22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1960 liggur hér fyrir til afgreiðslu, og vekur það í fyrsta lagi nokkra undrun, að hv. frsm. minni hl. fjhn., sem hafa ekki borið gæfu til þess að geta skilað sameiginlegu áliti í þessu máli, hvorugur þeirra hefur í rauninni gert ríkisreikninginn, fjárstjórn og afkomu ríkisins á árinu 1960, að umtalsefni, að öðru leyti en því, að hv. frsm. 2. minni hl., sem siðast talaði, minnti á það, að þetta ár væri fyrsta starfsár núv. ríkisstj. Nú hefði maður getað látið sér detta í hug, að þessir hv. Þm. og meðlimir fjhn. teldu það einhverju máli skipta, þannig að rétt væri a.m.k. að minnast á það, hvernig tókst til um fjárstjórn og afkomu ríkissjóðs og ríkisstofnana á þessu ári. En það er eins og þessa hv. þm. skipti það engu máli og þeir telji einnig, að þingheim og þjóðina skipti það ekki nokkru, hvernig það hefur farið úr hendi, t.d. hvort greiðsluhalli eða greiðsluafgangur hafi verið hjá ríkinu. Þeim virðist ekki ástæða til þess að nefna bað, þó að orðið hafi greiðsluafgangur á þessu ári, og hefur það þó verið undanfarinn áratug mjög sitt á hvað, að halli og afgangur hefur orðið, eða það, hvort um útgjöldin hafi verið reynt að fylgja áætlunum fjárl. og forðast umframgreiðslur. Þessa hv. þm. virðist skipta það engu, að á þessu ári, 1960, gerðist það í fyrsta skipti, að útgjöldin urðu undir áætlun, í stað Þess að þau hafi jafnan í sögunni áður orðið yfir áætlun fjárl. og oft og tíðum um mjög verulegar umframgreiðslur að ræða.

Ég skal ekki fara út í þessi atriði frekar, en furðulegt er það, að þessir hv. þm. skuli telja öll meginatriðin í ríkisreikningnum og fjárþörf ríkisins og afkomu þess engu máli skipta. Þeir hafa varið öllum sínum ræðutíma hér til þess að ræða um eitt tiltekið mál, sem nú er í athugun og rannsókn, og verið með harðorðar árásir og dylgjur, vil ég segja, í minn garð, sem allt saman er byggt á hugarburði og sandi einum saman.

Varðandi meðferð reikningsins er ástæða til þess aðeins að minnast á hann.

Sá hafði verið háttur hér um margra ára skeið, að Alþingi fékk ekki ríkisreikning til samþykktar og endanlegrar afgreiðslu fyrr en yfirleitt þremur eða fjórum árum eftir reikningsárið. Það var öllum ljóst, að slíkur seinagangur var ekki heppilegur fyrir fjárstjórn ríkisins. Hvert einasta sæmilega rekið fyrirtæki telur það skyldu sína að gera upp sína reikninga sem fyrst eftir lok reikningsárs, fá þá endurskoðaða og afgreiða Þá endanlega af þeim aðila, sem það á að gera. Flest fyrirtæki munu á næstu mánuðum eftir lok reikningsárs sjá um, að þetta sé gert. En sjálft Alþingi Íslendinga, sem er endanlegur úrskurðaraðili um ríkisreikninga, hefur ekki fengið reikningana til úrskurðar og meðferðar fyrr en mörgum árum eftir að reikningsárinu var lokið. Þessi óstjórn, vil ég segja, á uppgjöri og fjármálum, sem tíðkazt hefur hér alllengi, var náttúrlega síður en svo til fyrirmyndar og jafnvel stórhættuleg.

Eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj. var að gera hér umbætur á, að hraða uppgjöri, prentun ríkisreikninga og leggja sem fyrst fyrir Alþingi frv. til endanlegrar afgreiðslu á reikningnum. Þegar ég tók við starfi fjmrh. seint á árinu 1959, lá það fyrir, að það var ekki einu sinni farið að leggja fyrir Alþingi frv. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1957. Það voru gerðar ráðstafanir til þess að hraða Þessu og gera hreint borð, og á árinu 1960 voru afgreiddir hér á Alþingi endanlega tveir ríkisreikningar. Vorið 1960 var reikningurinn fyrir fyrsta ár vinstri stjórnarinnar, árið 1957, loksins afgreiddur. Í desember sama ár var reikningurinn fyrir árið 1958, annað ár vinstri stjórnarinnar, afgreiddur. Reikningurinn fyrir 1959 var lagður fyrir Alþingi til samþykktar í desembermánuði Það ár. Það var í lófa lagið að afgreiða þann reikning fyrir áramót, og hefði það þá gerzt í fyrsta sinn, að Alþingi hefði sýnt þann myndarskap af sér að afgreiða endanlega ríkisreikning á næsta ári eftir reikningsárið. En hvað gerðist? Framsfl. taldi sér Það skylt að tefja afgreiðslu Þess reiknings, og flokkurinn eða málsvarar hans lýstu Því yfir, að þeir mundu gera Það, sem í þeirra valdi stæði, til þess að hindra, að reikningurinn næði afgreiðslu fyrir áramót. Þar sem tiltölulega skammur tími var eftir af þinghaldinu þá, var auðséð, að Þetta mundi Þeim takast, og var því ekki unnt að afgreiða reikninginn fyrr en eftir áramótin eða í febrúar. í sambandi við þennan ríkisreikning fyrir 1959 segir meiri hl. fjhn. í nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hluti nefndarinnar telur það vera til mikilla bóta að leggja ríkisreikning fyrir Alþingi svo skömmu eftir lok viðkomandi fjárhagsárs, enda þótt afleiðingin sé sú, að á skorti, að hinni umboðslegu endurskoðun sé lokið. En þess eru dæmi oft áður, að hinni umboðslegu endurskoðun hefur ekki verið lokið, þegar ríkisreikningurinn er lagður fyrir Alþingi.“

Þegar málið hafði verið afgreitt út úr Þessari hv. d. og kom til Nd., þá sem sagt snerust málsvarar Framsfl. þannig, að þeir höfðu í hótunum um tafir á afgreiðslu nauðsynlegra mála, ef ætlað var að afgreiða ríkisreikninginn fyrir áramót. Af Þeim ástæðum var það ekki gert.

Nú gerist það í annað sinn, þegar ríkisreikningur er lagður fyrir á næsta ári eftir reikningsárið, í desember s.l., að hv. framsóknarmenn viðhafa sömu vinnubrögð. Þeir mótmæla því algerlega, að frv. um samþykkt á reikningnum sé afgreitt fyrir áramót. Og þeir hafa í bæði skiptin borið fram vissar ástæður. í fyrra skiptið átti ástæðan að vera sú, að hinni umboðslegu endurskoðun hafi ekki verið nándar nærri lokið. Það var að sjálfsögðu bent á það, að því færi fjarri, að þetta hefði nokkru sinni verið talin ástæða til þess að fresta afgreiðslu ríkisreiknings, Því að hin umboðslega endurskoðun hefur jafnan verið varðandi sumar stofnanir nokkur ár á eftir, og vitanlega hefur það engin áhrif, eftir að búið er að gera upp reikning og prenta hann, þá hefur það engin áhrif á hann sjálfan, reikninginn fyrir það ár, þó að við hina umboðslegu endurskoðun kæmu fram einhverjar athugasemdir eða einhverra breytinga væri þörf, því að það kemur að sjálfsögðu fram í næsta reikningi á eftir. Þetta voru því tylliástæður einar. Nú var gripið til annarra ástæðna. Astæðan til þess, að ekki væri hægt að afgreiða frv. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir 1960 fyrir jól, var sú, að hv. framsóknarmenn þyrftu að rannsaka alveg sérstaklega útgerð og rekstur togarans Brimness, og Þess vegna væri ekki hægt að samþykkja ríkisreikning fyrir árið 1960. Vegna andstöðu Þeirra var því ekki hægt að afgreiða reikninginn.

