30.11.1961
Neðri deild: 28. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér fyrr á dagskrá, gerði ég það nokkuð að umtalsefni og benti á, að það væri einkum þrjú meginatriði að finna í þessu frv., sem veruleg áhrif hefðu í sambandi við efnahagsmálin í landinu.

Þessi Þrjú atriði, sem ég gerði aðallega að umtalsefni, voru þau, að með frv. er ákveðið, að ríkissjóður fái allan þann hagnað, sem til fellur af gengisbreytingunni og fram kemur af þeim útflutningsbirgðum, sem í landinu voru, þegar gengisbreytingin var samþykkt í ágúst í sumar. Og ég taldi, að þessi hagnaður, sem ríkið þarna ætlar að slá eignarhaldi sínu á, mundi verða í kringum 120–140 millj. kr. Það er nú þegar upplýst í þessum umr. af hæstv. forsrh., að það sé reiknað með því, að þessi hagnaður vegna birgðanna muni verða í kringum 120 millj. kr.

Annað atriði, sem ég gerði hér að umtalsefni, voru hinir gífurlega háu útflutningsskattar á sjávarafurðum, sem lagðir eru á samkvæmt þessu frv., þar sem hin almennu útflutningsgjöld af sjávarafurðum eru hækkuð úr 2.9% upp í 7.4% og á útfluttum síldarafurðum verður þá útflutningsgjaldið 9.4%.

Og í þriðja lagi ræddi ég svo nokkuð um þá stefnubreytingu, sem ákveðin er með þessu frv. á störfum hlutatryggingasjóðs, þar sem nú er gert ráð fyrir því að taka upp þann hátt að skattleggja bátaflotann í landinu, jafnt þorskveiðabátana sem síldveiða, til þess að greiða með styrki til togaraútgerðarinnar í landinu.

Það voru þessi þrjú atriði, sem ég gerði hér aðallega að umtalsefni. Nú hefur hæstv. forsrh. nokkuð vikið að þessum atriðum og ýmsum fleirum, sem hér bar á góma, og liggja nú fyrir nokkrar skýringar frá hans hálfu, þó að ég verði að segja, að mér fannst skýringar hans vera heldur í knappara lagi. Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum enn að þessum meginatriðum, sem ég vildi ræða hér, og svo þeim skýringum, sem hæstv. forsrh. hefur látið koma fram varðandi þessi atriði.

Það er þá fyrst spurningin um gengishagnaðinn af útflutningsbirgðunum, sem í landinu voru, þegar gengisbreytingin var ákveðin í ágústbyrjun í sumar. Ég taldi, að það væri mjög óeðlilegt að ákveða, að þessi gengishagnaður rynni í ríkissjóð, á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv., og engin fordæmi til þess áður, þegar kringumstæður væru eitthvað svipaðar og nú. Hverjar voru skýringar hjá hæstv. forsrh. í sambandi við þessa ráðstöfun? Jú, aðeins það, að hann telur, að ríkissjóður hafi haft svo mikil útgjöld vegna ýmissa ríkisábyrgða, sem atvinnuvegir landsins hafa haft á undanförnum árum, að það sé ekki óeðlilegt, að ríkissjóður fái nokkuð af þessum gengishagnaði vegna þeirra greiðslna, sem ríkissjóður hefur þurft að inna af höndum fyrir atvinnuvegina. En það er í fyrsta lagi, að ríkissjóður hefur fengið við afgreiðslu fjárlaga á undanförnum árum tiltekna tekjustofna til þess að standa undir þessum greiðslum. Það er búið með almennri skattlagningu á landsmenn að innkalla tekjur í ríkissjóð til að standa undir þessum greiðslum. Á undanförnum árum hefur verið gert ráð fyrir því, að ríkið þyrfti að fá tekjur til að standa undir þessum útgjöldum, frá 20 og upp í 40 millj. kr. á ári í þessu skyni. Að ætla að taka þennan gengishagnað af birgðunum er því að innheimta af landsmönnum a.m.k. tvisvar upp í þessi sömu útgjöld. Og þó er því lýst yfir, að þeir aðilar, sem standa í vanskilum við ríkissjóð vegna ríkisábyrgðagreiðslnanna, eigi áfram að standa skuldugir við ríkissjóð, og ríkissjóður getur krafið upphæðirnar inn frá þeim, þótt síðar verði. Enda verð ég að segja það, að það er afar hæpið að ætla að strika út með öllu þessi ríkisábyrgðavanskil, þó að ríkið taki nú til sín þennan gengishagnað, vegna þess að hér er alls ekki um sömu aðilana að ræða nema að litlu leyti.

