04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. fjhn., gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég hef því skilað sérstöku nál. á þskj. 148. Ég tel, að það sé full ástæða til þess að nema staðar, eins og nú er komið, í sambandi við framlengingu á öllum þeim tolla- og skattaákvæðum, sem í gildi hafa verið, eftir að skattheimta ríkisins hefur raunverulega aukizt jafnmikið og raun er á, því að við tvær gengisbreytingar, sem nú hafa átt sér stað á stuttum tíma, hefur skattheimta ríkissjóðs einmitt í gegnum gildandi tollaákvæði og söluskattsákvæði raunverulega stóraukizt. En auk þess er svo að finna í þessu frv., í 5. gr. þess, ákvæðin um viðbótarsöluskattinn af innfluttum vörum, sem ákveðinn var árið 1960 og er 8% söluskattur af öllum innfluttum vörum. Sá skattur var lagður á á sínum tíma sem bráðabirgðaskattur, og það var fyllilega gefið í skyn, að þessi skattur ætti ekki að standa nema mjög takmarkaðan tíma. Ég og við Alþýðubandalagsmenn vorum á móti þessum skatti, þegar hann var á lagður, og við getum enn þá síður verið með honum, eins og málin eru nú komin, og við erum því algerlega á móti 5. gr. þessa frv.

Ég skal ekki fara í sambandi við afgreiðslu þessa máls út í skattheimtuna almennt, þó að nokkur ástæða væri til þess að rifja upp, hvernig komið er með skattheimtu ríkissjóðs. En ég tel, að hún hafi aukizt svo stórkostlega nú síðustu árin, að það sé full ástæða til þess að nema hér staðar og endurskoða ýmis þau ákvæði, sem er að finna í þessu frv., og sérstaklega að nema staðar að því leyti til að framlengja ekki aftur innflutningssöluskattinn, sem um ræðir í 5. gr. frv. Ég mun því verða með till. um að fella niður 5. gr. frv., en get auk þess ekki fylgt frv. óbreyttu þrátt fyrir það, því að ég tel, að þessi skattheimta, eins og nú er komið, eigi ekki rétt á sér, og lýsi því yfir andstöðu minni og míns flokks við frv. sem heild.