Nú verður mönnum að spyrja, af því, eins og ég kem að síðar, þá er Þetta ekki ástæða, heldur átylla, — nú verður mér að spyrja: Hvernig stendur á þessu ofurkappi, sem framsóknarmenn leggja á það að hindra, að ríkisreikningur fái endanlega afgreiðslu Alþingis á næsta ári eftir reikningsár? Hv. frsm. 1. minni hl. lýsti nú hér yfir, að ríkisreikningnum lægi hreint ekkert á. ríkisreikningnum liggur ekkert á, sagði hann. Það er gamla Framsóknarsjónarmiðið, að Það sé alveg jafngott og kannske betra, að ríkisreikningurinn verði dálítið gamall og slái í hann, megi bíða 3–4 ár og Alþingi eða fjármálastjórn ríkisins hafi Þannig þau vinnubrögð, sem mundu Þykja til vansæmdar í hverju sæmilega reknu fyrirtæki, að gera ekki upp sína reikninga fyrr en mörgum árum eftir á. Hvort ástæðan er sú, að hv. framsóknarmenn geti ekki hugsað sér, að umbætur séu gerðar í þessum efnum frá Því, sem var, þegar þeir réðu, — Það má vel vera, að það sé meginástæðan og þess vegna stafi þessi andstaða þeirra nú tvö þing í röð gegn eðlilegri afgreiðslu ríkisreiknings, hún stafi af tregðu þessa hæggenga flokks, sem kennir sig við framsókn, við að sætta sig við umbætur. En heldur er nú lítilmannlegt að hafa þann hugsunarhátt annars vegar að geta ekki sætt sig við, að umbætur séu gerðar í jafnsjálfsögðum málum og hér er, eða geta ekki unnt ríkisstj. þess að gera Þessa hluti betur en þeir sjálfir gerðu, meðan þeir fóru með fjárstjórnina. Þetta er nauðsynlegt að minna hér á, vegna þess að þetta er Framsfl. til svo mikillar vansæmdar, að hann skuli hegða sér þannig þing eftir þing, að það verður einnig ákaflega leitt að þurfa að vera að ræða svona hluti. Hins vegar er það nauðsynlegt til skýringar á ýmsu öðru í sambandi við þessi mál.

Í þetta skipti er aths. sú, sem yfirskoðunarmenn ríkisreikninga gera út af rekstri togarans Brimness, aths. nr. 39 í þeirra aths. Hún er notuð sem átylla og hefur verið notuð sem átylla til þess að tefja afgreiðslu ríkisreikningsins frá 11. des. og fram til þessa dags. Nú er það athugandi, hvort nokkur heil brú er í þessari afstöðu. Í fyrsta lagi er þess að geta, að hvaða afgreiðslu og endalok sem þetta svokaltaða Brimnesmál fær, þá getur það vitaskuld ekki breytt einum staf og ekki einni tölu í ríkisreikningnum fyrir 1960. Hann liggur fyrir endanlega uppgerður og hver sem niðurstaðan verður af rannsókn, uppgjöri, málaferlum eða hverjar aðgerðir sem yrðu í sambandi við Brimnessmálið, þá getur það ekki haft nokkur minnstu áhrif á ríkisreikninginn. Ef þetta mundi leiða til einhverra breytinga á niðurstöðum, Þá kemur það vitaskuld fram í ríkisreikningum á næstu árum, þannig að það er auðvitað ekki vottur af röksemdafærslu í þessu, að vegna Þess að þetta svokallaða Brimnesmál liggi ekki fyrir endanlega, endanlegar niðurstöður liggi ekki fyrir í því, það séu rök fyrir Því að fresta samþykkt frv. um ríkisreikning.

Við skulum nefna dæmi. Stundum hafa á undanförnum árum komið upp vandræða- og óreiðumál hjá einstökum ríkisstofnunum eða starfsgreinum. Rannsókn þeirra og endanlegt uppgjör hefur oft og tíðum tekið mörg ár. Hvenær hefur nokkrum alþm. eða öðrum dottið í hug, að ríkisreikningum fyrir viðkomandi ár ætti að fresta og láta þá bíða kannske 3–4 ár, þangað til endanlegum málarekstri er lokið? Slíkt dettur auðvitað engum í hug. Í annan stað er þess að geta, að samþykkt þessa frv. um ríkisreikninginn, hvort ríkisreikningurinn er samþykktur nú eða síðar, hefur auðvitað ekki minnstu áhrif á gang þessa Brimnesmáls. Meðferð þess enn hefur farið fram eftir eðlilegum embættislegum reglum í þeim ráðuneytum, sem þar eiga hlut að máli, og hvort ríkisreikningi er frestað í nokkrar vikur eða mánuði eða 1–2 ár, hefur það ekki minnstu áhrif á gang þess máls. Þessar ástæður eða átyllur, sem fram eru bornar, að þetta mál þurfi að fresta ríkisreikningnum, eru engin rök. Það eru engar ástæður og engin rök og engin heil brú í þessu.