Nei, ég verð að segja, að mér fannst, að hæstv. forsrh. hefði heldur litlar skýringar á þessu atriði að gefa. Að vísu kom hér eitt fram í ræðu hans, sem ég vil fyrir mitt leyti vekja athygli á. Ég hafði bent hér lítillega á það, að ýmsir framleiðendur yrðu af þessum ástæðum fyrir nokkrum skakkaföllum á þann hátt, að þó að útflutningsvörubirgðir þeirra lægju hér til í landinu í ágústbyrjun, þegar gengislækkunin var ákveðin, þá hagar því nú svo til, að þessar vörur, sem almennt eru þó taldar vera til í landinu sem birgðir, voru ekki að fullu framleiddar sem útflutningsvörur, þegar gengisbreytingin var gerð. Það átti og á enn eftir að vinna við þessar vörur í ýmsum greinum, og það á t.d. enn eftir að greiða flutningsgjöld á erlenda markaði fyrir þessar vörubirgðir. Og það er enginn vafi á því, að þessir aðilar, sem svona stendur á um, verða fyrir beinum halla fyrir þessi ákvæði. En hæstv. forsrh. sagði, að hann teldi, að ríkisstj. gæti haft þetta mál nokkuð í sinni hendi, þar sem í 6. gr. frv. væri talað um, að það skyldi að vísu gefa upp á gamla genginu þær útflutningsvörur, sem framleiddar eru fyrir 31. júlí 1961, en þar sem svona standi á, séu þessar vörur ekki að fullu framleiddar, og það sé því á valdi ríkisstj. að taka nokkurt tillit til þess við framkvæmd laganna. Ég tók svo eftir, að hæstv. forsrh. segði ekkert beint eða bindandi um þessi efni. En hann lét þó orð falla á þá lund, að ég tel, að nokkur von sé til þess, að þarna verði tekið sanngjarnt tillit til þess við framkvæmd laganna, að þeir, sem fá á sig aukaútgjöld í þessum tilfellum, fái þetta bætt af gengishagnaðinum. Og það teldi ég mjög eðlilegt og sanngjarnt og vona það einmitt, að orð forsrh. í þessum efnum bendi til þess, að þannig sé meining hans að taka á málinu. Slíkt væri vitanlega til bóta. En ástæðan til þess, að ég hafði einmitt hagað mínum orðum svona um þessi atriði, er sú, að sams konar orðalag hefur verið notað áður um þetta, og yfirleitt er það svo, að vörurnar hafa verið taldar framleiddar, þær sem komnar hafa verið á land, í þessum efnum og taldar sem birgðir, þó að þær hafi ekki að fullu verið tilbúnar sem útflutningsvörur. En sumarið 1958 var uppbótakerfið enn í gildi, og þá var hins vegar ákveðið að hafa þennan hátt á um framkvæmdina, sem ég minntist á núna, að taka nokkurt tillit til þess, hvort varan var að fullu tilbúin til útflutnings eða ekki.

Varðandi þennan fyrsta lið, sem ég hafði gert hér að umtalsefni, stendur þá það, að það er sem sagt viðurkennt, að ríkissjóður ætlar sér að fá aukatekjur af gengishagnaði á útflutningsvörubirgðum, sem í landinu voru, þegar gengislækkunin var ákveðin í ágúst í sumar, sem nemur í kringum 120–140 millj. kr.

