31.10.1961
Efri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. skýrði frá, urðu fjhn-menn ekki sammála um tillögur gagnvart afgreiðslu þessa frv. Ég hef í nál. á þskj. 65 lagt til, að frv, verði samþ., að því undanskildu, að ég legg til, að 5. gr. verði felld niður. Framlengingarnar, sem frv. inniheldur frá 1. gr. til 4. gr., eru um hækkun á gjöldum, en orðnar fastar í framkvæmd og hafa samlagazt efnahagslífinu. Ég sé ekki, að neinn grundvöllur sé til að lækka þær eða fella þær niður. Ég hef ekki heldur við það að athuga, þó að tekin sé inn í 4. gr. heimild úr lögum nr. 79 frá 1960 um að fella niður aðflutningsgjöld af nokkrum nauðsynjavörum. Hins vegar er ég mótfallinn 5. gr. og legg til, að hún verði felld niður. Þarna er eitt af óhreinu börnunum hæstv. ríkisstj., sem hún vill reyna að fela. Hún vill lauma því þarna inn, til þess að það hætti að minna á sig eins tilfinnanlega og ef það fer eitt sér. Þetta er framlenging á 8% viðbótarsöluskatti á innflutningi.

Þetta ólánsafkvæmi varð til á léttúðaraugnablikum fyrsta ársfjórðungs viðreisnarinnar. Það má segja, að það hafi komið óvart undir, því að hæstv. ríkisstj. sagði í sinni hvítu bók, Viðreisn: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi.“ Hún hélt þá, að kerfið, sem hún hafði sett upp, gengi ekki með þennan þunga.

En raunin varð önnur. Litlu seinna fæddist söluskattshækkunin, sem varð 8.8% í framkvæmd eða meira en helmingshækkun á þessum skatti. Þessi hækkun átti að vera aðeins til bráðabirgða, eins og hún var túlkuð, eða til ársloka 1960.

Á árinu 1960 var norskur sérfræðingur, Per Dragland, fenginn til landsins til að athuga efnahagsmálin og efnahagsaðgerðirnar. Hann sagði í skýrslu, sem birt var í stjórnarblöðunum:

„Er söluskattshækkun í innflutningi úr 7.7 í 16.5% skoðuð sem bráðabirgðaráðstöfun. Þegar hægt verður að lækka skattinn aftur, mun það eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hafa í för með sér 3% sparnað fyrir vísitölufjölskyldu.“

Í þessum orðum hins norska hagfræðings má glöggt heyra, að honum hefur verið skýrt svo frá, að skattaukinn ætti bara að vera til bráðabirgða. Enn fremur upplýsir hann, að þessi nýi baggi íþyngi vísitölufjölskyldunni um 3%. Þarna er því ekki um smámuni að ræða.

Þegar kom að árslokum og afgreiðslu fjárlaga fyrir 1961, beit hæstv. ríkisstj. á jaxlinn og framlengdi 8.8% viðbótina fyrir 1961. Nú ætlar hún að gera slíkt hið sama fyrir 1962, en á þann hátt að smeygja framlengingarákvæðinu inn í þetta frv. hjá hinum gömlu, árlegu framlengingum, sem farið er að telja sjálfsagðar. Með þessu viðurkennir hæstv. ríkisstj. raunar, að hún ætli alveg að bregðast með að létta þessum skattauka sínum af fólki, viðurkennir, að hún hafi sprungið á því limmi. En ég tel alls ekki rétt að gefa henni tækifæri til að láta þennan ósigur sinn svo auðveldlega gleymast. Ég tel, að hæstv. ríkisstj. eigi, þangað til dagar hennar eru taldir, að fást við þennan skattauka sinn, þessa 3% dýrtíðaraukningu vísitölufjölskyldunnar, sem sérstaka framlengingu bráðabirgðaákvæðis í lögum um söluskatt. Á þann hátt gleymir hún síður þessu ólánsbarni sínu og framfærsluskyldu sinni á því. Með því fyrirkomulagi lagasetningarinnar er líka frekar hugsanlegt, að hún reyni að afnema þennan skattauka, eins og henni ber að gera samkvæmt sínum fyrri áformum og fyrirheitum. Ég legg þess vegna ákveðið til, að 5. gr. frv. verði felld, — mæli með samþykkt frv. að öðru leyti.