til að létta af kaupendum báta og skipa þeim óhemju byrðum, sem á þá hafa fallið við þessar tvennar gengislækkanir. En þær eru gersamlega að sliga margar af þeim útgerðum, sem hafa orðið fyrir því, að gengislækkanirnar hafa á skuldir þeirra fallið. Þetta vil ég láta koma fram við 1. umr. málsins.

Það stóð þannig á fyrir mörgum, þegar gengislækkanirnar skullu á, að verið var að smíða báta eða skip erlendis, og málin urðu nær óviðráðanleg. Skuldamálin urðu nær óviðráðanleg vegna gengislækkananna. Fleira er til athugunar í þessu sambandi, einmitt varðandi það tjón, sem kaupendur báta og skipa hafa orðið fyrir vegna gengislækkananna.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um skattheimtu þá, sem felst í 7. gr. frv. En hún er í því fólgin að leggja á mjög þungt útflutningsgjald, þar sem mikill hluti af verðhækkuninni, sem verður vegna gengisbreytingarinnar, er tekinn af framleiðendum aftur framvegis og ráðstafað með sérstökum hætti, eins og greinir í þessari lagagrein.

Er þar gert ráð fyrir að leggja mikið fjármagn beint frá framleiðslunni, sjávarútveginum, til stofnlánadeildar sjávarútvegsins og í nýtt tryggingakerfi.

Með þessu móti eru lagðir geysilega þungir skattar á útflutningsframleiðsluna, sjávarútveginn, og það á að leggja þetta fjármagn í fjárfestingarsjóði sjávarútvegsins að mestu, en nokkuð í tryggingakerfið. Sú stefna er tekin upp með þessu, að sjávarútvegurinn eigi að sjá sjálfur fyrir því fé að mjög verulegu leyti, sem gengur til stofnlána fyrir útveginn. Ég held þessi stefna sé óframkvæmanleg með öllu. Ég held það sé alveg óhugsandi, að sjávarútvegurinn geti á þennan hátt með sérstöku skattgjaldi lagt til bróðurpartinn af því fé, sem á að fara í stofnlánadeildir sjávarútvegsins framvegis. Það mun fljótlega sýna sig, að þetta er ekki hægt. Þetta mun hafa mjög greinilega komið fram einmitt á þeim fundum á vegum sjávarútvegsins, þar sem þessi mál hafa verið skoðuð.

Það mælir heldur engin sanngirni með því að skattleggja svo þunglega þessa útflutningsatvinnugrein, jafnvel þó að það sé gert til að safna fjármunum í lánastofnanir framleiðslugreinarinnar sjálfrar. Slíkt er ekki hægt. Það verður að finna aðrar leiðir til að afla fjár í stofnlánadeildir sjávarútvegsins. Verða þar að koma til þau úrræði, sem þjóðfélagið í heild ræður yfir. Það er ekki hægt að segja við eina atvinnugrein í landinu, að hún verði algerlega að sjá fyrir öllum stofnlánum, sem á þarf að halda, beint af sínum eigin tekjum. Það er ekki hægt að taka eina atvinnugrein þannig út úr og búa þannig að henni. Það verður að vera sameiginlegt mál atvinnugreinanna og þjóðfélagsins í heild að útvega fjármagn í stofnlánasjóði atvinnuveganna.

Nokkuð öðru máli gegnir um það skattgjald, sem ætlað er til þess að standa undir tryggingum fyrir sjávarútveginn, þótt það sé á margan hátt vafasöm stefna að ætla að hafa þann hátt á, að það opinbera borgi framvegis öll tryggingagjöld með því fé, sem tekið er af sjávarútveginum sjálfum. Með því móti kemur það á margan hátt mjög ranglátlega niður að standa undir tryggingaiðgjöldunum af flotanum. Með þessu móti verður ekki mikið réttlæti í því, hvernig kostnaðurinn við tryggingarnar á flotanum er tekinn af þeim, sem standa að sjávarútveginum. Mætti margt um það segja, sem ég skal ekki fara langt út í núna.

Þetta ákvæði, sem ríkisstj. hefur tekið inn í frv., um að skattleggja sjávarútveginn til þess að halda uppi greiðslu tryggingaiðgjaldanna fyrir flotann, sýnir, að ríkisstj. hefur alveg gefizt upp við viðreisnarstefnuna, — er einn vottur þess, að hún hefur alveg gefizt upp við viðreisnarstefnuna. Þegar viðreisnarstefnan var tekin upp, var því hátíðlega lýst yfir, að engar uppbótagreiðslur eða sérstakar greiðslur af hálfu þess opinbera til þess að styðja atvinnuvegina með einu eða öðru móti kæmu til greina, allt slíkt yrði afnumið, allt slíkt var fordæmt með öllu, sagt, að það kæmi ekki til greina, að slíkt yrði tekið upp framvegis. En nú með því að gera ráð fyrir greiðslu tryggingariðgjalda fyrir báta- og skipaflotann af hálfu þess opinbera framvegis yfirgefur ríkisstj. þessa stefnu, því að vitanlega er það ekki nema eitt form fyrir uppbótum að haga þessu þannig.