Þá var annað atriðið. Það var varðandi hin háu útflutningsgjöld. Enn þá hélt hæstv. forsrh. sér við það, að þessi háu útflutningsgjöld, sem ákveðin eru með þessu frv., megi ekki telja sem beina skattlagningu á útgerðina, vegna þess að hækkun útgjaldanna eigi að renna í ýmsa sjóði, sem komi útflutningsframleiðslunni til gagns, þótt síðar verði. Ég trúi því varla, að hæstv. forsrh. átti sig ekki betur á þessu, ef hann skyggnist dálítið dýpra í þetta mál. Hann hlýtur að komast að raun um það, eins og allir þeir, sem við þetta eiga að búa, að þessi hækkuðu útflutningsgjöld hvíla sem algerlega bein útgjöld á rekstri viðkomandi árs. Viðkomandi framleiðslutæki verður að borga gjöldin og fær þetta ekki sem tekjur á árinu, en verður hins vegar á þessu ári að standa undir sínum lögskyldu útgjöldum, þó að þetta hafi verið tekið af tekjunum. Þetta leiðir því til hallarekstrar í mörgum tilfellum. Hitt er svo í rauninni allt annað mál, hvort það er verið með þessu að leggja fé til hliðar og byggja upp sjóði fyrir framtíðina, sem síðan er hægt að lána út sem bein stofnlán, sem auðvitað er borgað fyrir fullu verði, þegar þau lán úr þessum sjóðum eru tekin. Nei, á því er vitanlega enginn vafi, að ef íslenzkur sjávarútvegur þarf að borga útflutningsgjöld í ýmsa sjóði, sem nema 7.4%, á sama tíma sem útgerð í nálægum löndum, t.d. eins og í Noregi, þarf ekki að borga nein útflutningsgjöld eða útflutningsgjöld innan við 1%, þá er auðvitað alveg augljóst mál, að það er engin leið að öllu öðru jöfnu að halda uppi jafnháu fiskverði hér eins og þar. Framleiðendurnir verða þá að búa hér við lægra fiskverð eða lakari útkomu. Öðruvísi getur þetta ekki komið út. Rekstrarlega séð nú á næstu árum a.m.k. koma þessi gjöld út nákvæmlega eins, hvort sem þau renna í þessa væntanlegu stofnlánasjóði sjávarútvegsins eða hvort þetta rynni beint í ríkissjóð. Á því er enginn munur. Afkoma útgerðarfyrirtækjanna í landinu kæmi út alveg eins í báðum tilfellum.

Á það er svo líka að líta, að sá háttur hafði verið á hér um langan tíma að skattleggja íslenzkan sjávarútveg til síns stofnlánasjóðs og það allrösklega, eins og reglurnar stóðu áður. Tekjur fiskveiðasjóðs munu hafa verið af útflutningsgjaldi komnar upp í um það bil 50 millj. á ári. En samkvæmt þessu frv. á nú um það bil að tvöfalda þetta, þannig að það á að skattleggja sjávarútveginn, sem nemur hartnær 100 millj. kr. á ári í fast framlag í þessa lánasjóði. Þetta vitanlega hvílir með ógurlegum þunga á rekstri þessara ára. Ég held því, að hæstv. ríkisstj. þurfi að taka þetta mál til alvarlegrar athugunar og hún þurfi að átta sig betur á því en hæstv. forsrh. virðist hafa gert enn þá, hvernig þetta raunverulega kemur út og að þessu þarf að breyta. Það er heldur engin tilviljun, að útgerðarmenn í landinu eru sammála um það í samþykktum sínum nú að mótmæla þessum háu gjöldum og óska eftir því, að þessi útflutningsgjöld verði lækkuð. Þeir líta ekki svona á þetta, eins og hæstv. forsrh., að hér sé ekki um nein ný útgjöld á útgerðina að ræða. Þeir eru að óska eftir því, að útflutningsgjöldin verði lækkuð, af því að þeir vita, að þetta hvílir á rekstrinum sem bein útgjöld. Í þessum efnum er óhjákvæmilegt að hafa það í huga, að eins og núv. hæstv. ríkisstj. einmitt hefur búið að útflutningsframleiðslunni í þessum efnum, þá er verið að búa íslenzkri útgerð allt aðra rekstraraðstöðu en útgerð hefur hér í nálægum löndum. Það liggur alveg óumdeilanlega fyrir, að íslenzk útgerð þarf að borga um það bil þrisvar sinnum hærri vexti en t.d. útgerðin í Noregi þarf að borga. Og þegar útflutningsgjöldin eru orðin svona margfalt hærri hér en þar, þá sjá menn, til hvers þetta leiðir. Auk þess fær svo norsk útgerð verulegan rekstrarstyrk beint úr norska ríkissjóðnum, og hún þarf ekki heldur að standa undir neinum sköttum, sem eiga að mynda hennar stofnlánasjóði. Stofnlánasjóðir hennar eru myndaðir þar á sama hátt og hjá öðrum atvinnugreinum. Nei, þetta leiðir vitanlega til þess, að það verður alveg ósambærilegt að gera út á Íslandi og t.d. í Noregi. Og hér er ekki aðeins um samanburð við Noreg að ræða. Þessu er svona háttað í öðrum samkeppnislöndum okkar líka. Í Bretlandi eru greiddar með útgerðinni stórkostlegar fjárfúlgur á hverju ári sem beinir rekstrarstyrkir. Og þar er verulegur hluti af stofnkostnaði nýrra fiskiskipa gefinn hreinlega eftir. Um 25% af stofnverði skipanna, miðað við ákveðna stærð, er hreinlega gefið eftir strax í upphafi, og hið opinbera stendur undir þessu. En þessu er vitanlega allt öðruvísi varið hér hjá okkur. Sama er að segja um útgerðina í Vestur-Þýzkalandi. Hún hefur notið margvíslegra beinna ríkisstyrkja á undanförnum árum.

