30.10.1961
Efri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

4. mál, skráning skipa og aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir þessu frv. við 1. umr., er meginbreytingin frá gildandi lögum sú, að gjöld þau, sem nánar eru til tekin í 1. gr. frv., skuli eftirleiðis ákveðin með reglugerð, en ekki sérstökum lögum, og er lögunum frá 1948 um skráningu skipa og lögunum frá 1954 um aukatekjur ríkissjóðs breytt til samræmis við þetta. Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og eins og nál. á þskj. 60 ber með sér, er n. sammála um að mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.

Að gefnu tilefni vegna athugasemda, sem fram komu við 1. umr. frv. frá hv. 3. þm. Norðurl. v., vil ég taka það fram, að ég býst við, að fjhn. öll sé sammála því sjónarmiði, að þegar um er að ræða skatta til ríkisins, þá væri það auðvitað ekki spor í rétta átt, að slík gjöld skuli ákveðin með reglugerð, en ekki með lögum. Hins vegar ber þess að gæta, og það er ástæðan til þess, að n. mælir með þessu frv., að hér er ekki um að ræða eiginlega skatta, heldur gjöld fyrir ákveðna þjónustu, sem það opinbera veitir. En bæði með tilliti til þess, að hér er um mjög lítilfjörlegan tekjustofn að ræða, svo og þess, að Alþ. mundi hafa litla aðstöðu til þess að meta það, hve há gjöld skuli greiða fyrir þá þjónustu, sem hér um ræðir, leit n. þannig á, að eðlilegt væri að taka upp þá skipan, sem frv. gerir ráð fyrir.