Það er svo rétt að víkja aðeins að meðferð þessa máls. Hinni ýtarlegu aths. yfirskoðunarmanna var svarað af hálfu fjmrn. á þá leið, með leyfi hæstv. forseta, að ráðuneytið hafi „fullan hug á því, að reikningsskilum þessarar útgerðar ljúki sem fyrst. Hefur ríkisendurskoðanda verið falið málið, og vinnur hann nú að því að upplýsa þau atriði, sem enn eru óljós eða eigi hafa verið skýrð á fullnægjandi hátt, og leggur ráðuneytið áherzlu á, að þeirri rannsókn sé hraðað svo sem verða má.“ Hver er svo niðurstaða yfirskoðunarmanna eftir þetta svar ráðuneytisins? Afstaða yfirskoðunarmanna er ekki sú að vísa málinu til aðgerða Alþingis og ætlast þar með til, að Alþingi geri sérstaka ályktun um málið. Það hefur oft komið fyrir áður, og ég ætla, að flest, ef ekki öll ár fram að 1960 hafa yfirskoðunarmenn vísað einhverjum athugasemdum sínum eða einhverjum málsatriðum til aðgerða Alþingis. Í sambandi við þennan reikning er ekki einu einasta atriði vísað til aðgerða Alþingis, ekki þessu heldur. Yfirskoðunarmenn telja því svarið í rauninni fullnægjandi, enda er það alveg í samræmi við þeirra eigin óskir um, að rannsókn sé haldið áfram og hraðað, eftir því sem föng eru á.

Varðandi þetta Brimnesmál sjálft, þá hef ég í þinginu fyrir að ég ætla mánuði í sambandi við tillögu, sem liggur fyrir í Nd. um málið, skýrt frá því, að þegar útgerð Axels Kristjánssonar á Brimnesi lauk, var af hálfu ráðuneytisins þegar í stað gerð gangskör að því að krefjast reikningsskila. Þegar reikningsskil bárust ráðuneytinu, var skipuð skilanefnd til athugunar á þeim og til þess að hafa umsjón með endurskoðun reikninganna. Endurskoðunina framkvæmdu tveir starfsmenn ríkisendurskoðunarinnar á vegum skilanefndarinnar. Eftir að endurskoðun var lokið og skitanefnd hafði afhent athugasemdir sínar, taldi fjmrn. rétt að fá umsögn ríkisendurskoðanda um málið, og er málið nú til lokaathugunar í ráðuneytinu.