En svo þegar það kemur aftur á daginn, að okkar sjávarútvegur á við nokkra örðugleika að etja, þá er hafinn miskunnarlaus áróður í okkar landi fyrir því, að við þurfum í rauninni að gefa okkar sjávarútveg upp á bátinn og við þurfum að leita að einhverjum nýjum atvinnugreinum, m.a. þeim, sem hæstv. forsrh. gerði hér lítillega að umtalsefni, þó að hann talaði ekki þannig, að hann vildi afskrifa íslenzkan sjávarútveg, hreint ekki, — að við þurfum að leita að einhverjum nýjum atvinnugreinum eins og stóriðju, sem við íslendingar getum auðvitað ekki byggt upp sjálfir, heldur verða það að vera erlendir aðilar, sem eiga að leggja fé til þess að byggja upp þessa nýju atvinnuvegi.

Erfiðleikarnir, sem okkar útgerð á við að stríða, eru meira og minna á þennan hátt, sem ég hef verið að lýsa, heimatilbúnir. Þeir stafa af því, að við látum okkar útgerð borga margfalt hærri vexti en aðrir láta sína útgerð borga. Þeir stafa af því, að við höfum hér margfalt hærri útflutningsgjöld en greidd eru í nálægum löndum. Og þeir stafa af því, að við erum að leggja sérstakan rekstrarskatt á okkar útgerð til þess að safna í almenna stofnlánasjóði. Og margt annað kemur hér auðvitað til í sambandi við samanburð á rekstraraðstöðu íslenzkrar útgerðar og útgerðar í nálægum löndum, sem hið opinbera gæti auðvitað lagað til fyrir okkar útgerð með. Erfiðleikar íslenzkrar útgerðar stafa m.a. af svona heimatilbúnum atriðum, en þetta er síðan notað til að veikja trú almennings í landinu á okkar aðalatvinnuvegi, og þess í stað er farið að tala um það, hvernig við þurfum að byggja upp alveg nýja atvinnuvegi, sem eigi síðan að frelsa þjóðina. En ég er sannfærður um það, að fái íslenzkur sjávarútvegur að búa við hliðstæð kjör og sjávarútvegur nálægra landa, þá mun það sýna sig, að hann hefur mjög góða afkomumöguleika og okkar þjóð getur ekki fengið meiri tekjur af neinum öðrum atvinnuvegi en íslenzkum sjávarútvegi.

Þá var það þriðja atriðið, sem ég hafði gert að nokkru umræðuefni, en það var sú stefnubreyting, sem virðist vera ákveðin um hlutatryggingasjóð. Því atriði svaraði hæstv. forsrh. ekki nema þá á mjög óbeinan hátt. Hann gerði að vísu allmikið að umtalsefni rekstur íslenzku togaraútgerðarinnar, og eitt sagði hann varðandi það mál, sem ég er honum fullkomlega sammála um og ég gleðst yfir að heyra frá hans hálfu, vegna þess að mér hefur fundizt, að úr herbúðum stjórnarinnar andi fremur öðru, þegar það mál hefur borið á góma að undanförnu. en það var um framtíð íslenzkrar togaraútgerðar. Ég er honum sammála um, að það væri alrangt að ætla að leggja niður íslenzka togaraútgerð þrátt fyrir þá erfiðleika, sem hún á við að búa nú. Ég álít, að við höfum ekki efni á slíku. Ég álít, að það væri rangt. Ég álít, að við eigum að takast á við þau vandamál, sem þar er við að eiga. En ég er hins vegar hæstv. forsrh. algerlega ósammála um það, hvernig eigi að því að vinna, ef ég hef þá skilið orð hans rétt varðandi þetta mál.