Ef ríkisstj. hefði viljað vera stefnu þeirri trú, sem hún tók upp, hefði hún átt að segja við atvinnurekendurna: Það verður hver um sig að greiða sín tryggingaiðgjöld, og kemur ekki til mála, að það opinbera hafi nein afskipti af því, standi fyrir nokkurri tekjuöflun til að draga inn fé í sameiginlegan sjóð til greiðslu tryggingaiðgjalda eða nokkurra annarra kostnaðarliða við framleiðsluna yfirleitt. Það verður allt að ganga eftir frjálsri leið, og engin afskipti af því koma til mála. — En hæstv. ríkisstj. hefur yfirgefið þessa stefnu og gerir nú ráð fyrir tekjuöflun til, að staðið verði sameiginlega undir kostnaði við tryggingar skipaflotans.

Öll þessi ákvæði verður að mínum dómi að endurskoða í nefnd, og annaðhvort verður að verja því fé, sem þarna á að innheimta frá útgerðinni, á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv., þannig að það komi rekstri útgerðarinnar beinlínis til góða strax, eða þá að það verður að fella alveg niður þessar nýju álögur.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, sannar mjög greinilega það, sem við ýmsir stjórnarandstæðingar höfum haldið fram, að gengislækkunin, sem var skellt á með brbl. s.l. sumar, var ekki gerð til þess að koma í veg fyrir stöðvun atvinnuveganna. Hún var ekki gerð til þess, eins og sumir hæstv. ráðherrar hafa þó látið liggja að í umræðum um málið hér á Alþingi. Við skulum bara athuga, hvernig gengislækkunin hefur snert bátaútveginn, sem er nú svo mikið byggt á. Tekjur bátaútvegsins hafa ekki enn í dag hækkað um einn einasta eyri við gengislækkunina. Fiskverðið er sama og það var, áður en genginu var breytt, en útgjöldin hafa vaxið stórkostlega vegna gengisbreytingarinnar.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, gerir ríkisstj. svo ráð fyrir því að taka bróðurpartinn af þeirri verðhækkun, sem sjávarútvegurinn gat átt von á framvegis, af sjávarútveginum með sköttum. Mundi þá útkoman af þessu verða sú, að tekjur sjávarútvegsins í heild vegna gengislækkunarinnar aukast sáralítið, en útgjöldin vaxa mjög verulega.

Í móti þessu er alls ekki hægt að mæla með neinum rökum, og þetta sýnir alveg svart á hvítu, að það, sem við höfum haldið fram um þetta, er alveg rétt. Gengislækkunin var ekki gerð til að koma í veg fyrir, að atvinnuvegirnir stöðvuðust vegna þeirra kauphækkana, sem urðu s.l. vor. Hún var gerð af allt öðrum ástæðum. Hún var í fyrsta lagi gerð sem hefndarráðstöfun gegn verkalýðsfélögunum og launasamtökunum í landinu, vegna þess að kaupgjaldsmálin voru leyst nokkuð öðruvísi en stjórnin vildi. Enn fremur var þessi gengislækkun gerð til þess að hækka verðlag á erlendum vörum fyrir neytendur og þá, sem þurfa að leggja í nýja fjárfestingu, og til þess að styðja þannig samdráttarstefnuna, sem stjórnin vill halda sér við. Loks var þessi gengislækkun gerð til þess að moka nýju fjármagni inn í ríkissjóðinn, gífurlegum fúlgum, sem eru teknar eignarnámi af útflytjendum vegna hækkunar á útflutningsbirgðum. Vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hversu mikið fjármagn gert er ráð fyrir að komi inn samkvæmt 6. gr. Það hefur þá farið fram hjá mér, ef hæstv. ráðherra minntist á þetta, enda var svo mikill ys í deildinni, þegar hæstv. ráðh. talaði, að það var mjög erfitt að fylgjast með því, sem hann sagði. Það væri mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta.

Ég ætla mér ekki að öðru leyti að fara að hefja hér almennar umræður um gengislækkunina, sem var ýtarlega rædd hér á dögunum. En ég vil samt benda á, að þetta frv. er alveg sönnun fyrir því, að við höfum haft rétt fyrir okkur um undirrót hennar.

Ég er alveg sannfærður um, að þetta frv. fær alls ekki staðizt. Það hljóta að verða gerðar breytingar á því nú þegar á þessu þingi, m.a. í þá átt að fella annaðhvort niður það aukna útflutningsgjald á sjávarútveginn, sem hér er gert ráð fyrir, eða þá að gera ráðstafanir til að verja þessu fjármagni beint nú þegar til stuðnings rekstri útvegsins. Annað hvort verður að gera að mínum dómi, og ég er sannfærður um, að annað hvort verður ofan á.