Í sambandi við meðferð ríkisreikningsins 3 fjhn. var óskað eftir því að fá upplýsingar og gögn um málið hjá ríkisendurskoðanda. Ég taldi það, þegar sú málaleitun kom, alveg sjálfsagt, og ríkisendurskoðandi, sem hv. frsm. 1. minni hl., Karl Kristjánsson, sneri sér til, veitti honum aðgang að öllum þeim upplýsingum og gögnum, sem þessi hv. þm. óskaði eftir. Og ég spurði ríkisendurskoðanda í dag til frekara öryggis um það, og hann endurtók, að hann hefði fengið allar þær upplýsingar og gögn um málið, sem hann hefði óskað eftir, og hefur hann því ekki yfir neinu að kvarta í þeim efnum. Það, sem þessi hv. þm. og frsm. hins minni hl. belgja sig svo hér upp út af, er það, að eitt tiltekið bréf, sem þeir segjast hafa frétt að ríkisendurskoðandi hafi sent ráðh., hafi þeir ekki fengið til yfirlesturs og birtingar. Það, sem hér er um að ræða, er það, að ríkisendurskoðandi ritaði mér fyrir nokkru trúnaðarbréf, tók það sjálfur fram, að þetta væri trúnaðarmál, og skrifaði Það eigin hendi á þetta bréf. í þessu bréfi eru út af fyrir sig engar nýjar upplýsingar um málið, sem ekki liggja fyrir áður. Það, sem þetta bréf fjallar um, er í rauninni athugun á því, hvernig eigi að snúast við þessu máli, þ.e.a.s. hvernig málsmeðferð og afgreiðsta þess eigi að vera. Nú er það í fyrsta lagi, að ég fullyrði, að auar þær upplýsingar, sem liggja fyrir í þessu máli, hafa verið afhentar þessum hv. þm., Karli Kristjánssyni, sem hann bað um, og það hefur engu verið leynt. Hitt er svo annað mál og sýnir hugsunarhátt og skilning þessa hv. þm. á meðferð opinberra mála, að hann viðhefur hin hörðustu orð um mig fyrir það, að ég skuli ekki rjúfa trúnaðarheit og afhenda honum til birtingar opinberlega skjal, sem einn embættismaður ríkisins hefur afhent mér sem trúnaðarmál. Varðandi meðferð slíkra mála almennt, þá hlýtur það öllum mönnum að vera ljóst, að þegar einstakir embættismenn eða starfsmenn í ráðuneyti hafa mál til meðferðar og láta viðkomandi ráðh. fá álitsgerðir eða hugleiðingar um mál, sem þeir óska eftir á því stigi að séu trúnaðarmál, ef þá ætti að verða við ósk einhvers og einhvers þm., hvenær sem er, og birta þetta opinberlega, hvar stæðu menn þá? Ég er svo undrandi yfir því, að þessi hv. Þm., frsm. 1. minni hl., skuli halda þessu fram, vegna þess að hann veit Það og ég var búinn að skýra honum frá því áður, að þetta bréf, sem hann er alltaf að heimta fram lagt, var trúnaðarmál og tekið fram munnlega og bréflega af hálfu ríkisendurskoðanda. Mér var því hvorki heimilt né skylt að afhenda þetta bréf til birtingar. Og það, sem fyrir þessum hv. Þm. vakti, var auðvitað ekkert annað en fá þetta til þess að lesa hér upp í þinginu og þar með gera það að blaðamáli. Ég tel, að þá hefði ég verið ámælisverður, hefði ég rofið þennan trúnað, og brugðizt þar með skyldum mínum að mínu áliti.

Þeir hv. frsm. minni hl. hafa slegið því hér föstu, að ríkisendurskoðandi hafi lokið rannsókn málsins, upplýst öll atriði, sem voru óupplýst, og skilað mér endanlegri grg. um málið. Þetta er allt saman eintómur misskilningur. Ríkisendurskoðandi hefur alls ekki skilað neinni endanlegri grg. um þetta mál. Hann hefur skilað mér Þeirri álitsgerð sem trúnaðarmáli, sem ég gat um. Og það eru viss atriði í þessu máli, sem enn eru óupplýst.

Hv. frsm. 1. minni hl. hefur látið blað sitt, Tímann, birta viðtal við sig í dag, þar sem því er slegið upp á forsíðu með myndarlegri fyrirsögn, að þingnefnd fái ekki að sjá reikninga Brimness. Mér er spurn: Hvernig dettur þessum hv. þm. í hug að bera á borð svona staðlausa stafi? í þeim gögnum, sem þessi hv. þm. hefur fengið, er m.a. uppgjör um rekstur Brimness, sem skilanefndin lét gera. Það má vel vera, að þessi hv. þm. hafi ekki samið sjálfa fyrirsögnina í blaðinu, en allt er þetta byggt á viðtali við hann. Sem sagt, ég endurtek, að þessi hv. þm. og minni hl. n. hefur fengið þau gögn, sem um var beðið. Það hefur engu verið haldið leyndu fyrir þeim. Þeir hafa fengið allar þær upplýsingar, sem fyrir liggja í málinu, að öðru leyti en Því, að þetta bréf, þessi álitsgerð ríkisendurskoðanda, sem er fyrst og fremst til athugunar á því, hvernig málsmeðferð og afgreiðslu eigi að hátta, og var algert trúnaðarmál til mín, út af þessu gera þeir þetta líka litla númer í nál., þingræðum og blaðaskrifum.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vil aðeins segja það að lokum, að hv. frsm. 1. minni hl. kallaði þetta ofbeldi. Hann sagðist ætla, að það sé fordæmalaust, að ráðh. skuli hafa synjað um slíkt. Ég vil segja, að ef ég væri ámælisverður fyrir eitthvað, þá hefði það verið það að birta eða gera ráðstafanir til birtingar opinberlega á bréfi, sem einn af embættismönnum ríkisins hefur afhent mér sem trúnaðarmál.