Hæstv. forsrh. ræddi allmikið um það, að íslenzku togararnir hefðu orðið fyrir allmiklum skakkaföllum við útfærslu fiskveiðimarkanna. Og ég skildi hann svo, að hann teldi, að erfiðleikar togaranna nú stöfuðu að verulegu leyti af því, hvað þeir fengju að njóta lítilla réttinda innan fiskveiðilandhelginnar. Og ég tók eftir, að hann segði eitthvað á þá leið, að það yrði varla um það að ræða, að hægt yrði að bæta hag togaraútgerðarinnar, án þess þá að það yrði að vera á kostnað bátaútgerðarinnar í landinu. Svona álít ég ekki, að þessi mál liggi. Það er mín skoðun, að íslenzka togaraútgerðin hafi orðið fyrir tiltölulega mjög litlum áföllum við það að verða að fiska að mestu fyrir utan 12 mílna mörkin. Ég tel, að á meðan íslenzku togararnir voru frjálsir að því að veiða upp að 4 mílna mörkunum, hafi þeir tekið yfirgnæfandi hluta af afla sínum auan þann tíma fyrir utan 12 mílna mörkin. Þann tíma, sem ég stjórnaði togaraútgerð, gerði ég á þessu nokkra athugun eitt árið í samráði við þá skipstjóra, sem á skipunum voru, og þá taldist okkur til, að á þeim skipum hefði þetta verið svo, að um 85% af afla skipanna á því ári hefði verið tekið fyrir utan 12 mílna mörkin, — ekki meira en 15% af afla skipanna, þegar þau voru frjáls svo að segja, hvar Þau veiddu, hafi þá verið tekin fyrir innan mörkin. Nú þýða þessar tölur auðvitað ekki það, að skipin hafi með þessu tapað 15% af sínum afla, því að það er enginn vafi á því, að ef þau hefðu stundað veiðar fyrir utan 12 mílna mörkin þann tíma, sem þau stunduðu veiðar fyrir innan þau, Þá hefðu þau vissulega veitt eitthvað, þótt þau hefðu kannske ekki veitt eins mikið á þeim tíma og þau veiddu fyrir innan. Það er því mín skoðun, að þessar breytingar hafi ekki kostað íslenzku togaraútgerðina verulega mikið, en nokkuð þó. Ég veit hins vegar, að ýmsir togaraeigendur og togaraskipstjórar vilja gera miklum mun meira úr þessu, og það er ákaflega mannlegt, að þeir reyni að gera það. En ég er þeirrar trúar, að þó að nú yrði farið inn á þá braut að hleypa íslenzku togurunum í auknum mæli inn í fiskveiðilandhelgina, þá mundu þeir ekki bæta fjárhag sinn frá því, sem nú er, nema að sáralitlu leyti. En hins vegar er ég alveg viss um það, að þeir mundu valda miklu tjóni á veiðarfærum bátanna og aðstöðu bátaflotans til þess áð fiska á þessum slóðum innan fiskveiðilandhelginnar. Svo mikil hefur útþenslan verið á síðustu árum á netaveiðum bátanna og í rauninni stækkunin hjá bátaflotanum hefur verið svo mikil, að það er afar erfitt að ætla að koma því fyrir, svo að vel sé, að togararnir geti veitt á þeim tíma, sem þeir sækjast helzt eftir að vera innan 12 mílna markanna, á þeim slóðum, þar sem bátarnir yfirleitt taka sinn fisk. Ég held því, að þegar litið er á heildina, þá yrði þetta til tjóns fyrir þjóðarbúið og til lítils hagnaðar fyrir íslenzka togaraútgerð.

Það var greinilegt á orðum hæstv. forsrh., að hann og ríkisstj. eru að hugleiða þessa möguleika a.m.k. að hleypa íslenzkum togurum í auknum mæli inn í fiskveiðilandhelgina. Og ég hef það fyrir satt, að það hafi að undanförnu starfað nefnd á vegum ríkisstj., sem sé að athuga um þessi mál, og ég veit, að fram eru komnar tillögur frá a.m.k. sumum aðilum í nefndinni um að gerbreyta til í þessum efnum. Ég vil nú segja það í tilefni af þessu og alveg sérstaklega í tilefni af því, sem hæstv. forsrh. sagði hér, þeim hugleiðingum, sem hann hafði hér í frammi um þessi mál, að ég vil alvarlega skora á ríkisstj. að flana ekki að neinu í þessum efnum og fara ekki út í það að hleypa íslenzku togurunum frekar inn í fiskveiðilandhelgina en orðið er. Þegar það er líka haft í huga, að það er greinilegt, að útlendingar virðast mjög komast einmitt í það að fá að njóta þess í okkar fiskveiðilandhelgi, sem íslenzku togararnir fá að njóta, þá sjáum við, hvað gæti leitt af slíku að hleypa íslenzku togurunum lengra inn í landhelgina en nú er orðið. Ég held, að það sé þá veruleg hætta á því, að erlendi togaraflotinn flyti þar á eftir með tilheyrandi stórerfiðleikum fyrir okkar bátaútveg og hættu fyrir okkar grunnmið öll. Ég lýsi sem sagt andstöðu minni við þá hugsun að ætla að leysa vandmál togaraflotans nú á þann hátt að gefa honum meira svigrúm innan fiskveiðilandhelginnar. Það held ég, að sé röng stefna og hættuleg og hæstv. ríkisstj. ætti ekki að hníga að því ráði.

En e.t.v. hefur mátt taka þessar hugleiðingar hæstv. forsrh. um togaraútgerðina og erfiðleika hennar sem svar við aths. mínum um breytingarnar, sem frv. gerir ráð fyrir á starfsemi hlutatryggingasjóðs. En þar hafði ég einmitt fundið sérstaklega að því, að það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að auka allverulega skattaálögurnar á bátaútveginum til hlutatryggingasjóðs og taka þann tekjuauka, sem koma á fram í sjóðnum, til þess að styðja togaraútgerðina. Þó að það sé ekki orðað beinum orðum, þá held ég, að það sé enginn vafi á því, enda hefur enginn reynt að mótmæla því, að það er ætlazt til þess að taka tekjuauka sjóðsins til þess að styrkja með togaraútgerðina núna. Ég hafði varað við þessu, og ég tel, að hér sé stefnt í algerlega ranga átt. Það er hættulegt að ætla að innheimta nokkrar millj. kr. á ári af síldveiðiflota okkar, af bátaflotanum og allt niður í trillubáta, sem veiða víða í kringum landið, og taka þá fjárhæð og veita hana sem stuðning til togaraútgerðar. Maður veit satt að segja ekki, hvar maður stendur, ef maður fer út á slíka braut sem þessa. Og ég held, að ríkisstj. ætti að snúa til baka af þessari braut, hún sé hættuleg, og ég efast um, að ríkisstj. haldist það uppi til lengdar að gera þetta. En eins og ég hafði sagt áður í þessum umr., tel ég hins vegar alveg sjálfsagt og nauðsynlegt að taka vandamál togaraútgerðarinnar fyrir til sérstakrar athugunar. Þar þarf margt að gera til þess að bæta hag togaranna, og ég álít, að það sé hægt að gera þar ýmislegt, sem að gagni mætti koma, án þess að það þurfi að koma sem bein greiðsla eða óbein greiðsla frá bátaútvegi landsmanna. Ég fer ekki út í það neitt frekar í þessum umr. að koma fram með mínar hugmyndir í þeim efnum. En ég álít, að ýmislegt af því, sem hefur komið fram meðal þeirra, sem um þessi mál hafa rætt nokkuð og hugleitt þau, gæti orðið rekstri togaranna verulega til bóta. Auk þess tel ég ekki óeðlilegt, þegar ein atvinnugrein eins og togaraútgerð verður fyrir verulegum áföllum, þó að hið opinbera þurfi að einhverju leyti að veita henni nokkurn stuðning á stuttu tímabili. En ég tel mjög óeðlilegt að ætla að fara að skattleggja aðrar greinar sjávarútvegsins, eins og bátaútveginn í landinu, til að standa undir fjárhagsvandamálum togaranna.

Að öðru leyti en með þessum almennu umr. vék hæstv. forsrh. ekki að þessari auknu tekjuöflun til hlutatryggingasjóðs og þeirri breyttu starfsemi, sem gert er ráð fyrir að verði hjá hlutatryggingasjóði samkv. þessu frv.

Ég hafði minnzt á það áður í þessum umr., að þessi gengisbreyting væri sérstæð að því leyti til, að samkv. henni hækkar verð á öllum innfluttum vörum til landsins um það, sem gengisbreytingunni nemur, þ.e. 13.15%, og mun þó yfirleitt í útsölu hér verða meira. Þannig hækka allar innfluttar rekstrarvörur bátaútvegsins sem þessu nemur. Hins vegar er gengið frá því þannig með þessum aukaráðstöfunum, sem fylgja gengisbreytingunni, að útflutningurinn getur aldrei fengið jafnmikla hækkun á útfluttum vörum. Innfluttu rekstrarvörurnar hækka um 13.15%, en eins og ég sagði, útfluttar vörur geta brúttó ekki hækkað um meira en ca. 8%, vegna þess að mismunurinn, sem liggur hér á milli, er tekinn nú og lagður til hliðar í þar til greinda sjóði. Á þennan hátt verður það, að fiskkaupendur í landinu, þeir sem verka fiskinn til útflutnings, eins og frystihúsin og aðrir þeir, sem annast fiskverkun, þeir geta í mesta lagi fengið sem auknar tekjur, eftir að gengisbreytingin gengur í gildi, sem brúttóaukningu á sínum tekjum, 8%, en þeir verða hins vegar að borga sín rekstrarútgjöld í mjög mörgum tilfellum með hækkun, sem nemur 13–16%. Þetta hefur leitt til þess, að þessir aðilar segja: Við getum ekki hækkað hráefnisverðið til bátaflotans neitt þrátt fyrir þessa gengisbreytingu. — þeir hafa þegar gert samþykktir um það, frystihúsaeigendur í landinu, að þeir geti ekki t.d. nú frá næstu áramótum að telja mætt óskum útgerðarmanna bátanna um neina fiskverðshækkun. Þetta bætist svo ofan á þá staðreynd, að bátaflotinn t.d. hefur ekki fengið neina hækkun á sínu fiskverði frá 3. ágúst í sumar, þegar gengisbreytingin var ákveðin, og út allt árið, og frá þeim tíma hækkuðu síldarafurðirnar ekki heldur um einn einasta eyri, ekki til veiðiskipanna. Og eins og ég sagði, það sem verra er, að þessir fiskkaupendur halda því fram, að gengisbreytingin komi þannig út fyrir þá, að þeir geti ekki heldur eftir áramót hækkað fiskverðið um einn einasta eyri. Það var af þessum ástæðum, sem ég spurði hæstv. ríkisstj. um það fyrr í umr.: Hvað hefur hún hugsað sér að gera til að tryggja það, að þessi gengisbreyting, sem hún hefur rökstutt með því að hafi verið gerð til þess að bjarga sjávarútvegi landsmanna, — hvað hefur hún hugsað sér áð gera til þess að sjá um, að t.d. fiskverðið til veiðiskipanna hækki, a.m.k. til samræmis við hækkuð rekstrargjöld? Ríkisstj. hefur séð það eins og aðrir í landinu, að fiskverðið, frá því að gengisbreytingin var ákveðin, hefur ekki hækkað neitt, en útgjöld flotans hafa hins vegar hækkað. Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. sér að gera til þess að sjá um, að fiskverðið geti hækkað? Ætlar hún að telja sér það óviðkomandi og horfa á þetta öllu lengur en hún er búin að gera? Það er m.a. af þessum ástæðum, sem ég hef sagt, að á því sé enginn vafi, að þessi gengisbreyting, eins og hún var gerð á s.l. sumri, hefur ekki komið sjávarútveginum til góða. Hún hefur ekki orðið til þess að bæta rekstur sjávarútvegsins í landinu. Bátaútvegurinn t.d. hefur haft beinlínis tap af þessari breytingu, allt fram að þessum tíma a.m.k.

Um þetta mál hafa nú orðið hér alllangar umr. En málið á eftir að fara til nefndar og verða þar athugað. Það er vitað, að hæstv, ríkisstj. hefur þegar gefið samtökum útvegsmanna loforð um að standa nokkuð öðruvísi að framkvæmd þessara mála en segir í brbl. og þessu frv., eins og ég hef vikið hér að áður í þessum umr. Ég tel því alveg víst og einnig með tilliti til þess, sem hæstv. forsrh. hefur sagt í þessum umr., að það sé ætlunin að breyta þessu frv. að verulegu leyti. Nú reynir á það, hve miklar þessar breytingar verða. Ég tel, að hér þurfi að verða á stórbreytingar, ef framkvæmdin á gengisbreytingunni á ekki að verða sjávarútveginum stórkostlega til tjóns.